Færsluflokkur: Dægurmál

Góðgerðarskjöldurinn og hryðjuverk

Þúsaldarleikvangurinn í Cardiff (BBC)

Ég vaknaði upp við það í fyrradag að leikurinn um góðgerðarskjöldinn á að vera í dag, hér í Cardiff. Ósköp er maður eitthvað úti að aka. En þetta er leikur stórliða þetta árið eins og vanalega, Chelsea og Liverpool. Það er búist við einhverjum töfum vegna hertra öryggiskrafna, þannig að biðraðirnar verða sennilega eitthvað lengri en vanalega. 

Annars hafa margir álit á hinum meintu hryðjuverkum í vikunni, sumir telja að um samsæri bresku og BNA ríkisstjórnanna sé að ræða. Verið að auka trúverðugleikann og beina fréttum frá Líbanon og miðausturlöndum. Hvað veit maður. En það er einnig mikil reiði meðal múhameðstrúarmanna hér í Bretlandi, finnst yfir sig gengið. Það er því ekki líklegt að "stríðið gegn hryðjuverkum" sé á enda. 

Við erum á leið í barnaafmæli hjá honum Alexander í dag, 4 ára pjakkurinn sá. Það lítur út fyrir gott veður, bæði fyrir afmæli og fótbolta, dálítill vindur en þurrt og milt veður.  


Flug, ítölsk skólamötuneyti og heilbrigð fæða

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki staddur á Heathrow eða Gatwick í gær. Ægileg ös og öngþveiti. En svona mun þetta verða öðru hverju. Spurning hvort reglum um handfarangur verði alfarið breytt. Það væri helst áfall fyrir þá sem fara styttri ferðir vegna sinnar vinnu, bara með handfarangur og þýðir talsvert lengri bið á flugvelli.

Jamie Oliver sýndi okkur í gær dæmigert ítalskt skólamötuneyti. Talsvert ólíkt því sem hann hefur sýnt frá þeim bresku. Allur matur er þar eldaður á staðnum úr góðu hráefni. Lítið val fyrir börnin og alltaf ávextir. Hann sýndi matseljunum dæmi um hvað breskum börnum er boðið uppá og þær úrskurðuðu það beint í ruslatunnuna. Sýnum við börnunum okkar næga virðingu þegar kemur að því að gefa þeim að borða? Ég bara spyr.

Annars er mikið að frétta úr heimi hinnar heilbrigðu fæðu eða óheilbrigðu. Skordýraeitur, sem notuð eru af bændum um allan heim, eru talin geta komið af stað taugasjúkdómum eins og MS og Parkisons, sjá Daily Mail.  Umbúðir um allskyns mat, eins og súkkulaði og ís, innihalda latex, sem getur orsakað ofnæmi. Engar reglur eru um að þetta sé sýnt á umbúðunum sjálfum, Independent. Tesco, Sainsburys og Asda, bresku stórverslunarrisarnir, hafa tekið þá ákvörðun að banna hertar jurtafitur í sínum framleiðsluvörum. Hertar jurtafitur eru helsta uppspretta s.k. trans-fats, sem eru tengdar við hjartasjúkdóma og offeiti. WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, hefur ráðlagt að neytendur ættu að fjarlægja allar slíkar fitur úr sínum mat.

En annars er allt í þessu fína hér í Wales. Veður er stillt en nær rétt um 20 gráðum á daginn. Heldur kalt.


Eru verndararnir umhverfissóðar?

Þessi frétt kemur mér ekki á óvart. Það er nefnilega þannig ennþá að sumir telja sig ekki þurfa álit annarra á því hvort framkvæmdir eins og vega/slóðagerð séu æskilegar og því síður hvernig skuli að slíku verki staðið. Þetta á ekki síst við á fáförnum svæðum, sem óðum er að fækka, og þá eru það oft þeir sem telja sig verndara viðkomandi svæða sem hafa sig hvað mest í frammi. Mjög litlar líkur eru á að þessi framkvæmd hafi farið eðlilega leið í kerfinu en málið er að þetta kemur öllum við, ekki bara þeim sem telja sig "þurfa" veg. Það er þó ánægjulegt að fréttinn sé sprottinn frá liðsmanni 4x4, sem sýnir ábyrgð þess félagsskapar að því er varðar umhverfismál. 
mbl.is Umhverfisspjöll á Arnarvatnsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin fullkomna netverslun

Delivery van

Í dag fór fram hér á Everard Way það sem ég myndi kalla hina fullkomnu netverslun, reyndar að því tilskildu að menn geri ráð fyrir að alltaf verði einhver mistök. Sem sagt, fullkomið, sé gert ráð fyrir að mistök verði. 

Við áttum von á heimsendingu frá Sainsburys, en þangað höfum við fært viðskiptin í auknum mæli. Sé verslað yfir 70 pund þá er heimsending frí. Það sparar 5 pund. Við verslum orðið aðra hverja viku á netinu og því er þetta okkur hagstætt. Annars er óvíst að hin vikulega verslun væri meiri en 70 pund. En allavega, Sainsburys býður upp á afhendingu á klukkutíma tímabilum, t.d. milli kl. 11 og 12. Samkeppnisaðilarnir eru með tveggja klst. tímabil. Í morgun seinkaði bílnum eitthvað svo þeir náðu ekki hingað fyrir kl. 12 og reyndar seinkaði þeim svo að þeir misstu af mér, var farinn út þegar þeir komu. Ég hringdi í þá eftir að ég kom heim og bíllinn birtist hér 15 mín. síðar með allar vörurnar og, rúsínan í pylsuendanum, við fengum afsláttarmiða af næstu netinnkaupum uppá 10 pund. Geri aðrir betur. Tesco og Asda hafa ekki sýnt viðleitni í þessa átt. Það er því ljóst hvert við beinum viðskiptum okkar á næstu vikum. Svo er Sainsburys heldur "grænni" aðili en hinir.


Kjúklingur er góður en erum við góð við kjúkling?

Kjúklingar

Það er talsvert rætt um velferð dýra hér í Bretlandi, umræða sem maður verður ekki mikið var við á Íslandi. T.d. fjallar Daily Mail um þjáningar kjúklinga sem alast upp á verksmiðjubúum. Vaxtarhraði þeirra er tvöfaldur á við það sem hann var fyrir 30 árum síðan, tvö kíló á 38 dögum. Afleiðingarnar, vansköpun fóta á rúmum fjórðungi hinna 800 milljón kjúklinga sem lenda á borðum hér í Bretlandi ár hvert. Fleiri atriði eins og mikill þéttleiki á fuglunum, yfir 20 þús. stk. saman í húsi, stöðugt ljós og sýklalyf í fóðri, eru ekki til að auka á trúverðugleika þessa iðnaðar. Því það er varla hægt að kalla kjúklingaeldi landbúnað.

OK. Hvað gerir maður þá? Kaupa ekki kjúkling? Framboð á kjúklingi er mikið en það er ekki mikið framboð af kjúklingi sem hefur haft það gott á sinni stuttu ævi. Það er t.d. ekki til "Free Range" kjúklingur eða Hamingjusamur kjúklingur í búðum hér í Cardiff en reyndar lífrænt vottaður. Spurningin er hins vegar sú, af hverju er þetta svona, hver leyfir framleiðslu á matvælum við þessar aðstæður? Neytendur geta valið með buddunni en þeir þurfa líka að geta treyst þeim viðmiðunum um framleiðsluhætti sem leyfðir eru, eða.....? 

 


Fjárhundar og Bowls

Bowls

Ponty stóð fyrir sínu, fallegur garður, reyndar lítið um smakkmat, smá tívolí, róló, fjárhundasýning, hannyrðir, steinbrú og þröngar götur. Brautarpallurinn er líka afar langur. Það var lítið sem minnti á Tom Jones en dagurinn var engu að síður ánægjulegur, hæfilega langt ferðalag og endað á því að grilla breskar kótilettur hérna heima en þær gefa hinum íslensku ekkert eftir, þó ég segi sjálfur frá. Meira kjöt á beinunum þar. 

Svo náði ég nokkrum myndum af eldri/heldri borgurum spila Bowls í Ponty. N.k. útibossía, afsakið stafsetn. Allir klæddir í hvítt, eins og í krikket. Völlurinn rennisléttur en gras og hæfilega stór til að hann megi ganga enda á milli á stuttum tíma. Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég að þessa íþrótt megi vel innleiða á Íslandi, hana má spila innan húss og utan. Það mætti setja velli við helstu öldrunarstofnanir landsins, fyrirtaks hreyfing. Slíkt myndi kosta svipað átak og s.k. "sparkvellir" en þjónaði öðrum aldurshópi. 

Veður, stillt og rakt, um 20 stiga hiti og stefnir í 26. Ætti að haldast þurr í dag.  


Heimaslóðir Tom Jones

Steinbrúin í Ponty (BBC)

Í dag ætlum við til Pontypridd, lítils námubæjar hér inn í dal, hálftímaferð með lest. Sá bær hefur það helst unnið sér til frægðar að þar var lengsta einbreiða steinbrú í Evrópu þegar hún var byggð árið 1755, á tímabili lengsti brautarpallur í heimi og þar ólst Tom Jones upp. Þangað eiga líka hljómsveitir eins og Stereophonics og Lost Prophets ættir sínar að rekja. Svo var þjóðsöngurinn, Hen Wlad Fy Nhadau, saminn af feðgum frá Ponty 1856.

Um þessa helgi er þar matar- og landbúnaðarhátíðin Big Welsh Bite. Vonumst eftir góðu framboði af smakkmat og að veðrið haldist þurrt í dag. Í augnablikinu er 18 stiga hiti og 96% raki þannig að þurrkurinn er ótryggur. 


Gengið og boltinn

Þegar dvölin hér í Wales er ríflega hálfnuð þá er ekki laust við að hugurinn hvarfli heim öðru hverju. Eitt sem ég hef tekið eftir er að skömmu eftir að við komum hingað þá féll gengi krónunnar hratt og illa, kom sumum vel, öðrum illa, ekki síst okkur. Núna tek ég eftir því að gengið litlu Ikr er að hækka aftur, hægt og rólega. Gæti það tengst því að senn líður að heimferð okkar? Ég man að þegar við vorum í USA fyrir fimm árum síðan þá gerðist það sama, að gengi krónunnar féll hratt eftir að við fórum af landi brott. Man reyndar ekki hvað gerðist þegar við komum heim en þarna gætu verið tengsl, við hjónin höfum einhver áhrif á hið íslenska hagkerfi, og kannski meiri en margan grunar. 

Annars hef ég þjáðst af miklu andleysi hvað varðar skrif og ekki mörg orð hrotið af lyklaborðinu upp á síðkastið. En nú hefur kólnað allnokkuð hér hjá okkur, ekki nema um 20 gráður í dag og nokkur vindur, á hérlendan mælikvarða. Það hefur reyndar varla komið vindur hér svo nokkru nemi, sé miðað við íslenskar aðstæður.

Enski boltinn fer að byrja og nú sýnist mönnum hér stefna í að enn einn úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar, eftir tæpt ár, þurfi að spilast hér vestra en Wembley verði ekki enn orðinn leikfær. En sorglegt! 


Hitabylgja og geðvonska

_41904116_hottest_203.gif

Verður hitametið í júlí slegið í dag? Bretar eru fullir eftirvæntingar en spáin fyrir daginn er a.m.k. 34 gráður. Hitametið í Bretlandi í júlí er 36 gráður en hér í Wales er það 33,6 gráður. Spennan er því gífurleg. En dagurinn fer rólega af stað, nokkur vindur gerði morguninn bærilegan eftir heita nótt. Börnin eiga erfitt með að sofna, sveitt og þvöl. Skólum er jafnvel aflýst, hiti í skólastofum kominn í 35 gráður og mannskapurinn varla með meðvitund. Það er almennt varað við geðvonsku og að þráðurinn sé stuttur. Fólk fuðri upp í reiði eins og þrumuveður. En svo á þetta að ganga niður á morgun, smá nett rigning og hitinn eitthvað lægri. 

Mér finnst þetta allt í lagi, enda ræð ég nánast alfarið hvort ég er inni eða úti. Næturnar eru verstar.  


Barnaafmæli og nýbúar

Fyrir mig er alltaf dálítið átak að fara í barnaafmæli. Barnaafmæli hafa í för með sér ýmis óþægindi sem ég kýs að vera laus við, sé þess kostur. Hávaði, vandræðalegar samræður við foreldra og fleira mætti nefna. En þau hafa líka í för með sér góða hluti. Börnin hittast utan skólans sem og foreldrar og eiga samskipti sem geta leitt til frekari kunningsskapar. Barnaafmæli hér ytra eru ólík því sem ég hef vanist heima á klakanum. Hið dæmigerða afmæli er haldið í sal út í bæ þar sem eru leiktæki og hoppkastalar eins og það heitir. Börnin fá útrás en ekki sjálfgefið að þau hafi nein bein samskipti sín á milli en líklegt að þau rekist hvert á annað líkamlega. Síðan sér "salurinn" um allar veitingar, sem yfirleitt eru í léttari kantinum, og loks er blásið á kerti á forláta köku, hún síðan fjarlægð, skorin niður og hverri sneið pakkað inn í servíettu. Hvert barn fær síðan sneið í servíettu með sér heim ásamt litlum poka með smádóti og sælgæti í. Þá er það búið! Við fullorðna fólkið sem dveljum á staðnum á meðan fylgjumst með dagskránni og reynum að láta ekki mikið á okkur bera svo leikur barnanna verði ekki fyrir óþarfa truflun en jafnframt að vera til staðar þegar árekstrar verða.

Við Margrét fórum sumsé í eitt svona partí í dag. Það voru tvær fjölskyldur, ættaðar frá Íran, sem héldu veisluna. Veislan var dæmigerð fyrir það sem við höfum séð. Það sem mér finnst hins vegar standa uppúr eru þau forréttindi fyrir börn af mörgum kynþáttum og trúarhópum að eiga svona óformleg samskipti sín í milli. Þau eru skólafélagar og leikfélagar. Slíkar aðstæður eru best til þess fallnar að útrýma fordómum. Ég ræddi við fjölskyldufeðurna, sem hafa búið hér í yfir 30 ár. Þeir vilja ekki snúa aftur til Íran, erfiðara fyrir þá nú að aðlagast aðstæðum þar. Fjölskyldurnar tala þó Farsi sín á milli og reyna eftir megni að halda málinu við, telja það afar mikilvægt fyrir sína menningu og barna sinna. En, eins og virðist nánast regla hér þá er þetta afar indælt fólk og þægilegt í samskiptum. 

Aftur að veðrinu, ansi heitt í dag og nánast óbærilegt að vera úti í sólinni, hún er svo sterk. Hiti tæp 30 stig. Eitthvert framhald verður á þessu fram eftir vikunni. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband