Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Öfundsverð?

Hjúkrunarfræðingar fagna væntanlega þessari ráðningu. Hvort hins vegar Hulda er öfundsverð af þessu starfi er annað mál. Eitt er víst, það er mjög ögrandi og það verður spennandi að fylgjast með hvort hjúkrunarfræðimenntuðum einstaklingi gangi betur að rífa upp stemmninguna í hinum vanmönnuðu og undirborguðu umönnunarstéttum á spítala sem er tákn heilbrigðiskerfisins hér á landi.  
mbl.is Hulda forstjóri Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sameiginlegt mat

Ég er hlynntur því í öllum meginatriðum að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og ætlunin er að fara í á Bakka. Eftir lestur á úrskurði umhverfisráðherra finnst mér hins vegar rök ráðuneytisins ekkert sérstaklega sterk, einkum að teknu tilliti til þess hvernig Skipulagsstofnun hefur staðið að málinu, sem mér finnst til fyrirmyndar. Þar var komið á mjög efnilegu samráði allra aðila sem miðaði að því að allir þættir fyrirhugaðra framkvæmda væru í gangi á sama tíma, sem myndi auðvela öllum að hafa yfirsýn yfir málið þ.m.t. umsagnaraðilum, Skipulagsstofnun og almenningi. Og það eru í raun meginrök ráðuneytisins að Skipulagsstofnun skortir lagastoð til að þvinga alla framkvæmdaraðila til slíks samráðs.

Ég vil hins vegar benda á það að á Bakkanum hinumegin á landinu fór fram sameiginlegt mat fyrir tvær tengdar framkvæmdir, Bakkafjöruhöfn og Bakkafjöruveg. Þar hefði mátt meta áhrif hafnarinnar sér og vegarins sér, sem hefði í sjálfu sér verið fáránlegt.

En ég á erfitt með að ímynda mér að þessi úrskurður breyti í raun miklu þó að sameiginlegt mat eigi e.t.v. eftir að kristalla betur erfiðleikana við að finna næga orku fyrir álverið.

En nú ætla ég að koma mér út í góða veðrið.


Erfið samningsstaða

Hjúkrunarfræðingar eru í þeirri afleitu stöðu að boði þær vinnustöðvunskapast neyðarástand, þannig að kalla má þær til vinnu. Þær eru því ekki í góðri stöðu til að þrýsta á um launahækkanir. Yfirvinnubann yfir sumartímann mun væntanlega hafa lítil áhrif og reyndar skapa ýmisskonar erfiðleika fyrir hjúkrunarfræðinga sjálfa. Eina leiðin sem virðist vera fær, samanber aðgerðir skurðhjúkrunarfræðinga í vor, er að leggja niður störf, segja upp. Þá kemur loksins í ljós hvers virði þessi stétt er velferðarsamfélaginu svokallaða. Hjúkrunarfræðingar hafa gefið skýr skilaboð um að þessi 20 þúsund kall sem ríkið býður er óásættanlegur. Það er ekki eftir neinu að bíða.
mbl.is Engin niðurstaða á fundi hjúkrunarfræðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið rætt um landbúnað

Það er gleðilegt hversu mikil umræða er um landbúnað á Íslandi þessa dagana. Fæðuöryggi, hækkun matvælaverðs, verðmæti landbúnaðarlands, markmið opinbers stuðnings við landbúnað o.s.frv. Þetta er afar holl umræða, ekki bara bændum heldur öllum Íslendingum.

Nokkur atriði:

  • Hér á landi verður landbúnaður seint samkeppnishæfur í verði við landbúnað í öðrum löndum.
  • Staða Íslendinga getur orðið slæm skerðist samgöngur og flutningar til landsins.
  • Úrval innlendrar landbúnaðarframleiðslu er fremur fábreytt og ber að hafa það í huga að framleiðsla á mjólk, kjúklingum og svínakjöti byggir að talsvert miklu leyti á innfluttum fóðurvörum.
  • Hinn hluti fóðurframleiðslunnar á Íslandi byggir að stórum hluta á innfluttum áburði.
  • Íslendingar eru því fjarri því að vera sjálfum sér nægir um fæðuframleiðslu.
  • Íslenskur jarðvegur, jarðhiti og sólin mynda því grunninn að íslenskum landbúnaði auk þekkingar.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að breyta þurfi stuðningi við íslenskan landbúnað. Það byggir ekki á því að matvælaverð er alltof hátt hér á landi heldur tel ég íslenska bændur vannýtta sem auðlind. Með því að binda meginhluta stuðnings við tvær framleiðslugreinar þ.e. kindakjöt og kúamjólk er settur hemill á nýsköpun í þessari atvinnugrein. Hvernig sem það er útfært þá tel ég að ef bændur eiga að njóta stuðnings fyrir eitthvað þá er það að halda íslensku landbúnaðarlandi við, rækta það og búa eitthvað til, fæðu eða klæði, einhver verðmæti. Ekki endilega kúamjólk eða kindakjöt. Ég þekki rökin gegn þessum breytingum, að eftirlit með þessu sé dýrt miðað við núverandi kerfi. Það má vel vera en það þarf líka að hafa í huga hver markmið núverandi styrkjakerfis er og hvernig okkur er að takast að ná þeim markmiðum.


Svigrúm fyrir kosningar

Reglur um sveitarstjórnarkosningar þyrftu að gefa kost á því að íbúar í bananasveitarfélögum geti farið fram á kosningar. Illa er farið með skattféð og traust á sveitarstjórnarmönnum væntanlega ekki á háu stigi.


Tilvitnun síðustu viku

Eftirfarandi er tilvitnun í orð Kevin Conrad, fulltrúa Papúa Nýju Gíneu, sem hann beindi að Paulu J. Dobriansky, fulltrúa Bandaríkjanna á ráðstefnunni í Balí í síðustu viku:

"If you cannot lead, leave it to the rest of us. Get out of the way." 

Þetta var víst í takt við stemmninguna eftir yfirlýsingu Dobriansky um að BNA væru ekki tilbúin að láta skuldbinda sig til aðstoðar við þróunarríki. Sjá m.a. Washington Post.


Þörf ábending

Það er gott þegar einhver gefur sér  tíma til að reikna. Það er sjálfsagt auðvelt að bera brigður á þessar niðurstöður en það er hins vegar staðreynd og þörf á að vekja athygli á því að þær aðferðir sem notaðar eru við fæðuframleiðslu í heiminum eru orsök mjög stórs hluta af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta á einkum við fæðu sem kemur úr þauleldi eins og kjöt af ýmsum toga. Þess vegna kemur maður að því enn og aftur að neysla á fæðu sem er neðar í fæðukeðjunni s.s. grænmeti og ávöxtum orsakar minni losun. Eftir því sem hlutfall þessarar fæðu eykst á kostnað þessara þauleldiskjöttegunda þá minnkar losun. Hins vegar má ekki setja samasemmerki á milli allra kjöttegunda. Dýrategundir sem ganga úti og éta gras mestan hluta ársins eru sennilega umhverfisvænstar, svo fremi þær valdi ekki ofbeit og þannig losun. Þær nýta sér gróður sem maðurinn getur ekki nýtt sér og oft er um að ræða búskaparhætti sem valda ekki miklu álagi á umhverfið. Búskapur sem byggir á því að ala gripi á kornmeti, sem maðurinn gæti nýtt sér beint, kemur yfirleitt lakar út í þessum samanburði. Eitt hef ég þó lært á minni stuttu ævi og það er að alhæfingar eiga afar sjaldan við. Þær geta hins vegar verið ágætar til að vekja athygli á tilteknum málum.

Annar þáttur tengdur fæðu sem ræður miklu um losun gróðurhúsalofttegunda er flutningur fæðunnar frá brunni að grunni, frá uppruna til neytanda. Það eru ein mjög góð og gild rök fyrir upprunamerkingum fæðu. T.d. er almennt umhverfisvænna fyrir fólk búsett á Íslandi að neyta fæðu sem framleidd er á Íslandi, kannski ekki algilt en á við í flestum tilvikum. Semsagt, nær-ætur (locavores) sameinumst!


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrr um Bitru

Það er ekki laust við að það sé gaman að þessari umræðu um Bitruvirkjun. Ýmislegt bendir til þess að virkjunin fái kannski ekki jákvæða einkunn frá Skipulagsstofnun, þó svo það sé ekki lokadómur í málinu. Eins og ég hef bloggað áður þá er ýmislegt hliðstætt með Bitru og Grændal, en þar hafnaði Skipulagsstofnun rannsóknaborun á sínum tíma. Þetta gæti því orðið mjög merkilegt mál í viðfangsefninu lýðræði/umhverfi, á hverju sviði við Íslendingar erum að fóta okkur eins og nýfæddir kálfar. Mér sýnist framför í þessu hjá okkur.
mbl.is Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins farinn að hjóla

Það er reyndar þónokkuð síðan ég hjólaði fyrstu ferðina í vinnuna en hef sumsé ekkert bloggað ansi lengi. Þetta er fín leið í gegnum Seljahverfið, Elliðaárdalinn, yfir Miklubraut, framhjá Glæsibæ, niður Laugardal, gegnum Teigana, yfir Kringlumýrarbraut, inní Túnin og kominn! Þetta eru tæpir 10 km og tekur 25 mín að hjóla. 

Nú kemur reyndar í ljós að ég á ansi lélegt hjól því þegar fer að reyna eitthvað á kvikindið þá bilar eitthvað. Þannig er gírskiptihandfangið búið að brotna, sprungið einu sinni og gírarnir orðnir ansi ruglaðir. Þetta stendur þó allt til bóta og ég ætla að hjóla öðru hverju á meðan ekki er snjór og hálka. Nenni ekki að skipta yfir í nagla.

En af þjóðmálunum þá velti ég því fyrir mér á hvaða gríðarlegu þekkingu á jarðhitamálum Íslendingar ætla að byggja í þessari útrás. Mér vitanlega er afar takmörkuð menntun í boði hér á landi á þessu sviði og fáir sérfræðingar sem eru einhvers megnugir á þessu sviði. Þetta er reyndar umhugsunarefni fyrir háskólana alla, hvort ekki ætti að leita til orkufyrirtækjanna um stuðning við kennslu á sviði jarðhitanýtingar til að byggja upp stærri hóp sérfræðinga á þessu sviði hér á landi.

Varðandi umhverfismálin, þá er ég afar ánægður með að margir láti sig þau varða eins og Bitruvirkjun ber vitni um. Það má líta til úrskurðar Skipulagsstofnunar vegna rannsóknaborholu í Grændal í þessu samhengi en Skipulagsstofnun lagðist gegn þeirri framkvæmd, þó umhverfisráðherra leyfði hana með skilyrðum. Bitruvirkjun er í raun ekki svo ólíkt mál, mikil náttúrufegurð, mikil útivist og ferðamennska, líffræðileg fjölbreytni o.s.frv. En pólitík er kannski full fyrirferðamikil í ákvörðunarferlinu, nema lýðræðið komi til bjargar. Við sjáum að sveitarfélög á Suðurnesjum vilja t.d. ekki raflínur í sínu landi. Það er kannski lítill vísir. 


Gjaldfrjáls strætó

Nú hef ég hingað til ekki verið talinn til sjálfstæðismanna. Í þetta sinn get ég þó tekið undir með þeim. Málið nefnilega snýst ekki um hvort almenningssamgöngur eru "ókeypis", því ekkert er ókeypis. Málið snýst auðvitað að nokkru leyti um upphæð gjaldtöku en einnig um þjónustu og gæði hennar. Ég er mikill strætómaður og legg mitt af mörkum til að nýta þá þjónustu. Ég keypti mér níu mánaða kort og hugsa því lítið um gjaldið nema að því leyti að ég reyni nú að nýta þjónustu strætó við hvert tækifæri. Það sem nú vantar uppá er að strætó geti boðið upp á skilvirkari þjónustu, tíðari ferðir og meiri hraða. Almenningssamgöngur þurfa að vera jafn- og helst skilvirkari en einkabíllinn. Ég þarf að vera jafnfljótur og helst fljótari með strætó í vinnuna en á einkabílnum. Þá er björninn unninn. Upplifi einkabílistinn að strætó fari frammúr á Kringlumýrarbrautinni, þar sem strætó ætti að vera með forgangsrein, þá gæti hann byrjað að forgangsraða upp á nýtt. 

Ég legg því til að í stað þess að strætó sé gjaldfrjáls þá verði skattpeningar nýttir í að bæta við forgangsreinum á helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fjölga leiðum með tíðari ferðir, hálftíma bið getur orðið til þess að fólk verði úti eða kaupi sér bíl.  


mbl.is Álykta gegn hugmyndum um gjaldfrjálsan strætó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband