Almennt um tíma

Í síðustu viku bar það helst til tíðinda að ég vann lengri vinnudag en ég hef gert um nokkuð skeið. Ég var því nokkuð spenntur að vita hvaða tilfinningar það vekti hjá mér. Þær tilfinningar sem vöknuðu voru einkum tvennskonar. Í fyrsta lagi var spennu/adrenalín tilfinning yfir að djöflast í verkefninu sem ég var að vinna, klára, laga, bæta og skila. Í öðru lagi var það sú óþægilega tilfinning að hitta ekki börnin mín nema u.þ.b. hálfa klst. á dag. Sú síðari var sínu verri. Þegar horft er til baka er ég mjög sáttur við þessa útkomu. Ég hefði haft miklar áhyggjur ef söknuður hefði ekki plagað mig að neinu marki.

Annars byrjuðum við hjónakornin í dansi í síðustu viku. Mjaðmavöðvarnir eru ansi hreint stirðir.


Hvít jól og vonin

Reykjavík og nágrenni er nú heldur huggulegra þegar jörð er hvít á þessum tíma árs en í suðaustan rigningu og roki. Enda var jóladagur sérdeilis huggulegur með hæfilegri snjókomu og kófi. Birtutíminn lengist og kyrrðin verður marktækari en í rokinu og rigningunni þó hæpið sé að tala um kyrrð á þessu svæði.

Annars fór fjölskyldan í köntrýmessu í gær í Salaskóla. Hressilegar útsetningar á jólasálmum og afslappað andrúmsloft gerði athöfnina ánægjulega. Dæturnar virtust þó ekki fíla þennan búning sálmanna neitt sérstaklega og óskuðu brottfarar nokkru fyrir messulok.

En það er þessi tilfinning árstímans þegar dag tekur að lengja sem er sennilega eitthvert merkilegasta og áhrifamesta fyrirbrigði mannkynssögunnar. Átrúnaður á sólina er sennilega fyrsti átrúnaður mannsins. Hvenær manninum síðan skildist að á þessum tíma tók dag að lengja veit ég ekki en þar liggur vonin. Vonin eftir hækkandi sól, betri tíð, meiri mat, náttúran lifnar á ný og meiri möguleikar. Ég veit að ég lít bara nokkuð björtum augum fram á næsta ár.


Tilvitnun síðustu viku

Eftirfarandi er tilvitnun í orð Kevin Conrad, fulltrúa Papúa Nýju Gíneu, sem hann beindi að Paulu J. Dobriansky, fulltrúa Bandaríkjanna á ráðstefnunni í Balí í síðustu viku:

"If you cannot lead, leave it to the rest of us. Get out of the way." 

Þetta var víst í takt við stemmninguna eftir yfirlýsingu Dobriansky um að BNA væru ekki tilbúin að láta skuldbinda sig til aðstoðar við þróunarríki. Sjá m.a. Washington Post.


Hvar er netverslun fyrir matvöru á Íslandi?

Fyrir ári síðan bjó ég og fjölskyldan í Cardiff í Wales, rúmlega 300 þús manna borg. Ég var heimavinnandi og fór minna ferða á hjóli eða í strætó. Þar sem mér leiðist óskaplega að burðast með innkaupapoka í strætó fór ég að kanna möguleikana á að versla matvöru á netinu og fá hana senda heim. Þetta gekk svona líka vel. Þrír stórmarkaðir buðu upp á þessa þjónustu, Sainsbury´s, Tesco og ASDA. Maður gat valið sér afhendingartíma, eins til tveggja tíma bil, einhverntíma dagsins, sem voru misdýr í samræmi við eftirspurn. Heimsending kostaði frá 4 og upp í 6 pund eða 500-800 kr. Oft voru tilboð í gangi þannig að ef maður keypti fyrir 70 pund eða meira, ca 9000 kr, þá var heimsending frí.

Þetta fyrirkomulag reyndist mjög vel, varan var í góðu lagi lang oftast, tímasetningar afhendingar líka og ef ekki þá var heimsending frí.

Í öllu atinu hér á höfuðborgarsvæðinu væri afar kærkomið að hafa aðgang að slíkri þjónustu. Fá t.d. heimsent einu sinni í viku. Ég er svolítið hissa á verslanakeðjunum að taka þetta ekki upp á sína arma af því Íslendingar myndu taka þessu opnum örmum, þjónustusjúk eins og við erum. En þjónustan verður líka að vera í lagi.


Verndarsvæði á stærð við Ísland

Kanadamenn hafa ákveðið að friða stórt svæði innan barrskógabeltisins við norður-heimskautsbaug fyrir auðlindavinnslu til iðnaðar (lausleg þýðing bloggara). Þetta svæði er 25 milljónir ekra eða rúmir 100 þús km2. Það er nánast eins stórt og Ísland og á við 11 Yellowstone þjóðgarða. Þetta hlýtur að teljast nokkuð merkileg ráðstöfun á landi, þó Kanada sé reyndar æði landstórt.

Verndun verður mismunandi eftir svæðum, að hluta þjóðgarður og að hluta verndarsvæði í umsjá heimamanna. Sjá frétt.


Þörf ábending

Það er gott þegar einhver gefur sér  tíma til að reikna. Það er sjálfsagt auðvelt að bera brigður á þessar niðurstöður en það er hins vegar staðreynd og þörf á að vekja athygli á því að þær aðferðir sem notaðar eru við fæðuframleiðslu í heiminum eru orsök mjög stórs hluta af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta á einkum við fæðu sem kemur úr þauleldi eins og kjöt af ýmsum toga. Þess vegna kemur maður að því enn og aftur að neysla á fæðu sem er neðar í fæðukeðjunni s.s. grænmeti og ávöxtum orsakar minni losun. Eftir því sem hlutfall þessarar fæðu eykst á kostnað þessara þauleldiskjöttegunda þá minnkar losun. Hins vegar má ekki setja samasemmerki á milli allra kjöttegunda. Dýrategundir sem ganga úti og éta gras mestan hluta ársins eru sennilega umhverfisvænstar, svo fremi þær valdi ekki ofbeit og þannig losun. Þær nýta sér gróður sem maðurinn getur ekki nýtt sér og oft er um að ræða búskaparhætti sem valda ekki miklu álagi á umhverfið. Búskapur sem byggir á því að ala gripi á kornmeti, sem maðurinn gæti nýtt sér beint, kemur yfirleitt lakar út í þessum samanburði. Eitt hef ég þó lært á minni stuttu ævi og það er að alhæfingar eiga afar sjaldan við. Þær geta hins vegar verið ágætar til að vekja athygli á tilteknum málum.

Annar þáttur tengdur fæðu sem ræður miklu um losun gróðurhúsalofttegunda er flutningur fæðunnar frá brunni að grunni, frá uppruna til neytanda. Það eru ein mjög góð og gild rök fyrir upprunamerkingum fæðu. T.d. er almennt umhverfisvænna fyrir fólk búsett á Íslandi að neyta fæðu sem framleidd er á Íslandi, kannski ekki algilt en á við í flestum tilvikum. Semsagt, nær-ætur (locavores) sameinumst!


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrr um Bitru

Það er ekki laust við að það sé gaman að þessari umræðu um Bitruvirkjun. Ýmislegt bendir til þess að virkjunin fái kannski ekki jákvæða einkunn frá Skipulagsstofnun, þó svo það sé ekki lokadómur í málinu. Eins og ég hef bloggað áður þá er ýmislegt hliðstætt með Bitru og Grændal, en þar hafnaði Skipulagsstofnun rannsóknaborun á sínum tíma. Þetta gæti því orðið mjög merkilegt mál í viðfangsefninu lýðræði/umhverfi, á hverju sviði við Íslendingar erum að fóta okkur eins og nýfæddir kálfar. Mér sýnist framför í þessu hjá okkur.
mbl.is Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið dimma Ísland

Hjólaði í morgun í suddanum, þéttur úði og þoka, svo ég varð rennandi blautur, gleymdi aukasokkum og inniskóm.

Merkilegt með Íslendinga. Ég mætti fjórum eða fimm hjólreiðamönnum á leiðinni. Allir voru ljóslausir, utan einn sem skartaði nánast batteríslausu ljósi. Í þessu landi myrkursins ætti að vera nánast óhugsandi að vera á ferðinni án ljóss. Annað mætti flokka undir leiða á lífinu eða góðri heilsu.

En þeir sem hjóla dags daglega til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu eru ekkert annað en hetjur. Það eru sennilega vandfundnar jafn erfiðar og leiðinlegar aðstæður til að hjóla en hér á suðvesturhorni Íslands. Illa samræmdir eða engir hjólastígar. Rigning, mótvindur, brekkur og ljóslausir hjólreiðamenn. En, ég verð að hrósa bílstjórum á svæðinu. Þeir hafa sýnt mér mikla tillitssemi, þvert á það sem ég bjóst við. Kannski er það vegna þess að þeir sjá mig?


Huggulegur rigningarmorgun

Það var notaleg rigningin í morgun, féll nánast beint niður, kyrrlát og ljóðræn. Vel við hæfi á þessum degi. Þetta minnti mig samt á útlönd satt best að segja, m.a.s. Cardiff kom upp í hugann þegar ég settist inn í strætó. Alltof sjaldan sem maður getur gengið út í svona huggulega rigningu hér heima.

Svo fór ég að leiða hugann að því að í strætó í Cardiff voru bara einar útgöngudyr í flestum tilvikum. Þetta leiddi til þess að notendur þurftu að taka tillit hver til annars þ.e.a.s. Þeir sem ætluðu inn þurftu að bíða eftir þeim sem ætluðu út. Svo átti maður ávallt leið framhjá bílstjóranum en eins og ég bloggaði um í fyrndinni, þá eru velskir strætóbílstjórar mjög kurteisir upp til hópa. Þar tíðkast að kveðja, "tata" eða bara "thank you". Mér var sumsé hugsað til þessa þegar ég fór úr strætó við Höfðatorg, að aftan, án þess að yrða á bílstjórann og þakka honum fyrir.

Sennilega eru almenningsvagnar hér á landi almennt of stórir. Maður fyllist einmanakennd ef mjög fáir eru í vagninum og allt að því óöryggi. Þetta er því vart hvetjandi umhverfi til að örva notkunina á kerfinu.

En ég segi það enn og aftur, ég er tilbúinn að borga fyrir góða þjónustu almenningsvagna, sem skilar mér fljótt og vel á áfangastað og ég verð ekki úti þó svo ég missi af vagninum og þurfi að bíða eftir næsta.


Loksins farinn að hjóla

Það er reyndar þónokkuð síðan ég hjólaði fyrstu ferðina í vinnuna en hef sumsé ekkert bloggað ansi lengi. Þetta er fín leið í gegnum Seljahverfið, Elliðaárdalinn, yfir Miklubraut, framhjá Glæsibæ, niður Laugardal, gegnum Teigana, yfir Kringlumýrarbraut, inní Túnin og kominn! Þetta eru tæpir 10 km og tekur 25 mín að hjóla. 

Nú kemur reyndar í ljós að ég á ansi lélegt hjól því þegar fer að reyna eitthvað á kvikindið þá bilar eitthvað. Þannig er gírskiptihandfangið búið að brotna, sprungið einu sinni og gírarnir orðnir ansi ruglaðir. Þetta stendur þó allt til bóta og ég ætla að hjóla öðru hverju á meðan ekki er snjór og hálka. Nenni ekki að skipta yfir í nagla.

En af þjóðmálunum þá velti ég því fyrir mér á hvaða gríðarlegu þekkingu á jarðhitamálum Íslendingar ætla að byggja í þessari útrás. Mér vitanlega er afar takmörkuð menntun í boði hér á landi á þessu sviði og fáir sérfræðingar sem eru einhvers megnugir á þessu sviði. Þetta er reyndar umhugsunarefni fyrir háskólana alla, hvort ekki ætti að leita til orkufyrirtækjanna um stuðning við kennslu á sviði jarðhitanýtingar til að byggja upp stærri hóp sérfræðinga á þessu sviði hér á landi.

Varðandi umhverfismálin, þá er ég afar ánægður með að margir láti sig þau varða eins og Bitruvirkjun ber vitni um. Það má líta til úrskurðar Skipulagsstofnunar vegna rannsóknaborholu í Grændal í þessu samhengi en Skipulagsstofnun lagðist gegn þeirri framkvæmd, þó umhverfisráðherra leyfði hana með skilyrðum. Bitruvirkjun er í raun ekki svo ólíkt mál, mikil náttúrufegurð, mikil útivist og ferðamennska, líffræðileg fjölbreytni o.s.frv. En pólitík er kannski full fyrirferðamikil í ákvörðunarferlinu, nema lýðræðið komi til bjargar. Við sjáum að sveitarfélög á Suðurnesjum vilja t.d. ekki raflínur í sínu landi. Það er kannski lítill vísir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 24232

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband