Færsluflokkur: Dægurmál

Er eitthvað að tilfinningum?

Þetta viðhorf hefur einkennt Framsóknarflokkinn, það á ekki að láta stjórnast af tilfinningum. Hm, hvað eru þessar tilfinningar? Mér finnst eitthvað, óháð vísindum eða hagrænu gildi, er það þá rangt? Ég er t.d. viss um að hæstvirtur utanríkisráðherra hefur mjög djúpar tilfinningar gagnvart sínum heimahögum, sem öðrum finnst kannski lítið til koma. Henni þykir e.t.v. fallegt að sjá kindur á afrétti, þar sem öðrum finnst að það eigi alls ekki að vera kindur, og sem er e.t.v. alls ekki vísindaleg eða hagræn rök fyrir. 

Sömu rökin voru notuð af framsóknarráðherrum í umræðu um Kárahnjúkavirkjun, of mikil tilfinningasemi, menn láta stjórnast af tilfinningum. Hvenær láta menn ekki stjórnast af tilfinningum? Ég hef oft kallað stefnu framsóknarflokksins, "miðstýrða skynsemi". Því skynsemi er jú aðallega háð því hver metur hvað telst skynsamlegt. Eins og t.d. skynsamleg nýting auðlinda og náttúru. Það sem Framsóknarmenn telja telja skynsamlegt er þá rétt val. Annað er ekki skynsamlegt.

Burtséð frá þessu nöldri í mér þá er ekki nefnt neitt um hagræn rök í þessari frétt en það er kannski í fréttinni á Reuters. 


mbl.is Of mikil tilfinningasemi ríkir gagnvart hvalveiðum segir utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er allt í lagi með þig?

Ég held ég hafi ekki skrifað um það áður hérna á blogginu en þetta er ein algengasta kveðjan sem maður fær hér í Wales, "er allt í lagi með þig" (Are you allright)? Þetta var svolítið skrítið fyrst, eins og maður liti ekki vel út eða virtist vera eitthvað óhress. Best að líta í spegil. En svo endurtók þetta sig, aftur og aftur og nú hef ég vanið mig á að segja þetta sjálfur, jafnvel þótt fólk sé hraustlegt og vel til haft. Þetta er ágætis tilbreyting á kveðjunni "hvernig hefurðu það" (how are you)? sem er gölluð kveðja að því leyti að sá sem spyr vill yfirleitt ekki fá svar við spurningunni, a.m.k. ekki ítarlegt. Hin kveðjan er betri að því leyti að henni er hægt að svara með jái eða neii. Frekari útskýringar eru óþarfar. 

Svo er mikið notað "hæja" (hiya) sem óformleg kveðja, ekki síst hjá yngra fólki, svipað og "hæ". Í staðinn fyrir bless heyrist svo "cheers" eða "tata". Bæ, bæ er lítið notað. 

Svona er nú heimurinn fjölbreyttur og skemmtilegur. 


Ótrúlega ferskir bítlar

36642526.jpg
Eftir að hafa safnað vildarpunktum hjá Sainsburys síðasta árið með síendurtekinni netverslun þá var kominn tími til að eyða þeim í eitthvað nytsamlegt. Hluti af punktunum fór í nýja Bítladiskinn, Love. Ansi hreint skemmtilegur og ferskur, hlakka til þegar ég kem heim og kaupi mér græjur til að hlusta á hann í. Þetta eru gömul lög en fullt af nýjum hljóðum sem tekin eru af upprunalegu segulböndunum, endurblandað af George Martin og Giles Martin. Get hikstalaust mælt með þessari. 

Þvílík uppgötvun

Þetta hefur vegfarendum um þennan veg verið ljóst ansi lengi en það er vonandi að hinn magnaði samgönguráðherra og hans lið taki þetta alvarlegar en hinn gríðarlega fjölda umferðarslysa sem verður á þessum hryllilega vegi. Þau virðast ekki hafa haft mikil áhrif á forgangsröðunina hingað til. 
mbl.is Telur að skilja verði að umferð úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallelúja!

Það er ekki að sjá að gagnrýnendum núverandi styrkjakerfis í landbúnaði á Íslandi hafi verið boðið að taka þátt í þessari ráðstefnu, a.m.k. ekki sem frummælendur. Kerfis sem bindur bændur í klafa tveggja búgreina þannig að erfitt eða ómögulegt er að stunda nýsköpun. Það er fleira landbúnaður en mjólk og lambakjöt. Það er þessi þrönga nálgun styrkjakerfisins sem mér finnst gagnrýniverð og hún gefur bændum ekkert frelsi til að vinna innan rýmri ramma, leita nýrra leiða til að hafa arð af sínu landi. Bein framleiðslutenging styrkja verður einnig að telja gagnrýniverða, sífellt færri fá stærri hluta af styrkjunum. Rekstrarhagkvæmni? Ég get ekki séð að málið snúist alfarið um rekstrarhagkvæmni þegar svo stór hluti tekna er fenginn með styrkjum. Þetta er ekki spurning um hvítt eða svart, landbúnað eða ekki, heldur margþætt markmið, byggð, mannlíf, menningu, umhverfi og þekkingu svo dæmi séu tekin. Ekki að stefna að stærri búum, sem bitnar á velferð dýra, umhverfis og síðan fólks, eins og sést allsstaðar í kringum okkur. 
mbl.is Húsfyllir á fundi um landbúnaðarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel rekin stofnun

Þessi frétt er aldeilis ótrúleg. Nú þekki ég ekkert til reksturs sjúkrahússins á Akranesi og það er örugglega mjög vel rekið sjúkrahús, a.m.k. hef ég ekkert heyrt um það nema gott. En í fréttinni kemur fram að hallarekstur hafi verið á stofnuninni á síðasta ári og því farið fram á aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Einhver myndi segja að það væri ekki vel rekin stofnun sem væri rekin með halla. En síðan er vitnað í Guðjón frjálslynda og Gísla bæjarstjóra þar sem þeir segja að verið sé að refsa stofnun sem er vel rekin. Geta þá ekki allir sagt að stofnun sem rekin er með halla sé vel rekin? Það vantar eitthvað í þessa frétt.
mbl.is Óska eftir viðræðum við fjárlaganefnd vegna SHA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skítugasta og hreinasta tylftin - "The Dirty Dozen"

101_2848.jpg

Hér kemur pistillinn sem allir ávaxta- og grænmetisneytendur þurfa að lesa. 

Í rannsókn á vegum Environmental Working Group í Bandaríkjunum voru skoðuð eiturefni, skordýraeitur, sveppaeitur og illgresiseitur, í 43.000 sýnum af mismunandi tegundum af grænmeti og ávöxtum. Tegundunum var síðan raðað eftir því hversu mengaðar þær reyndust. 

Hér er listinn yfir tólf verstu tegundirnar, byrjað á verstu:

  • ferskjur
  • epli
  • paprika
  • sellerý
  • nektarínur
  • jarðarber
  • kirsuber
  • perur
  • vínber
  • spínat
  • salat
  • kartöflur

Svo er listinn yfir þær tólf hreinustu, byrjað á hreinustu:

  • laukur
  • lárpera (avocado)
  • maís (frosinn)
  • ananas
  • mangó
  • aspas
  • grænar baunir (frosnar)
  • kíví
  • bananar
  • hvítkál
  • spergilkál
  • papaya

Með því að velja matvæli af neðri listanum má minnka snertingu við eiturefni um allt að 90%. Ef hins vegar er valið af efri listanum þá má reikna með að maður komist í snertingu við 15 eiturefni á dag.

Þetta er líka vísbending um hvaða tegundir maður ætti að reyna að kaupa lífrænt vottaðar því það er jú ansi dýrt að kaupa allt grænmeti og ávexti lífrænt vottað. Auk þess er mikið af lífrænu vörunni flutt langt að og hefur því lagt að baki margar matarmílur (food miles) og hefur misst mikið af sínu næringargildi vegna aldurs.

Af hverju að hafa áhyggjur af eiturefnunum? T.d. af því að 60% illgresiseyða, 90% sveppaeiturs og 30% skordýraeiturs er krabbameinsvaldandi. Þau geta haft slæm áhrif á heilsu, taugaeitursáhrif, trufla kirtlastarfsemi og veikja ónæmiskerfið. Svo hafa þau jafnvel slæm áhrif á frjósemi karla og geta hugsanlega valdið fósturláti í konum. En þetta er nú óþarfa smámunasemi.

 


Orku/olíufyrirtækin að skipta um lið?

Fréttir utan úr heimi herma að stóru orkufyrirtækin eins og Shell og Exxon séu að kyngja loftslagspakkanum, hætti að styrkja efasemdarhópana og beini fjármagni þess í stað að rannsóknum á mótvægisaðgerðum. "Það þýðir ekki að deila við 98% vísindamanna." segir talsmaður Shell í grein í Washington Post. Þessi skyndilega umpólun hjá fyrirtækjunum á einkum rætur að rekja til tvenns. Þau fyrirtæki sem starfa í Bandaríkjunum kalla eftir samræmdri alríkislöggjöf en löggjöf í dag er orðin mjög mismunandi eftir ríkjum innan BNA, "það er ekki hægt að vinna eftir 50 mismunandi stefnum". Og, úrslit þingkosninganna í Bandaríkjunum gera það mikilvægara fyrir þessi fyrirtæki að kaupa sér grænni ímynd hjá hinum nýja meirihluta demókrata, sem þykjast ætla að beita sér í loftslagsmálunum ólíkt repúblikönum. Það vill ekkert fyrirtæki reka lestina í því að koma fyrir þingnefnd og biðja um sinn hluta af nýbakaðri köku, hver sem uppskriftin verður að henni.

Það eru fleiri að hugsa sér til hreyfings en orkufyrirtækin. Fiðrildi sem annars hafa haldið sig í Suður Evrópu hópast til Finnlands og rekstraraðilar skíðasvæða sækja um land ofar í fjöllunum. Ísbirnir við Hudsonflóa horast og þeim fækkar. Orkufyrirtæki sem reka vatnsorkuvirkjanir sjá fram á ný vandamál, sjór bráðnar fyrr, það rignir meira á veturna, minna rennsli er í ám yfir sumarið og skortur á rafmagni í þurrum heitum sumrum. Líka í Washington Post

Almennt hafa margar plöntu- og dýrategundir auk samfélaga manna hafa orðið fyrir talsverðum áhrifum af breyttu loftslagi, sem þýðir að úrlausnarkostnaðurinn, sem Nicholas Stern og fleiri reiknuðu út, er byrjaður að safnast upp.

Nú er fyrir dómi í Bandaríkjunum mál nokkurra ríkja gegn EPA (Umhverfisstofnun BNA) þar sem þau vilja skilgreina koldíoxíð sem mengunarefni. Þannig fellur það undir s.k. Clean Air Act (Andrúmsloftslögin) og verður alríkismálefni. Það þýðir að setja þarf alríkislög um efnið. Hefði þótt fáránlegt fyrir nokkrum árum þar sem koldíoxíð er vægast sagt algengt í miklu magni og nauðsynlegt lífi á jörðinni. 

 


Að klæða af sér veðrið

Regngalli frá 66°N

Það er varla í frásögur færandi að ég og stelpurnar fórum sem oftar á leikvöllinn til að fá frískt loft og bæta matarlystina. Veðrið kalsi og gekk á með rigningarhryðjum, blandað hagléli. Reytingur af fólki á ferli og fá börn. Stelpurnar voru í sínum regngöllum og stígvélum eins og venja er til á Selfossi þegar fólki er att út í slagveður. Slíkur búnaður tíðkast ekki hér í Wales. Regnhlíf er látin duga og fólk virðist líta á það sem sjálfsagðan hlut að gegnblotna þegar rignir á ská. Enda þegar gerði næstu hryðju þá hurfu allir af vettvangi á spretti. Það er þó ekki eins og rigning sé hér óvanaleg frekar en annarsstaðar í Bretlandi. Hér mun vera rigningarvottur u.þ.b. annan hvern dag að meðaltali. 

Mér dettur því í hug hvort nokkrar markaðsrannsóknir hafi verið gerðar á því hvort bretar séu fúsir til að kaupa regnfatnað líkan þeim sem framleiddur er á Íslandi af t.d. 66°N. Það væri fróðlegt að vita. Bretar eru jú íhaldssamari en flest annað fólk. En hér eru allar aðrar aðstæður fyrir hendi, mikil rigning, fullt af fólki o.s.frv.

En það spáir sumsé áfram vætu.  


Lego og hvað maður á að borða á veturna

Við lékum okkur með legókubba á verkefnisstjórnunarnámskeiðinu í gær. Það opinberaði hina ýmsu veikleika í hópnum, skortur á leiðtogahæfileikum, áætlanagerðin í molum, of lág ávöxtunarkrafa (ég reyndi að halda henni uppi) o.fl. þannig að við misstum af samningnum. Óskiljanlegt? Skiljanlega en málið snerist einfaldlega um að byggja Eiffelturn úr legókubbum eftir ferli verkefnisstjórnunar, leggja fram tilboð í verkið og vinna það á áætluðum tíma. Við klúðruðum því. En þetta var fróðlegt. Erfitt að hugsa á svona litlum skala, legókubbar.

En m.t.t. hugsjónarinnar um að borða mat með fáar matarmílur sð baki (eat locally) þá er ögrun að búa til vetrarmatseðil fyrir norðlægar slóðir. Hvernig geta t.d. Íslendingar nýtt íslenska ferskvöru sem fellur til á sumrin og haustin og geymt fram á vetur til neyslu? Við þekkjum auðvitað súrmat en það á að mestu við kjötvöru ýmisskonar, sviðasultu, hrútspunga og hvalspik. Íslendingar eru orðnir vanir því að fá s.k. ferskvöru allan ársins hring, innfluttir ávextir og grænmeti. Sú vara hefur hins vegar einkum tvo ókosti: Hún hefur undantekningalítið lagt gríðarlega margar matarmílur að baki, t.d. epli frá Chile eða Kína og hún er sjaldnast mjög fersk í þeim skilningi að það hefur liðið talsverður tími, vikur eða mánuðir síðan hún skilin frá rótum, tínd af tré eða akri. Við þetta hefur varan tapað miklu af sínu næringargildi. Að þessu sögðu þá er það verðugt verkefni fyrir íslenska matreiðslumenn og heimilistækna (húsfeður og húsmæður) að þróa og breiða út aðferðir til að sulta, pikkla, frysta og sjóða niður grænmeti og ávexti á sumrin og haustin. Kynna aðferðir til að geyma mat þannig að hann haldi sem mestu af næringargildi sínu. Með þessu erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum í þágu minni losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. í þágu náttúrunnar þ.m.t. okkar sjálfra, við erum að auka þrýsting á stórmarkaðina á Íslandi að bæta ferskleika þeirrar vöru sem er á boðstólnum, við erum að stuðla að aukinni ræktun á grænmeti á Íslandi, ýmist með því að rækta það sjálf eða kaupa það af öðrum (í nágrenninu) og fáum vonandi þokkalega ætan og fjölbreyttan mat yfir vetrartímann. Þetta þýðir reyndar að búrin, sem voru í hverju húsi hér í gamla daga, verða að koma aftur inn á teikningar fyrir íslenskar íbúðir, því þetta snýst jú dálítið um að geyma. Svo má stofna geymslufélög eða samlög, þar sem heimilistæknar taka sig saman og vinna vöruna saman og geyma í sameiginlegu húsnæði. Og svo má lengi telja........


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband