Styrkir til landbúnaðar í Wales II

Styrkir til landbúnaðar í Wales II

- skilyrtar greiðslur og land í góðu ástandi -

 

Í síðasta pistli fjallaði ég um markmið hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og að rofin hafa verið tengsl framleiðslu og styrkja. Hér verður stiklað á stóru um þau skilyrði sem bændur þurfa að uppfylla til að eiga rétt á opinberum styrkjum og hvernig eftirliti með kerfinu er háttað.

 

Skilyrtar greiðslur (Cross compliance)

Bændur hér í Wales, sem aðallega stunda ræktun sauðfjár og nautgripa, þurfa að sækja árlega um eingreiðslurnar sem þeir fá úr hinum sameiginlegu sjóðum. Með umsókn skulu fylgja upplýsingar um allt það land sem er nýtt af eða er eign viðkomandi bónda.

 

Bændur þurfa annars vegar að uppfylla 19 Evróputilskipanir og reglugerðarákvæði sem gilda um umhverfismál, velferð dýra og plantna, skyldumerkingar dýra, fæðuöryggi, skráningar o.fl. og er of langt mál að útlista þær nákvæmlega hér. Hins vegar þurfa bændur að viðhafa góða meðferð lands og viðhalda góðu ástandi þess m.t.t. landbúnaðar og umhverfis, GÁLU (sk.st. höfundar) (e: good agricultural and environmental condition). Í því felst m.a. að:

  • vernda jarðveg gegn rofi, viðhalda lífrænum efnum í jarðvegi og viðhalda byggingu jarðvegs,
  • ofbeita ekki eða skemmda land t.d. með útifóðrun og traðki,
  • skemmda ekki eða eyðileggja grjótgarða,
  • klippa skjólbelti eingöngu innan settra tímamarka,
  • viðhalda viðvarandi beitilandi (e: permanent pasture), sem er oft með náttúrulegum gróðri og þarf að vera að lágmarki 5% af landstærð,
  • halda landi eða taka það úr landbúnaðarnotkun (e: setaside) vegna takmarkana á framleiðslu eða vegna verndunarsjónarmiða,
  • viðhalda gæðum lands til landbúnaðarnotkunar svo að það sé hæft til notkunar að ári t.d. með eyðingu illgresis,
  • halda verndarsvæði með vatnsfarvegum og skjólbeltum þar sem ekki má vinna jarðveg, dreifa áburði eða skordýra- og illgresiseyðum,
  • tryggja að ekki sé brotið á umferðarrétti almennings um land,
  • viðhalda heiðalandi með því m.a. að fylgja reglum um sinubruna.

 

Meginmarkmið GÁLU eru að vernda líffræðilega fjölbreytni í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, að tryggja að land sé nýtanlegt til fæðuframleiðslu ef á þarf að halda og að umhverfismálum almennt í tengslum við landbúnað fari ekki aftur. Þessi áhersla á náttúruvernd og verndun menningarminja á að einhverju leyti rætur að rekja til þess að í stjórnsýslunni hér eru málefni landbúnaðar, náttúruverndar, dreifbýlis og skipulags vistuð hjá sama ráðuneytinu. 

 

Eftirlit

Einn af ókostunum við opinbera styrki til landbúnaðar eins og annarra greina er að þeir kosta eftirlit af hálfu stjórnvalda til að koma megi í veg fyrir misnotkun á almannafé og til að fylgjast með því hvort markmiðum styrkjakerfisins sé náð. Listin er að halda styrkjakerfinu einföldu til að lágmarka eftirlit og skriffinnsku en samt að ná markmiðum þess, hver sem þau eru. Hér í Wales, eins og annarsstaðar í Bretlandi, er styrkjakerfið talsvert flókið enda margþætt markmið og eftirlit getur því verið mjög kostnaðarsamt. Til að minnka þann kostnað hefur verið farin sú leið að vinna með úrtak úr hópi allra styrkþega á hverju ári, að lágmarki 1%, sem í Wales þýðir heimsóknir til 200-300 bænda. Allir geta því átt von á heimsókn eftirlitsmanna frá velskum stjórnvöldum og samhliða því að sælkja um eingreiðslur þá heimilar bóndi eftirlit.

 

Refsingar við brotum á reglunum fara að einhverju leyti eftir alvarleika brots. Minniháttar vanræksla af einhverju tagi leiðir oftast til skerðingar á greiðslum, oft 1-5%. Sé hins vegar um að ræða viljabrot, sem hefur varanleg og/eða víðtæk áhrif, þá getur það leitt til 100% skerðingar.

 

Vægi umhverfisverndar hefur aukist umtalsvert í þeim skyldum sem velskum bændum eru lagðar á herðar ætli þeir að njóta opinberra styrkja. Bein tenging styrkja til landbúnaðar við umhverfisvernd og umbætur í umhverfismálum er mjög rökrétt, styrki viðkomandi ríki á annað borð landbúnað og leggi það áherslu á verndun umhverfis. Landbúnaður nær til mjög stórs hluta hvers lands og hefur því mikil áhrif á velferð þess. Auk þess geta verið bein tengsl á milli verndunar umhverfis og þess að tryggja fæðuöryggi til framtíðar, sé rétt á málum haldið.

 

Helstu heimildir:

UK Department for Environment, Food and Rural Affairs: www.defra.gov.uk

Wales Department of Environment, Planning and Countryside: www.countryside.wales.gov.uk


Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband