Færsluflokkur: Ferðalög

Gjaldfrjáls strætó

Nú hef ég hingað til ekki verið talinn til sjálfstæðismanna. Í þetta sinn get ég þó tekið undir með þeim. Málið nefnilega snýst ekki um hvort almenningssamgöngur eru "ókeypis", því ekkert er ókeypis. Málið snýst auðvitað að nokkru leyti um upphæð gjaldtöku en einnig um þjónustu og gæði hennar. Ég er mikill strætómaður og legg mitt af mörkum til að nýta þá þjónustu. Ég keypti mér níu mánaða kort og hugsa því lítið um gjaldið nema að því leyti að ég reyni nú að nýta þjónustu strætó við hvert tækifæri. Það sem nú vantar uppá er að strætó geti boðið upp á skilvirkari þjónustu, tíðari ferðir og meiri hraða. Almenningssamgöngur þurfa að vera jafn- og helst skilvirkari en einkabíllinn. Ég þarf að vera jafnfljótur og helst fljótari með strætó í vinnuna en á einkabílnum. Þá er björninn unninn. Upplifi einkabílistinn að strætó fari frammúr á Kringlumýrarbrautinni, þar sem strætó ætti að vera með forgangsrein, þá gæti hann byrjað að forgangsraða upp á nýtt. 

Ég legg því til að í stað þess að strætó sé gjaldfrjáls þá verði skattpeningar nýttir í að bæta við forgangsreinum á helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fjölga leiðum með tíðari ferðir, hálftíma bið getur orðið til þess að fólk verði úti eða kaupi sér bíl.  


mbl.is Álykta gegn hugmyndum um gjaldfrjálsan strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurr á manninn

Hér ytra er svo þurrt að maður svitnar varla. Svitinn skilur aðeins eftir sig saltútfellingar á fötunum en hverfur jafnharðan. Þannig verða eftir hvítir blettir á fötum í stað rakra svitabletta. Þetta hefur það í förm með sér að maður gerir sér ekki eins grein fyrir vatnsþörfinni, vatnið bara gufar upp án þess maður verði var við það. Annars er ekki hægt að kvarta undan veðrinu, sól og hiti. Sennilega 30-35 gráður og sólin beint ofaní hvirfilinn. 

Dagskránni í dag var aflýst svo síðasti dagurinn hér verður frír. Ágætt en ég hefði svo sem alveg þegið að komast fyrr heim. Sakna konunnar minnar svo mikið.

Annars hefur þetta verið talsvert lærdómsríkt. Stundvísi hérlendra ekki upp á marga fiska og þeir eru með eindæmum langorðir. Stjórnkerfið enda talsvert flókið og margir sem þarf að hafa ánægða. Mikið var um hvítflibba hér í gærmorgun þegar ráðstefnan opnaði og mikið um bukt og beygingar.

En verkefni eins og það sem hér var verið að kynna er ekki einfalt í uppbyggingu.  Bæði er erfitt að ná í peninga til slíkra verkefna og krefst það mikillar kunnáttu og eftirfylgni. Er í raun orðið sér fræði. Hins vegar er að byggja upp verkefni sem virkar félagslega, bætir afkomu bændanna, bætir landið og er meðtekið í samfélaginu. Það virðist að mestu hafa tekist hér, sérstaklega er ég hrifinn af því hvernig þeir hafa tekið á félagslega þættinum, fléttað inn í að auka færni fólksins, lestrarkennsla, kennsla í meðferð búfjár, kennsla í að framleiða plöntur o.s.frv. Markmiðið að sjálfsögðu að auka færni og frumkvæði svo tækifærin verði fleiri. Hér er hins vegar gríðarleg fátækt en fólkið vingjarnlegra og glaðlegra en við er að búast við slíkar aðstæður.

Ég get ekki leynt því að maður hálf skammast sín sem Íslendingur fyrir að eiga land í tötrum en þvílíkan auð. Aðeins um það að ræða að setja peningana í farveg, aðeins pólitísk spurning.

Pólitík, hver var að tala um hana. Hvað ætli framsóknarmenn séu tilbúnir að ganga langt til að halda völdum? 


Kosningar flúnar, með trega

Jæja, nú flýg ég til Marokkó í fyrramálið. Þarf að vakna hálffjögur. Í Marokkó er ekki nema 34 stiga hiti þessa dagana og því rúmlega notalegt. Þá er að spá í hvaða föt í ósköpunum á maður að fara með. Rykið dustað af stuttermaskyrtunum og léttu buxunum, keypti niðurgangsmeðal til öryggis og svo þarf sólarvörn og moskítósprey. En það er með trega í hjarta að maður fer í svona ferðir. Mér finnst alltaf erfitt að skilja við mína fjölskyldu, þó það sé bara í stuttan tíma. 

Ég sumsé losna við eða missi af Júróvisjón og kosningum X07. Búinn að kjósa sjálfur. Mun þess í stað njóta kvöldverðar með ráðstefnuhöldurum þar ytra. Vel á minnst, ef einhver hefur snefil af áhuga á að vita hvað ég er að fara að gera þar ytra þá er hér slóð inn á heimasíðu verkefnisins sem verið er að kynna.  En þetta snýst um baráttu gegn eyðimerkurmyndun þar ytra og hvernig mannskapurinn hefur verið virkjaður í þeirri baráttu. Sumsé alheimsvandamál í hnotskurn. Þetta er hins vegar lítið rætt um sem umhverfisvandamál hér á landi, enda landið grasi og skógi vaxið hér og þar.

Og að lokum, ég væri alveg til í að skipta um ríkisstjórn. 


Marokkó!

Lífið fer stundum framúr manni. Nú stefnir allt í að ég fari til Marokkó á þriggja daga ráðstefnu um miðjan maí. Í gær var ég ekki beinlínis á leið til útlanda, reyndar frekar fúll yfir að konan væri að fara til útlanda um helgina. En ástin eykst og þroskast við hæfilega fjarveru. 

Ef einhver sem les þetta hefur komið til Marokkó, þá eru gagnlegar ábendingar vel þegnar. 

Ráðstefnan fer víst fram á frönsku en boðið upp á þýðingu. Ég var reyndar að hugsa um daginn hvort maður ætti nú ekki að bæta við sig eins og einu tungumáli. 


Alveg að koma!

Ég hef ekki haft orku til að blogga eftir lambalærið í gær, fyrr en núna. Svakalega gott, úr Miðfirðinum, með eggaldin og rauðlauk í tómatsósu.

Nú er bara verið að greiða niður ferðina heim með því að versla ofsalega hagstætt hérna úti, jafnvel þótt gengið sé sjitt. Býst við að við náum að fljúga ókeypis heim fyrst það er svona mikil verðbólga heima. 

Ég komst að því um helgina að ég hef lést um a.m.k. fimm kíló hérna úti á árinu, og var þó mjór fyrir. Þetta gerist þegar maður hættir að éta tvær heitar máltíðir á dag og byrjar að hreyfa á sér rassgatið. Það mun því kosta nokkra endurhæfingu að koma heim, vafalítið munu fylgja því meltingartruflanir, ekki síst um jólin þegar ólifnaðurinn er í hámarki. En aðlögunarhæfni okkar manna eru lítil takmörk sett og ég því fullur tilhlökkunar að úða í mig hangikjöti, uppstúf, grænum baunum og spældum eggjum a la móðurættin mín. 


Búinn í skólanum

Ég var að leggja lokahönd á verkefnið mitt í verkefnisstjórnun. Ekki mjög flókið en vonandi situr þetta eitthvað eftir í hausnum á mér. Margt sem ég hef lært þarna gæti nú komið sér vel í vinnunni ef það væri sett í praksís. Sjáum til.

Nú er bara verið að plana heimferð, skv. háþróuðum verkefnisstjórnunarferlum að sjálfsögðu. Við vorum að setja saman matseðilinn fyrir það sem eftir er í skápunum. Hakk og spagettí, ofnsteiktir kjúklingabitar, Burritos, lambalæri, núðlur með kjúkling og grænmeti, pizza og eitthvað eitt enn sem ég man ekki. Þá verður frystirinn tómur. Svo er bara að ryksuga öll helv. teppin, þurrka af og þrífa klósettið, þá er orðið hreint. Pakka öllu oní nokkrar töskur, megum taka með 92 kg + handfarangur. Það ætti að duga. Henda svo öllu inní bílaleigubíl og keyra á hótel við Gatwick, vakna svo eldsnemma, búinn að tékka sig inn og vera kominn í Keflavík um hádegi. Svona er nú verkefnisstjórnun.


Að klæða af sér veðrið

Regngalli frá 66°N

Það er varla í frásögur færandi að ég og stelpurnar fórum sem oftar á leikvöllinn til að fá frískt loft og bæta matarlystina. Veðrið kalsi og gekk á með rigningarhryðjum, blandað hagléli. Reytingur af fólki á ferli og fá börn. Stelpurnar voru í sínum regngöllum og stígvélum eins og venja er til á Selfossi þegar fólki er att út í slagveður. Slíkur búnaður tíðkast ekki hér í Wales. Regnhlíf er látin duga og fólk virðist líta á það sem sjálfsagðan hlut að gegnblotna þegar rignir á ská. Enda þegar gerði næstu hryðju þá hurfu allir af vettvangi á spretti. Það er þó ekki eins og rigning sé hér óvanaleg frekar en annarsstaðar í Bretlandi. Hér mun vera rigningarvottur u.þ.b. annan hvern dag að meðaltali. 

Mér dettur því í hug hvort nokkrar markaðsrannsóknir hafi verið gerðar á því hvort bretar séu fúsir til að kaupa regnfatnað líkan þeim sem framleiddur er á Íslandi af t.d. 66°N. Það væri fróðlegt að vita. Bretar eru jú íhaldssamari en flest annað fólk. En hér eru allar aðrar aðstæður fyrir hendi, mikil rigning, fullt af fólki o.s.frv.

En það spáir sumsé áfram vætu.  


Graskersbakan orðin að raunveruleika

Það ætlunarverk mitt að baka graskersböku tókst í dag. Ekkert mál. Bragðið afar jólalegt, kanill og negull. Minnir mig á Las Vegas fyrir sex árum síðan en þá héldum við heittelskuð upp á jólin á Stratosphere hótelinu í Vegas á 10 daga ferðalagi okkar um vesturhluta BNA. Borðuðum m.a.s. jólamatinn uppi í turninum.

En semsagt ef þig lesandi góður langar til að búa til graskersböku þá er ferlið útskýrt nokkuð vel á þessari síðu. Og ekkert mál að nota smjör og venjulega mjólk. 


Ahhh....

Hollensk sveit

Alltaf best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Það finnur maður best eftir fjarveru, annars er eitthvað ekki í lagi. Holland var flatt að vanda, þó ég hafi þarna séð óreglulegasta hluta þess, í suðaustur horninu, einskonar botnlangi niður á milli Belgíu og Þýskalands. Ráðstefnan var skemmtileg og fróðleg. Hið ágætasta fólk. Wageningen er skemmtilegur smábær, 30-40 þús manns og allt meira og minna í kringum háskólann. Í Hollandi fæst góður bjór og góður matur. Verst að þarna getur allt verið á floti fyrirvaralaust, ekki í bjór, heldur í vatni, ýmist frá hafi eða eftir rigningar. 

Fyrirlesturinn minn gekk bara vel, studdist nánast ekkert við handritið en kom flestu frá mér skammlaust. Var reyndar spurður að því við kvöldverðinn á eftir hvaða hvíti flekkur þetta hefði verið á kortinu sem ég sýndi. Ég skildi spurninguna ekki strax en brátt kom í ljós að þarna var um að ræða stærsta jökul Evrópu, sem ekki allir áheyrendur áttuðu sig á. 

En hér í Cardiff er komið haust, rigningar og kólnað talsvert. Haustlitir eru komnir á sumar trjátegundir og ég er kominn í langerma peysu. Semsagt óhrekjanleg merki haustsins. 


Holland

Ég flýg til Hollands í fyrramálið, tek síðan lest til Wageningen og verð þar á ráðstefnu um bændur og jarðvegsvernd fram á þriðjudag. Skelli fram einu erindi sjálfur, er orðinn hálf ryðgaður í þessu en ágætt að fá tækifæri til að dusta rykið af fræðunum. Það verður skrítið að vera án kvennanna minna svona lengi en vonandi verður þetta góð stefna og skemmtilegt fólk svo tíminn verði fljótur að líða. Annars hef ég aldrei komið til Hollands, ekki einu sinni millilent svo þetta er jómfrúrferð hjá mér. Svo er gaman að prófa alþjóðaflugvöllinn, sem er hér skammt vestan við Cardiff. 

Wish me luck! 


Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 24151

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband