Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Grænþvottur

Grænþvottur eða "Greenwash" er eitthvað sem á við að minna á um þessar mundir. Um er að ræða fyrirbrigði sem snýst um það þegar fyrirtæki, einstaklingur, hópur eða stofnun kynnir sig og ímynd sína sem umhverfisvæna eða græna en að baki liggur götótt stefna sem heldur ekki vatni sé grannt skoðað. Umræða um grænþvott er ekki ný af nálinni en á síðustu og bestu/verstu tímum er hún mikilvægari en nokkru sinni. Allskyns tónar af grænu eru kynntir til sögu, vinstri grænir, hægri grænir, grænir bílar, græn hús, græn orka o.s.frv. Þessi græni litur getur síðan þvegist af í fyrstu rigningarskúr. 

En hvernig kemst svona lagað upp, að græn stefna sé ekki græn? Kannski veit viðkomandi ekki betur og heldur grænleika sínum fram í góðri trú. Þekking og/eða tækni er kannski ekki komin lengra. Eða um er að ræða einlægan brotavilja, eða hvíta lygi.

Blaðamenn og frjáls félagasamtök eru þeir ásar sem eru helst líklegir til að koma upp um grænþvott. Blaðamenn með rannsóknum og frjáls félagasamtök með sérfræðinga innan sinna vébanda sem sjá í gegnum plottið. Neytendur þurfa síðan að hafa öryggi á oddinum því blekkingar snúa ekki eingöngu að verðlagningu, magntölum og útliti, heldur líka grænni ímyn. Stöðluð vottunarkerfi eru til þess gerð að koma í veg fyrir grænþvott en þau eru ekki til á öllum sviðum. Hér á landi er þörf á öflugu aðhaldi þegar fyrirtæki og reyndar stjórnmálaflokkar, hver af öðrum, kynna sig sem græn.


Breytt stjórnarráð

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að fá óstaðfestar fregnir í óáreiðanlegum fréttamiðlum eins og visi.is og Fréttablaðinu. Það vakti hins vegar blendin viðbrögð hjá mínum vinnufélögum og reyndar fleirum að sjá þar svart á hvítu í síðustu viku að okkar málaflokkur yrði vistaður undir umhverfisráðuneytinu en ekki landbúnaðarráðuneytinu. Hjá mér voru viðbrögðin svosem ekki blendin. Ég hef lengi beðið eftir breytingum í þessum málaflokki öllum og þó það væri ekki nema breytinganna vegna þá væri gott að fá nýtt ráðuneyti, ný sjónarmið og nýtt fólk. Það má lengi ræða það hvort landgræðsla eigi heima undir umhverfisráðuneyti. Gróðurverndarstarf, gróðureftirlit, stöðvun landeyðingar, fræðslustarf og endurheimt vistkerfa má auðveldlega rökstyðja að eigi heima undir umhverfisráðuneytinu. Landgræðsla hefur lengi verið mjög landbúnaðarmiðuð, átt áherslur talsvert undir hagsmunaaðilum innan þess geira og lagabreytingar háðar þeim sjónarmiðum. Þess vegna m.a. eru núverandi lög frá 1965. Sjónarmið og aðstæður hafa hins vegar mikið breyst og full ástæða til að stokka upp málaflokkinn. Það eru ekki næg rök að stærstur hluti landsins sé í eigu bænda. Bændur vinna manna mest að uppgræðslu lands. Það er ekki bara af því að þeir eru góðir menn, heldur sjá þeir sér hagsmuni í því sem atvinnurekendur. Það þjónar síðan hinum heildrænu hagsmunum að þeir vinni að þessum málaflokki, landi, þjóð og sjálfum sér til hagsbóta. 

En ég mun ekki harma það ef málaflokkurinn landgræðsla fer undir umhverfisráðuneytið. Hrósa hins vegar ekki fyrr en ég sé það gerast. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra skorti þrek og þor til að klára eins lítið mál og sameiningu landgræðslu og skógræktar. Núverandi ríkisstjórn þarf að þora og horfa fram hjá sérhagsmunum ef málið á að ná í gegn. 


Dear Elsa, hættu núna!

Eftir markvissar umræður þriggja eiginmanna jafnmargra hjúkrunarfræðinga þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að kjarabarátta hjúkrunarfræðinga hefur minna en engan árangur borið. Þetta þýðir jafnframt það að forysta hjúkrunarfræðinga hefur brugðist þeim í því að berjarst fyrir því að fagstéttin húkrunarfæðingar fengi þá viðurkenningu sem henni ber. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart að forystunni mistekst að brjótast út úr hinni hefðbundnu skilgreiningu á starfinu. Kennarar eru annað dæmi. Hjúkrunarfræðingar eru stórkostleg stétt sem heldur samfélaginu saman þegar eitthvað bjátar á hjá okkur hinum "almenna Jóni".  Þær, því langflestar eru þær konur, sinna okkur af fagmennsku, greina það sem okkur bagar, hlusta á vælið í okkur, og segja okkur hvenær rétt sé að koma okkur af stað aftur í vinnu. Enginn hefur sinnt því að meta ávinninginn af starfi þessa fólks en þess í stað einbeitt sér að kostnaðinum. Því segjum við það, þrír eiginmenn jafnmargra hjúkrunarfræðinga, skiptið um forystu í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sóknarfærin eru fyrir hendi, lítið á ykkur sem vel menntaða fagmenn og fyllið stétt ykkar stolti. Við, þessir þrír eiginmenn, hvetjum alla sem staddir eru í svipuðum sporum að setja inn athugasemd, því það er okkar mat að nú sé kominn tími fyrir nærstadda að taka höndum saman og knýja á um nýja forystu í félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga svo kjarabaráttan skili einhverjum árangri. Látið í ykkur heyra. 

Fjölmiðlabann

Það er voða lítið um að blogga þessa dagana. En eitt stendur niður úr öllu, stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun. Í raun ætti að bjarga fólki sem fylgist með fjölmiðlum frá þessu dæmalaus bulli sem er kallað stjórnmál á þessum tíma árs með því að setja a.m.k. alþingismenn og verðandi alþingismenn í fjölmiðlabann. Ef þetta lið hefur áhuga á að tjá sig við þjóðina þá skuli það vinsamlegast horfa í augun á viðmælandanum og ljúga þannig upp í opið geðið á kjósandanum en ekki nota fjölmiðlafjarlægðina. 

Stjórnmál hér á Íslandi, og reyndar víða, eru svo lágkúruleg að það nær ekki nokkurri átt. Og fjölmiðlar spila með, yfirborðskennd fréttamennska, alltaf hægt að sjá fyrir umfjöllunina, hægt að spila á hana.

Sem sagt, gefum alþingismönnum frí strax, áður en þeir afgreiða fleiri loddaralög, og leyfum þeim að berjast fyrir atkvæðunum úti í raunverulegum heimi. 


Skógvarsla

Gott hjá kolleggum hjá Skógræktinni. Alveg ljóst að þetta er rétt að byrja og eins gott að taka á móti strax, jafnvel þó í hlut eigi ekki minni menn en Villi Vill og Gunnar Birgis. Maður þarf að koma sér upp hatti.

mbl.is Skógrækt ríkisins kærir röskun á skóglendi í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur siðgæðisverðir þjóðarinnar

Ég tæki nú ofan ef ég hefði hatt á höfði. Hvað sem líður lögmæti eða ekki lögmæti klámefnis þá ber þessi ákvörðun vott um talsverðan siðferðisstyrk bændastéttarinnar. Tel ég miklar líkur á að talsvert verði kveðið um þetta á komandi Búnaðarþingi, á Hótel Sögu.
mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar að baki McDonalds

Nú hefur McDonald's loksins tekist að finna hina réttu blöndu af djúpsteikingarolíu fyrir kartöflurnar, rétt bragð og trans-fats laus. Þetta hefur tekið sinn tíma og þegar þessi heimsþekkti framleiðandi óhollustu sér sinn kost vænstan til að taka sig á þá hlýtur að vera rík ástæða til. M.a. að New York borg hefur ákveðið að banna trans-fitur frá og með júlí á þessu ári. Wendy's hafa þegar náð því markmiði að útiloka trans-fitur og KFC eru á góðri leið með það. Ekki svo að skilja að þá verði um einhverja hollustuvöru að ræða, eingöngu tekið á einu afar miður heilsusamlegu atriði.

En það sem vekur athygli mína er hversu aftarlega Íslendingar sitja í þessari umræðu. KFC með afar hátt hlutfall trans-fitu hér á landi og með ólíkindum að ekki sé gert að skilyrði að, í fyrsta lagi að merkja innihald af trans-fitu og í öðru lagi, að banna trans-fitu í matvælum eins og Danir. Halló, til hvers er þessi Lýðheilsustöð og hvar er heilbrigðisráðuneytið?


Kjalvegur í ósnortinni náttúru?

Stundum er ég sammála Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands. En ég er ekki sammála honum hvað varðar það sem hann sagði um Kjalveg í tíufréttunum áðan, 5. febrúar 2007. Þar taldi hann brýnt að varðveita land eins og á Kili í sínu upprunalega ástandi en ekki að skera það í sundur með þriggja metra háum vegi. Veit svo sem ekki um þetta með þriggja metra háan veg, kannski ekki mikil prýði en gæti verið gaman að keyra og gerir þetta land aðgengilegra fyrir þá sem ekki eiga jeppa. Koldíoxíðlosandi jeppa! En óvíða á landinu eru jafn greinilega fingraför mannsins en einmitt á náttúrunni á Kili. Landið er eitt flakandi sár eftir gegndarlausa rányrkju, skógarhögg og viðartekju, búfjárbeit og guðmávitahvað. Óvíða líður mér verr að horfa á land en á Kili, á hinum nafntogaða Biskupstungnaafrétti. Það nefnilega getur snert mann djúpt að sjá náttúruna svona ónáttúrulega, þó þar sé lítið um mannvirki. Þannig að, Árni, hvað snertir skilgreiningu á ósnortinni náttúru þá virðumst við ekki vera sammála. En hvað varðar ýmislegt annað sem snertir náttúruvernd, þá ber kannski ekki svo mikið í milli.

Orsök eða afleiðing?

Þetta er athyglisverð frétt þar sem umræða um innflytjendamál hér í Bretlandi ber þess helst einkenni að þar þurfi frekari takmarkanir. Hvað myndu Bretar sjálfir segja við því ef för þeirra yrði takmörkuð frekar eða innflutningur þeirra til annarra ríkja? Það vill til að það eru mörg ríki í hinu s.k. Samveldi. Hér er amast við Pólverjum, Rúmenum, Búlgörum, öllum sem geta talist stereotýpur múslima o.s.frv. Það er ekki sama Jón og séra Jón, eða Albert og Abdullah. 
mbl.is 5,5 milljónir Breta búa erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða upplýsingar fá viðskiptavinir?

Þetta er að mínu mati afar áhugavert mál fyrir Íslendinga að takast á við. Við markaðssetjum vörur erlendis, á forsendum hreinleika og heilnæms umhverfis. Engin aukaefni. Og hvað stendur á bakvið þá markaðssetningu? Sennilega stendur það nokkuð styrkum fótum sé það borið saman við framleiðsluhætti víða annarsstaðar í heiminum. Samkeppnin er hins vegar alltaf að aukast, framboð á upprunavottuðum vörum eykst og kröfur viðskiptavina um upplýsingar sömuleiðis. Við tökum öll ákvarðanir um hvað við eigum að kaupa byggðar á upplýsingum og tilfinningum. Það þarf ekki mikið til að maður líti frekar til hægri en vinstri þegar tekin er vara úr búðarhillu. Örlítil vond umfjöllun um aðbúnað starfsfólks, eitt mengunarslys t.d. ecoli sýking, nú eða bara liturinn á umbúðunum, þetta hefur allt áhrif. Nú og auðvitað verðið.

Whole Foods hafa verið leiðandi í markaðssetningu á "umhverfis-, dýra- og mannvænum" vörum í Bandaríkjunum. Auðvitað snobb að nokkru leyti en það hefur virkað hjá þeim. Þessi umræða er hins vegar alltaf að vinda uppá sig. Viðskiptavinir vilja vita meira um upprunann, vistfræðina, meðferðina, aukaefni o.s.frv. Þetta eru því miklar kröfur á íslenska framleiðendur að hafa sitt á hreinu og þá sem markaðssetja vöruna. Það er lagt í mikinn kostnað við markaðssetningu í Bandaríkjunum á mjög litlu magni, og sem verður alltaf mjög lítið magn, í einni verslunarkeðju, sem síðan getur þurrkað út alla markaðssetninguna með einu bréfi, á einum degi. Á ríkið t.d. að styrkja slíka markaðssetningu, eins og það hefur gert? Er almenningur á Íslandi tilbúinn að setja skattpeningana sína í markaðssetningu á kjöti og skyri í Bandaríkjunum? 

Lambakjöt er t.d. selt undir merkinu "Natural", sem hefur ákveðna þýðingu innan Whole Food. Það hefur enga þýðingu innan Bandaríkjanna að öðru leyti og þar er enginn óháður aðili sem fylgist með því hvað stendur að baki. Mér er t.d. ekki kunnugt um að nein slík vottun sé í gangi á Íslandi, heldur er því slegið föstu að íslenskir framleiðendur standist kröfurnar að baki "Natural". Þekki þetta ekki með skyrið en það væri fróðlegt að vita hvort það er einnig markaðssett sem "Natural". Það er ekkert vottunarkerfi í íslenskri mjólkurframleiðslu.

Ég ætla ekki að vera neikvæður, bara benda á að markaðssetning, á svona kröfuhörðum markaði eins og innan Whole Foods, þarf að standa styrkum fótum til að minnka líkurnar á því að mikil vinna og kostnaður við markaðssetningu sé ekki þurrkað út með einu bréfi.


mbl.is Whole Foods Market: Viðskiptavinir taki ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 24196

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband