Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda?

coalgraphic.gif

Hefur einhver áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda? Ef svo er, þá sýnist mér á öllu að það sé alveg óþarfi, Kínverjar munu sjá heiminum fyrir nægum gróðurhúsalofttegundum næstu árin ef marka má grein í New York Times. Notkun á kolum í Kína er nú meiri en í BNA, Evrópusambandið og Japan til samans. Og í hverri viku eru reist þar kolaorkuver sem myndu fullnægja orkuþörf borga eins og Dallas eða San Diego. Mengunin er gríðarleg, losun á brennisteinsdíoxíði er mikil með tilheyrandi súru regni og losun á koldíoxíði og kolaóhreinindum gerir loftmengun á verstu svæðunum í Kína óbærilega. Losun á koldíoxíði er svipuð í Kína og í Bandaríkjunum nú en gæti tvöfaldast til 2025 ef svo fer fram sem horfir.

En af hverju?

Kínverjar vilja reyna að ná í skottið á öðrum hvað varðar lífsgæði, peninga á milli handanna, raftæki á heimilinu og að eiga fyrir fleiri fæðutegundum en hrísgrjónum. Þetta er því ekkert skrítið, bara slæmt að þessum mikla vexti fylgi svo mikil mengun. Kínverjar nota gamla og lélega hreinsitækni við kolabrennslu, tíma ekki að fjárfesta í dýrri tækni á Vesturlöndum, frekar að keyra hagvöxtinn upp. Kínverjar eiga lítið af orku nema í kolum, vatnsorkuver munu aldrei ná nema um 20% af heildarorkuþörfinni. 

Á næstu tveimur áratugum munu fleiri Kínverjar en allir Bandaríkjamenn eru nú, flytja í borgir. Þetta mun hafa í för með sér að þessir 300 millj. Kínverjar munu hafa mun meiri fjármunum úr að spila en í dag og verja þeim í allt mögulegt sem okkur þykir sjálfsagt að hafa. Það kostar meiri orku.

Þannig að, ekki hafa áhyggjur. 


Fuglaflensa í þauleldi og sparnaður í samgöngum

Útbeiðslukort fuglaflensu

Villtir fuglar og útiráfandi alifuglar (free range poultry) hafa yfirleitt verið nefndir sem megin áhættuþátturinn varðandi smitleiðir fyrir fuglaflensu. Nú setja sumir fyrirvara við þessa uppstillingu en vilja beina kastljósinu í auknum mæli að verksmiðjueldi eða þauleldi á fuglum í Kína og Suðaustur Asíu, þar sem reglur eru að miklu leyti settar af iðnaðinum sjálfum. Framleiðslunni og úrgangi er síðan dreift um allan heim eftir fjölmörgum leiðum. Fuglar í þauleldi hafa litla mótstöðu gegn sjúkdómum og smitið er fljótt að breiðast út. Því er haldið fram að fuglaflensan sé í raun að berast úr alifuglum og yfir í villta fugla og útiráfandi alifugla. Sjá nánar í Guardian

Nú telst mér til að ég hafi sparað rétt 6,6 pund í þessari viku í færri strætóferðum plús 4,95 pund í heimsendingu á matvöru. Þetta þýðir 11,55 pund í sparnað, sem er að miklu leyti að þakka fjárfestingu í reiðhjóli Ef svona heldur áfram þá verður það ekki nema 7 vikur að borga sig upp og aðrar 10 að borga aukabúnaðinn þ.e.a.s. um 4 mánuði. Verður það ekki að teljast ásættanlegt?


Er nýmjólk ruslfæði, lífrænt vottaður þorskur og hvernig kemst ég hjá því að borða illgresiseitur?

Get ekki orða bundist þegar ég sá þessa frétt á The Times. Í tengslum við endurbætur á því fóðri sem framreitt er í skólamötuneytum og beint er gegn ýmsu ruslfæði s.s. djúpsteiktum og tilbúnum mat, þá á einnig að banna nýmjólk, þ.e. mjólk sem ekki hefur verið fituskert og er með 3-3,5% fitu. Þessi breyting er samþykkt af hinu breska Manneldisráði en á vafalítið eftir að vekja mjög hörð viðbrögð. 

Annars kaupa bretar nú meira af ferskum ávöxtum og grænmeti en áður og neysla á heilkorna brauðum hefur aukist (Daily Mail).  

Svona fyrir íslenska fiskeldismenn þá er Tesco með lífrænt vottaðan eldisþorsk í fiskborðinu. Þetta er að einhverju leyti hálfsannleikur hjá Tesco því ekki hefur verið gengið alveg frá reglum um vottun á eldisþorski og ekki má nota stýrða lýsingu til að koma í veg fyrir kynþroska hjá fiskinum. 

Í aprílhefti Health and Fitness er vitnað í könnun bresku Jarðvegsverndarsamtakanna (Soil Association) á illgresiseyðum í grænmeti. Þar kom í ljós að 50% sýnanna voru með leifar allt að 5 mismunandi efna og af þeim voru 13% með leifar yfir leyfilegum mörkum.

"The effect of these chemicals on our health hasn't been adequately tested. We don't need pesticides to produce fruit and vegetables and most people don't want them in their food." (Mike Green, Soil Association).

Borðum lífrænt! 

 

 


"Matarmílur" og meira um mat

Oreo kex

Hversu langt ferðast maturinn áður en hann er kominn á diskinn? Þetta er ágætis pæling í hinum mjög svo peningastýrða heimi þar sem yfirleitt er ekki greitt fyrir afnot af auðlind eins og lofthjúpi jarðar. Flutningur matvæla fram og aftur um jarðarkringluna telur æði mikið í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Við þekkjum þetta orðið vel á Íslandi þó í lítilli mynd sé, þar sem fiskur er fluttur fram og aftur um landið, mjólk er ekið suður, pakkað og svo norður o.s.frv. Þetta er náttúrulega smáræði miðað við aðra fæðu sem við leggjum okkur til munns. Matarmílur eru því ein af þeim stærðum sem við neytendur þurfum að hafa í huga ef við ætlum okkur að vera upplýst og ábyrg í okkar innkaupum. Kaup á heimafengnu fóðri ku vera best, svo lengi sem eitthvað fóður er þar að hafa. Svo getur vel verið að okkur standi nokk á sama. 

Enn varðandi "trans fat" fituna sem við hökkum í okkur með frönskum kartöflum, djúpsteiktum kjúkling, allskyns sætabrauði o.fl. Það þyrfti að þrýsta á Íslensk stjórnvöld að fara að dæmi danskra og banna alfarið matvæli sem innihalda tilbúna "trans fat" fitu, því slík fita finnst í örlitlum mæli í sumum mjólkurvörum og kjöti. Bann við notkun þessarar lítt hollu fitu þýðir ekki að við þurfum að hætta að borða óhollan djúpsteiktan eða unninn mat, heldur verður hann bara ekki alveg eins óhollur. M.a.s. er hægt að fá Oreo kex sem inniheldur ekki "trans fat" fitu, en almennt er það frekar eitrað. Hér í Bretlandi fóru fyrstu rannsóknirnar fram á skaðsemi svona fitu í upphafi áttunda áratugarins, fyrst í heiminum. Samt eru mjög rúmar heimildir fyrir notkun á henni í matvælum hér í landi. Þess vegna verða það að teljast góðar fréttir að gera á mikið skurk í skólamötuneytum hér í Bretlandi og banna að mestu djúpsteiktan mat. 

Verð að upplýsa að hér er veður ekki uppá það besta, rok og rigning og útlit fyrir að þar verði framhald á í næstu viku. 


Traust og neytendavernd

Traust hefur alltaf verið grundvöllur þess að samfélög gangi upp. Þátttakendur í samfélaginu þurfa að geta treyst hver öðrum, þeir sem gegna ákveðnum hlutverkum er treyst til að sinna þeim o.s.frv. Í dag er skortur á trausti að éta samfélög innanfrá. Traust á stjórnmálamönnum fer þverrandi, traust á fjölmiðlum er á þunnum ís og traust á hinum ýmsu stofnunum samfélagsins er rýrt. 

Heimsviðskipti með vörur eru orðin staðreynd og við höfum misst sjónar á uppruna hinnar ýmsu vöru sem við kaupum í næstu búð. Það er sjaldnast lengur þannig að við komum við hjá slátrara og kaupum kjöt af lambi sem hann slátraði eftir að hafa keypt það af bónda í nágrenninu. Ávextir og grænmeti ferðast þvers og kruss um heiminn og hending í hvaða heimsálfu það er borðað og ekki gott að segja til um aldur á vörunni þegar hún er komin í áfangastað. Þetta allt hefur margþætt áhrif. Fyrir umhverfið þá getur þetta verið frekar óhagstætt, eykur t.d. losun gróðurhúsalofttegunda vegna mikilla flutninga. Einnig eykur þetta vægi stórfyrirtækja sem framleiða hina ýmsu vöru t.d. ávaxta á kostnað smáframleiðenda. Oftast fylgja því vafasamir framleiðsluhættir, sem hafa það markmið að lækka framleiðslukostnað. 

Vegna þess hversu langur tími getur liðið frá því uppskera á ferskri vöru fer fram uns hennar er neytt, þá kallar það á aðferðir við að auka geymsluþol. Slíkar aðferðir eru vel þekktar og mögulegar. Áhrif þeirra á heilsu manna eru hins vegar ekki eins vel þekkt. Íslendingar njóta slíkra aðferða í ríkum mæli, enda um langan veg að flytja.

Annað tengt uppruna og framleiðsluháttum er að á síðustu öld átti sér stað gríðarleg framleiðsluaukning í heiminum, einkum afleiðing breyttra aðferða við ræktun, og úrvinnsla á vöru jókst gríðarlega. Hinum og þessum aðferðum hefur verið beitt og þar sem ekki hafa komið í ljós hraðverkandi eituráhrif á heilsu manna þá hefur þessum aðferðum verið beitt áfram, í þágu lægri framleiðslukostnaðar. Við vitum ekki til fullnustu hvaða áhrif vinnsla á hinum ýmsu vörum hefur á heilsu manna. Dæmi: hefðbundin vinnsla á jurtaolíum,  sem ég skrifaði um hér um daginn, vinnsla á mjólk og mjólkurafurðum, vinnsla á sykri og svo má lengi telja. Eiturúðun á jarðargróða eins og ávexti og grænmeti. Við erum sumsé að láta ýmislegt ofaní okkur sem okkur er ekki eðlilegt að neyta og við vitum ekki hvaða áhrif hefur. Traust á matvælaframleiðslu er að minnka eftir því sem uppruninn færist fjær okkur. Þess vegna hafa orðið til s.k. upprunamerkingar. Merkingar sem eiga að tryggja að vara sem við kaupum standist tilteknar kröfur. Neytendavernd virðist illa í stakk búin til að takast á við svona stórmál, enda við gríðarlega hagsmuni að etja, stórfyrirtæki um allan heim. Í stað þess snýst neytendaverndin um að skoða merkingar um síðasta söludag og verð. Það er ekki kafað dýpra, enda er þekkingin takmörkuð. 

Með hliðsjón af þessu þá eru einkum tvö atriði sem nútímamaðurinn ætti að hafa í huga við fæðuöflun:

Að neyta lítið unninnar vöru.

Að neyta vöru sem ekki hefur verið flutt langa leið. 

Þetta kallar á meiri vinnslu vörunnar heima í eldhúsi og e.t.v. að sleppa því í einhvern tíma að kaupa hráefni sem er orðið margra mánaða gamalt en til lengri tíma litið eru þessi tvö atriði sennilega þau heilsusamlegustu sem hægt er að hafa á oddinum þegar farið er í kjörbúðina. 


Meiri flensa og 3 H

Álftahjón við Roath Lake

Úpps! Nú er komin flensa í kjúklinga í Norfolk. Þarf að taka hausinn af ca 35 þús. stk.  Þetta er þó sennilega stofn H7N7 en ekki H5N1. Álftahjónin sem eru með hreiður hér niður við vatn kæra sig kollótt og ætla að fjölga í stofni staðbundinna svana. Flestir voru orðnir mjög rólegir yfir þessum fuglaflensumálum hér enda var svanurinn sem fannst dauður í Skotlandi ekki breti, eða svo segja sérfræðingarnir.

Eldri borgarar hafa risið upp á afturfæturna hér í nágrannabyggð í Caerphilly og mótmæla auglýsingaherferð sem sveitarfélagið stendur fyrir um "taboo" eins og kynheilsu fólks yfir 50 ára. "Happy, health and horny" eru slagorðin sem birtast á veggspjöldum um alla borg og á strætó og hefur þetta vakið mikil viðbrögð, einkum orðið "horny", sem þykir varla boðlegt í þessum aldurshópi. 

Annars er mest talað um tvennt í fjölmiðlum hér. Annað eru hneykslismál tengd þremur ráðherrum í ríkisstjórn Verkamannaflokksins,  enda er ríkisstjórnin kölluð "sleazy" en það orð var einmitt notað til að lýsa stjórn Íhaldsflokksins á sínum tíma. Minnir aðeins á umræðu um valdaþreytu á Íslandi. Hitt er ákvörðun enska knattspyrnusambandins um að bjóða hinum brasilíska Scolari stöðu landsliðsþjálfara. Flestir enskir þjálfarar eru frekar óhressir með þetta en aðrir yppa öxlum. Eitt er víst og það er að enskur almenningur vonaðist eftir enskum þjálfara eftir lítið afgerandi Sven G Eriksson. 


Nú er nóg komið!

cigs

Ég er búinn að fá nóg. Það er fólk út um allan heim að framleiða mat, samsettan úr hinu og þessu. Pakkar honum síðan í fallegar umbúðir og passar að hann sé líka fallegur á litinn. Auglýsir í sjónvarpi, þetta er hollur matur sem gerir þér gott og þú ert ekki nema 5 mín. að elda. Bullshit!

Nánast allur matur sem er mikið unninn og nánast tilbúinn til neyslu í neytendapakkningum inniheldur vond meðul þ.m.t. flestur skyndibitamatur.

Las því miður grein eftir Mike Furci nokkurn og varð illt af: http://www.bullz-eye.com/furci/2006/fats_lipid_hypothesis.htm

Hann ræðst þarna á unnar olíur, sem eru í nánast öllum unnum mat, auk þess að vera tappað beint á flöskur handa okkur. Líkir þeim við eitur. Eru ein af meginorsökum aukinnar tíðni hjartasjúkdóma í mönnum en jafnframt búnar til af mönnum. Skilgreint magn sem óhætt er að hafa í matvælum 0. Mælir heldur með dýrafitu t.d. hreinu smjöri, óunnum mat, kaldhreinsuðum olíum o.s.frv. Lesa alltaf innihaldslýsingar. Hann gefur ameríkönum ekki háa einkunn hvað varðar mataræði, sem kemur ekki á óvart en hver líti sér nær. Þeirra lausn er að auka lyfjaneyslu til að laga einkennin, skv. ráðleggingum sérfræðinga, sem eru nátengdir lyfjaframleiðendum.

Og það eru fleiri á sama máli:

http://www.recoverymedicine.com/hydrogenated_oils.htm 

Meira að segja ein síða sem er sérstaklega tileinkuð banni við notkun unninnar fitu:

http://www.bantransfats.com/ 

Þetta er ágætis lóð á vogarskálarnar, nú heldur maður áfram að skera niður ýmisskonar pakkavörur og rýnir enn betur í smáa letrið á umbúðunum. Ekki að ganga í klaustur eða svoleiðis. Við verðum bara að færa okkur aftur í sveitamatinn, ekki endilega súran og kæstan, en bestur "beint af beljunni" og beint úr garðinum. 

 


Hækkun hita á jörðinni

Golfstraumurinn
Get ekki annað en mælt með imbaheldri síðu BBC varðandi gróðurhúsaáhrifin s.k. hér á jörðu. Mikið um þetta fjallað hér reglulega og sífellt skotið á Verkamannaflokkinn fyrir hræsni í umfjöllun um málið. Þetta er eins og með önnur umhverfismál þar sem enginn einn ber ábyrgð á málinu og enginn ber beinan kostnað vegna áhrifanna. Það halda því allir sínu striki en líta hornauga á náungann, hvort hann sé að gera eitthvað. En svo eru sumir sem ætla ekkert að gera, bara láta gossa. Þetta hlýtur að reddast!

« Fyrri síða

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 24174

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband