Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Heimaslóðir Tom Jones

Steinbrúin í Ponty (BBC)

Í dag ætlum við til Pontypridd, lítils námubæjar hér inn í dal, hálftímaferð með lest. Sá bær hefur það helst unnið sér til frægðar að þar var lengsta einbreiða steinbrú í Evrópu þegar hún var byggð árið 1755, á tímabili lengsti brautarpallur í heimi og þar ólst Tom Jones upp. Þangað eiga líka hljómsveitir eins og Stereophonics og Lost Prophets ættir sínar að rekja. Svo var þjóðsöngurinn, Hen Wlad Fy Nhadau, saminn af feðgum frá Ponty 1856.

Um þessa helgi er þar matar- og landbúnaðarhátíðin Big Welsh Bite. Vonumst eftir góðu framboði af smakkmat og að veðrið haldist þurrt í dag. Í augnablikinu er 18 stiga hiti og 96% raki þannig að þurrkurinn er ótryggur. 


Hitametið og heimsókn

Hitametið á Bretlandi í júlí mun hafa fallið í gær, 36.5 gráður selsíus í Surrey í Englandi. Hér í Cardiff var hitinn í um 30 gráðum og meiri vindur en áður. Í dag er þetta skaplegra, rúm 20 stig og hálfskýjað. Það er líka eins gott, því hann faðir og móðir eru á leiðinni ásamt Sigrúnu systur og nafna mínum. Eins gott að þessi hitabylgja sé yfirstaðin. Júní mun vera sá heitasti hér síðan 1976 og júlí hefur verið mjög hlýr. Á Hjaltlandseyjum voru ekki nema 14 gráður í gær.

Barnaafmæli og nýbúar

Fyrir mig er alltaf dálítið átak að fara í barnaafmæli. Barnaafmæli hafa í för með sér ýmis óþægindi sem ég kýs að vera laus við, sé þess kostur. Hávaði, vandræðalegar samræður við foreldra og fleira mætti nefna. En þau hafa líka í för með sér góða hluti. Börnin hittast utan skólans sem og foreldrar og eiga samskipti sem geta leitt til frekari kunningsskapar. Barnaafmæli hér ytra eru ólík því sem ég hef vanist heima á klakanum. Hið dæmigerða afmæli er haldið í sal út í bæ þar sem eru leiktæki og hoppkastalar eins og það heitir. Börnin fá útrás en ekki sjálfgefið að þau hafi nein bein samskipti sín á milli en líklegt að þau rekist hvert á annað líkamlega. Síðan sér "salurinn" um allar veitingar, sem yfirleitt eru í léttari kantinum, og loks er blásið á kerti á forláta köku, hún síðan fjarlægð, skorin niður og hverri sneið pakkað inn í servíettu. Hvert barn fær síðan sneið í servíettu með sér heim ásamt litlum poka með smádóti og sælgæti í. Þá er það búið! Við fullorðna fólkið sem dveljum á staðnum á meðan fylgjumst með dagskránni og reynum að láta ekki mikið á okkur bera svo leikur barnanna verði ekki fyrir óþarfa truflun en jafnframt að vera til staðar þegar árekstrar verða.

Við Margrét fórum sumsé í eitt svona partí í dag. Það voru tvær fjölskyldur, ættaðar frá Íran, sem héldu veisluna. Veislan var dæmigerð fyrir það sem við höfum séð. Það sem mér finnst hins vegar standa uppúr eru þau forréttindi fyrir börn af mörgum kynþáttum og trúarhópum að eiga svona óformleg samskipti sín í milli. Þau eru skólafélagar og leikfélagar. Slíkar aðstæður eru best til þess fallnar að útrýma fordómum. Ég ræddi við fjölskyldufeðurna, sem hafa búið hér í yfir 30 ár. Þeir vilja ekki snúa aftur til Íran, erfiðara fyrir þá nú að aðlagast aðstæðum þar. Fjölskyldurnar tala þó Farsi sín á milli og reyna eftir megni að halda málinu við, telja það afar mikilvægt fyrir sína menningu og barna sinna. En, eins og virðist nánast regla hér þá er þetta afar indælt fólk og þægilegt í samskiptum. 

Aftur að veðrinu, ansi heitt í dag og nánast óbærilegt að vera úti í sólinni, hún er svo sterk. Hiti tæp 30 stig. Eitthvert framhald verður á þessu fram eftir vikunni. 


Enn er blómatími

Fiðrildi

Það bætast sífellt við ný blóm í garðinum hjá okkur hér í Wales (albúm). Sum flokkast undir illgresi hér en önnur teljast til prýðisplantna. Svo eru náttúrulega hin fjölbreytilegustu skordýr á sveimi og kóngulóarvefir mun víðar en maður kærir sig um. Sérstaklega á það við um þvottasnúruna, sem á hverjum morgni er alsett kóngulóarvefjum. En það er ekki alslæmt, því efnið í vefjunum ku vera gott og þó það slæðist á fatnað eða viskustykki þá er það örugglega bara til bóta. 

Veðrið er uppá sitt besta hérna núna, sól og losar 20 stig.


Af barnatíma og hjólreiðum

River Taff

Það verður að segjast eins og er, hvað sem fólki finnst um hina íhaldssömu sjónvarpsstöð BBC, að ég tel það forréttindi að hafa aðgang að því barnaefni sem er sýnt á barnastöðinni CBeebies. Dagskrárefnið er undantekningalítið vandað, oft reynt að kveikja hugmyndir hjá börnum, og foreldrum, og mikil fræðsla falin í efninu. Svo eru engar auglýsingar nema um dagskrána. Enda hrökk Margrét við þegar hún stillti á barnatímann á Five í morgun og það kom auglýsing um sykrað morgunkorn. Hún heimtaði að losna við þennan ósóma af skjánum, strax! Borið saman við Bandaríkin þá er hrein martröð að bjóða börnum að horfa á barnatíma þar, gríðarlegt auglýsingaáreiti, undantekningalítið sælgæti, skyndibitamatur, sykurdrykkir eða sykrað morgunkorn. Hér þurfa börn ekki að sjá auglýsingu frá McDonalds frekar en foreldrarnir kjósa, ef þau horfa á sjónvarp á annað borð. Það kalla ég vel sloppið. Hver er stefna hins íslenska Ríkissjónvarps? Auðvitað ætti ekki að sýna eina einustu auglýsingu á meðan barnatími er á dagskránni. Sök sér með aðra dagskrárliði. 

ÉG kom því loks í verk að hjóla yfir að ánni Taff en þar er fínn 55 mílu langur hjólreiðastígur. Ég hjólaði nú ekki nema smá brot af leiðinni en möguleiki er að hjóla frá miðbæ Cardiff, allt norður í þjóðgarðinn Brecon Beacons eftir þessum stíg, eða öfugt. Kannski ég reyni að koma því í verk áður en dvölinni hér lýkur. Annars venst nokkuð vel að hjóla hér í Cardiff, vinstri umferðin er orðin sjálfsögð í mínum huga og þrátt fyrir þrengsli þá kemst maður nokkuð greiðlega sínar leiðir á hjóli. Það mætti þó vera meira um sérstakar hjólaleiðir hér í bæ, sérstaklega þvert á dalina, austur-vestur. En það virðist nú ekki vera á dagskrá enda hæla þeir sér af því hér að í Cardiff sé meira af grænum svæðum en í flestum öðrum breskum borgum. Veit ekki með það. 


Kjörhiti heilans

Þrátt fyrir heiti pistilsins þá er hann síður en svo vísindalegur. Ég er hins vegar með afar litla starfsemi í heila um þessar mundir vegna hinnar s.k. hitabylgju hér í Bretlandi, sem skýrir að nokkru stopular skriftir hér á blogginu. Mér sýnist ljóst að þessar 30+ gráður hafi letjandi áhrif á mína heilastarfsemi og þar sem ég hef aðlagast 4 gráðu vinnuhita á minni ævi þá er ekki óeðlilegt að þetta gerist. En þar sem litlar kröfur eru gerðar til minnar heilastarfsemi um þessar mundir nema hvað nemur því að hugsa um heimilið, vaska upp og elda, þá hefur það ekki teljandi áhrif ennþá á fjölskyldulífið hér á Everard Way. Líkur eru á að það kólni eitthvað undir helgi og skulum við sjá hvað setur, hvort bloggfærslum fjölgi eitthvað samhliða.

 


Kranavatnið ku vera gott og 10.000 sinnum ódýrara

Vatn

Kranavatn hér í Wales ku yfirleitt vera gott, einkum nær fjöllunum. Hér suður í dölum hafa komið upp m.a. e-coli tilfelli rakin til kranavatns. Við höfum frá upphafi keypt okkar drykkjarvatn í stórum 5 lítra plastbrúsum, einhvern veginn höfum við það á tilfinningunni að hið oft mikið meðhöndlaða kranavatn sé ekki fullkomlega óhætt og svo þykjumst við finna bragð sem okkur líkar ekki. Kannski er líka um að ræða einhverja útlandahræðslu.

Grein í Independent fjallar um þetta mál og þar er bent á að í Bretlandi kostar líterinn af flöskuvatni í smáum pakkningum u.þ.b. það sama og líter af bensíni, tæpt 1 pund. Til samanburðar þá kosta 10.000 lítrar af kranavatni um 1 pund. Það má blanda ýmsum bragðefnum í kranavatnið fyrir þann mismun, sjóða það og frysta o.s.frv. Við höfum keypt líterinn á ca 20 pens, getum varla fengið það ódýrara. Neyslan af þessu vatni er ca 12 lítrar á viku sem gerir 2,4 pund eða um 10 pund á mánuði. Við gætum sumsé sparað okkur nokkurn pening á því að skipta yfir í kranavatn. 

Umhverfiskostnaður fyrir utan þetta er talsverður, framleiðsla á plastflöskum kostar mikla orku, akstur á vatninu fram og aftur um landið með tilheyrandi mengun og orkukostnaði og loks úrgangurinn sem skapast og er ekkert nema vandamál. Maður verður sennilega að taka sig á en það kostar vafalítið nokkrar umræður hér innanhúss. Sjáum hvað setur.

Nú er blíða hér hjá okkur, 25-30 stiga hiti og sól. Það lítur út fyrir mikið rafmagn í loftinu, núningur heita og kalda loftsins gæti orsakað miklar þrumur og eldingar næstu daga, sem er kannski fyrirboði þess að Englendingar falli úr heimsmeistarakeppninni.


Velskur fótboltapöbb og nett rigning

Rooney og Cole

Það var fótboltadagur í gær sem endranær. Munurinn var sá að það var farið á pöbbinn, fjórir Íslendingar innan um hóp af Bretum. Það merkilega var að við sátum í reyklausu svæði, sem telst til tíðinda á börum hér. Vonbrigði með frammistöðuna leyndu sér ekki en úrslitin jákvæð. Nú er byrjað að líkja enska landsliðinu við það gríska sem vann Evrópumeistaratitilinn 2004. Ekki skemmtileg samlíking. Allir eru að bíða eftir að liðið byrji að spila fótbolta en ekkert gerist. Tóm vandræði og ekkert gaman að horfa á liðið spila. Umræðan hér er afar neikvæð og Sven er ekki vinsæll þó svo liðið sé komið í fjórðungsúrslit. En gaman að fara á pöbbinn og horfa á boltann, gerist ekki oft hjá heimavinnandi eins og mér. 

Nú er rigningardagur í Cardiff, bara hressandi. Gott að hjóla í smá vætu.


Græna byltingin í stórmörkuðunum og ljótur jarðargróði

Árið í ár er tileinkað baráttu stórmarkaðanna um græna ímynd, það gildir bæði hér í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sumar yfirlýsingarnar flokkast undir lýðskrum en aðrir hafa látið gjörð fylgja orði. Gamli risinn í nýja búningnum, Marks & Spencer, er álitinn grænasti stórmarkaðurinn í Bretlandi að mati umhverfisverndarsinna, Greenpeace og Friends of the Earth. Þar er meira um s.k. "fair trade" vöru, frá fátækum framleiðendum í þróunarlöndum, fatnaður úr lífrænt vottaðri baðmull og sjóvænn fiskur (ocean friendly), hvað sem það nú þýðir. Maður má því eiga von á auknu úrvali af góðri vöru á lægra verði á næstunni. 

Svo má ekki gleyma snobbbúðinni Waitrose, sem hefur verið ansi framarlega í græna geiranum, samanborið við hina risana. Þeir ætla nú að bjóða upp á ljóta ávexti og grænmeti á afslætti. Krafa okkar neytenda um hið fullkomna útlit matvörunnar er komin í slíkar öfgar að "ljótri" vöru er hent vægðarlaust. Nú ætlar Waitrose sumsé að bjóða afskræmd jarðarber og bognar gulrætur "visually flawed or oddly shaped". Þetta má nota í sultur og mauk hverskonar. 

Við eigum von á sendingu frá Riverford í dag. Þau viðurkenna fúslega að jarðarberin frá þeim séu ekki fullkomin í laginu en þau séu himnesk á bragðið. Sama gildir um gulræturnar. 

Við erum í kælingu hér í Cardiff þessa dagana, eftir heita síðustu viku. Það nær ekki 20 stigum hér, þungbúið og nokkur vindur. Spáin svipuð næstu daga. 


Þjóðhátíð í útlöndum

Þjóðfáninn

Ég hef aldrei áður skreytt húsið mitt með fánum og blöðrum á þjóðhátíðardaginn, enda hef ég aldrei áður varið 17. júní í útlöndum. Það er hins vegar staðreynd í dag og það sem meira er að í dag er 25 stiga hiti og sól, sem ég hef reyndar upplifað áður á 17. júní en er alltof sjaldgæft á þessum góða degi á Íslandi. Þjóðerniskenndin er svo sem ekkert að bera mig ofurliði þó við séum ekki mörg hér í Cardiff brotin af íslensku bergi. Fáum reyndar hina Íslendingana í heimsókn á eftir. Það sem er okkur verðmætt er tungan og landið. Þjóðfélagið er ekkert merkilegra en önnur þjóðfélög og maður finnur það hér í Wales að þjóð sem hefur verið undirokuð af nágrannaþjóðinni æði lengi ræktar með sér mikla þjóðerniskennd. Hér er haldið dauðahaldi í tunguna, sem Englendingar gera grín að, þjóðfáninn notaður við hvert tækifæri og mikið um klæðnað sem ber merki Wales, rauða drekann. Íslendingar eru í raun talsvert líkir Walesverjum. Þjóðin er í a.m.k. tveimur hlutum, það er talað annað tungumál hér í Cardiff en víða annarsstaðar í Wales, eins og höfuðborgarsvæðið sker sig úr gagnvart landsbyggðinni á Íslandi. Walesverjar eru stoltir af upprunanum og halda á lofti sögum af sínum þjóðhetjum, eins og Íslendingasögurnar okkar. Hér eru sjálfstæðishetjur á hverju strái, í sögum. En eins og áður segir, þá snýst þetta um land og tungu. Það er það sem við eigum sameiginlegt og það er það sem við eigum að vernda og rækta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 37
  • Frá upphafi: 24249

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband