Færsluflokkur: Matur og drykkur

Brúðkaupsafmæli

Við hjónin eigum átta ára brúðkaupsafmæli í dag. Ég var með þetta allt á hreinu, mundi eftir þessu af miklu öryggi. Við borðuðum í Turninum á 19. hæð. Það var ágætist útsýni, reyndar bara svipað og heima hjá okkur. Gluggarnir dálítið skítugir. Þjónustan var að mestu ágæt og maturinn góður. Ég hef dálítið velt því fyrir mér af hverju maður getur farið á hádegisverðarhlaðborð og borgað innan við 3000 kall fyrir og svo fer maður út að borða að kvöldi, fær slappa þjónustu, og lala mat og þarf að borga minnst 5000 kall fyrir.

En allavega ef einhver vill fara á hádegishlaðborð með útsýni þá er 19. hæðin ágætur kostur.

Og til hamingju við. 


Lífræn ræktun og fæðuöryggi

Þetta er svolítið skemmtileg klemma. Af því að áburðarverð hækkar þá gæti verið möguleiki á að auka stuðning við búskap þar sem ekki er notaður tilbúinn áburður til fæðuframleiðslu. En að sama skapi, sé komið til móts við búskap þar sem notaður er tilbúinn áburður þá er jafnframt unnið gegn lífrænum búskap. Hmm...

Nokkrir þrautseigir bændur á Íslandi hafa komist áfram í lífrænni ræktun. Hjá þeim er ótrúlega verðmætur reynslu- og þekkingarbrunnur um aðferðir við ræktun, fóðuröflun og umhirðu. M.a.s. markaðssetningu, því þeir hafa þurft að vinna málið alla leið. Forystumenn íslensks landbúnaðar hafa alltaf verið mjög hræddir við þessa lífrænu stefnu og talið hana vinna gegn hinu heilbrigða framleiðnihugtaki í landbúnaði. Að lífrænn landbúnaður gæti aldrei orðið "mainstream". Sem er kannski rétt. Ef það er hins vegar rétt að lífræn ræktun sé vel möguleg hér á landi þá ættu forystumenn í landbúnaði að hunskast til að rækta þann mannauð og þá þekkingu sem býr í þeim sem hafa þraukað í gegnum síðustu áratugi með lífræna ræktun sem lifibrauð.

En af því að sífellt er klifað á fæðuöryggi varðandi núverandi landbúnaðarstefnu þá skal haft í huga að núverandi fæðuöryggi byggir á innfluttum áburði og innfluttu korni.

Ég hef verslað lífrænt ræktaðar vörur hér á landi um nokkurt skeið, einkum í gegnum græna hlekkinn. Þar má versla íslenskt grænmeti, ávexti sem sumir eru fluttir langar leiðir aðrir skemmri, íslenskt og erlent kornmeti og margt fleira. Dýrt að sjálfsögðu en góð matvara er dýrmæt.


mbl.is Lífræn ræktun skynsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilsugæsla á Alþingi og smá diet

Ég verð að segja það eins og er að mér finnst undarlegt að þingmenn finni sig knúna til að flytja tillögu til þingsályktunar um að ráðherra hefji undirbúning að setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum sbr. þetta. Það er löngu ljóst að magn þessara skaðlegu fitusýra í mörgum tegundum matvæla hér á landi, innfluttum sem innlendum, er mjög hátt og þjóð sem glímir við háan kostnað vegna heilbrigðiskerfis á að nota þau tækifæri sem gefast til að taka á svona einföldum atriðum. Af hverju í ósköpunum þarf Alþingi Íslendinga að eyða tíma í svona lagað þegar þetta er bara spurning um einfalda ákvörðun í viðkomandi ráðuneyti. Aðrar þjóðir hafa lagt í alla þá rannsóknavinnu sem þarf að inna af hendi og hana er sennilega hægt að taka nánast óbreytta upp hér á landi. Þetta er mál sem m.a.s. ég hef bloggað um hvað lengst. Gott og vel, það er ágætt að vekja athygli á málinu en hvar er þá t.d. Lýðheilsustöð ef við viljum miðstýrða umræðu?

Svo get ég ekki látið hjá líða að setja inn tengil á þessa mjög svo ógeðfelldu umfjöllun um sætuefnið aspartam, sem ku vera æði algengt í s.k. diet gosdrykkjum og fleiri meinhollum fæðutegundum. Þarna er um að ræða ómannúðlega tilraun á rottum sem fengu mismikið af sætuefni til neyslu. Niðurstöðurnar eru ekki uppörvandi og er ástæða til að velta fyrir sér hvort við mannfólk erum ekki álíka tilraunadýr mjög svo metnaðarfullra fyrirtækja sem markaðssetja "hollustuvörur" af ýmsu tagi.


Þörf ábending

Það er gott þegar einhver gefur sér  tíma til að reikna. Það er sjálfsagt auðvelt að bera brigður á þessar niðurstöður en það er hins vegar staðreynd og þörf á að vekja athygli á því að þær aðferðir sem notaðar eru við fæðuframleiðslu í heiminum eru orsök mjög stórs hluta af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta á einkum við fæðu sem kemur úr þauleldi eins og kjöt af ýmsum toga. Þess vegna kemur maður að því enn og aftur að neysla á fæðu sem er neðar í fæðukeðjunni s.s. grænmeti og ávöxtum orsakar minni losun. Eftir því sem hlutfall þessarar fæðu eykst á kostnað þessara þauleldiskjöttegunda þá minnkar losun. Hins vegar má ekki setja samasemmerki á milli allra kjöttegunda. Dýrategundir sem ganga úti og éta gras mestan hluta ársins eru sennilega umhverfisvænstar, svo fremi þær valdi ekki ofbeit og þannig losun. Þær nýta sér gróður sem maðurinn getur ekki nýtt sér og oft er um að ræða búskaparhætti sem valda ekki miklu álagi á umhverfið. Búskapur sem byggir á því að ala gripi á kornmeti, sem maðurinn gæti nýtt sér beint, kemur yfirleitt lakar út í þessum samanburði. Eitt hef ég þó lært á minni stuttu ævi og það er að alhæfingar eiga afar sjaldan við. Þær geta hins vegar verið ágætar til að vekja athygli á tilteknum málum.

Annar þáttur tengdur fæðu sem ræður miklu um losun gróðurhúsalofttegunda er flutningur fæðunnar frá brunni að grunni, frá uppruna til neytanda. Það eru ein mjög góð og gild rök fyrir upprunamerkingum fæðu. T.d. er almennt umhverfisvænna fyrir fólk búsett á Íslandi að neyta fæðu sem framleidd er á Íslandi, kannski ekki algilt en á við í flestum tilvikum. Semsagt, nær-ætur (locavores) sameinumst!


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Help us help the planet

Hér er eitt gott dæmi um grænþvott. Hinn seki er Starbucks, skyndikaffisframleiðandinn. Starbucks setti slagorðið "help us help the planet" á pappírsbollana þar sem efnið í bollunum er að tíunda hluta úr endurunnu efni. Nú hefur hins vegar komið í ljós að pappírsbollar Starbucks eru víðast hvar óendurvinnanlegir vegna plastsins í bollunum, sem er til að þeir leki ekki. Starbucks selur um 2,3 milljarða bolla á ári.

Fæðu- og umhverfisblogg

Nú hefur bloggið hjá mér verið í dái í nánast allt sumar. Á þessum tíma hafa dunið á mér af póstlistum allskyns fréttir úr fæðu-, umhverfis- og heilbrigðisgeiranum, sem ég hef ekki haft döngun í mér til að koma á framfæri í þessari þröngmiðlun, sem bloggið er.

Hér er t.d. ein grein um fúkkalyf í grænmeti þar sem staðfest er að fúkkalyf sem gefin eru búpeningi berast með búfjáráburði á akra og þaðan í grænmetið sem þar er ræktað. Þetta á t.d. við um kál og kartöflur. Áhrifin á heilsu manna eru að mestu óþekkt en ofnæmisviðbrögð og ónæmi baktería eru meðal þess sem líklegt er að komi á daginn.

Svo er það blessað teflonið, sem er svo gott á pönnunni en vont í skrokkinn. Meira að segja EPA í Bandaríkjunum (Umhverfisstofnun) hefur mælst til þess að hætt verði að nota Perfluorooctanoic sýru (PFOA), sem er í teflonhúð, vegna líklegra krabbameinsvaldandi áhrifa efnisins. Auk þess er það ofnæmisvaldandi.

Svo eru það flutningurinn á matvælum. Ef við viljum horfa til allra þátta í umhverfinu, þá er ekki sjálfgefið að best sé að kaupa lífrænt ræktuð matvæli frekar en hefðbundin. Þetta á ekki síst við t.d. ávexti sem fluttir eru yfir hálfan hnöttinn, kiwi frá Nýja Sjálandi eða mangó frá Equador, með tilheyrandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta snýst um hinar s.k. matarmílur (food miles). Hvet alla sem velta þessu eitthvað fyrir sér að leita uppruna þeirrar vöru sem þeir hyggjast kaupa og velja þá frekar þá sem framleidd er nær okkur í rúmi, og reyndar helst í tíma.


Of margar flugmílur á matinn - engin vottun

Nú er í umræðunni í Bretlandi að hætta að votta lífrænar vörur sem fluttar eru langar leiðir til Bretlands í flugi. En er ekki lífrænt bara lífrænt? Auðvitað, en lífið er bara ekki svo einfalt. Ef þú ert umhverfislega meðvitaður einstaklingur þá hlýturðu að leitast við að smækka vistsporið þitt (ecological footstep). Og flug með matvæli orsakar mikla losun á koldíoxíði, eins og annað flug. En þetta er heldur ekki svona einfalt, því oft eru þetta matvæli framleidd af fátækum bændum í Afríku og Suður Ameríku, t.d. baunir frá Kenýa eða bananar frá Equador. Og hver vill ekki styðja við bakið á þeim? Auðvitað spilar þarna inní tæknileg viðskiptahindrun en sífellt meira hugvits er krafist við að finna upp á slíku til að styðja við innlendan iðnað eða landbúnað.

Ég sé fram á að þurfa að setja saman ensk-íslenska umhverfisorðabók: 

ecological footstep - vistspor

food miles - matarmílur

locavores - nærætur 


Kjötið eða bílinn!

Þessi umhverfisfrétt er of góð til að sleppa því að blogga:

"The livestock sector emerges as one of the top two or three most significant contributors to the most serious environmental problems, at every scale from local to global." It turns out that raising animals for food is a primary cause of land degradation, air pollution, water shortage, water pollution, loss of biodiversity, and not least of all, global warming.

Þar hafið þið það. Kjötframleiðsla í landbúnaði er einn af megin umhverfisskaðvöldum heimsins. Ótrúlegt? Bull? Hvað með að það hefur meiri áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að minnka kjötneyslu og neyta nærfæðu en að fá sér mjög umhverfisvænan bíl.

Producing a calorie of meat protein means burning more than ten times as much fossil fuels--and spewing more than ten times as much heat-trapping carbon dioxide--as does a calorie of plant protein. The researchers found that, when it's all added up, the average American does more to reduce global warming emissions by going vegetarian than by switching to a Prius.

Hefur nokkur minnst á þetta áður? Ekki svo að skilja að ég sé grænmetisæta eða tali fyrir slíku. Það er hins vegar ótrúlega lítil umræða um þetta í samhengi við innflutning á landbúnaðarafurðum til Íslands. Þær eru fluttar um langan veg og þetta hlýtur að vega þungt í málflutningi fyrir innlendum landbúnaði, séu umhverfisverndarsinnar samkvæmir sjálfum sér. Eða snýst umhverfisvernd bara um virkjanir?

En þetta er alla vega fróðleikur sem gott er að velta fyrir sér þegar maður stingur gafflinum í nautasteikina frá Argentínu, sem gæti staðið fyrir 10 sinnum fleiri kaloríur af plöntupróteini, og sem hefur orsaka 10 sinnum meiri losun af gróðurhúsalofttegundum.


Alveg að koma!

Ég hef ekki haft orku til að blogga eftir lambalærið í gær, fyrr en núna. Svakalega gott, úr Miðfirðinum, með eggaldin og rauðlauk í tómatsósu.

Nú er bara verið að greiða niður ferðina heim með því að versla ofsalega hagstætt hérna úti, jafnvel þótt gengið sé sjitt. Býst við að við náum að fljúga ókeypis heim fyrst það er svona mikil verðbólga heima. 

Ég komst að því um helgina að ég hef lést um a.m.k. fimm kíló hérna úti á árinu, og var þó mjór fyrir. Þetta gerist þegar maður hættir að éta tvær heitar máltíðir á dag og byrjar að hreyfa á sér rassgatið. Það mun því kosta nokkra endurhæfingu að koma heim, vafalítið munu fylgja því meltingartruflanir, ekki síst um jólin þegar ólifnaðurinn er í hámarki. En aðlögunarhæfni okkar manna eru lítil takmörk sett og ég því fullur tilhlökkunar að úða í mig hangikjöti, uppstúf, grænum baunum og spældum eggjum a la móðurættin mín. 


Búinn í skólanum

Ég var að leggja lokahönd á verkefnið mitt í verkefnisstjórnun. Ekki mjög flókið en vonandi situr þetta eitthvað eftir í hausnum á mér. Margt sem ég hef lært þarna gæti nú komið sér vel í vinnunni ef það væri sett í praksís. Sjáum til.

Nú er bara verið að plana heimferð, skv. háþróuðum verkefnisstjórnunarferlum að sjálfsögðu. Við vorum að setja saman matseðilinn fyrir það sem eftir er í skápunum. Hakk og spagettí, ofnsteiktir kjúklingabitar, Burritos, lambalæri, núðlur með kjúkling og grænmeti, pizza og eitthvað eitt enn sem ég man ekki. Þá verður frystirinn tómur. Svo er bara að ryksuga öll helv. teppin, þurrka af og þrífa klósettið, þá er orðið hreint. Pakka öllu oní nokkrar töskur, megum taka með 92 kg + handfarangur. Það ætti að duga. Henda svo öllu inní bílaleigubíl og keyra á hótel við Gatwick, vakna svo eldsnemma, búinn að tékka sig inn og vera kominn í Keflavík um hádegi. Svona er nú verkefnisstjórnun.


Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband