Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Coca Cola, vatnsbirgðir í Indlandi, matseðlar og tími rósanna.

Tími rósanna

Rakst á grein í Voice of America þar sem fjallað er um ásakanir á hendur Coca Cola fyrir að nota of mikið vatn í verksmiðjum sínum í Suður Indlandi. Brunnar hafa þornað upp og Coke hefur þegar þurft að loka einni verksmiðju eftir málaferli. Segja þetta "anti ameríku áróður" og engar vísindalegar sannanir séu fyrir hendi. En svona eru birtingarmyndir alheimsvæðingarinnar.

Talandi um Coca Cola, þá hefur Matvæla- og Lyfjaráð Bandaríkjanna mælt með því að veitingahús bjóði upp á matseðla með meiri ávöxtum og grænmeti, minnki skammtana og auki upplýsingar um innihald rétta.  Þetta er allt á hendur offeiti þeirra Bandaríkjamanna. Þeir borða víst 300 fleiri kaloríur á dag núna en árið 1985 og neyta þriðjungs þeirra að heiman, aðallega í formi hamborgara, franskra og pizzu á skyndibitastöðum. En þetta eru víst bara tilmæli og vegna kostnaðar er ólíklegt að þetta verði tekið háalvarlega til að byrja með. Enda er það víst þannig að við eigum sjálf að vera ábyrg fyrir því hvað við látum ofaní okkur, ekki ríkisstjórnin. Verst að afleiðingarnar leggjast síðan jafnt á okkur fjárhagslega í formi skattpeninga í heilbrigðiskerfið. 

Hér í Cardiff er kominn tími rósanna. Í hverjum garði blómstra nú rósir sem þær eigi lífið að leysa og í mörgum litum. Við erum tiltölulega hófsöm og höfum bleikar rósir hér framan við húsið. En því er ekki að neita að fallegar eru þær.


Cardiff Bay í frábæru veðri og sjónvarpið geispaði golunni

101_2348_27853.jpg

Við skruppum niður í Cardiff Bay, öll fjölskyldan, spásseruðum um, fórum í stutta siglingu um fjörðinn eða lónið og fengum okkur svo að borða með ís á eftir. Frábært veður eins og endranær þessa dagana. Cardiff Bay er við mynni ánna Taff og Ely og myndaði áður miklar flæður við sjóinn. Þessu var öllu lokað 1995 með löngum varnargarði og er nú ferskvatnslón. Auk þess hefur verið komið í veg fyrir hin miklu flóð sem ollu gjarnan skemmdum á mannvirkjum en munur flóðs og fjöru var 12 m. 

Þegar heim var komið átti að kíkja á leikinn en ekki tókst betur til en að hið aðframkomna sjónvarp gaf sig endanlega. Það gat vissulega gerst á verri tíma en ekki mikið verri. Þarf því að bregða við skjótt og finna annað tæki en ekki verður lagst í mikla fjárfestingu þetta sinnið, aðeins að fleyta þessu yfir næstu 7 mánuði. 


Hjólreiðar og Cardiff

Hjólaliðið

Loksins er ég kominn á hjól með öllu tilheyrandi. Við erum að tala um reiðhjól með barnastól aftaná og hjálma fyrir mig og Birnu. Við hjóluðum saman í leikskólann í morgun. Þetta þýðir að ég er aftur farinn að taka á á morgnana eftir langt hlaupahlé. Allt gekk þetta vel en hér í Cardiff er hjólreiðafólki ekki gert hátt undir höfði, lítið um stíga, nema meðfram ánni Taff. Þar er 55 mílu langur stígur langt inn í land. Það er ekki hægt að kvarta yfir tillitssemi, því bílstjórar virðast nokkuð meðvitaðir. En nú skal hjólað og hjólað, spara strætópening. Talsvert erfitt að hjóla heim, því það er allt á fótinn.

En ef einhver á Íslandi vill vita þá er hér blíða upp á hvern dag, sól og um og yfir 20 stiga hiti. Ég geng um í hlýrabol sem aldrei fyrr og fer varla í sokka.  


Krikketsagan endalausa og litla lirfan ljóta

Kráka

Hér berast okkur reglulega fréttir af krikketleikjum. Ég verð að viðurkenna litla löngun mína til að kynna mér þessa mjög svo samveldislegu íþrótt, sem eins og póló og fleiri virðulegar greinar eru nokkuð einokaðar af s.k. samveldisríkjum, gömlum breskum nýlendum. Leikirnir vara í marga daga, a.m.k. 5, og nú hafa t.d. lengi vel verið fréttir af landsleik Sri Lanka og Englendinga, og skiptast liðin á að leiða leikinn. Þetta er ótrúlega lítið áhugavert og leiðinlegt að sjá en hvítir búningar og prjónavesti virðast eiga vel við. Svo ekki sé minnst á te.

Við feðgin grófum upp dvd diskinn með litlu lirfunni ljótu. Skemmtileg teiknimynd og gaman að horfa á hana í útlöndum á þessum tíma. Hin geysigóða hljóðsetning inniheldur m.a. fuglasöng frá landinu í norðri þ.á.m. lóuna, sem ég hef nú ekki heyrt í hér. Mæli semsagt með þessum diski í lengri utanlandsdvalir.

Það er svo léleg sjónvarpsdagskrá hér að við höfum síðastliðin kvöld horft á breska spurningaþætti með gamansömu ívafi. Þeir eiga það til að vera bráðfyndnir, leiddir m.a. af Stephen Fry og Jack Dee, sem fá síðan í lið með sér valda húmorista úr ágætu bresku úrvali af slíku. Þarna er notaður breskur húmor af bestu gerð, útúrsnúningar og orðaleikir og lítil alvara almennt. En hent inní fróðleik, í anda BBC. 

Talandi um sjónvarpsefni. Nú eru á dagskrá BBC þættir sem kallast "Springwatch" eða Vorvöktun. Þeir snúast um að fylgst er með vorkomunni, vefmyndavélar á nokkrum fuglahreiðrum og leðurblökum, náttúrufræðingar þvælast um Bretland og flytja fréttir af sæotrum og hákörlum o.s.frv. Þetta gæti RUV tekið sér til fyrirmyndar og verið með þætti af hinni mjög svo langdregnu eða stuttu íslensku vorkomu. Ekki lakara efni en æði margt annað á þeirri ágætu stöð. Gaman að fylgjast með lóunni klekja út, lenda í vorhreti og berjast við varginn. 


Bókabúðir og rigning í Hay on Wye

Bókabúð í Hay on Wye

Við fórum til Hay on Wye í gær. Ansi hreint skemmtilegur lítill bær við landamærin. Falleg leið að keyra þangað, í gegnum Brecon Beacon þjóðgarðinn. Þar stendur nú yfir bókmenntahátíð mikil sem er árleg, s.k. hayfestival, en bærinn Hay on Wye er einmitt helst þekktur vegna bóka og þess óhemju fjölda bókabúða sem er í bænum. Í albúminu eru nokkrar myndir af bókabúðum, en aðeins örlítið brot af því úrvali sem þarna er. Það var reynar rigning á okkur en bærinn er mjög sjarmerandi, þröngar götur, hlaðnir veggir og gömul hús. Mæli ekki með að þar sé verið mikið á ferðinni með barnavagn, heldur burðarpoka.

Nú er að mestu stytt upp hér í Wales, við tekur vika sem hefst á frídegi, bank holiday, sem ég veit ekki ástæðuna fyrir, kannski uppstigningardagur á mánudegi. Og svo taka við frídagar í grunnskólum landsins s.k. half term week. Þetta er örugglega martröð vinnuveitandans, ef fjöldi foreldra þarf að taka sér frí frá vinnu. Reyndar er boðið upp á dagvistun fyrir krakkana en það er rándýrt.


Fótboltadagur í Cardiff

Millenium Stadium

Það er skynsamlegast að halda sig frá miðbænum í dag. Fótboltadagur í Cardiff þar sem bikarúrslitaleikurinn í enska boltanum fer fram á Þúsaldarleikvanginum í dag. Miðbærinn verður troðfullur af fólki í annars vegar rauðum og hins vegar vínrauðum og bláum einkennislitum Liverpool og West Ham. Fánar og húfur, flautur og horn, allir barir troðfullir af fólki. Þetta er í eina skipti sem hinn virðulegi enski bikar yfirgefur enska grund og þykir varla ásættanlegt af hálfu hinnar stoltu ensku þjóðar en þar sem klúður við frágang Wembley, stolts ensku fótboltaþjóðarinnar, hefur haldið áfram þá er ekki um margt annað að ræða. En semsagt, ekki gott að vera með fjölskylduna í miðbænum, nema kannski í u.þ.b. þrjá tíma á meðan fólkið er á leikvanginum. 

Það viðrar vel, kyrrt veður en ekki sól. Það gætu dottið niður skúrir í dag skv. spánni og skýjafari en gott fótboltaveður. 


Flóð og fjara

Síðustu stundirnar hefur verið mikið útfjar á Everard Way. Fjórar konur gengu hér út um kl. 8 í morgun með úttroðnar ferðatöskur. Þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun er enn hagstætt að taka smá syrpu í verslunum hérna megin hafs. Áfangastaðurinn London, höfuðborg menningar og Englendinga. Svona er þetta á betri heimilum. Fólk kemur í heimsókn og gefur af sér, fær eitthvað í staðinn og allir eru ánægðari á eftir. Við fengum þetta líka frábæra lambalæri með þeim stöllum.

Kjúklingaiðnaðurinn vegur salt á barmi taugaáfalls hér í landi. Allir keppast við að gera sem minnst úr sýkingarhættunni, annars vegar úr villtum fuglum yfir í alifugla og hins vegar úr fuglum yfir í menn. En óttir smýgur inn um allar rifur. Fólk hraðar sér framhjá svönunum og öndunum sem bíða í von um brauð úr poka. Fá kannski brauðmola í hausinn eins og segir í textanum. Bresku bændasamtökin mælast til þess að almenningur sýni alifuglabændum stuðning. Svolítið skrítin umræða í gangi en ekki skrítið þar sem kúariðumál eru enn í fersku minni. Fuglakjöt gæti átt eftir að lækka á næstu vikum. Gott fyrir fátæka námsmenn. Kannski eggin líka. 

Á vef BBC er búið að birta myndir af helstu vágestum í líki fugla. Það er eins og svanur og stokkönd séu nú eftirlýstir óæskilegir borgarar. Varúð! Eins og þessi grey hafi nú gert eitthvað af sér. Það er því flóð af fréttum um fuglaflensu hér, sem gerir í raun ekkert annað en að auka ótta hins almenna borgara. Meira lambakjöt takk.


Þrif og innkaup

c_documents_and_settings_bjorn_my_documents_my_pictures_kodak_pictures_vefur_2006_101_2096_2760.jpg

Jæja, búinn að þrífa. Ótrúlega mikið s.k. skúm í loftunum hérna. Hef ekki enn kynnt mér hvað þetta er en má vafalítið rekja til einhverra lífvera sem hér hafast við. En ef einhver veit svarið þá væri fróðlegt að vita. Tesco kom með vörurnar eins og um var beðið. Tvö skemmtileg dæmi um misheppnuð netinnkaup. Pínulítil flaska með tómatsósu og piparsveinspakkning af þvottaefni. Ekki það sem til stóð að panta en svona eru netinnkaupin. Þýðir ekki að æsa sig yfir því.

En ykkur sem viljið það vita vil ég segja að ég hljóp í rúman hálftíma í morgun, skrefmælirinn var úti að aka og sýndi bara tæpa 2 km en hringurinn var ansi mikið lengri en það. Drakk síðan safa úr afgöngum af ávöxtum og grænmeti, mikið af broccoli, gulrótum og engifer, heví stöff. Ég er að kynna mér nýjar leiðir og reyni að þræða grænu svæðin eins og hægt er. Nota mp3 spilarann hennar Ólafar óspart n.b. ég gaf henni hann. Hlusta aðallega á Red Hot Chili Peppers, Green Day, Primal Scream og U2 á hlaupunum. Það gefur manni aukaorku og maður losnar við umhverfishljóð eins og bílaumferðina.

En nú mega konurnar koma, ég er reiðubúinn á sál og líkama.


« Fyrri síða

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband