Styrkir til landbúnaðar í Wales III

Styrkir til landbúnaðar í Wales III

- landvarsla og sjálfbært land -

 

Eingreiðslukerfið hér í Wales, sem er grunnstyrkjakerfi, byggist á því að bændur stundi góða búskaparhætti og tryggi að landi og umhverfi fari ekki aftur. Stór hluti Wales fellur undir skilgreiningu Evrópusambandsins á erfiðu svæði til búskapar vegna umhverfisaðstæðna, fjalllendi, rýr jarðvegur og erfitt veðurfar. Bændur sem búa í þeim hluta landsins njóta sérstaks stuðnings til viðbótar eingreiðslunum. Meðalgreiðsla á bú nemur um kr. 400 þús. Allir bændur hafa möguleika á að sækja um þátttöku í tveimur landbúnaðar-umhverfisverkefnum (e: agri-environment) fjármögnuðum af opinberu fé, sem geta tryggt þeim meiri tekjur.

 

Landvarsla (Tir Cynnal )

Verkefnið Tir Cynnal, sem á íslensku getur útlagst Landvarsla, er ætlað að stuðla að verndun lands, vatns og lofts. Það byggist á því að bændur vinna auðlinda- og nýtingaráætlun fyrir sína jörð. Gerð áætlunarinnar á að hjálpa þeim að greina þau atriði sem helst þarf að gæta að varðandi meðferð þessara auðlinda og hvernig það að bæta umhverfið getur bætt rekstrarafkomu búsins. Þátttaka í verkefninu hjálpar bændum að uppfylla þau skilyrði sem krafist er vegna eingreiðslukerfisins og minnkar að einhverju leyti þá vinnu sem þeir þurfa að inna af hendi vegna þess. Eitt af skilyrðunum fyrir því að taka þátt í landvörsluverkefninu er að náttúruleg búsvæði (natural habitats) séu minnst 5% af flatarmáli jarðarinnar. Algengustu búsvæðin í þessum flokki eru laufskógar, kjarrlendi, lyngheiðar, votlendi og strandsvæði, og lítt snortin eða óræktuð svæði. Nái viðkomandi jörð ekki þessu 5% marki þá getur bóndinn tekið að sér að búa til eða endurheimta búsvæði. Dæmi um það er endurheimt votlendis.

 

Bændur fá greitt eftir stærð jarðarinnar sem áætlun er unnin fyrir og ef tekið er dæmi af 70 ha jörð þá er heildargreiðslan rúmar kr. 300 þús. á ári. Greiðslan minnkar svo hlutfallslega eftir því sem jörðin er stærri.

 

Sjálfbært land (Tir Gofal)

Verkefnið Tir Gofal eða Sjálfbært land (þýðing höfundar), er í umsjá Contryside Council for Wales (CCW), sem er ráðgjafastofnun velsku ríkisstjórnarinnar um umhverfismál. Sé leitað hliðstæðu CCW á Íslandi þá er stofnunin n.k. blanda af Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins og að hluta Fornleifavernd ríkisins. Verkefnið fer væntanlega yfir til ráðuneytis umhverfis- og dreifbýlismála á komandi hausti sem ætti að stuðla að einfaldari stjórnsýslu og ráðgjafarstarfi.

 

Sjálfbært land hefur verið rekið síðan 1999 og síðan hafa verið gerðir 1.600 samningar sem gilda um 160.000 ha af landbúnaðarlandi í Wales. Verkefnið tekur til alls lands viðkomandi bónda og felur í sér margskyns umhverfisverkefni. Nokkur dæmi:

  • Halda við görðum, skjólbeltum, girðingum og hefðbundnum mörkum akra,
  • Fylgjast með að fornleifum og sögulegum minjum, þ.m.t. gömlum byggingum, sé ekki raskað,
  • Vernda jarðfræðilegar minjar,
  • Vernda tjarnir, læki og ár, einkum gegn mengun og átroðingi á bökkum,
  • Halda rusli á bænum í lágmarki,
  • Nýta landið í takt við reglur um góða búskaparhætti,
  • Halda beitarþunga á landinu eins og kveðið er á um í samningi, sem er alltaf minna en 2,4 beitardýraeiningar/ha/ári,
  • Viðhalda aðgangi almennings að svæðum sem ekki eru afgirt og ræktuð,
  • Vernda búsvæði, sem hafa mikið gildi vegna verndunar líffræðilegrar fjölbreytni og eru að mestu sambærileg svæðum innan Landvörsluverkefnisins.

 

Bændur geta valið um að taka að sér úrbætur í sínu umhverfi gegn greiðslu, s.s. að endurreisa grjótgarða, minnka álag á ökrum t.d. með því að hætta illgresisúðun, auka hlutdeild náttúrulegs graslendis, vinna að endurheimt náttúrulegra búsvæða og bæta aðgengi almennings. Sjálfbært land miðar að því að hvetja til búhátta sem vernda og bæta land, menningarlega þætti þess og náttúru og gengur í því talsvert lengra en Landvarsla.

 

Gerður er samningur til 10 ára með fimm ára uppsagnarákvæði. Þættir í umsókninni gefa punkta og þarf heildarpunktafjöldi að ná 100 til þess að umsókn sé tekin gild. Meðal þess sem gefur punkta er að haldnir séu nautgripir eða sauðfé, ræktun ýmissa nytjaplantna, að einhver sem stendur að búinu sé undir 40 ára aldri og áhugi viðkomandi bónda til að minnka álag á þaulræktuðu landi, vinna að endurheimt náttúrulegra búsvæða eða bæta umhverfið á annan hátt. Umsóknum er forgangsraðað eftir punktafjölda og val á umsækjendum miðar að mörgum markmiðum en felur í sér að ábati umhverfisins sé sem mestur. Greiðslur til bænda fara m.a. eftir landstærð og umfangi þess uppbyggingarstarfs sem innt er af hendi og er greitt beint fyrir ákveðin verks s.s. nýgirðingar sem falla innan samnings. Bændur hér í Wales geta því drýgt talsvert sínar tekjur umfram eingreiðslurnar með því að taka þátt í umhverfis-landbúnaðarverkefnum af þessu tagi.

 

Sé horft til Íslands með aukna umhverfistengingu stuðnings til íslensks landbúnaðar í huga þá eru miklir möguleikar á því sviði m.a. í tengslum við landgræðslu og skógrækt, beitarstýringu, viðhald girðinga, náttúruvernd og verndun menningarminja. Slíkt þarfnast þó undirbúnings og verður ekki dregið uppúr hatti á svipstundu. En hver er stefnan?

 

Helstu heimildir:

Countryside Council for Wales: www.ccw.gov.uk

Wales Department of Environment, Planning and Countryside: www.countryside.wales.gov.uk


Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband