Færsluflokkur: Vefurinn

Dear Elsa, hættu núna!

Eftir markvissar umræður þriggja eiginmanna jafnmargra hjúkrunarfræðinga þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að kjarabarátta hjúkrunarfræðinga hefur minna en engan árangur borið. Þetta þýðir jafnframt það að forysta hjúkrunarfræðinga hefur brugðist þeim í því að berjarst fyrir því að fagstéttin húkrunarfæðingar fengi þá viðurkenningu sem henni ber. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart að forystunni mistekst að brjótast út úr hinni hefðbundnu skilgreiningu á starfinu. Kennarar eru annað dæmi. Hjúkrunarfræðingar eru stórkostleg stétt sem heldur samfélaginu saman þegar eitthvað bjátar á hjá okkur hinum "almenna Jóni".  Þær, því langflestar eru þær konur, sinna okkur af fagmennsku, greina það sem okkur bagar, hlusta á vælið í okkur, og segja okkur hvenær rétt sé að koma okkur af stað aftur í vinnu. Enginn hefur sinnt því að meta ávinninginn af starfi þessa fólks en þess í stað einbeitt sér að kostnaðinum. Því segjum við það, þrír eiginmenn jafnmargra hjúkrunarfræðinga, skiptið um forystu í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sóknarfærin eru fyrir hendi, lítið á ykkur sem vel menntaða fagmenn og fyllið stétt ykkar stolti. Við, þessir þrír eiginmenn, hvetjum alla sem staddir eru í svipuðum sporum að setja inn athugasemd, því það er okkar mat að nú sé kominn tími fyrir nærstadda að taka höndum saman og knýja á um nýja forystu í félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga svo kjarabaráttan skili einhverjum árangri. Látið í ykkur heyra. 

Fjölmiðlabann

Það er voða lítið um að blogga þessa dagana. En eitt stendur niður úr öllu, stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun. Í raun ætti að bjarga fólki sem fylgist með fjölmiðlum frá þessu dæmalaus bulli sem er kallað stjórnmál á þessum tíma árs með því að setja a.m.k. alþingismenn og verðandi alþingismenn í fjölmiðlabann. Ef þetta lið hefur áhuga á að tjá sig við þjóðina þá skuli það vinsamlegast horfa í augun á viðmælandanum og ljúga þannig upp í opið geðið á kjósandanum en ekki nota fjölmiðlafjarlægðina. 

Stjórnmál hér á Íslandi, og reyndar víða, eru svo lágkúruleg að það nær ekki nokkurri átt. Og fjölmiðlar spila með, yfirborðskennd fréttamennska, alltaf hægt að sjá fyrir umfjöllunina, hægt að spila á hana.

Sem sagt, gefum alþingismönnum frí strax, áður en þeir afgreiða fleiri loddaralög, og leyfum þeim að berjast fyrir atkvæðunum úti í raunverulegum heimi. 


Að blogga heima

Þegar maður er nú kominn heim þá er bloggið bara ekki eins. Hvötin til að blogga virðist síður vera til staðar og kannski er það nálægðin við þá sem lesa bloggið sem veldur ákveðinni tregðu. Á meðan maður er erlendis þá er lítil hætta á að maður rekist á nema fáa einstaklinga sem lesa bloggið en eftir að heim er komið er maður e.t.v. í samskiptum við þá daglega. Það er bara ekki eins. Framtíð bloggsins míns er því óviss. Þessu til viðbótar hefur tími minn til að blogga minnkað um a.m.k. átta tíma á dag. Svo er bara ekki eins mörgu frá að segja hérna norður frá. Það eru allir að tyggja sama bullið hver upp eftir öðrum, evra ekki evra, króna ekki króna. Ingibjörg og Valgerður. Guðni og Hjálmar. bla, bla, bla. Það er fljótlegt að verða þreyttur á þessu blaðri.

Ég sakna 8 out of 10 cats á Channel 4. Jimmy Carr og Sean Lock eru ótrúlega fyndnir. Best að panta spóluna á Amazon.


Góður kalkúnn mar!

Loksins eldaði ég kalkún. Var alltaf hræddur við að prófa kvikindið, búinn að heyra svoddan skelfingarsögur af þurrum og brunnum kalkúnum. En eldaði hann sumsé a la Jamie Oliver, fyllingin fór ofan á bringuna, undir skinnið, ein appelsína inn í rassinn og svo makað ólífuolíu og salti utan á skrokkinn. Álpappír kom í veg fyrir alvarlegan bruna og útkoman snilld, með sætum kartöflum og sósu. Hér eftir verður þetta ganga í garðinum. 

Stúfur, drulla og illa heppnuð gulrótarkaka

Sunnudags hádegismaturinn tókst vel, nautastúfur (stew) í ofni í 3 klst, heimatilbúið hrásalat, spínat í smjöri og hvítlauk og soðnar kartöflur. Sippað á rauðvíni með. Asskoti gott. Stuðst við nýja bók eftir Jamie Oliver, "Cook with". Svo stóð nú til að baka eina gulrótarköku uppúr bókinni en vantaði appelsínu. Því var hlaupið út í búð, í gegnum skóginn, þennan 30 m. breiða og 400 m. langa, en þar var allt blautt og forarsvað. En viti menn. Af því að nú er haust þá er svo mikið af laufum á jörðinni að maður flýtur á drullunni. Fyrir mig jarðvegsverndarmanninn var þetta stórkostleg upplifun. En skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir appelsínuna þá misheppnaðist kakan. Af hverju, alltof mikið smjör í uppskriftinni. Get því ekki mælt með þessari uppskrift að gulrótarköku en, kremið er snilld. Súraldinmascarponerjómaostkrem. Mjög milt, ferskt og fitandi. 

Annars rignir orðið hér alla daga, væri kolófært ef þetta væri snjór.  


Kreditkortasvindl

Nú get ég ekki lengur notað flotta kreditkortið mitt frá Glitni. Einhver snillingur var byrjaður að nota það til að kaupa sér síma og áfyllingu á hann, fara í bíó o.s.frv. Mér fannst þetta ekki góð tilfinning, að vita af fjárhagslegu sjálfstæði mínu í höndum bláókunnugs manns. Sé þó ekki fram á gjaldþrot þar sem um hóflegar og eiginlega heimskulega hóflegar fjárhæðir er að ræða. 

En þetta er áminning, þessi greiðslumáti er ótryggur og þó ég hafi notað þetta kort lítið þá virðist það hafa dugað til að einhversstaðar á leiðinni hafi einhver náð upplýsingum af kortinu. Svo, varúð! 


Tími kóngulónna

Kónguló stór
Það er mikið af kóngulóm hér á Everard Way um þessar mundir, af öllum stærðum og gerðum. Þær eru heimsins mestu verkfræðingar og hafa sýnt það og sannað. Ein var hér í garðinum í morgun, hafði spunnið vef, lárétt um 4 metra haf. Þrír stoðþræðir, einn beint niður, einn í tré og einn í limgerðið. Hún er sennilega úr ættkvíslinni Aranidae. Ég viðurkenni fáfræði mína á því hvernig í ósköpunum þær fara að þessu og væri vel þeginn fróðleikur um það. En í albúminu eru nokkrar myndir. Önnur var framan við útidyrnar, nokkrir fersentimetrar að stærð og hindraði ferð.

Hin fullkomna netverslun

Delivery van

Í dag fór fram hér á Everard Way það sem ég myndi kalla hina fullkomnu netverslun, reyndar að því tilskildu að menn geri ráð fyrir að alltaf verði einhver mistök. Sem sagt, fullkomið, sé gert ráð fyrir að mistök verði. 

Við áttum von á heimsendingu frá Sainsburys, en þangað höfum við fært viðskiptin í auknum mæli. Sé verslað yfir 70 pund þá er heimsending frí. Það sparar 5 pund. Við verslum orðið aðra hverja viku á netinu og því er þetta okkur hagstætt. Annars er óvíst að hin vikulega verslun væri meiri en 70 pund. En allavega, Sainsburys býður upp á afhendingu á klukkutíma tímabilum, t.d. milli kl. 11 og 12. Samkeppnisaðilarnir eru með tveggja klst. tímabil. Í morgun seinkaði bílnum eitthvað svo þeir náðu ekki hingað fyrir kl. 12 og reyndar seinkaði þeim svo að þeir misstu af mér, var farinn út þegar þeir komu. Ég hringdi í þá eftir að ég kom heim og bíllinn birtist hér 15 mín. síðar með allar vörurnar og, rúsínan í pylsuendanum, við fengum afsláttarmiða af næstu netinnkaupum uppá 10 pund. Geri aðrir betur. Tesco og Asda hafa ekki sýnt viðleitni í þessa átt. Það er því ljóst hvert við beinum viðskiptum okkar á næstu vikum. Svo er Sainsburys heldur "grænni" aðili en hinir.


Hinn ótrúlegi vandi netverslunar

Netverslun er stórkostlegt fyrirbæri, sitja við tölvuna og velja vöru af mynd eða eftir lýsingu og síðan bara bíða. Eftirvæntingin og tilhlökkunin er mikil en bíðum við, hvenær kemur sendingin, hún kemst ekki í gegnum póstlúguna, það verður einhver að vera heima. En ég veit ekki hvenær þeir koma. Svo skrepp ég út á leikskóla til að ná í dóttur mína og flýti mér heim og viti menn. Lítill miði á gólfinu sem á stendur, "við komum við en það var enginn heima. Hringdu í þetta númer og við reynum að finna sameiginlegan tíma einhverntíma í nánustu framtíð." Þarna er sannleikurinn um netverslun, a.m.k. hvað mig varðar. Reyndar á þetta ekki við um þróaða netverslun þar sem keyptar eru inn matvörur en þar má bóka afhendingartíma, tveggja klukkustunda bil, og vera þá heima. Flestir aðrir aðilar bjóða ekki upp á þessa þjónustu og ef pantaðir eru stórir hlutir sem ekki komast í gegnum póstlúgu, þá er þetta bara happa glappa! Og síðan er undir hælinn lagt hvenær sendingin kemur næst. 

Á meðan netverslun er ekki meiri en raun ber vitni þá hafa netverslanir ekki getu til að bjóða svona afhendingartíma, nema með mikilli skekkju, 2-4 dagar.  Netverslun gerir nefnilega gríðarlegar kröfur á vörusalann. Hann er að þjónusta tímaknappan og kröfuharðan viðskiptavin, sem vill fá sitt strax, heim en eftirspurnin er afar mismunandi, fjarlægð frá viðskiptavini oft mikil og afhendingarkerfið því ekki fært um að vera eins skilvirkt og viðskiptavinurinn vill. 

En þar sem netverslun á bara eftir að stóraukast þá mun þetta batna mikið á næstunni og svo má alltaf fá sér stærri póstlúgu Glottandi


Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 24151

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband