Færsluflokkur: Sjónvarp

Technical error og forsjárnefndatilhneiging

Ég hef í mörg ár verið þeirrar skoðunar að Spaugstofan eigi að vera hætt. Vissulega hafa þeir dottið niður á góða spretti en heilt yfir hefur verið þreyta í gríninu. Horfði á þáttinn frá síðasta laugardegi og verð að viðurkenna að þeim tókst bara vel upp. Árni Johnsen fékk sinn skammt og forsjárnefndatilhneigingin líka.

Að þessu tvennu: Það er sjálfsagt að menn fái annað tækifæri en að þeir séu lýðræðislega valdir til að setja lög og leikreglur fyrir alþjóð og höndla með almannafé eftir að hafa gerst sekir um að vera óhæfir til þess segir kannski meira um okkur sem þjóð en um viðkomandi einstakling.

Varðandi mannanafnanefnd, þá er hún gjörsamlega óþörf. Það er altént jafnþarft að hafa getnaðarvarnanefnd, sem ákveður hvaða foreldrar eru hæfir til að elska börnin sín nægilega. Eða mataræðisnefnd sem fer á milli heimila og skoðar matinn sem er á borðum og segir til um hvað megi borða og hvað ekki.


Af barnatíma og hjólreiðum

River Taff

Það verður að segjast eins og er, hvað sem fólki finnst um hina íhaldssömu sjónvarpsstöð BBC, að ég tel það forréttindi að hafa aðgang að því barnaefni sem er sýnt á barnastöðinni CBeebies. Dagskrárefnið er undantekningalítið vandað, oft reynt að kveikja hugmyndir hjá börnum, og foreldrum, og mikil fræðsla falin í efninu. Svo eru engar auglýsingar nema um dagskrána. Enda hrökk Margrét við þegar hún stillti á barnatímann á Five í morgun og það kom auglýsing um sykrað morgunkorn. Hún heimtaði að losna við þennan ósóma af skjánum, strax! Borið saman við Bandaríkin þá er hrein martröð að bjóða börnum að horfa á barnatíma þar, gríðarlegt auglýsingaáreiti, undantekningalítið sælgæti, skyndibitamatur, sykurdrykkir eða sykrað morgunkorn. Hér þurfa börn ekki að sjá auglýsingu frá McDonalds frekar en foreldrarnir kjósa, ef þau horfa á sjónvarp á annað borð. Það kalla ég vel sloppið. Hver er stefna hins íslenska Ríkissjónvarps? Auðvitað ætti ekki að sýna eina einustu auglýsingu á meðan barnatími er á dagskránni. Sök sér með aðra dagskrárliði. 

ÉG kom því loks í verk að hjóla yfir að ánni Taff en þar er fínn 55 mílu langur hjólreiðastígur. Ég hjólaði nú ekki nema smá brot af leiðinni en möguleiki er að hjóla frá miðbæ Cardiff, allt norður í þjóðgarðinn Brecon Beacons eftir þessum stíg, eða öfugt. Kannski ég reyni að koma því í verk áður en dvölinni hér lýkur. Annars venst nokkuð vel að hjóla hér í Cardiff, vinstri umferðin er orðin sjálfsögð í mínum huga og þrátt fyrir þrengsli þá kemst maður nokkuð greiðlega sínar leiðir á hjóli. Það mætti þó vera meira um sérstakar hjólaleiðir hér í bæ, sérstaklega þvert á dalina, austur-vestur. En það virðist nú ekki vera á dagskrá enda hæla þeir sér af því hér að í Cardiff sé meira af grænum svæðum en í flestum öðrum breskum borgum. Veit ekki með það. 


Cardiff Bay í frábæru veðri og sjónvarpið geispaði golunni

101_2348_27853.jpg

Við skruppum niður í Cardiff Bay, öll fjölskyldan, spásseruðum um, fórum í stutta siglingu um fjörðinn eða lónið og fengum okkur svo að borða með ís á eftir. Frábært veður eins og endranær þessa dagana. Cardiff Bay er við mynni ánna Taff og Ely og myndaði áður miklar flæður við sjóinn. Þessu var öllu lokað 1995 með löngum varnargarði og er nú ferskvatnslón. Auk þess hefur verið komið í veg fyrir hin miklu flóð sem ollu gjarnan skemmdum á mannvirkjum en munur flóðs og fjöru var 12 m. 

Þegar heim var komið átti að kíkja á leikinn en ekki tókst betur til en að hið aðframkomna sjónvarp gaf sig endanlega. Það gat vissulega gerst á verri tíma en ekki mikið verri. Þarf því að bregða við skjótt og finna annað tæki en ekki verður lagst í mikla fjárfestingu þetta sinnið, aðeins að fleyta þessu yfir næstu 7 mánuði. 


Krikketsagan endalausa og litla lirfan ljóta

Kráka

Hér berast okkur reglulega fréttir af krikketleikjum. Ég verð að viðurkenna litla löngun mína til að kynna mér þessa mjög svo samveldislegu íþrótt, sem eins og póló og fleiri virðulegar greinar eru nokkuð einokaðar af s.k. samveldisríkjum, gömlum breskum nýlendum. Leikirnir vara í marga daga, a.m.k. 5, og nú hafa t.d. lengi vel verið fréttir af landsleik Sri Lanka og Englendinga, og skiptast liðin á að leiða leikinn. Þetta er ótrúlega lítið áhugavert og leiðinlegt að sjá en hvítir búningar og prjónavesti virðast eiga vel við. Svo ekki sé minnst á te.

Við feðgin grófum upp dvd diskinn með litlu lirfunni ljótu. Skemmtileg teiknimynd og gaman að horfa á hana í útlöndum á þessum tíma. Hin geysigóða hljóðsetning inniheldur m.a. fuglasöng frá landinu í norðri þ.á.m. lóuna, sem ég hef nú ekki heyrt í hér. Mæli semsagt með þessum diski í lengri utanlandsdvalir.

Það er svo léleg sjónvarpsdagskrá hér að við höfum síðastliðin kvöld horft á breska spurningaþætti með gamansömu ívafi. Þeir eiga það til að vera bráðfyndnir, leiddir m.a. af Stephen Fry og Jack Dee, sem fá síðan í lið með sér valda húmorista úr ágætu bresku úrvali af slíku. Þarna er notaður breskur húmor af bestu gerð, útúrsnúningar og orðaleikir og lítil alvara almennt. En hent inní fróðleik, í anda BBC. 

Talandi um sjónvarpsefni. Nú eru á dagskrá BBC þættir sem kallast "Springwatch" eða Vorvöktun. Þeir snúast um að fylgst er með vorkomunni, vefmyndavélar á nokkrum fuglahreiðrum og leðurblökum, náttúrufræðingar þvælast um Bretland og flytja fréttir af sæotrum og hákörlum o.s.frv. Þetta gæti RUV tekið sér til fyrirmyndar og verið með þætti af hinni mjög svo langdregnu eða stuttu íslensku vorkomu. Ekki lakara efni en æði margt annað á þeirri ágætu stöð. Gaman að fylgjast með lóunni klekja út, lenda í vorhreti og berjast við varginn. 


Fótboltadagur í Cardiff

Millenium Stadium

Það er skynsamlegast að halda sig frá miðbænum í dag. Fótboltadagur í Cardiff þar sem bikarúrslitaleikurinn í enska boltanum fer fram á Þúsaldarleikvanginum í dag. Miðbærinn verður troðfullur af fólki í annars vegar rauðum og hins vegar vínrauðum og bláum einkennislitum Liverpool og West Ham. Fánar og húfur, flautur og horn, allir barir troðfullir af fólki. Þetta er í eina skipti sem hinn virðulegi enski bikar yfirgefur enska grund og þykir varla ásættanlegt af hálfu hinnar stoltu ensku þjóðar en þar sem klúður við frágang Wembley, stolts ensku fótboltaþjóðarinnar, hefur haldið áfram þá er ekki um margt annað að ræða. En semsagt, ekki gott að vera með fjölskylduna í miðbænum, nema kannski í u.þ.b. þrjá tíma á meðan fólkið er á leikvanginum. 

Það viðrar vel, kyrrt veður en ekki sól. Það gætu dottið niður skúrir í dag skv. spánni og skýjafari en gott fótboltaveður. 


Doctor Who

Þetta eru stórfurðulegir þættir, með sögulegum tilvísunum og vísindaskáldskapsyfirbragði en afar barnalegir, svolítið eins og unglingaþættir. En þetta fellur í kramið hjá breskum sjónvarpsáhorfendum. Við Íslendingarnir í þessu húsi höfum ekki alveg náð takti við þetta efni, kannski venst það en sumt af breska sjónvarpsefninu sem er búið að vera í mörg ár og mjög vinsælt, nær maður ekki alveg. Kannski missti maður bara af byrjuninni og þá er ekki hægt að ná taktinum. Sjá frétt.
mbl.is Þættir BBC sópuðu til sín Bafta-verðlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 24151

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband