Doctor Who

Þetta eru stórfurðulegir þættir, með sögulegum tilvísunum og vísindaskáldskapsyfirbragði en afar barnalegir, svolítið eins og unglingaþættir. En þetta fellur í kramið hjá breskum sjónvarpsáhorfendum. Við Íslendingarnir í þessu húsi höfum ekki alveg náð takti við þetta efni, kannski venst það en sumt af breska sjónvarpsefninu sem er búið að vera í mörg ár og mjög vinsælt, nær maður ekki alveg. Kannski missti maður bara af byrjuninni og þá er ekki hægt að ná taktinum. Sjá frétt.
mbl.is Þættir BBC sópuðu til sín Bafta-verðlaunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust og neytendavernd

Traust hefur alltaf verið grundvöllur þess að samfélög gangi upp. Þátttakendur í samfélaginu þurfa að geta treyst hver öðrum, þeir sem gegna ákveðnum hlutverkum er treyst til að sinna þeim o.s.frv. Í dag er skortur á trausti að éta samfélög innanfrá. Traust á stjórnmálamönnum fer þverrandi, traust á fjölmiðlum er á þunnum ís og traust á hinum ýmsu stofnunum samfélagsins er rýrt. 

Heimsviðskipti með vörur eru orðin staðreynd og við höfum misst sjónar á uppruna hinnar ýmsu vöru sem við kaupum í næstu búð. Það er sjaldnast lengur þannig að við komum við hjá slátrara og kaupum kjöt af lambi sem hann slátraði eftir að hafa keypt það af bónda í nágrenninu. Ávextir og grænmeti ferðast þvers og kruss um heiminn og hending í hvaða heimsálfu það er borðað og ekki gott að segja til um aldur á vörunni þegar hún er komin í áfangastað. Þetta allt hefur margþætt áhrif. Fyrir umhverfið þá getur þetta verið frekar óhagstætt, eykur t.d. losun gróðurhúsalofttegunda vegna mikilla flutninga. Einnig eykur þetta vægi stórfyrirtækja sem framleiða hina ýmsu vöru t.d. ávaxta á kostnað smáframleiðenda. Oftast fylgja því vafasamir framleiðsluhættir, sem hafa það markmið að lækka framleiðslukostnað. 

Vegna þess hversu langur tími getur liðið frá því uppskera á ferskri vöru fer fram uns hennar er neytt, þá kallar það á aðferðir við að auka geymsluþol. Slíkar aðferðir eru vel þekktar og mögulegar. Áhrif þeirra á heilsu manna eru hins vegar ekki eins vel þekkt. Íslendingar njóta slíkra aðferða í ríkum mæli, enda um langan veg að flytja.

Annað tengt uppruna og framleiðsluháttum er að á síðustu öld átti sér stað gríðarleg framleiðsluaukning í heiminum, einkum afleiðing breyttra aðferða við ræktun, og úrvinnsla á vöru jókst gríðarlega. Hinum og þessum aðferðum hefur verið beitt og þar sem ekki hafa komið í ljós hraðverkandi eituráhrif á heilsu manna þá hefur þessum aðferðum verið beitt áfram, í þágu lægri framleiðslukostnaðar. Við vitum ekki til fullnustu hvaða áhrif vinnsla á hinum ýmsu vörum hefur á heilsu manna. Dæmi: hefðbundin vinnsla á jurtaolíum,  sem ég skrifaði um hér um daginn, vinnsla á mjólk og mjólkurafurðum, vinnsla á sykri og svo má lengi telja. Eiturúðun á jarðargróða eins og ávexti og grænmeti. Við erum sumsé að láta ýmislegt ofaní okkur sem okkur er ekki eðlilegt að neyta og við vitum ekki hvaða áhrif hefur. Traust á matvælaframleiðslu er að minnka eftir því sem uppruninn færist fjær okkur. Þess vegna hafa orðið til s.k. upprunamerkingar. Merkingar sem eiga að tryggja að vara sem við kaupum standist tilteknar kröfur. Neytendavernd virðist illa í stakk búin til að takast á við svona stórmál, enda við gríðarlega hagsmuni að etja, stórfyrirtæki um allan heim. Í stað þess snýst neytendaverndin um að skoða merkingar um síðasta söludag og verð. Það er ekki kafað dýpra, enda er þekkingin takmörkuð. 

Með hliðsjón af þessu þá eru einkum tvö atriði sem nútímamaðurinn ætti að hafa í huga við fæðuöflun:

Að neyta lítið unninnar vöru.

Að neyta vöru sem ekki hefur verið flutt langa leið. 

Þetta kallar á meiri vinnslu vörunnar heima í eldhúsi og e.t.v. að sleppa því í einhvern tíma að kaupa hráefni sem er orðið margra mánaða gamalt en til lengri tíma litið eru þessi tvö atriði sennilega þau heilsusamlegustu sem hægt er að hafa á oddinum þegar farið er í kjörbúðina. 


Reikningar, uppsagnir og lundi

Reikningar fyrir veitta þjónustu hér í Wales gera yfirleitt ráð fyrir ýmisskonar greiðslumáta. Það er hægt að greiða þá víðsvegar, t.d. á pósthúsum og í flestum bönkum, þó er það ekki öruggt. Auk þess má skrifa tékka og senda, greiða þá á netinu sé maður með viðeigandi greiðslukort o.fl. Heima á Íslandi er á reikningum getið um gjalddaga og eindaga. Hér fær maður upplýsingar um það að greiða eigi reikninginn þegar í stað. Kannski er það bara best, annars frestast greiðslur eða gleymast.Skömmustulegur

Uppsagnir í alifuglavinnslu hér í Wales komust í fréttirnar. Ekki beinlínis vegna áhrifa fuglaflensunnar á markaði en einhverjar sögusagnir eru um niðurgreiðslur til erlendrar alifuglaframleiðslu, sem komi niður á framleiðslu hér í landi. Einhverntíma hefðu þetta í sjálfu sér ekki þótt fréttir, fyrirtæki í lélegum rekstri segja gjarnan upp starfsfólki, hagræðing heitir það. En þarna gæti þó verið merki um áhrif fuglaflensufársins.

Í eyjunum hér í Wales er lundi víst nokkuð algengur, t.d. í Skomer Island hér skammt frá Cardiff. Þetta þarf maður endilega að skoða betur, sem þýðir jú sjóferð en það er boðið upp á slíkt nokkuð víða með ströndinni. 

Ég bætti við nokkrum myndum á netið, sumar gefa hugmynd um ásýnd miðbæjar Cardiff, aðrar ekki.

Að lokum, ég verða að vera nokkuð ánægður með mína menn. Tryggt sæti í meistaradeildinni á næsta ári, jafnvel með meistaratignina á bakinu.

 


Útfjar

Nú hefur aldeilis dottið botninn úr gestakomum hér á Everard Way. Ekki útlit fyrir að nokkur sæki okkur heim fyrr en seint í sumar. Kannski er það líka ágætt. En þetta er búið að vera mjög gaman, fátt er eins gaman og að fá góða vini í heimsókn.

Það sem hefur gerst hérna síðustu daga telst nú til nokkurra tíðinda. Ráðinn var enskur þjálfari en enskir fótboltaáhugamenn sýna þeim nýja ekki mikinn stuðning til að byrja með. Hann verður að vinna fyrir þeirra velvild. Merkilegt hugarfar. Formaður nefndar enska knattspyrnusambandsins sem sá um valið sagði að mikill leki hefði verið frá nefndinni og því enginn vinnufriður, dálítið klúðurslegt.

Charles Clarke, innanríkisráðherra er nú orðinn fyrrverandi innanríkisráðherra, einhver uppstokkun hjá Blair, plástrar á sárin eftir hrikalega útreið í sveitarstjórnarkosningum þar sem Íhaldsmenn bættu miklu við sig. Tony kallinn er við það að steyta á skeri.

Veðrið hefur verið uppá það besta hérna síðustu daga, 20 stiga hiti og sól. Svona veður fer náttúrulega misvel í fólk, vel í flesta en þeir sem eru ljósir á hörund og með rautt hár eru svona la la hrifnir af þessu.


Draugabæir og keppir

Hvert fóru allir?

Skemmtilegur þáttur á BBC í gærkvöldi sem fjallaði um bæi hér og þar á Bretlandi sem eru að breytast í draugabæi. Fjáðir einstaklingar kaupa upp hús í bæjum sem þykja sætir og vistlegir á sumrin og nýta sem sumarhús. Það kveður svo rammt að þessu að þar sem meðallaun eru hvað lægst í Englandi er fasteignaverð hvað hæst. Afleiðing, íbúarnir hafa ekki efni á hefðbundnu húsnæði en lenda í félagslegu kerfi, sem er ekki upp á marga fiska. Hvað svo? Jú, nú fækkar íbúum og bæirnir sem voru svo sætir með skemmtilegu mannlífi eru orðnir draugabæir, þar sem er ekkert mannlíf nema kannski yfir hásumarið. Þá væntanlega lækkar fasteignaverð aftur. Hvað á að gera? Sennilega ekki neitt, nema að skattleggja þetta húsnæði að fullu til að bæta félagslega kerfið. En óvíst að það dugi til, við þekkjum öll skilvirkni hins opinbera, hraði snigilsins. 

Hvað í ósköpunum er það sem fær ungar konur til að sýna á sér magakeppi með því að vera í stuttum bolum og buxum þröngum í mittið? Lengi vel hélt ég að þetta væri einhver misskilningur af minni hálfu en svo er ekki, þetta er svo algengt að um misskilning er ekki að ræða heldur eitthvert tískuslys. Meira að segja ungar stúlkur, tiltölulega nettar ná að mynda keppi með þessum klæðaburði. Í guðanna bænum hættið!


Meiri flensa og 3 H

Álftahjón við Roath Lake

Úpps! Nú er komin flensa í kjúklinga í Norfolk. Þarf að taka hausinn af ca 35 þús. stk.  Þetta er þó sennilega stofn H7N7 en ekki H5N1. Álftahjónin sem eru með hreiður hér niður við vatn kæra sig kollótt og ætla að fjölga í stofni staðbundinna svana. Flestir voru orðnir mjög rólegir yfir þessum fuglaflensumálum hér enda var svanurinn sem fannst dauður í Skotlandi ekki breti, eða svo segja sérfræðingarnir.

Eldri borgarar hafa risið upp á afturfæturna hér í nágrannabyggð í Caerphilly og mótmæla auglýsingaherferð sem sveitarfélagið stendur fyrir um "taboo" eins og kynheilsu fólks yfir 50 ára. "Happy, health and horny" eru slagorðin sem birtast á veggspjöldum um alla borg og á strætó og hefur þetta vakið mikil viðbrögð, einkum orðið "horny", sem þykir varla boðlegt í þessum aldurshópi. 

Annars er mest talað um tvennt í fjölmiðlum hér. Annað eru hneykslismál tengd þremur ráðherrum í ríkisstjórn Verkamannaflokksins,  enda er ríkisstjórnin kölluð "sleazy" en það orð var einmitt notað til að lýsa stjórn Íhaldsflokksins á sínum tíma. Minnir aðeins á umræðu um valdaþreytu á Íslandi. Hitt er ákvörðun enska knattspyrnusambandins um að bjóða hinum brasilíska Scolari stöðu landsliðsþjálfara. Flestir enskir þjálfarar eru frekar óhressir með þetta en aðrir yppa öxlum. Eitt er víst og það er að enskur almenningur vonaðist eftir enskum þjálfara eftir lítið afgerandi Sven G Eriksson. 


Titrandi hendur

Viðurkenni fúslega að leikurinn í gærkvöldi var mér afskaplega erfiður sem Gunners manni. Hissa Segi ekki beint að þeir hafi verið lélegir en þeir voru ekki mikið réttu megin miðlínu og ólíkir því liði sem hefur spilað síðustu leiki í Meistaradeildinni. Kipptist nokkrum sinnum við og mest þegar Lehmann tók á honum stóra sínum.  

Nú sé ég fram á að þurfa að fá mér hjól, hlaupin hafa vakið upp gömul meiðsl í hnénu og þetta virkar ekki lengur. Hjól með keðjunni vinstra megin, eða..... 

Annars er hér blíða upp á hvern dag, 15-17 stig og sól. Íslendingar eru allt í einu hér á hverju strái, ekki að spyrja að nýlendustefnunni. En það er gaman að hitta landa sína í útlöndum. 


Nú er nóg komið!

cigs

Ég er búinn að fá nóg. Það er fólk út um allan heim að framleiða mat, samsettan úr hinu og þessu. Pakkar honum síðan í fallegar umbúðir og passar að hann sé líka fallegur á litinn. Auglýsir í sjónvarpi, þetta er hollur matur sem gerir þér gott og þú ert ekki nema 5 mín. að elda. Bullshit!

Nánast allur matur sem er mikið unninn og nánast tilbúinn til neyslu í neytendapakkningum inniheldur vond meðul þ.m.t. flestur skyndibitamatur.

Las því miður grein eftir Mike Furci nokkurn og varð illt af: http://www.bullz-eye.com/furci/2006/fats_lipid_hypothesis.htm

Hann ræðst þarna á unnar olíur, sem eru í nánast öllum unnum mat, auk þess að vera tappað beint á flöskur handa okkur. Líkir þeim við eitur. Eru ein af meginorsökum aukinnar tíðni hjartasjúkdóma í mönnum en jafnframt búnar til af mönnum. Skilgreint magn sem óhætt er að hafa í matvælum 0. Mælir heldur með dýrafitu t.d. hreinu smjöri, óunnum mat, kaldhreinsuðum olíum o.s.frv. Lesa alltaf innihaldslýsingar. Hann gefur ameríkönum ekki háa einkunn hvað varðar mataræði, sem kemur ekki á óvart en hver líti sér nær. Þeirra lausn er að auka lyfjaneyslu til að laga einkennin, skv. ráðleggingum sérfræðinga, sem eru nátengdir lyfjaframleiðendum.

Og það eru fleiri á sama máli:

http://www.recoverymedicine.com/hydrogenated_oils.htm 

Meira að segja ein síða sem er sérstaklega tileinkuð banni við notkun unninnar fitu:

http://www.bantransfats.com/ 

Þetta er ágætis lóð á vogarskálarnar, nú heldur maður áfram að skera niður ýmisskonar pakkavörur og rýnir enn betur í smáa letrið á umbúðunum. Ekki að ganga í klaustur eða svoleiðis. Við verðum bara að færa okkur aftur í sveitamatinn, ekki endilega súran og kæstan, en bestur "beint af beljunni" og beint úr garðinum. 

 


Knattspyrnumaður ársins til Caerdydd

Ekki amalegt að fá þennan nýkjörna knattspyrnumann ársins í Englandi til Cardiff eða Caerdydd. Það er gaman að fara á Þúsaldarleikvanginn, örstutt frá brautarstöðinni ca 500 m. Miðbærinn troðfullur af stuðningsmönnum beggja liða í öllum einkennislitum, pöbbarnir þéttsetnir og rífandi stemmning. Mikið sungið og blásið í lúðra. En þessi færsla er annars prufa á nýjum "fítus", blogga frétt. Sjáum til hvernig það lítur út.
mbl.is Gerrard mjög stoltur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

FACUP

Wiley (BBC)
Nú er ljóst hverjir koma hingað til Cardiff að keppa til úrslita í FA bikarnum þann 13. maí. Liverpool og West Ham, svolítið óvænt en ágæt tilbreyting. Ég reikna nú síður með að fara á leikinn enda búinn að selja sálu mína einu sinni með því að ganga í ManU klúbbinn, nema einhver bjóði mér. Gæti verið leiðsögumaður á svæðinu. Þekki slatta af "púlurum" á Íslandi sem langar örugglega að fara. Svo verður sennilega sami dómari og á Carling cup úrslitaleiknum, Alan Wiley. Búið var að útnefna Mike Dean sem dómara en hann býr í úthverfi Liverpool og bæði liðin mótmæltu. En sem sagt, hér verður líf og fjör þann 13. maí n.k.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband