Eftir hverju er beðið?

Grein í New York Times minnti mig á að hin mikla losun gróðurhúsalofttegunda okkar mannanna er fyrst og fremst pólistískt en síðan hagfræðilegt vandamál. Tæknilega er allt mögulegt. Það vantar hvatann frá stjórnvöldum í heiminum, ekki endilega frá öllum í einu, heldur verður einhver að stíga fyrsta skrefið, búa til hvata til að finna aðrar leiðir við orkuöflun. Það er eins og allir renni saman áfram í hlutlausum, með hvoruga hendi á stýri og alls ekki spennt öryggisbelti. Ég er ekki að segja að loftslagssáttmálinn sé ónýtur en sá pakki fer ansi hægt af stað. Kannski það verði BNA sem ríði á vaðið með hagrænar leiðir í þessari vandasömu klemmu sem við höfum komið okkur í.Hissa

Við höfum fordæmin, baráttu gegn súru regni og losun brennisteins- og köfnunarefnisoxíða (smog). Þar var beitt annars vegar lagalegum takmörkunum og hins vegar hagrænum hvötum. Lausnirnar létu ekki á sér standa, án þess að t.d. breytingar á bílum yrðu óheyrilega dýrar eins og spáð var vegna "smog". En það getur enginn grætt á loftslagsmálunum og á meðan verður engin hreyfing í rétta átt. Auðvitað er öll miðstýring varasöm en nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum.


Skeggjaðir menn og tréklossar undir þrýstingi

Hin lífræna vakning hófst sem hugsjón skeggjaðra manna sem gengu um í tréklossum. Nú er Wal Mart risakeðjan í Bandaríkjunum komin í spilið. Þar snýst þetta ekki um skegg eða klossa, heldur ímynd og peninga. Gott eða vont? Það á eftir að koma í ljós. En hræðslan er einkum við að Wal Mart, sem er ekki þekkt fyrir vönduð meðul, leiti til landa þar sem eftirlit með framleiðsluháttum er ekki eins strangt og víðast hvar á vesturlöndum, t.d. Kína. Hvað gæti gerst þá? Ímynd hins lífrænt vottaða gæti beðið mikinn hnekki og misst allan trúverðugleika. Vottunarmerkin yrðu eins og hvert annað skrum eða auglýsing sem hefði lítið gildi. Aðrir hafa hins vegar bent á að þetta er gott. Þarna fáum við meira úrval af hollari vöru á lægra verði. Fleiri geta keypt hana og þannig eykur þetta hróður framleiðslunnar og bætir e.t.v. heilsufar hins sjúkdómsvædda vestræna heims og jarðarinnar.

Hvað er svona gott við lífrænt vottaða vöru? Í sjálfu sér ekkert sérstakt, nema að það má ekki nota skordýraeitur, illgresiseyða eða tilbúinn áburð við framleiðsluna. Það má heldur ekki nota tilbúin rotvarnarefni, litarefni eða bragðefni í lífrænt vottaðar vörur. Svo, dæmi hver fyrir sig. 

Nú reynir því á hið lífræna kerfi sem aldrei fyrr, stenst það þrýstinginn og verður sterkara en áður eða brotnar það í mola þannig að það þurfi að byggja það aftur frá grunni? 


Lífrænt er inn

Organic-food

Það virðist vera talsverð sveifla í þágu lífrænt vottaðrar (e: organic) landbúnaðarframleiðslu hér í Bretlandi. Samkvæmt fréttum eru stórmarkaðirnir, sem ráða nánast því sem þeir vilja, farnir að auka vöruval af lífrænt vottuðum vörum og vilja jafnframt leitast við að lækka verðið. Lífrænt ræktaðar vörur eru oft 20-50% dýrari. Stórfyrirtækin eru með þessu að reyna að bæta sína ímynd, sem er ekki uppá það besta, bæði m.t.t. fákeppni á markaði og m.t.t. slakra gæða þeirrar vöru sem þeir bjóða. Nýja ímyndin er "verndarar jarðarinnar" Sainsburys eru til dæmis að gera tilraunir með moltuvæna poka utanum lífrænt ræktað grænmeti og ávexti, þ.e. poka sem má setja beint í safnhauginn. Af hverju ekki utanum alla vöru? Forstjóri Wal-Mart, sem er móðurfyrirtæki ASDA hér í Bretlandi, fékk áheyrn hjá Karli prinsi af Wales og leitaði hjá honum ráða um hvernig mætti bæta ímynd fyrirtækisins.

Lífrænt vottaður landbúnaður þykir einnig í tísku og bændur í þeim geira eru að meðaltali sjö árum yngri en í hefðbundnum landbúnaði. Auk þess býr lífræni landbúnaðurinn til mun fleiri störf í landbúnaði, bæði við úrvinnslu og markaðssetningu eða 32% fleiri en hefðbundinn landbúnaður skv. skýrslu bresku jarðvegsverndarsamtakanna.

Við kaupum orðið megnið af okkar ávöxtum og grænmeti lífrænt vottað, kaupum bara aðeins minna. Mér líður mun betur að gefa börnunum mínum mat sem ekki hefur verið úðaður æ ofan í æ með skordýraeitri og illgresiseyði. Auk þess er ég ekki frá því að a.m.k. þetta bragðist bara betur. Svo er hætt að kaupa nema smjör sem viðbit.

Varðandi veður þá er fimm daga spáin bara rigning og kólnandi, ýmist léttar skúrir eða miklar skúrir. Þó er nú þurrt inn á milli. Vonandi styttir upp um helgina en þá ætlum við í ferð í bókabæinn á landamærunum, Hay on Wye (w: Y Gelli). Þar munu vera ótrúlega margar bókabúðir, með nýjar og notaðar bækur. 


 


"Matarmílur" og meira um mat

Oreo kex

Hversu langt ferðast maturinn áður en hann er kominn á diskinn? Þetta er ágætis pæling í hinum mjög svo peningastýrða heimi þar sem yfirleitt er ekki greitt fyrir afnot af auðlind eins og lofthjúpi jarðar. Flutningur matvæla fram og aftur um jarðarkringluna telur æði mikið í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Við þekkjum þetta orðið vel á Íslandi þó í lítilli mynd sé, þar sem fiskur er fluttur fram og aftur um landið, mjólk er ekið suður, pakkað og svo norður o.s.frv. Þetta er náttúrulega smáræði miðað við aðra fæðu sem við leggjum okkur til munns. Matarmílur eru því ein af þeim stærðum sem við neytendur þurfum að hafa í huga ef við ætlum okkur að vera upplýst og ábyrg í okkar innkaupum. Kaup á heimafengnu fóðri ku vera best, svo lengi sem eitthvað fóður er þar að hafa. Svo getur vel verið að okkur standi nokk á sama. 

Enn varðandi "trans fat" fituna sem við hökkum í okkur með frönskum kartöflum, djúpsteiktum kjúkling, allskyns sætabrauði o.fl. Það þyrfti að þrýsta á Íslensk stjórnvöld að fara að dæmi danskra og banna alfarið matvæli sem innihalda tilbúna "trans fat" fitu, því slík fita finnst í örlitlum mæli í sumum mjólkurvörum og kjöti. Bann við notkun þessarar lítt hollu fitu þýðir ekki að við þurfum að hætta að borða óhollan djúpsteiktan eða unninn mat, heldur verður hann bara ekki alveg eins óhollur. M.a.s. er hægt að fá Oreo kex sem inniheldur ekki "trans fat" fitu, en almennt er það frekar eitrað. Hér í Bretlandi fóru fyrstu rannsóknirnar fram á skaðsemi svona fitu í upphafi áttunda áratugarins, fyrst í heiminum. Samt eru mjög rúmar heimildir fyrir notkun á henni í matvælum hér í landi. Þess vegna verða það að teljast góðar fréttir að gera á mikið skurk í skólamötuneytum hér í Bretlandi og banna að mestu djúpsteiktan mat. 

Verð að upplýsa að hér er veður ekki uppá það besta, rok og rigning og útlit fyrir að þar verði framhald á í næstu viku. 


Hinn ótrúlegi vandi netverslunar

Netverslun er stórkostlegt fyrirbæri, sitja við tölvuna og velja vöru af mynd eða eftir lýsingu og síðan bara bíða. Eftirvæntingin og tilhlökkunin er mikil en bíðum við, hvenær kemur sendingin, hún kemst ekki í gegnum póstlúguna, það verður einhver að vera heima. En ég veit ekki hvenær þeir koma. Svo skrepp ég út á leikskóla til að ná í dóttur mína og flýti mér heim og viti menn. Lítill miði á gólfinu sem á stendur, "við komum við en það var enginn heima. Hringdu í þetta númer og við reynum að finna sameiginlegan tíma einhverntíma í nánustu framtíð." Þarna er sannleikurinn um netverslun, a.m.k. hvað mig varðar. Reyndar á þetta ekki við um þróaða netverslun þar sem keyptar eru inn matvörur en þar má bóka afhendingartíma, tveggja klukkustunda bil, og vera þá heima. Flestir aðrir aðilar bjóða ekki upp á þessa þjónustu og ef pantaðir eru stórir hlutir sem ekki komast í gegnum póstlúgu, þá er þetta bara happa glappa! Og síðan er undir hælinn lagt hvenær sendingin kemur næst. 

Á meðan netverslun er ekki meiri en raun ber vitni þá hafa netverslanir ekki getu til að bjóða svona afhendingartíma, nema með mikilli skekkju, 2-4 dagar.  Netverslun gerir nefnilega gríðarlegar kröfur á vörusalann. Hann er að þjónusta tímaknappan og kröfuharðan viðskiptavin, sem vill fá sitt strax, heim en eftirspurnin er afar mismunandi, fjarlægð frá viðskiptavini oft mikil og afhendingarkerfið því ekki fært um að vera eins skilvirkt og viðskiptavinurinn vill. 

En þar sem netverslun á bara eftir að stóraukast þá mun þetta batna mikið á næstunni og svo má alltaf fá sér stærri póstlúgu Glottandi


Ávextir og grænmeti á Íslandi

Eftir stutta umhugsun þá er ég á þeirri skoðun að það er eðlilegasti hlutur í heimi að ávaxta- og grænmetisneysla á Íslandi sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Á Íslandi er lakasta úrval þessara fæðutegunda í þessari heimsálfu. Ég vanmet þó ekki íslenskt sumarræktað grænmeti, sem er á heimsmælikvarða að bragðgæðum og hollustu en að öðru leyti er úrvalið og gæðin lélegt. Sem er ekkert skrítið lengst norður í Atlantshafi. Hvort eigi að setja sér önnur markmið er síðan annað mál og þar sem íslensk stjórnvöld eru nú frekar hlynnt miðstýrðri skynsemi þá væri ekki úr vegi að neyslustýra enn frekar í þessa átt með verðstýringum. Það hins vegar segir ekki alla söguna, því gæðin og úrvalið batna ekki mikið við það. 
mbl.is Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra barna og unglinga með því lægsta sem gerist í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af veikindadögum í Wales

Það er nokkuð oft fjallað um slakt heilsufar hér í Wales, einkum í suðurhluta landsins. Að einhverju leyti má rekja þetta til þeirra atvinnugreina sem voru ráðandi hér á fyrri hluta síðustu aldar þ.e. námuvinnslu ýmisskonar þar sem notaðir voru mishollir framleiðsluhættir. En einnig má rekja það til lítt heilsusamlegra lifnaðarhátta, hefði maður þó haldið að það væri ekki lakara hér en víða annarsstaðar í Bretlandi. Í Wales munu tapaðir vinnudagar vegna veikinda vera 8,4 á ári, sem er talsvert yfir landsmeðaltali. Vinnuveitendur vilja almennt meina að 13% þessara veikindadaga sé á fölskum forsendum sem kemur aftur að einu af þeirra megináhyggjuefni á komandi sumri, þ.e. heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Búist er við að margir muni taka sér "veikindaleyfi" til að fylgjast með leikjum Englendinga.Skömmustulegur En á móti kemur að mikið af þeim leikjum er að kvöldi til.

Svakaleg rigning hér í morgun en nú hefur stytt upp með fögrum fuglasöng.  Brosandi


Fótboltadagur í Cardiff

Millenium Stadium

Það er skynsamlegast að halda sig frá miðbænum í dag. Fótboltadagur í Cardiff þar sem bikarúrslitaleikurinn í enska boltanum fer fram á Þúsaldarleikvanginum í dag. Miðbærinn verður troðfullur af fólki í annars vegar rauðum og hins vegar vínrauðum og bláum einkennislitum Liverpool og West Ham. Fánar og húfur, flautur og horn, allir barir troðfullir af fólki. Þetta er í eina skipti sem hinn virðulegi enski bikar yfirgefur enska grund og þykir varla ásættanlegt af hálfu hinnar stoltu ensku þjóðar en þar sem klúður við frágang Wembley, stolts ensku fótboltaþjóðarinnar, hefur haldið áfram þá er ekki um margt annað að ræða. En semsagt, ekki gott að vera með fjölskylduna í miðbænum, nema kannski í u.þ.b. þrjá tíma á meðan fólkið er á leikvanginum. 

Það viðrar vel, kyrrt veður en ekki sól. Það gætu dottið niður skúrir í dag skv. spánni og skýjafari en gott fótboltaveður. 


Blómin í garðinum

Rósmarínrunni

Ég hef áður minnst á garðinn hér hjá okkur en hann inniheldur hinar ýmsu jurtir og sífellt fleiri koma í ljós. Þó ég eigi að heita lærður í íslenskri flóru þá finnast hér tegundir sem ég hef aldrei augum litið og veit ekki hvort myndu teljast hér til illgresis eða til fegurðar og yndisauka. Best að taka þeim því eins og þær eru og sjá til hvort þær verða á einhvern hátt til ama eða bara til yndis. Garðurinn inniheldur m.a. nokkrar kryddjurtir, oregano, sítrónumelis, myntu, timian og stóreflis rósmarín runna, sem sést hér á myndinni. Svo fann ég jarðaberjaplöntur. Ég ætla að reyna að ná myndum af sem flestum blómategundum og svo mega forvitnir lesendur ef einhverjir eru koma með tillögur um tegundagreiningu.

En hér eru þrumur og eldingar á hverju kvöldi eftir mikla hitadaga, á okkar mælikvarða. Það er semsagt góðviðristímabil hér í Cardiff.


Landbúnaðarstyrkjaferð til Swansea

Swansea

Skrapp til Swansea í dag, klukkutíma lestarferð frá Cardiff. Swansea virtist mér ekkert sérstaklega heillandi, gömul iðnaðarborg sem er að reyna að þróast yfir í ferðamannavæna menningarborg en á talsvert í land.

Hitti þar mætan mann að nafni Brian Pawson sem veit allt um styrkjamál í velskum landbúnaði. Hann vinnur hjá Countryside Council of Wales, eða Landsbyggðarráðgjafarstofnun Wales. Hlutverk þessarar stofnunar er mjög margþætt og felur í sér náttúruvernd, upplýsingaöflun um náttúru Wales, ráðgjöf til stjórnvalda, stefnumótun varðandi landnýtingu og landnotkun og landbúnað. Hér er heilmikið batterí í kringum s.n. "Agri-environment" eða landbúnaðar-umhverfis styrkjakerfi þar sem bændur fá stuðning til að vinna að bættu umhverfi í víðum skilningi en fá einnig greitt fyrir að uppfylla s.k. góða búskaparhætti sem kallast "cross-compliance". Að sjálfsögðu er þetta nokkuð flókið kerfi en hefur verið að einhverju leyti við lýði hér í Bretlandi frá því á níunda áratugnum og þróast mikið á þeim tíma. Nú er nefnilega hætt að styrkja beint landbúnaðarframleiðslu en styrkjunum veitt til bænda undir öðrum formerkjum. Til hvers? Jú, Bretland er innan ESB og það er ljóst að þar verða styrkir til landbúnaðar ekki afnumdir í einum hvelli. Einnig er hægt að stuðla að margvíslegri þjónustu fyrir samfélagið eins og t.d. vatnsvernd, aukna líffræðilega fjölbreytni, bætt aðgengi almennings að náttúrunni, viðhald menningarlandslags, viðhald erfðaauðlinda og svo mætti lengi telja. Bændur þurfa að sækja þessa styrki en fá þá ekki fyrirhafnarlaust, sem verður að teljast kostur. Hér í Wales eru rúmlega 20 þús. bændur sem þiggja styrki af opinberu fé og sameiginlegu fé ESB. Meira um þetta síðar.

En hér er annars búið að vera þrumuveður í allt kvöld og ljósagangur mikill í lofti. Gott fyrir gróðurinn. Ósköp hlýtt hérna og notalegt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband