Færsluflokkur: Dægurmál

Af barnatíma og hjólreiðum

River Taff

Það verður að segjast eins og er, hvað sem fólki finnst um hina íhaldssömu sjónvarpsstöð BBC, að ég tel það forréttindi að hafa aðgang að því barnaefni sem er sýnt á barnastöðinni CBeebies. Dagskrárefnið er undantekningalítið vandað, oft reynt að kveikja hugmyndir hjá börnum, og foreldrum, og mikil fræðsla falin í efninu. Svo eru engar auglýsingar nema um dagskrána. Enda hrökk Margrét við þegar hún stillti á barnatímann á Five í morgun og það kom auglýsing um sykrað morgunkorn. Hún heimtaði að losna við þennan ósóma af skjánum, strax! Borið saman við Bandaríkin þá er hrein martröð að bjóða börnum að horfa á barnatíma þar, gríðarlegt auglýsingaáreiti, undantekningalítið sælgæti, skyndibitamatur, sykurdrykkir eða sykrað morgunkorn. Hér þurfa börn ekki að sjá auglýsingu frá McDonalds frekar en foreldrarnir kjósa, ef þau horfa á sjónvarp á annað borð. Það kalla ég vel sloppið. Hver er stefna hins íslenska Ríkissjónvarps? Auðvitað ætti ekki að sýna eina einustu auglýsingu á meðan barnatími er á dagskránni. Sök sér með aðra dagskrárliði. 

ÉG kom því loks í verk að hjóla yfir að ánni Taff en þar er fínn 55 mílu langur hjólreiðastígur. Ég hjólaði nú ekki nema smá brot af leiðinni en möguleiki er að hjóla frá miðbæ Cardiff, allt norður í þjóðgarðinn Brecon Beacons eftir þessum stíg, eða öfugt. Kannski ég reyni að koma því í verk áður en dvölinni hér lýkur. Annars venst nokkuð vel að hjóla hér í Cardiff, vinstri umferðin er orðin sjálfsögð í mínum huga og þrátt fyrir þrengsli þá kemst maður nokkuð greiðlega sínar leiðir á hjóli. Það mætti þó vera meira um sérstakar hjólaleiðir hér í bæ, sérstaklega þvert á dalina, austur-vestur. En það virðist nú ekki vera á dagskrá enda hæla þeir sér af því hér að í Cardiff sé meira af grænum svæðum en í flestum öðrum breskum borgum. Veit ekki með það. 


Gott innlegg

Ég verð að hrósa BSRB fyrir þennan texta um matvælaverð á Íslandi. Það er náttúrulega óheyrilega hátt og svo verður að taka með í reikninginn hver eru gæðin á vörunni sem við neytendur fáum með í pakkanum. Gæði á íslenskum landbúnaðarafurðum eru tiltölulega mikil, a.m.k. miðað við margt sem manni stendur til boða hér erlendis, það er oft fyrst þegar maður hefur búið erlendis sem maður lærir að meta gæði íslenskrar matvælaframleiðslu. Það er hins vegar ekki svo einfalt að við eigum að borða íslenskt bara af því að það er íslenskt. 

Hið íslenska landbúnaðarstyrkjakerfi þarfnast verulegrar endurskoðunar við. Þar er enn stuðst við beinar framleiðslutengingar styrkja en það verður að leita fleiri leiða til að klippa á þessar mjög svo markaðstruflandi greiðslur. En þá þarf að leita leiða til styðja við landbúnaðinn, því það ætti enginn að ætla íslenskum landbúnaði að þrífast við erfiðar aðstæður án styrkja á meðan landbúnaður annarsstaðar í heiminum nýtur gríðarlegra styrkja og væri við hæfi að þeir styrkir fengju meiri umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.  


mbl.is BSRB vill þjóðarsátt um íslenskan landbúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kranavatnið ku vera gott og 10.000 sinnum ódýrara

Vatn

Kranavatn hér í Wales ku yfirleitt vera gott, einkum nær fjöllunum. Hér suður í dölum hafa komið upp m.a. e-coli tilfelli rakin til kranavatns. Við höfum frá upphafi keypt okkar drykkjarvatn í stórum 5 lítra plastbrúsum, einhvern veginn höfum við það á tilfinningunni að hið oft mikið meðhöndlaða kranavatn sé ekki fullkomlega óhætt og svo þykjumst við finna bragð sem okkur líkar ekki. Kannski er líka um að ræða einhverja útlandahræðslu.

Grein í Independent fjallar um þetta mál og þar er bent á að í Bretlandi kostar líterinn af flöskuvatni í smáum pakkningum u.þ.b. það sama og líter af bensíni, tæpt 1 pund. Til samanburðar þá kosta 10.000 lítrar af kranavatni um 1 pund. Það má blanda ýmsum bragðefnum í kranavatnið fyrir þann mismun, sjóða það og frysta o.s.frv. Við höfum keypt líterinn á ca 20 pens, getum varla fengið það ódýrara. Neyslan af þessu vatni er ca 12 lítrar á viku sem gerir 2,4 pund eða um 10 pund á mánuði. Við gætum sumsé sparað okkur nokkurn pening á því að skipta yfir í kranavatn. 

Umhverfiskostnaður fyrir utan þetta er talsverður, framleiðsla á plastflöskum kostar mikla orku, akstur á vatninu fram og aftur um landið með tilheyrandi mengun og orkukostnaði og loks úrgangurinn sem skapast og er ekkert nema vandamál. Maður verður sennilega að taka sig á en það kostar vafalítið nokkrar umræður hér innanhúss. Sjáum hvað setur.

Nú er blíða hér hjá okkur, 25-30 stiga hiti og sól. Það lítur út fyrir mikið rafmagn í loftinu, núningur heita og kalda loftsins gæti orsakað miklar þrumur og eldingar næstu daga, sem er kannski fyrirboði þess að Englendingar falli úr heimsmeistarakeppninni.


Græna byltingin í stórmörkuðunum og ljótur jarðargróði

Árið í ár er tileinkað baráttu stórmarkaðanna um græna ímynd, það gildir bæði hér í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sumar yfirlýsingarnar flokkast undir lýðskrum en aðrir hafa látið gjörð fylgja orði. Gamli risinn í nýja búningnum, Marks & Spencer, er álitinn grænasti stórmarkaðurinn í Bretlandi að mati umhverfisverndarsinna, Greenpeace og Friends of the Earth. Þar er meira um s.k. "fair trade" vöru, frá fátækum framleiðendum í þróunarlöndum, fatnaður úr lífrænt vottaðri baðmull og sjóvænn fiskur (ocean friendly), hvað sem það nú þýðir. Maður má því eiga von á auknu úrvali af góðri vöru á lægra verði á næstunni. 

Svo má ekki gleyma snobbbúðinni Waitrose, sem hefur verið ansi framarlega í græna geiranum, samanborið við hina risana. Þeir ætla nú að bjóða upp á ljóta ávexti og grænmeti á afslætti. Krafa okkar neytenda um hið fullkomna útlit matvörunnar er komin í slíkar öfgar að "ljótri" vöru er hent vægðarlaust. Nú ætlar Waitrose sumsé að bjóða afskræmd jarðarber og bognar gulrætur "visually flawed or oddly shaped". Þetta má nota í sultur og mauk hverskonar. 

Við eigum von á sendingu frá Riverford í dag. Þau viðurkenna fúslega að jarðarberin frá þeim séu ekki fullkomin í laginu en þau séu himnesk á bragðið. Sama gildir um gulræturnar. 

Við erum í kælingu hér í Cardiff þessa dagana, eftir heita síðustu viku. Það nær ekki 20 stigum hér, þungbúið og nokkur vindur. Spáin svipuð næstu daga. 


Þjóðhátíð í útlöndum

Þjóðfáninn

Ég hef aldrei áður skreytt húsið mitt með fánum og blöðrum á þjóðhátíðardaginn, enda hef ég aldrei áður varið 17. júní í útlöndum. Það er hins vegar staðreynd í dag og það sem meira er að í dag er 25 stiga hiti og sól, sem ég hef reyndar upplifað áður á 17. júní en er alltof sjaldgæft á þessum góða degi á Íslandi. Þjóðerniskenndin er svo sem ekkert að bera mig ofurliði þó við séum ekki mörg hér í Cardiff brotin af íslensku bergi. Fáum reyndar hina Íslendingana í heimsókn á eftir. Það sem er okkur verðmætt er tungan og landið. Þjóðfélagið er ekkert merkilegra en önnur þjóðfélög og maður finnur það hér í Wales að þjóð sem hefur verið undirokuð af nágrannaþjóðinni æði lengi ræktar með sér mikla þjóðerniskennd. Hér er haldið dauðahaldi í tunguna, sem Englendingar gera grín að, þjóðfáninn notaður við hvert tækifæri og mikið um klæðnað sem ber merki Wales, rauða drekann. Íslendingar eru í raun talsvert líkir Walesverjum. Þjóðin er í a.m.k. tveimur hlutum, það er talað annað tungumál hér í Cardiff en víða annarsstaðar í Wales, eins og höfuðborgarsvæðið sker sig úr gagnvart landsbyggðinni á Íslandi. Walesverjar eru stoltir af upprunanum og halda á lofti sögum af sínum þjóðhetjum, eins og Íslendingasögurnar okkar. Hér eru sjálfstæðishetjur á hverju strái, í sögum. En eins og áður segir, þá snýst þetta um land og tungu. Það er það sem við eigum sameiginlegt og það er það sem við eigum að vernda og rækta.


Coca Cola, vatnsbirgðir í Indlandi, matseðlar og tími rósanna.

Tími rósanna

Rakst á grein í Voice of America þar sem fjallað er um ásakanir á hendur Coca Cola fyrir að nota of mikið vatn í verksmiðjum sínum í Suður Indlandi. Brunnar hafa þornað upp og Coke hefur þegar þurft að loka einni verksmiðju eftir málaferli. Segja þetta "anti ameríku áróður" og engar vísindalegar sannanir séu fyrir hendi. En svona eru birtingarmyndir alheimsvæðingarinnar.

Talandi um Coca Cola, þá hefur Matvæla- og Lyfjaráð Bandaríkjanna mælt með því að veitingahús bjóði upp á matseðla með meiri ávöxtum og grænmeti, minnki skammtana og auki upplýsingar um innihald rétta.  Þetta er allt á hendur offeiti þeirra Bandaríkjamanna. Þeir borða víst 300 fleiri kaloríur á dag núna en árið 1985 og neyta þriðjungs þeirra að heiman, aðallega í formi hamborgara, franskra og pizzu á skyndibitastöðum. En þetta eru víst bara tilmæli og vegna kostnaðar er ólíklegt að þetta verði tekið háalvarlega til að byrja með. Enda er það víst þannig að við eigum sjálf að vera ábyrg fyrir því hvað við látum ofaní okkur, ekki ríkisstjórnin. Verst að afleiðingarnar leggjast síðan jafnt á okkur fjárhagslega í formi skattpeninga í heilbrigðiskerfið. 

Hér í Cardiff er kominn tími rósanna. Í hverjum garði blómstra nú rósir sem þær eigi lífið að leysa og í mörgum litum. Við erum tiltölulega hófsöm og höfum bleikar rósir hér framan við húsið. En því er ekki að neita að fallegar eru þær.


Áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda?

coalgraphic.gif

Hefur einhver áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda? Ef svo er, þá sýnist mér á öllu að það sé alveg óþarfi, Kínverjar munu sjá heiminum fyrir nægum gróðurhúsalofttegundum næstu árin ef marka má grein í New York Times. Notkun á kolum í Kína er nú meiri en í BNA, Evrópusambandið og Japan til samans. Og í hverri viku eru reist þar kolaorkuver sem myndu fullnægja orkuþörf borga eins og Dallas eða San Diego. Mengunin er gríðarleg, losun á brennisteinsdíoxíði er mikil með tilheyrandi súru regni og losun á koldíoxíði og kolaóhreinindum gerir loftmengun á verstu svæðunum í Kína óbærilega. Losun á koldíoxíði er svipuð í Kína og í Bandaríkjunum nú en gæti tvöfaldast til 2025 ef svo fer fram sem horfir.

En af hverju?

Kínverjar vilja reyna að ná í skottið á öðrum hvað varðar lífsgæði, peninga á milli handanna, raftæki á heimilinu og að eiga fyrir fleiri fæðutegundum en hrísgrjónum. Þetta er því ekkert skrítið, bara slæmt að þessum mikla vexti fylgi svo mikil mengun. Kínverjar nota gamla og lélega hreinsitækni við kolabrennslu, tíma ekki að fjárfesta í dýrri tækni á Vesturlöndum, frekar að keyra hagvöxtinn upp. Kínverjar eiga lítið af orku nema í kolum, vatnsorkuver munu aldrei ná nema um 20% af heildarorkuþörfinni. 

Á næstu tveimur áratugum munu fleiri Kínverjar en allir Bandaríkjamenn eru nú, flytja í borgir. Þetta mun hafa í för með sér að þessir 300 millj. Kínverjar munu hafa mun meiri fjármunum úr að spila en í dag og verja þeim í allt mögulegt sem okkur þykir sjálfsagt að hafa. Það kostar meiri orku.

Þannig að, ekki hafa áhyggjur. 


Fuglaflensa í þauleldi og sparnaður í samgöngum

Útbeiðslukort fuglaflensu

Villtir fuglar og útiráfandi alifuglar (free range poultry) hafa yfirleitt verið nefndir sem megin áhættuþátturinn varðandi smitleiðir fyrir fuglaflensu. Nú setja sumir fyrirvara við þessa uppstillingu en vilja beina kastljósinu í auknum mæli að verksmiðjueldi eða þauleldi á fuglum í Kína og Suðaustur Asíu, þar sem reglur eru að miklu leyti settar af iðnaðinum sjálfum. Framleiðslunni og úrgangi er síðan dreift um allan heim eftir fjölmörgum leiðum. Fuglar í þauleldi hafa litla mótstöðu gegn sjúkdómum og smitið er fljótt að breiðast út. Því er haldið fram að fuglaflensan sé í raun að berast úr alifuglum og yfir í villta fugla og útiráfandi alifugla. Sjá nánar í Guardian

Nú telst mér til að ég hafi sparað rétt 6,6 pund í þessari viku í færri strætóferðum plús 4,95 pund í heimsendingu á matvöru. Þetta þýðir 11,55 pund í sparnað, sem er að miklu leyti að þakka fjárfestingu í reiðhjóli Ef svona heldur áfram þá verður það ekki nema 7 vikur að borga sig upp og aðrar 10 að borga aukabúnaðinn þ.e.a.s. um 4 mánuði. Verður það ekki að teljast ásættanlegt?


Er nýmjólk ruslfæði, lífrænt vottaður þorskur og hvernig kemst ég hjá því að borða illgresiseitur?

Get ekki orða bundist þegar ég sá þessa frétt á The Times. Í tengslum við endurbætur á því fóðri sem framreitt er í skólamötuneytum og beint er gegn ýmsu ruslfæði s.s. djúpsteiktum og tilbúnum mat, þá á einnig að banna nýmjólk, þ.e. mjólk sem ekki hefur verið fituskert og er með 3-3,5% fitu. Þessi breyting er samþykkt af hinu breska Manneldisráði en á vafalítið eftir að vekja mjög hörð viðbrögð. 

Annars kaupa bretar nú meira af ferskum ávöxtum og grænmeti en áður og neysla á heilkorna brauðum hefur aukist (Daily Mail).  

Svona fyrir íslenska fiskeldismenn þá er Tesco með lífrænt vottaðan eldisþorsk í fiskborðinu. Þetta er að einhverju leyti hálfsannleikur hjá Tesco því ekki hefur verið gengið alveg frá reglum um vottun á eldisþorski og ekki má nota stýrða lýsingu til að koma í veg fyrir kynþroska hjá fiskinum. 

Í aprílhefti Health and Fitness er vitnað í könnun bresku Jarðvegsverndarsamtakanna (Soil Association) á illgresiseyðum í grænmeti. Þar kom í ljós að 50% sýnanna voru með leifar allt að 5 mismunandi efna og af þeim voru 13% með leifar yfir leyfilegum mörkum.

"The effect of these chemicals on our health hasn't been adequately tested. We don't need pesticides to produce fruit and vegetables and most people don't want them in their food." (Mike Green, Soil Association).

Borðum lífrænt! 

 

 


Krikketsagan endalausa og litla lirfan ljóta

Kráka

Hér berast okkur reglulega fréttir af krikketleikjum. Ég verð að viðurkenna litla löngun mína til að kynna mér þessa mjög svo samveldislegu íþrótt, sem eins og póló og fleiri virðulegar greinar eru nokkuð einokaðar af s.k. samveldisríkjum, gömlum breskum nýlendum. Leikirnir vara í marga daga, a.m.k. 5, og nú hafa t.d. lengi vel verið fréttir af landsleik Sri Lanka og Englendinga, og skiptast liðin á að leiða leikinn. Þetta er ótrúlega lítið áhugavert og leiðinlegt að sjá en hvítir búningar og prjónavesti virðast eiga vel við. Svo ekki sé minnst á te.

Við feðgin grófum upp dvd diskinn með litlu lirfunni ljótu. Skemmtileg teiknimynd og gaman að horfa á hana í útlöndum á þessum tíma. Hin geysigóða hljóðsetning inniheldur m.a. fuglasöng frá landinu í norðri þ.á.m. lóuna, sem ég hef nú ekki heyrt í hér. Mæli semsagt með þessum diski í lengri utanlandsdvalir.

Það er svo léleg sjónvarpsdagskrá hér að við höfum síðastliðin kvöld horft á breska spurningaþætti með gamansömu ívafi. Þeir eiga það til að vera bráðfyndnir, leiddir m.a. af Stephen Fry og Jack Dee, sem fá síðan í lið með sér valda húmorista úr ágætu bresku úrvali af slíku. Þarna er notaður breskur húmor af bestu gerð, útúrsnúningar og orðaleikir og lítil alvara almennt. En hent inní fróðleik, í anda BBC. 

Talandi um sjónvarpsefni. Nú eru á dagskrá BBC þættir sem kallast "Springwatch" eða Vorvöktun. Þeir snúast um að fylgst er með vorkomunni, vefmyndavélar á nokkrum fuglahreiðrum og leðurblökum, náttúrufræðingar þvælast um Bretland og flytja fréttir af sæotrum og hákörlum o.s.frv. Þetta gæti RUV tekið sér til fyrirmyndar og verið með þætti af hinni mjög svo langdregnu eða stuttu íslensku vorkomu. Ekki lakara efni en æði margt annað á þeirri ágætu stöð. Gaman að fylgjast með lóunni klekja út, lenda í vorhreti og berjast við varginn. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband