Færsluflokkur: Ferðalög
10.5.2006 | 21:52
Landbúnaðarstyrkjaferð til Swansea
Skrapp til Swansea í dag, klukkutíma lestarferð frá Cardiff. Swansea virtist mér ekkert sérstaklega heillandi, gömul iðnaðarborg sem er að reyna að þróast yfir í ferðamannavæna menningarborg en á talsvert í land.
Hitti þar mætan mann að nafni Brian Pawson sem veit allt um styrkjamál í velskum landbúnaði. Hann vinnur hjá Countryside Council of Wales, eða Landsbyggðarráðgjafarstofnun Wales. Hlutverk þessarar stofnunar er mjög margþætt og felur í sér náttúruvernd, upplýsingaöflun um náttúru Wales, ráðgjöf til stjórnvalda, stefnumótun varðandi landnýtingu og landnotkun og landbúnað. Hér er heilmikið batterí í kringum s.n. "Agri-environment" eða landbúnaðar-umhverfis styrkjakerfi þar sem bændur fá stuðning til að vinna að bættu umhverfi í víðum skilningi en fá einnig greitt fyrir að uppfylla s.k. góða búskaparhætti sem kallast "cross-compliance". Að sjálfsögðu er þetta nokkuð flókið kerfi en hefur verið að einhverju leyti við lýði hér í Bretlandi frá því á níunda áratugnum og þróast mikið á þeim tíma. Nú er nefnilega hætt að styrkja beint landbúnaðarframleiðslu en styrkjunum veitt til bænda undir öðrum formerkjum. Til hvers? Jú, Bretland er innan ESB og það er ljóst að þar verða styrkir til landbúnaðar ekki afnumdir í einum hvelli. Einnig er hægt að stuðla að margvíslegri þjónustu fyrir samfélagið eins og t.d. vatnsvernd, aukna líffræðilega fjölbreytni, bætt aðgengi almennings að náttúrunni, viðhald menningarlandslags, viðhald erfðaauðlinda og svo mætti lengi telja. Bændur þurfa að sækja þessa styrki en fá þá ekki fyrirhafnarlaust, sem verður að teljast kostur. Hér í Wales eru rúmlega 20 þús. bændur sem þiggja styrki af opinberu fé og sameiginlegu fé ESB. Meira um þetta síðar.
En hér er annars búið að vera þrumuveður í allt kvöld og ljósagangur mikill í lofti. Gott fyrir gróðurinn. Ósköp hlýtt hérna og notalegt.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2006 | 19:39
Reikningar, uppsagnir og lundi
Reikningar fyrir veitta þjónustu hér í Wales gera yfirleitt ráð fyrir ýmisskonar greiðslumáta. Það er hægt að greiða þá víðsvegar, t.d. á pósthúsum og í flestum bönkum, þó er það ekki öruggt. Auk þess má skrifa tékka og senda, greiða þá á netinu sé maður með viðeigandi greiðslukort o.fl. Heima á Íslandi er á reikningum getið um gjalddaga og eindaga. Hér fær maður upplýsingar um það að greiða eigi reikninginn þegar í stað. Kannski er það bara best, annars frestast greiðslur eða gleymast.
Uppsagnir í alifuglavinnslu hér í Wales komust í fréttirnar. Ekki beinlínis vegna áhrifa fuglaflensunnar á markaði en einhverjar sögusagnir eru um niðurgreiðslur til erlendrar alifuglaframleiðslu, sem komi niður á framleiðslu hér í landi. Einhverntíma hefðu þetta í sjálfu sér ekki þótt fréttir, fyrirtæki í lélegum rekstri segja gjarnan upp starfsfólki, hagræðing heitir það. En þarna gæti þó verið merki um áhrif fuglaflensufársins.
Í eyjunum hér í Wales er lundi víst nokkuð algengur, t.d. í Skomer Island hér skammt frá Cardiff. Þetta þarf maður endilega að skoða betur, sem þýðir jú sjóferð en það er boðið upp á slíkt nokkuð víða með ströndinni.
Ég bætti við nokkrum myndum á netið, sumar gefa hugmynd um ásýnd miðbæjar Cardiff, aðrar ekki.
Að lokum, ég verða að vera nokkuð ánægður með mína menn. Tryggt sæti í meistaradeildinni á næsta ári, jafnvel með meistaratignina á bakinu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2006 | 12:33
Þreytulegar byggðir
Vorum talsvert á ferðinni um páskana, leigðum bíl og ókum um nágrennið, milli fjalls og fjöru. Þessi suðausturhluti Wales er nokkuð einsleitur, aflíðandi hæðir og dalir. Landbúnaður og námubæir, ferðaþjónusta hér og þar. Kastalar og námuminjar standa uppúr og niðurúr hvað varðar það sem haldið er á lofti hér í ferðaþjónustu. Stoppuðum í Abergavenny og Blaenavon, ólíkir bæir. Abergavenny er á mörkum þjóðgarðsins Brecon Beacon, aðlaðandi bær með markað og mannlíf. Blaenavon er hinn dæmigerði námubær, með námuminjar á heimsminjaskrá og mjög lifandi námusafn. Húsin eru grá og brún, dumbungsleg og þreytt að sjá. Þegar ekið er frá Blaenavon til Cardiff verða margir svipaðir bæir á leiðinni. Það er líka ótrúlegt hvernig þessi gífurlega námuvinnsla hefur breytt landslaginu á þessu svæði. Engir hólar eða lægðir eru náttúrulega formaðir heldur uppgröftur úr námum. Þetta er hið tilbúna landslag, afurð kola- og járnvinnslu á síðustu tveimur öldum. En nú er þessari vinnslu að mestu hætt og því veikar stoðir undir atvinnulífi í þessum bæjum.
En annars er lífið búið að vera ljómandi, veður ágætt, matur stórgóður og nóg að gera. Nú er sem sagt lífið aftur að komast í sömu skorður og fyrir páska með skólum og leikskólum. Maður sér reyndar fram á að skerið í norðri verði sokkið í verðbólgu og gjaldþrot innan skamms. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með þá hefur pundið hækkað úr 108 krónum í 141 krónur á þremur mánuðum eða um 33 krónur, 30%. Ekki gott.
Maður yljar sér við velgengni sinna manna í Meistaradeildinni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2006 | 10:58
Hestur/maður marathon
Við heimtum móður/eiginkonu í gærkvöldi svo nú er heimilishald komið í þokkalega fastar skorður á nýjan leik. Nema, Margrét er komin í páskafrí og verður næstu tvær vikurnar en Birna heldur sínu striki í leikskólanum.
Eftir að hlaupin í morgun, af og til í gegnum ilminn af nýslegnu grasi, þá fann ég skemmtilega vefsíðu minnsta bæjar í Bretlandi, sem er staðsettur í mið-Wales. Þetta er 600 manna bær þar sem fara fram allskyns uppákomur og heitir Llanwrtyd Wells, sem ég hef ekki hugmynd um hvernig er borið fram. Ein af uppákomunum er 22 mílu hlaup þar sem keppa menn og hestar, þ.e. menn keppa við hesta í langhlaupi. Í sumar verður 27. hlaupið af þessari tegund og hefst það 10. júní kl. 11 f.h. Árið 2004 vann maður þetta hlaup í fyrsta skipti.
En allavega, fyrir ykkur þindarlausa hlaupara þá er hér á ferðinni ný ögrun við óvenjulegar aðstæður.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar