Færsluflokkur: Ferðalög

Hjólreiðar, göngur og réttir

Alveg ljóst að hjólreiðar jafnast ekki á við göngur og réttir. Var að sannreyna það í morgun, hjólaði yfir að á og niður með henni spölkorn. Fátt um fénað annað en ættbókarfærðir hundar. Vel gróið með ánni en ekki kind að sjá. Þá er betra að vera ríðandi með pela í vasanum, hóa og hrópa í góðra manna hópi. Eini gallinn við göngur eins og ég þekki þær er gangan og sumar kindur, annars eru þær fullkomnar. Nú verð ég að fara í göngur að ári, er búinn að missa úr tvö ár í röð. 


Grænaland Pembrokeshire

Strönd í Tenby

Af þeim stöðum í heiminum sem ég hef skoðað, en þeir eru svo sem ekki margir, þá kemst Pembrokeshire í Wales næst því að geta kallast Grænaland. Pembrokeshire er suðvesturhorn Wales, eins ólíkt suðvesturhorni Íslands og hugsast getur. Það er dreifbýlt, smábæir vítt og breitt. Stórkostleg strönd með klettum og gullnum sandi á víxl. Fallegir laufskógar og gjöfult landbúnaðarland. Svæðið hefur lengi verið vinsæl sumarparadís ríka fólksins í Bretlandi og bera bæir eins og Tenby og Saundersfoot þess merki. Gömul þrep í klettunum niður á strönd og fornfáleg skýli efst á klettunum þar sem hefðarfólkið hefur setið og sötrað teið sitt. Þarna er lundinn í hávegum hafður en ekki veiddur. Ég verð að viðurkenna að ég var heillaður af þessu svæði sem byggir á ferðaþjónustu og landbúnaði, fallegir smábæir og kastalar. Saga fortíðar á hverju strái. 

Ég læt mér nægja tengil inn á síðu BBC


Gangnatími

Þegar við feðginin hjóluðum í leikskólann í morgun þá fékk ég á tilfinninguna að það væri kominn tími til að fara í göngur. Himininn heiðskýr og kalt loft lék um okkur á leiðinni. Rakinn hafði þést á bílrúðunum og grasinu. Óneitanlega kaldara en verið hefur. Sennilega er þetta líka rétt hjá mér og fyrstu réttir á Íslandi væntanlega um þessar mundir. Ég hef ekki kynnt mér hvernig réttað er úr "communal" beitilöndum hér í Wales. En bændur hér eiga í það minnsta nóg af hundum og hestum. 

En nú stefnum við á ferðalag vestur í Pembrokeshire á morgun og gistum eina nótt. Ku vera fallegt þar. 


Flug, ítölsk skólamötuneyti og heilbrigð fæða

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki staddur á Heathrow eða Gatwick í gær. Ægileg ös og öngþveiti. En svona mun þetta verða öðru hverju. Spurning hvort reglum um handfarangur verði alfarið breytt. Það væri helst áfall fyrir þá sem fara styttri ferðir vegna sinnar vinnu, bara með handfarangur og þýðir talsvert lengri bið á flugvelli.

Jamie Oliver sýndi okkur í gær dæmigert ítalskt skólamötuneyti. Talsvert ólíkt því sem hann hefur sýnt frá þeim bresku. Allur matur er þar eldaður á staðnum úr góðu hráefni. Lítið val fyrir börnin og alltaf ávextir. Hann sýndi matseljunum dæmi um hvað breskum börnum er boðið uppá og þær úrskurðuðu það beint í ruslatunnuna. Sýnum við börnunum okkar næga virðingu þegar kemur að því að gefa þeim að borða? Ég bara spyr.

Annars er mikið að frétta úr heimi hinnar heilbrigðu fæðu eða óheilbrigðu. Skordýraeitur, sem notuð eru af bændum um allan heim, eru talin geta komið af stað taugasjúkdómum eins og MS og Parkisons, sjá Daily Mail.  Umbúðir um allskyns mat, eins og súkkulaði og ís, innihalda latex, sem getur orsakað ofnæmi. Engar reglur eru um að þetta sé sýnt á umbúðunum sjálfum, Independent. Tesco, Sainsburys og Asda, bresku stórverslunarrisarnir, hafa tekið þá ákvörðun að banna hertar jurtafitur í sínum framleiðsluvörum. Hertar jurtafitur eru helsta uppspretta s.k. trans-fats, sem eru tengdar við hjartasjúkdóma og offeiti. WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, hefur ráðlagt að neytendur ættu að fjarlægja allar slíkar fitur úr sínum mat.

En annars er allt í þessu fína hér í Wales. Veður er stillt en nær rétt um 20 gráðum á daginn. Heldur kalt.


Eru verndararnir umhverfissóðar?

Þessi frétt kemur mér ekki á óvart. Það er nefnilega þannig ennþá að sumir telja sig ekki þurfa álit annarra á því hvort framkvæmdir eins og vega/slóðagerð séu æskilegar og því síður hvernig skuli að slíku verki staðið. Þetta á ekki síst við á fáförnum svæðum, sem óðum er að fækka, og þá eru það oft þeir sem telja sig verndara viðkomandi svæða sem hafa sig hvað mest í frammi. Mjög litlar líkur eru á að þessi framkvæmd hafi farið eðlilega leið í kerfinu en málið er að þetta kemur öllum við, ekki bara þeim sem telja sig "þurfa" veg. Það er þó ánægjulegt að fréttinn sé sprottinn frá liðsmanni 4x4, sem sýnir ábyrgð þess félagsskapar að því er varðar umhverfismál. 
mbl.is Umhverfisspjöll á Arnarvatnsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhundar og Bowls

Bowls

Ponty stóð fyrir sínu, fallegur garður, reyndar lítið um smakkmat, smá tívolí, róló, fjárhundasýning, hannyrðir, steinbrú og þröngar götur. Brautarpallurinn er líka afar langur. Það var lítið sem minnti á Tom Jones en dagurinn var engu að síður ánægjulegur, hæfilega langt ferðalag og endað á því að grilla breskar kótilettur hérna heima en þær gefa hinum íslensku ekkert eftir, þó ég segi sjálfur frá. Meira kjöt á beinunum þar. 

Svo náði ég nokkrum myndum af eldri/heldri borgurum spila Bowls í Ponty. N.k. útibossía, afsakið stafsetn. Allir klæddir í hvítt, eins og í krikket. Völlurinn rennisléttur en gras og hæfilega stór til að hann megi ganga enda á milli á stuttum tíma. Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég að þessa íþrótt megi vel innleiða á Íslandi, hana má spila innan húss og utan. Það mætti setja velli við helstu öldrunarstofnanir landsins, fyrirtaks hreyfing. Slíkt myndi kosta svipað átak og s.k. "sparkvellir" en þjónaði öðrum aldurshópi. 

Veður, stillt og rakt, um 20 stiga hiti og stefnir í 26. Ætti að haldast þurr í dag.  


Heimaslóðir Tom Jones

Steinbrúin í Ponty (BBC)

Í dag ætlum við til Pontypridd, lítils námubæjar hér inn í dal, hálftímaferð með lest. Sá bær hefur það helst unnið sér til frægðar að þar var lengsta einbreiða steinbrú í Evrópu þegar hún var byggð árið 1755, á tímabili lengsti brautarpallur í heimi og þar ólst Tom Jones upp. Þangað eiga líka hljómsveitir eins og Stereophonics og Lost Prophets ættir sínar að rekja. Svo var þjóðsöngurinn, Hen Wlad Fy Nhadau, saminn af feðgum frá Ponty 1856.

Um þessa helgi er þar matar- og landbúnaðarhátíðin Big Welsh Bite. Vonumst eftir góðu framboði af smakkmat og að veðrið haldist þurrt í dag. Í augnablikinu er 18 stiga hiti og 96% raki þannig að þurrkurinn er ótryggur. 


Cardiff Bay í frábæru veðri og sjónvarpið geispaði golunni

101_2348_27853.jpg

Við skruppum niður í Cardiff Bay, öll fjölskyldan, spásseruðum um, fórum í stutta siglingu um fjörðinn eða lónið og fengum okkur svo að borða með ís á eftir. Frábært veður eins og endranær þessa dagana. Cardiff Bay er við mynni ánna Taff og Ely og myndaði áður miklar flæður við sjóinn. Þessu var öllu lokað 1995 með löngum varnargarði og er nú ferskvatnslón. Auk þess hefur verið komið í veg fyrir hin miklu flóð sem ollu gjarnan skemmdum á mannvirkjum en munur flóðs og fjöru var 12 m. 

Þegar heim var komið átti að kíkja á leikinn en ekki tókst betur til en að hið aðframkomna sjónvarp gaf sig endanlega. Það gat vissulega gerst á verri tíma en ekki mikið verri. Þarf því að bregða við skjótt og finna annað tæki en ekki verður lagst í mikla fjárfestingu þetta sinnið, aðeins að fleyta þessu yfir næstu 7 mánuði. 


Legoland og vetrarfrí

Legoland, Windsor

Ég er ekki mikið fyrir skemmtigarða með tilheyrandi peningaplokki, hávaða og troðningi. Auðvitað getur verið gaman að prófa hin og þessi leiktæki en umgjörðin er oft svo yfirþyrmandi. Börnin verða hálf- eða algeggjuð og eru viku að ná sér eftir spennufallið. Við fórum í Legoland, sem er stutt frá Heathrow í Englandi og einnig nálægt Windsor. "Kubbaskemmtigarður" hugsaði ég. Og það var rétt, allsstaðar kubbar. En það var eitthvað öðruvísi, eitthvað meira afslappaðri stemmning en t.d. í Blackpool, þar sem er ærandi hávaði og óþolandi tónlist. Fullt af leiktækjum á gríðarlega stóru, vel grónu svæði, svo vel grónu að maður sá ekki stóran kastala fyrr en komið var að honum. Þannig var sífellt verið að uppgötva nýjungar. Svo borgar maður fyrir aðgang að garðinum en þarf síðan bara að standa í röð án þess að greiða, kaupa sérstaka peninga eða slíkt. Get semsé mælt með þessu ef einhver hefur ekki prófað.

En nú er þessi frívika nánast á enda runnin og spáin frábær, 20 stiga hiti og sól næstu daga.  


Bókabúðir og rigning í Hay on Wye

Bókabúð í Hay on Wye

Við fórum til Hay on Wye í gær. Ansi hreint skemmtilegur lítill bær við landamærin. Falleg leið að keyra þangað, í gegnum Brecon Beacon þjóðgarðinn. Þar stendur nú yfir bókmenntahátíð mikil sem er árleg, s.k. hayfestival, en bærinn Hay on Wye er einmitt helst þekktur vegna bóka og þess óhemju fjölda bókabúða sem er í bænum. Í albúminu eru nokkrar myndir af bókabúðum, en aðeins örlítið brot af því úrvali sem þarna er. Það var reynar rigning á okkur en bærinn er mjög sjarmerandi, þröngar götur, hlaðnir veggir og gömul hús. Mæli ekki með að þar sé verið mikið á ferðinni með barnavagn, heldur burðarpoka.

Nú er að mestu stytt upp hér í Wales, við tekur vika sem hefst á frídegi, bank holiday, sem ég veit ekki ástæðuna fyrir, kannski uppstigningardagur á mánudegi. Og svo taka við frídagar í grunnskólum landsins s.k. half term week. Þetta er örugglega martröð vinnuveitandans, ef fjöldi foreldra þarf að taka sér frí frá vinnu. Reyndar er boðið upp á dagvistun fyrir krakkana en það er rándýrt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband