Færsluflokkur: Dægurmál
16.12.2008 | 21:18
Að vera hluti af þjóð sem tekin er í rassgatið
Það er skrítin tilfinning. En auðvitað er það ekkert annað. Varnarlaus almúgi horfir auðmkunarverður á meðan bitunum er deilt út meðal útvalinna. Klinkið er sogað úr vösunum og alltaf er þetta augnarráð hundsins, þetta biðjandi augnaráð um mola af borðinu. En svo er kakan búin og hundinum hent út í frostið og kuldan, éttu það sem úti frýs á meðan ég hlýja mér.
Þetta er samt svolítið merkilegt af því að ég man varla annað en þessi þjóð hafi verið stórskuldug alla mína tíð, skattarnir fóru í að greiða niður vexti af erlendum lánum. Loksins tókst að greiða þessi lán niður en með hverju? Lánsfé, sem hét eitthvað allt annað. T.d. vafningar eða hlutabréf í Sterling. Svo við erum sumsé ennþá stórskuldug? O, jæja. Best að halda bara áfram sínum vanagangi.
En allt sem fullorðna fólkið í kringum mig hefur sagt stendur ennþá, maður á að safna fyrir því sem mann langar í, peningar verða ekki til úr engu, og undir það síðasta, þetta á allt eftir að fara á hausinn.
Stjórnmál og fjölmiðlar á Íslandi eru í raun bara hlægileg. Það éta allir hvað upp eftir öðrum. Fréttir eru búnar til handa okkur bláeygum bjánunum, það eru viðtöl við allskyns pótintáta sem hafa skoðanir en vita ekkert. Og það voru fréttir dagsins, dag eftir dag. Egill Helgason tekur viðtöl við sama fólkið, aftur og aftur. Við erum jú svo fá. Það eina sem uppúr stendur er Gufan. Þar er á köflum útvarpað sínfóníutónleikum og leikritum, upplestur á sögum, eitthvað svo gróið.
Ég held við verðum afar fljót að gleyma þessu með gildin. Hin góðu gildi, þolinmæði, kærleikur, umhyggja, nægjusemi, umburðarlyndi. Þetta er okkur ekki áskapað. Maðurinn er í eðli sínu ágjarn, gráðugur, grimmur, eins og minkurinn, sem drepur miklu meira en hann étur. Þetta snýst um djúpt siðferði, sem samfélag innrætir sér á löngum tíma. Að taka ekki of mikið. Bera umhyggju fyrir náunganum. Sýna fjölskyldunni kærleika, gefa henni tíma, miðla og þiggja. Við erum alin upp við aðstæður þar sem verðmæti eru af okkur tekin. Það elur á ótta og ágirnd. Við erum alin upp við óréttlæti og misskiptingu. Við það verður til öfund.
Auðvitað verður aldrei til fullkomið samfélag. En að halda að græðgi sé góð er svo sorglegt. Að hún haldi hjólunum gangandi. Það þarf ekki græðgi. Hagvöxtur er enginn mælikvarði. A.m.k. ekki á lífsgæði. Hann er kannski mælikvarði á græðgi. En það éta allir bullið upp hver öðrum.
Hugsa vel um börnin og temja þeim góða siði. Um það snýst lífið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 10:39
Ökologisk - lífrænt
Með hliðsjón af hækkandi áburðarverði, eitthvað hlýnandi veðurfari og frekar döpru ástandi í sauðfjárrækt ættu sauðfjárbændur að skoða þennan möguleika betur. Fæstir þeirra gera sér grein fyrir hvað í þessu felst en almennt í lífrænni ræktun verður til gríðarlega verðmæt þekking þar sem bændur eru að prófa sig áfram með nýjar lausnir, ný áburðarefni, betri nýtingu lífræns áburðar, nýjar sjúkdómavarnir og breytta meðhöndlun dýra og plantna. Nokkrir bændur hér á landi búa í dag yfir þekkingu sem ætti að nýtast öðrum til að skipta yfir.
Hitt er svo annað mál að t.d. í Bretlandi hefur eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum vörum dregist saman á síðustu og verstu tímum.
Og að síðustu þá hefur mér alltaf fundist að kalla þessa tegund landbúnaðar "lífræna" mjög skrítið. Mér hefði þótt t.d. visthæfur eða vistbær landbúnaður betri, einkum m.t.t. þess að þetta snýst ekki bara um eitthvað lífrænt heldur vist almennt þ.e. vist dýra og vistkerfi sbr. danska heitið, ökologisk.
Hærra verð fyrir lífrænt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2008 | 07:54
Milt haust
Ég fór snemma af stað í vinnuna í morgun, fáir á ferli og góðlátleg rigning sem lék um bera fótleggina. Vindur hefur verið af blessunarlega skornum skammti í sumar a.m.k. í mínum hjólaferðum til og frá vinnu. Síðasti föstudagur undantekning þegar maður fann virkilega meðvind á leið til vinnu. Sviptivindar á brúnni yfir Miklubraut og síðan aftur yfir Kringlumýrarbraut. Heimleiðin var erfiðari, var 10 mín lengur en venjulega.
Á leið minni í gær og í morgun var mér hugsað til þess sem Kári Harðarson bloggaði um ekki alls fyrir löngu um manninn sem mátti skyndilega ekki hjóla á Reykjanesbrautinni. Hjólreiðamenn eru ekki mikils metnir í umferð hér á landi, einkanlega í því er lýtur að hönnun hjólreiðastíga eða vega og síðan þegar e.k. framkvæmdir eiga sér stað við hjólreiðastíg eða veg. Þá er helst ekki gert ráð fyrir að hjólandi eigi þess kost að komast um. Oft á tíðum hverfa heilu gangstéttirnar, sem eru eini valkosturinn á löngum köflum til að hjóla á, 90° beygjur sem ekki er nokkur leið að ná með góðu móti og erfitt getur verið að hjóla upp á kantsteina.
En, ég er ekki frá því að hjólreiðafólki hafi fjölgað talsvert í sumar. Þrýstihópurinn gæti því hafa stækkað og þar með fjöldi kjósenda. Gætið að því!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 12:40
Öfundsverð?
Hulda forstjóri Landspítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2008 | 21:06
Hagsmunir hvers?
Þetta er gömul lumma. Vissulega eru til lélegar landbúnaðarvörur í "útlöndum". Og vissulega eru til lélegar landbúnaðarvörur hér á landi. Gæðakröfur á íslenskan landbúnaðr eru samt talsverðar og meiri en víða annarsstaðar, enda eru íslenskir neytendur hlynntir íslenskri landbúnaðarframleiðslu og borga talsvert fyrir að njóta hennar, bæði í formi hás vöruverðs og gríðarlegra fjárhæða í styrki. Ég skal alveg viðurkenna að ég veit ekki nákvæmlega út á hvað matvælalöggjöf Evrópusambandsins gengur en ég hef verið í útlöndum og dvalið þar mánuðum saman en er samt kominn heim aftur heill á húfi. Í útlöndum get ég valið vörur, vörur sem eru algert rusl, jafnt sem gæðavöru. Það er síðan mitt val hvort ég kaupi.
Það hefur hins vegar lengi tíðkast hér á landi að segja að íslenskar landbúnaðarvörur séu svo frábærar. Þær eru bara eins misjafnar og erlendis. Ég hef iðulega orðið fyrir vonbrigðum með kjötvörur sem hér er á boðstólnum, og það gildir um allar kjöttegundir. Íslenskar mjólkurvörur eru margar hverjar þrútnar sykri.
Hitt er síðan annað mál og ég hef nokkuð sterkar skoðanir á því, að okkur sem þjóð ber að vernda íslenska dýrastofna sem eru um margt merkilegt erfðaefni. Og þar kemur að hinum alvöru innflutningshöftum sem snúast um sjúkdómavarnir. Dýrasjúkdómar eru margir hverjir ekkert grín og erfitt að taka aftur ef þeim er hleypt inn fyrir fjarlægðarvarnirnar sem hér eru fyrir hendi.
Íslensk landbúnaðarframleiðsla er misjöfn eins og annarsstaðar í heiminum. Neytendur eiga að fá upplýsingar um uppruna og framleiðsluhætti, þá geta þeir valið. Á það skortir mikið.
Hagsmuna landbúnaðarins verður gætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 20:24
Haust í nánd
Ég fann það í morgun að það er að styttast í haustið. Loftið var haustkalt og napurt niður Skógarselsbrekkuna. Það verður að komast í berjamó fyrir frost. En frost getur svosem komið hvenær sem er.
Kanínurnar í Elliðaárdalnum eru talsvert fleiri núna en í vor. Spurning hvað gerist í vetur. En þarna eru þær á hörkubeit.
Svo er ýmis trjáviður orðinn ansi mikið umfangsmeiri núna en í vor. Alaskavíðir slútir yfir hjólastíginn í Ljósheimunum, við gömlu blokkina mína þar sem ég ólst upp til 4ra ára aldurs. Víða á kröppum hornum skerða runnar og tré útsýni svo öryggi er stefnt í voða. Og borgin leyfir runnum að vaxa inn á hálfan hjólastíginn þar sem hjólað er frá Glæsibæ niður í Laugardal. Mætti skoða þetta betur. Það þyrfti í rauninni að finna svarta bletti á hjólastígum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem beygjur eru of krappar, gróður skerðir útsýni, hætta á árekstrum við gangandi vegfarendur o.s.frv.
En ég ætla mér að hjóla eins lengi og haustið býður mér, og jafnvel að kaupa mér nagladekk.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 20:08
Um hvað snúast almenningssamgöngur?
Mér fannst afar fyndið að stjórnendur Strætó leiddu hugann að því að fækka ferðum til að spara í rekstri. Besta sparnaðarleiðin fyrir Strætó væri að keyra bara alls ekki neitt. Nú fer í hönd sá tími sem fólki á ferð á höfuðborgarsvæðinu fjölgar svo um munar, allar götur stíflast af einkabílum, ein manneskja í hverjum. Tímasóun, mengun, stress, slys o.s.frv. veldur miklum kostnaði fyrir samfélagið. Almenningssamgöngur eru ein leiðin til að minnka þann kostnað. Það sem hins vegar vefst enn fyrir flestum sem þurfa að ferðast á milli staða á höfuðborgarsvæðinu er annars vegar að þeir eru miklu mun lengur að ferðast milli A og B í strætó eins og staðan er nú og hins vegar að vagnar ganga oft ekki nema á hálftíma fresti og það að missa af strætó er orðið háalvarlegt mál vegna allra skuldbindinga viðkomandi.
Forgangsatriði Strætó og þ.a.l. sveitarfélaganna er að greiða leið strætisvagna, stundum á kostnað einkabíla en einnig með forgangsreinum sem geta verið hrein viðbót við núverandi gatnakerfi. Það getur verið erfið og sársaukafull fæðing þar sem oft lengjast raðir einkabílanna. Hún er hins vegar nauðsynleg til að breyta hugarfari, breyta lífsstíl. Við þetta fjölgar farþegum og þá má auka tíðni ferða.
Strætó á að setja sér markmið varðandi ferðatíma. Að flestir komist til og frá vinnu á innan við 30% lengri tíma en þeir gera í dag. Ég er t.d. 50% lengur með strætó í vinnuna en á einkabíl, fljótari að hjóla.
Aukin fjárframlög í stað niðurskurðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2008 | 10:41
Hvernig mótmæla Íslendingar lækkunartregðu olíufélaganna?
Þetta er gömul saga og ný og það verður að segjast eins og er að það er óhægt um vik að láta fæturna velja í þessum vöruflokki sem mörgum öðrum hér á landi. Nánast engin samkeppni er á olíumarkaði hér á landi og neytendur geta sleppt því að kaupa bensín einn dag en verða síðan að kaupa það næsta dag til að verða ekki strand.
Eina færa leiðin er að minnka heildareftirspurn eftir þessu eldsneyti. Það þýðir yfirleitt nýjan lífsstíl, sem við eigum afar erfitt með að temja okkur þó svo hér eigi að ríkja "kreppa". Ég hef t.d. það val að ferðast til og frá vinnu á bíl. Ferðin tekur mig u.þ.b. 10-15 mín. Þess í stað hef ég tekið strætó sl. vetur og notað til þess strætókort sem kostaði um 30 þús og gildir í 9 mánuði. Ferðin tekur um 30 mín. Ég gæti því sparað mér max 40 mín á dag með því að eiga bíl. Í sumar hef ég síðan hjólað nánast á hverjum degi til og frá vinnu. Ferðin tekur 25-30 mín, ca 9 km hvora leið. Þetta er mín heilsurækt.
Aðstæður fólks eru hins vegar mjög mismunandi og margir eiga því mjög örðugt með að hjóla eða ganga. Skutla börnunum hingað og þangað. Fundaferðir í vinnu. O.s.frv.
En svo er þetta oft spurning um viðhorf. Hvað þarf ég t.d. að vinna marga yfirvinnutíma til að borga fyrir rekstur á öðrum bíl, sem ég nýti að meðaltali 30-60 mín á dag? Yfirvinnutíma sem ég annars gæti nýtt með fjölskyldunni. Með því að hjóla eða ganga er líka komin góð hreyfing svo ég þarf varla að nýta mér líkamsræktina, sem tekur líka 1 klst á dag af dýrmætum fjölskyldutíma. Allt er þetta spurning um forgangsröðun.
Dropinn dýr þótt verðið lækki ytra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.8.2008 | 13:20
Sameiginlegt mat
Ég er hlynntur því í öllum meginatriðum að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda eins og ætlunin er að fara í á Bakka. Eftir lestur á úrskurði umhverfisráðherra finnst mér hins vegar rök ráðuneytisins ekkert sérstaklega sterk, einkum að teknu tilliti til þess hvernig Skipulagsstofnun hefur staðið að málinu, sem mér finnst til fyrirmyndar. Þar var komið á mjög efnilegu samráði allra aðila sem miðaði að því að allir þættir fyrirhugaðra framkvæmda væru í gangi á sama tíma, sem myndi auðvela öllum að hafa yfirsýn yfir málið þ.m.t. umsagnaraðilum, Skipulagsstofnun og almenningi. Og það eru í raun meginrök ráðuneytisins að Skipulagsstofnun skortir lagastoð til að þvinga alla framkvæmdaraðila til slíks samráðs.
Ég vil hins vegar benda á það að á Bakkanum hinumegin á landinu fór fram sameiginlegt mat fyrir tvær tengdar framkvæmdir, Bakkafjöruhöfn og Bakkafjöruveg. Þar hefði mátt meta áhrif hafnarinnar sér og vegarins sér, sem hefði í sjálfu sér verið fáránlegt.
En ég á erfitt með að ímynda mér að þessi úrskurður breyti í raun miklu þó að sameiginlegt mat eigi e.t.v. eftir að kristalla betur erfiðleikana við að finna næga orku fyrir álverið.
En nú ætla ég að koma mér út í góða veðrið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.7.2008 | 11:35
Sandvík í tætlum
Fjölskyldan fór í skemmtitúr um Reykjanesskagann á sunnudaginn, skoðuðum helstu þéttbýlisstaði, Garðskagavita, fjöruna og ókum síðan suður á Reykjanes. Á leiðinni kíktum við í Sandvík þar sem brimið öskraði við ströndina og stelpurnar báðu vinsamlegast um að fá að fara aftur inn í bíl. En það var ekki bara brimið sem öskraði heldur voru þarna metnaðarfullir menn á mótorhjólum sem tættu upp ströndina og melhólana, þeyttu upp sandi og gerðu alla útivist á svæðinu afar lítt sjarmerandi.
Mótorhjólistar hafa greinilega eignað sér svæðið, sem er gamalt landgræðslusvæði og er á náttúruminjaskrá ásamt næsta nágrenni. Ég ákvað að vera ekki að pirra lögguna á þessu væga broti á íslenskum lögum sem varða utanvegaakstur en á þessu sviði er pottur talsvert skemmdur eða brotinn hér á landi. Svo datt mér í hug hvort ekki ætti bara að ánafna vélhjólasamtökum Íslands svæðið til afnota, með þeim skyldum og ábyrgð sem því fylgir. Þeir myndu þá hafa afnot af svæðinu en þyrftu einnig að tryggja verndun svæðisins, þ.e. að það færi ekki á kaf í sand og tjörnin gæti áfram verið búsvæði fugla, þrátt fyrir hávaðann.
Það er greinilega enginn sem sinnir þessu svæði, er vörslumaður þess, vegir eru slæmir, umgengni slæm og engar merkingar.
Við fórum síðan út á Reykjanes þar sem er eitthvert stórfenglegasta sýnishorn af íslenskri náttúru sem til er. Það sinnir heldur enginn um það svæði, vegir slæmir, illa merkt, bílastæði ekki afmörkuð o.s.frv. Þetta er enn eitt sýnishornið af því að náttúra landsins getur orðið eins og þurrsogin mjólkurkýr sem fær afar lítið að éta hjá hirði sínum, og horast upp.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar