Færsluflokkur: Bloggar

Huggulegur rigningarmorgun

Það var notaleg rigningin í morgun, féll nánast beint niður, kyrrlát og ljóðræn. Vel við hæfi á þessum degi. Þetta minnti mig samt á útlönd satt best að segja, m.a.s. Cardiff kom upp í hugann þegar ég settist inn í strætó. Alltof sjaldan sem maður getur gengið út í svona huggulega rigningu hér heima.

Svo fór ég að leiða hugann að því að í strætó í Cardiff voru bara einar útgöngudyr í flestum tilvikum. Þetta leiddi til þess að notendur þurftu að taka tillit hver til annars þ.e.a.s. Þeir sem ætluðu inn þurftu að bíða eftir þeim sem ætluðu út. Svo átti maður ávallt leið framhjá bílstjóranum en eins og ég bloggaði um í fyrndinni, þá eru velskir strætóbílstjórar mjög kurteisir upp til hópa. Þar tíðkast að kveðja, "tata" eða bara "thank you". Mér var sumsé hugsað til þessa þegar ég fór úr strætó við Höfðatorg, að aftan, án þess að yrða á bílstjórann og þakka honum fyrir.

Sennilega eru almenningsvagnar hér á landi almennt of stórir. Maður fyllist einmanakennd ef mjög fáir eru í vagninum og allt að því óöryggi. Þetta er því vart hvetjandi umhverfi til að örva notkunina á kerfinu.

En ég segi það enn og aftur, ég er tilbúinn að borga fyrir góða þjónustu almenningsvagna, sem skilar mér fljótt og vel á áfangastað og ég verð ekki úti þó svo ég missi af vagninum og þurfi að bíða eftir næsta.


Góður laugardagur

Dagurinn í dag er svona góður laugardagur. Vaknað snemma með stelpunum, gefa þeim að borða, horfa með þeim á barnatíma og lesa blöðin, sötrandi kaffi (sleppti bjórkvöldi í gær). Fara í ræktina undir hádegi, fá sér "boost" í hádegismat, hnetur og rúsínur, epli o.fl. hlusta svo á tónlist í rólegheitunum. Stilla gítarinn og bassann, spila lítið eitt með Birnu. Það er gott að fletta í henni með lagaval, það er eins og hún læri eitt lag á dag og textarnir buna út úr henni. Þá er ábyrgðarhluti að gefa börnunum ekki tækifæri á að hlusta á tónlist frá hinum ýmsu tímabilum, straumum og stefnum. Svo er matur hjá tengdó á eftir svo það þarf ekki einu sinni að elda. 

Nú styttist í að ég verði grasekkill þegar frúin fer í námsorlof til Cardiff. Kvíði því talsvert en eins og ég hef ritað áður þá getur svona fjarvera verið til að styrkja sambandið (sem er bara eitthvert Pollíönnu kjaftæði).

 


Breytt stjórnarráð

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að fá óstaðfestar fregnir í óáreiðanlegum fréttamiðlum eins og visi.is og Fréttablaðinu. Það vakti hins vegar blendin viðbrögð hjá mínum vinnufélögum og reyndar fleirum að sjá þar svart á hvítu í síðustu viku að okkar málaflokkur yrði vistaður undir umhverfisráðuneytinu en ekki landbúnaðarráðuneytinu. Hjá mér voru viðbrögðin svosem ekki blendin. Ég hef lengi beðið eftir breytingum í þessum málaflokki öllum og þó það væri ekki nema breytinganna vegna þá væri gott að fá nýtt ráðuneyti, ný sjónarmið og nýtt fólk. Það má lengi ræða það hvort landgræðsla eigi heima undir umhverfisráðuneyti. Gróðurverndarstarf, gróðureftirlit, stöðvun landeyðingar, fræðslustarf og endurheimt vistkerfa má auðveldlega rökstyðja að eigi heima undir umhverfisráðuneytinu. Landgræðsla hefur lengi verið mjög landbúnaðarmiðuð, átt áherslur talsvert undir hagsmunaaðilum innan þess geira og lagabreytingar háðar þeim sjónarmiðum. Þess vegna m.a. eru núverandi lög frá 1965. Sjónarmið og aðstæður hafa hins vegar mikið breyst og full ástæða til að stokka upp málaflokkinn. Það eru ekki næg rök að stærstur hluti landsins sé í eigu bænda. Bændur vinna manna mest að uppgræðslu lands. Það er ekki bara af því að þeir eru góðir menn, heldur sjá þeir sér hagsmuni í því sem atvinnurekendur. Það þjónar síðan hinum heildrænu hagsmunum að þeir vinni að þessum málaflokki, landi, þjóð og sjálfum sér til hagsbóta. 

En ég mun ekki harma það ef málaflokkurinn landgræðsla fer undir umhverfisráðuneytið. Hrósa hins vegar ekki fyrr en ég sé það gerast. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra skorti þrek og þor til að klára eins lítið mál og sameiningu landgræðslu og skógræktar. Núverandi ríkisstjórn þarf að þora og horfa fram hjá sérhagsmunum ef málið á að ná í gegn. 


Dear Elsa, hættu núna!

Eftir markvissar umræður þriggja eiginmanna jafnmargra hjúkrunarfræðinga þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að kjarabarátta hjúkrunarfræðinga hefur minna en engan árangur borið. Þetta þýðir jafnframt það að forysta hjúkrunarfræðinga hefur brugðist þeim í því að berjarst fyrir því að fagstéttin húkrunarfæðingar fengi þá viðurkenningu sem henni ber. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart að forystunni mistekst að brjótast út úr hinni hefðbundnu skilgreiningu á starfinu. Kennarar eru annað dæmi. Hjúkrunarfræðingar eru stórkostleg stétt sem heldur samfélaginu saman þegar eitthvað bjátar á hjá okkur hinum "almenna Jóni".  Þær, því langflestar eru þær konur, sinna okkur af fagmennsku, greina það sem okkur bagar, hlusta á vælið í okkur, og segja okkur hvenær rétt sé að koma okkur af stað aftur í vinnu. Enginn hefur sinnt því að meta ávinninginn af starfi þessa fólks en þess í stað einbeitt sér að kostnaðinum. Því segjum við það, þrír eiginmenn jafnmargra hjúkrunarfræðinga, skiptið um forystu í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sóknarfærin eru fyrir hendi, lítið á ykkur sem vel menntaða fagmenn og fyllið stétt ykkar stolti. Við, þessir þrír eiginmenn, hvetjum alla sem staddir eru í svipuðum sporum að setja inn athugasemd, því það er okkar mat að nú sé kominn tími fyrir nærstadda að taka höndum saman og knýja á um nýja forystu í félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga svo kjarabaráttan skili einhverjum árangri. Látið í ykkur heyra. 

Kjötið eða bílinn!

Þessi umhverfisfrétt er of góð til að sleppa því að blogga:

"The livestock sector emerges as one of the top two or three most significant contributors to the most serious environmental problems, at every scale from local to global." It turns out that raising animals for food is a primary cause of land degradation, air pollution, water shortage, water pollution, loss of biodiversity, and not least of all, global warming.

Þar hafið þið það. Kjötframleiðsla í landbúnaði er einn af megin umhverfisskaðvöldum heimsins. Ótrúlegt? Bull? Hvað með að það hefur meiri áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að minnka kjötneyslu og neyta nærfæðu en að fá sér mjög umhverfisvænan bíl.

Producing a calorie of meat protein means burning more than ten times as much fossil fuels--and spewing more than ten times as much heat-trapping carbon dioxide--as does a calorie of plant protein. The researchers found that, when it's all added up, the average American does more to reduce global warming emissions by going vegetarian than by switching to a Prius.

Hefur nokkur minnst á þetta áður? Ekki svo að skilja að ég sé grænmetisæta eða tali fyrir slíku. Það er hins vegar ótrúlega lítil umræða um þetta í samhengi við innflutning á landbúnaðarafurðum til Íslands. Þær eru fluttar um langan veg og þetta hlýtur að vega þungt í málflutningi fyrir innlendum landbúnaði, séu umhverfisverndarsinnar samkvæmir sjálfum sér. Eða snýst umhverfisvernd bara um virkjanir?

En þetta er alla vega fróðleikur sem gott er að velta fyrir sér þegar maður stingur gafflinum í nautasteikina frá Argentínu, sem gæti staðið fyrir 10 sinnum fleiri kaloríur af plöntupróteini, og sem hefur orsaka 10 sinnum meiri losun af gróðurhúsalofttegundum.


Að blogga heima

Þegar maður er nú kominn heim þá er bloggið bara ekki eins. Hvötin til að blogga virðist síður vera til staðar og kannski er það nálægðin við þá sem lesa bloggið sem veldur ákveðinni tregðu. Á meðan maður er erlendis þá er lítil hætta á að maður rekist á nema fáa einstaklinga sem lesa bloggið en eftir að heim er komið er maður e.t.v. í samskiptum við þá daglega. Það er bara ekki eins. Framtíð bloggsins míns er því óviss. Þessu til viðbótar hefur tími minn til að blogga minnkað um a.m.k. átta tíma á dag. Svo er bara ekki eins mörgu frá að segja hérna norður frá. Það eru allir að tyggja sama bullið hver upp eftir öðrum, evra ekki evra, króna ekki króna. Ingibjörg og Valgerður. Guðni og Hjálmar. bla, bla, bla. Það er fljótlegt að verða þreyttur á þessu blaðri.

Ég sakna 8 out of 10 cats á Channel 4. Jimmy Carr og Sean Lock eru ótrúlega fyndnir. Best að panta spóluna á Amazon.


Lestarslys á Íslandi?

Það er náttúrulega alltaf leiðinlegt þegar verða slys og þakkar vert þegar ekki verða slys á fólki. En mér þykir pínulítið fyndið að það eru tvær lestir sem ganga á Íslandi og þeim tókst að rekast saman. Lofar ekki góðu fyrir hinar hraðfleygu hraðlestahugmyndir Keflavík-Reykjavík.
mbl.is Lestir rákust saman í aðgöngum Kárahnjúkavirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búinn í skólanum

Ég var að leggja lokahönd á verkefnið mitt í verkefnisstjórnun. Ekki mjög flókið en vonandi situr þetta eitthvað eftir í hausnum á mér. Margt sem ég hef lært þarna gæti nú komið sér vel í vinnunni ef það væri sett í praksís. Sjáum til.

Nú er bara verið að plana heimferð, skv. háþróuðum verkefnisstjórnunarferlum að sjálfsögðu. Við vorum að setja saman matseðilinn fyrir það sem eftir er í skápunum. Hakk og spagettí, ofnsteiktir kjúklingabitar, Burritos, lambalæri, núðlur með kjúkling og grænmeti, pizza og eitthvað eitt enn sem ég man ekki. Þá verður frystirinn tómur. Svo er bara að ryksuga öll helv. teppin, þurrka af og þrífa klósettið, þá er orðið hreint. Pakka öllu oní nokkrar töskur, megum taka með 92 kg + handfarangur. Það ætti að duga. Henda svo öllu inní bílaleigubíl og keyra á hótel við Gatwick, vakna svo eldsnemma, búinn að tékka sig inn og vera kominn í Keflavík um hádegi. Svona er nú verkefnisstjórnun.


Góður kalkúnn mar!

Loksins eldaði ég kalkún. Var alltaf hræddur við að prófa kvikindið, búinn að heyra svoddan skelfingarsögur af þurrum og brunnum kalkúnum. En eldaði hann sumsé a la Jamie Oliver, fyllingin fór ofan á bringuna, undir skinnið, ein appelsína inn í rassinn og svo makað ólífuolíu og salti utan á skrokkinn. Álpappír kom í veg fyrir alvarlegan bruna og útkoman snilld, með sætum kartöflum og sósu. Hér eftir verður þetta ganga í garðinum. 

Tvær vikur

Nú eru tvær vikur í brottför, tvær örstuttar vikur. Þá þarf að setja upp skipulegan matseðil þannig að allt klárist úr skápunum. Það virðist vera nokkuð gott jafnvægi í birgðunum núna, helst að mikið sé til af niðursoðnum tómötum og núðlum. Ekki vandamál að koma því í lóg. Þetta ætti því að geta verið nokkuð eðlilegur matseðill. Ekki hakk í sjö daga og kjúklingabringur í sjö eða kartöflur í morgunmat, hádegismat og kvöldmat.

Við seldum garðhús stelpnanna í gær svo sá pakki er að baki. Ótrúlega vel heppnuð sala, nokkrar ókeypis auglýsingar, eitt símtal og selt! Engar aðrar fyrirspurnir. 

Það er kominn fiðringur í mann að koma heim, byrja aftur að keyra bíl, byrja aftur að reka bíl, sofa aftur í rúminu sínu, borða aftur af diskunum sínum. Það er gallinn við að vera svona stutt í útlöndum og leigja með húsgögnum að maður á varla heima, maður er alltaf með eitthvað í láni. Það er ekki lagt í fjárfestingar eða innkaup á húsmunum. En sumsé, það verður gott að koma heim í verðbólgu, myrkur og kulda, smáborgaralega umræðu um allt og ekkert, yfirborðslega fréttamennsku, litla innlenda dagskrárgerð, dýran mat, vín og bjór og síðast en ekki síst, að heyra íslenska ilhýra tungu á nýjan leik. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 24189

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband