Færsluflokkur: Bloggar

Bloggið búið

Allt hefur sinn tíma. Miðað við hvað maður bloggar orðið sjaldan sjálfur og er orðinn latur að lesa bloggsíður annarra þá er sá tími kominn hjá blogginu. Blogg er búið. Bloggið hefur einkenni alls þess versta sem netið býður uppá, offramboð, aftökur án dóms og laga og kaos.

Það er því tímabært að taka sér blogghlé árið 2009, ja nema eitthvað sérstakt komi uppá og bloggið verði málið. 


Milt haust

Ég fór snemma af stað í vinnuna í morgun, fáir á ferli og góðlátleg rigning sem lék um bera fótleggina. Vindur hefur verið af blessunarlega skornum skammti í sumar a.m.k. í mínum hjólaferðum til og frá vinnu. Síðasti föstudagur undantekning þegar maður fann virkilega meðvind á leið til vinnu. Sviptivindar á brúnni yfir Miklubraut og síðan aftur yfir Kringlumýrarbraut. Heimleiðin var erfiðari, var 10 mín lengur en venjulega.

Á leið minni í gær og í morgun var mér hugsað til þess sem Kári Harðarson bloggaði um ekki alls fyrir löngu um manninn sem mátti skyndilega ekki hjóla á Reykjanesbrautinni. Hjólreiðamenn eru ekki mikils metnir í umferð hér á landi, einkanlega í því er lýtur að hönnun hjólreiðastíga eða vega og síðan þegar e.k. framkvæmdir eiga sér stað við hjólreiðastíg eða veg. Þá er helst ekki gert ráð fyrir að hjólandi eigi þess kost að komast um. Oft á tíðum hverfa heilu gangstéttirnar, sem eru eini valkosturinn á löngum köflum til að hjóla á, 90° beygjur sem ekki er nokkur leið að ná með góðu móti og erfitt getur verið að hjóla upp á kantsteina.

En, ég er ekki frá því að hjólreiðafólki hafi fjölgað talsvert í sumar. Þrýstihópurinn gæti því hafa stækkað og þar með fjöldi kjósenda. Gætið að því!


Skógrækt og skógrækt

Blessað skóglausa landið okkar á eftir að breytast mikið á næstu áratugum. Skógar eru að spretta upp víðsvegar, blettir hingað og þangað, háð ræktunaráhuga einstakra landeigenda. Skógrækt sem þessi mun hafa talsverð áhrif á landslag, hvort það telst gott eða slæmt er smekksatriði. Skógrækt hefur líka áhrif á lífríki. Fuglum fjölgar, nýjar tegundir, gróður breytist.

Það á vafalítið eftir að koma í ljós að víða um land eru skógræktarreitir og spildur sem mynda eyjar í landinu, oft ferkantaðar eyjar sígrænna tegunda eins og grenis og lerkis. Slíkar eyjar eru á undanhaldi víða um heim t.d. í Skotlandi, þar sem aukin áhersla er á að skipuleggja og fella skóga í takt við landslagið. Slík vinna er mjög skammt á veg komin hér á landi en mun þó vera í þróun.

Landeigendur leggja til land í ríkisstyrkta skógrækt. Landið er síðan bundið í þeirri nýtingu næstu áratugina og má ekki nota til annars. Þetta getur í senn rýrt og aukið verðmæti lands. Til lengri tíma eykur það væntanlega verðmætið en til skamms tíma getur þetta hamlað verðmætaaukiningu. Hvort eðilegt er að ríkið styrki skógrækt um 97% má vafalítið deila um og þykir mörgum styrkhlutfallið hátt. Aðrir segja mótframlag landeigandans ærið og því ekki of í lagt.

Pólitískar ákvarðanir stýra skógrækt og hingað til hefur hún verið velviljuð skógræktarverkefnum. Það á örugglega eftir að breytast og því er mikilvægt fyrir þá sem stýra þessu starfi að halda vel utanum það ef þeim er annt um framtíð skógræktarstarfs. Ef í ljós kemur að skógar hér á landi eru illa hannaðir, eftirliti með framkvæmd er ábótavant eða að um veruleg neikvæð áhrif á umhverfi verði að ræða gæti verið fljótt að stöðvast fjármagnsflæðið. Á hinn bóginn á það að vera markmið þeirrar atvinnugreinar sem kennir sig við timbur og trjáafurðir að verða sjálfbær, eins og annarra landbúnaðargreina. Þær mega ekki snúast um að viðhalda sjálfum sér.

Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að þeim fjármunum sem veitt er í skógrækt og annan landbúnað eigi að koma í einn pott. Bændur eigi síðan aðgang að því fjármagni til hinna ýmsu verka, sem hafi margþætt markmið í þágu þjóðarinnar. Múlbundnir bændur hér á landi eiga fyrst og fremst möguleika á ríkisstuðningi framleiði þeir mjólk eða kindakjöt. Það er óásættanlegt.


mbl.is Á sjötta milljarð króna til um 800 bænda í skógrækt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haust í nánd

Ég fann það í morgun að það er að styttast í haustið. Loftið var haustkalt og napurt niður Skógarselsbrekkuna. Það verður að komast í berjamó fyrir frost. En frost getur svosem komið hvenær sem er.

Kanínurnar í Elliðaárdalnum eru talsvert fleiri núna en í vor. Spurning hvað gerist í vetur. En þarna eru þær á hörkubeit.

Svo er ýmis trjáviður orðinn ansi mikið umfangsmeiri núna en í vor. Alaskavíðir slútir yfir hjólastíginn í Ljósheimunum, við gömlu blokkina mína þar sem ég ólst upp til 4ra ára aldurs. Víða á kröppum hornum skerða runnar og tré útsýni svo öryggi er stefnt í voða. Og borgin leyfir runnum að vaxa inn á hálfan hjólastíginn þar sem hjólað er frá Glæsibæ niður í Laugardal. Mætti skoða þetta betur. Það þyrfti í rauninni að finna svarta bletti á hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem beygjur eru of krappar, gróður skerðir útsýni, hætta á árekstrum við gangandi vegfarendur o.s.frv.

En ég ætla mér að hjóla eins lengi og haustið býður mér, og jafnvel að kaupa mér nagladekk. 


Um hvað snúast almenningssamgöngur?

Mér fannst afar fyndið að stjórnendur Strætó leiddu hugann að því að fækka ferðum til að spara í rekstri. Besta sparnaðarleiðin fyrir Strætó væri að keyra bara alls ekki neitt. Nú fer í hönd sá tími sem fólki á ferð á höfuðborgarsvæðinu fjölgar svo um munar, allar götur stíflast af einkabílum, ein manneskja í hverjum. Tímasóun, mengun, stress, slys o.s.frv. veldur miklum kostnaði fyrir samfélagið. Almenningssamgöngur eru ein leiðin til að minnka þann kostnað. Það sem hins vegar vefst enn fyrir flestum sem þurfa að ferðast á milli staða á höfuðborgarsvæðinu er annars vegar að þeir eru miklu mun lengur að ferðast milli A og B í strætó eins og staðan er nú og hins vegar að vagnar ganga oft ekki nema á hálftíma fresti og það að missa af strætó er orðið háalvarlegt mál vegna allra skuldbindinga viðkomandi.

Forgangsatriði Strætó og þ.a.l. sveitarfélaganna er að greiða leið strætisvagna, stundum á kostnað einkabíla en einnig með forgangsreinum sem geta verið hrein viðbót við núverandi gatnakerfi. Það getur verið erfið og sársaukafull fæðing þar sem oft lengjast raðir einkabílanna. Hún er hins vegar nauðsynleg til að breyta hugarfari, breyta lífsstíl. Við þetta fjölgar farþegum og þá má auka tíðni ferða. 

Strætó á að setja sér markmið varðandi ferðatíma. Að flestir komist til og frá vinnu á innan við 30% lengri tíma en þeir gera í dag. Ég er t.d. 50% lengur með strætó í vinnuna en á einkabíl, fljótari að hjóla. 


mbl.is Aukin fjárframlög í stað niðurskurðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

LP með rispum

Ég náði loksins að tengja plötuspilarann minn um daginn eftir að hann hafði legið í geymslu í fjölda ára. Yndislegur analog hljómurinn fyllti stofuna. En ég get ekki neitað því að gott væri að koma þessum LP gullkornum sem maður yfir á stafrænt form. Nú er hins vegar stefnan sett á að koma upp virðingarsess fyrir vínylplöturnar, í skáp í stofunni. Sjáum til hvernig það gengur.
mbl.is Sony kynnir plötuspilara sem má tengja beint við tölvu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífræn ræktun og fæðuöryggi

Þetta er svolítið skemmtileg klemma. Af því að áburðarverð hækkar þá gæti verið möguleiki á að auka stuðning við búskap þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður til fæðuframleiðslu. En að sama skapi, sé komið til móts við búskap þar sem notaður er tilbúinn áburður þá er jafnframt unnið gegn lífrænum búskap. Hmm...

Nokkrir þrautseigir bændur á Íslandi hafa komist áfram í lífrænni ræktun. Hjá þeim er ótrúlega verðmætur reynslu- og þekkingarbrunnur um aðferðir við ræktun, fóðuröflun og umhirðu. M.a.s. markaðssetningu, því þeir hafa þurft að vinna málið alla leið. Forystumenn íslensks landbúnaðar hafa alltaf verið mjög hræddir við þessa lífrænu stefnu og talið hana vinna gegn hinu heilbrigða framleiðnihugtaki í landbúnaði. Að lífrænn landbúnaður gæti aldrei orðið "mainstream". Sem er kannski rétt. Ef það er hins vegar rétt að lífræn ræktun sé vel möguleg hér á landi þá ættu forystumenn í landbúnaði að hunskast til að rækta þann mannauð og þá þekkingu sem býr í þeim sem hafa þraukað í gegnum síðustu áratugi með lífræna ræktun sem lifibrauð.

En af því að sífellt er klifað á fæðuöryggi varðandi núverandi landbúnaðarstefnu þá skal haft í huga að núverandi fæðuöryggi byggir á innfluttum áburði og innfluttu korni.

Ég hef verslað lífrænt ræktaðar vörur hér á landi um nokkurt skeið, einkum í gegnum græna hlekkinn. Þar má versla íslenskt grænmeti, ávexti sem sumir eru fluttir langar leiðir aðrir skemmri, íslenskt og erlent kornmeti og margt fleira. Dýrt að sjálfsögðu en góð matvara er dýrmæt.


mbl.is Lífræn ræktun skynsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Plastpokar

Í hádegishittingi félags umhverfisfræðinga nú í dag barst talið að umbúðum og þeim valkostum sem neytendum er boðið uppá í því sambandi. T.d. þykja umbúðir untanum kjötvöru oft býsna fyrirferðarmiklar og lítt umhverfisvænar. Örlítil hakksletta í u.þ.b. hálfs fermetra plastbakka.

Til fróðleiks er það látið fylgja með hér að skv. frétt í NY Times þá ætlar Whole Foods keðjan að banna plastpoka í sínum búðum. Þetta finnst mér nokkuð flott enda nota ég hvert tækifæri til að fara með margnota Bónuspokana mína í Nettó til að versla. Pappírspokum er ég lítið hrifinn af, einkum í ljósi þess að rigning hér á landi lemur þá svoleiðis í sundur að innihaldið er löngu hrunið í götuna áður en ég kemst í húsaskjól. Svo er ekki laust við að pappírspokar kosta talsverða orku í framleiðslu. Margnota pokar eru tvímælalaust æskilegasta lausnin í þessu máli en Whole Foods ætla auk margnota poka að bjóða upp á endurunna pappírspoka. Erfiðast er að muna eftir að taka margnota poka með og hafa við hendina við þau fjölmörgu tækifæri sem innkaup fara fram.


Almennt um tíma

Í síðustu viku bar það helst til tíðinda að ég vann lengri vinnudag en ég hef gert um nokkuð skeið. Ég var því nokkuð spenntur að vita hvaða tilfinningar það vekti hjá mér. Þær tilfinningar sem vöknuðu voru einkum tvennskonar. Í fyrsta lagi var spennu/adrenalín tilfinning yfir að djöflast í verkefninu sem ég var að vinna, klára, laga, bæta og skila. Í öðru lagi var það sú óþægilega tilfinning að hitta ekki börnin mín nema u.þ.b. hálfa klst. á dag. Sú síðari var sínu verri. Þegar horft er til baka er ég mjög sáttur við þessa útkomu. Ég hefði haft miklar áhyggjur ef söknuður hefði ekki plagað mig að neinu marki.

Annars byrjuðum við hjónakornin í dansi í síðustu viku. Mjaðmavöðvarnir eru ansi hreint stirðir.


Hvít jól og vonin

Reykjavík og nágrenni er nú heldur huggulegra þegar jörð er hvít á þessum tíma árs en í suðaustan rigningu og roki. Enda var jóladagur sérdeilis huggulegur með hæfilegri snjókomu og kófi. Birtutíminn lengist og kyrrðin verður marktækari en í rokinu og rigningunni þó hæpið sé að tala um kyrrð á þessu svæði.

Annars fór fjölskyldan í köntrýmessu í gær í Salaskóla. Hressilegar útsetningar á jólasálmum og afslappað andrúmsloft gerði athöfnina ánægjulega. Dæturnar virtust þó ekki fíla þennan búning sálmanna neitt sérstaklega og óskuðu brottfarar nokkru fyrir messulok.

En það er þessi tilfinning árstímans þegar dag tekur að lengja sem er sennilega eitthvert merkilegasta og áhrifamesta fyrirbrigði mannkynssögunnar. Átrúnaður á sólina er sennilega fyrsti átrúnaður mannsins. Hvenær manninum síðan skildist að á þessum tíma tók dag að lengja veit ég ekki en þar liggur vonin. Vonin eftir hækkandi sól, betri tíð, meiri mat, náttúran lifnar á ný og meiri möguleikar. Ég veit að ég lít bara nokkuð björtum augum fram á næsta ár.


Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 24133

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband