Ekki skola?

ad_5071.gif

Ég hef burstað tennur í á fjórða tug ára. Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á gildi flúors í tannvörslu. Af hverju í ósköpunum hef ég aldrei áður heyrt það frá tannlækninum mínum eða opinberum heilsuverndaraðilum að það eigi ekki að skola eftir tannburstun? Ég er að kenna dætrum mínum að það eigi ekki að skola en á í mesta basli við að venja sjálfan mig af því, hef þó verið að reyna í nokkra mánuði.

Mér finnst þetta lýsa vestrænum heilbrigðiskerfum mjög vel. Nánast öll áhersla er á lækningar og lækna en lítil á hinn daglega heilsuverndarþátt almennings. Þetta gildir líka um mataræði. Málflutningur hefur aðallega verið til þess fallinn að rugla okkur í ríminu svo við vitum ekki í hvorn fótinn á að stíga varðandi val á mat. 

Svo kemur þessi stórkostlega frétt af ráðstefnu í Sydney þar sem "sérfræðingar" telja að það séu skýr tengsl milli markaðssetningar á orkuríkum en næringarsnauðri fæðu þ.e. sætindum, og offitu barna. Maður veit ekki hvort á að gráta eða hlæja. 


Grænaland Pembrokeshire

Strönd í Tenby

Af þeim stöðum í heiminum sem ég hef skoðað, en þeir eru svo sem ekki margir, þá kemst Pembrokeshire í Wales næst því að geta kallast Grænaland. Pembrokeshire er suðvesturhorn Wales, eins ólíkt suðvesturhorni Íslands og hugsast getur. Það er dreifbýlt, smábæir vítt og breitt. Stórkostleg strönd með klettum og gullnum sandi á víxl. Fallegir laufskógar og gjöfult landbúnaðarland. Svæðið hefur lengi verið vinsæl sumarparadís ríka fólksins í Bretlandi og bera bæir eins og Tenby og Saundersfoot þess merki. Gömul þrep í klettunum niður á strönd og fornfáleg skýli efst á klettunum þar sem hefðarfólkið hefur setið og sötrað teið sitt. Þarna er lundinn í hávegum hafður en ekki veiddur. Ég verð að viðurkenna að ég var heillaður af þessu svæði sem byggir á ferðaþjónustu og landbúnaði, fallegir smábæir og kastalar. Saga fortíðar á hverju strái. 

Ég læt mér nægja tengil inn á síðu BBC


Gangnatími

Þegar við feðginin hjóluðum í leikskólann í morgun þá fékk ég á tilfinninguna að það væri kominn tími til að fara í göngur. Himininn heiðskýr og kalt loft lék um okkur á leiðinni. Rakinn hafði þést á bílrúðunum og grasinu. Óneitanlega kaldara en verið hefur. Sennilega er þetta líka rétt hjá mér og fyrstu réttir á Íslandi væntanlega um þessar mundir. Ég hef ekki kynnt mér hvernig réttað er úr "communal" beitilöndum hér í Wales. En bændur hér eiga í það minnsta nóg af hundum og hestum. 

En nú stefnum við á ferðalag vestur í Pembrokeshire á morgun og gistum eina nótt. Ku vera fallegt þar. 


Dálítið umhverfisblogg

Í fyrsta lagi þá bendir allt til þess að vorið sé að meðaltali sew til átta dögum fyrr á ferðinni í Evrópu en fyrir 30 árum síðan, sé eitthvað að marka þessa rannsókn. Það getur verið að okkur þyki þetta ágætt en það getur þýtt að hinar ýmsu fæðukeðjur raskast. T.d. að farfuglar komi of seint í matinn, missi einfaldlega af skordýrasteikinni eða salatskálinni. Áhrifin eru einna mest í löndum eins og Spáni, minni á Bretlandi og ekki fer sögum af Íslandi. En er nokkur munur orðinn á árstíðum þar?

Í öðru lagi þá er áætlað að súrt regn hafi fallið á u.þ.b. þriðjung alls lands í Kína. Þar hefur mengun með s.k. brennisteinsdíoxíði aukist um fjórðung á fimm árum. Annarsstaðar í heiminum hefur mengun af þessu tagi dregist mikið saman. Og loforð Kínverja um heiðan himinn á Ólympíuleikunum 2008 gæti orðið erfitt fyrir þá að uppfylla. 

Svo er það reynslusaga konunnar í Normal, Illinois, sem reyndi að vera bíllaus í heilan mánuð. Það segir sína sögu um almenningssamgöngur í Bandaríkjunum, landi "minivana". Kostaði gríðarlega vinnu og álag fyrir konu með tvö börn. Kannast einhver við þetta á Íslandi?


Tími kóngulónna

Kónguló stór
Það er mikið af kóngulóm hér á Everard Way um þessar mundir, af öllum stærðum og gerðum. Þær eru heimsins mestu verkfræðingar og hafa sýnt það og sannað. Ein var hér í garðinum í morgun, hafði spunnið vef, lárétt um 4 metra haf. Þrír stoðþræðir, einn beint niður, einn í tré og einn í limgerðið. Hún er sennilega úr ættkvíslinni Aranidae. Ég viðurkenni fáfræði mína á því hvernig í ósköpunum þær fara að þessu og væri vel þeginn fróðleikur um það. En í albúminu eru nokkrar myndir. Önnur var framan við útidyrnar, nokkrir fersentimetrar að stærð og hindraði ferð.

Nærætur og matarmílur

cover-2.jpg

Nú er ég kominn í nýyrðasmíð, held ég. Man ekki eftir að hafa séð orðið "nærætur" áður, eða "matarmílur" ef því er að skipta, nema á þessari bloggsíðu. 

Næræta er þýðing á ameríska hugtakinu, "locavore", sem er einhver sem leitast við að neyta fæðu sem er í hans nánasta umhverfi en forðast að neyta fæðu sem flutt hefur verið um langan veg, fæðu sem ferðast hefur margar matarmílur (e: food miles). ??????

Jú, nú er nefnilega kominn í tísku í Ameríku s.k. 100 mílu kúr sem byggist á því að neyta eingöngu fæðu sem ekki hefur ferðast lengra en 100 mílur áður en hún er komin á diskinn. Af hverju? Flutningur á iðnvæddum landbúnaðarafurðum og matvælum um BNA þver og endilöng er ábyrg fyrir 20-25% losunar gróðurhúsalofttegunda í BNA, hvorki meira né minna. Rökin fyrir þessari viðleitni eru því þokkaleg. 

Eins og sjá má á þessum dagbókarfærslum Elisa Ludwig, blaðamanns í Philadelpia, þá er þessi kúr þó ekki alveg einfaldur fyrir hinn venjulega mann og fólk enda misheppið með staðsetningu. Flestir þurfa að gerbylta mataræðinu og matseldinni. Hætta að neyta kaffis og tes, súkkulaðis, olíu o.s.frv.

Það er svolítið gaman að þessari hugmyndafræði og hún kannski fyrst og fremst til þess fallin að vekja athygli á þessari staðreynd, hversu miklir flutningar eru á matvælum fram og aftur um heiminn. Snertir okkur Íslendinga svo um munar, ekki bara varðandi flutninga til og frá landinu, heldur einnig innanlands. Forsvarsmenn íslensks landbúnaðar ættu að taka svona hugmynd fegins hendi. 


Haustar?

Áreiðanleg mæling hér á bæ sýnir að birtutíminn hér í Wales styttist. Mælingin byggist á því að sest er upp í rúmið hennar Margrétar laust fyrir kl. 8 pm og lesinn Benedikt búálfur. Á þriðjudagskvöld þurfti að kveikja ljós og það hefur gerst ítrekað síðan. Er það í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. Sama gerðist í morgun en þá sá undirritaður ástæðu til að kveikja ljós laust eftir kl. 7 am og er það einnig í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. 

En rósirnar eru enn að blómstra og nú eru komin allskyns ber og ávextir á tré og runna hér syðra. Það er algengt að sjá "blackberries" vítt og breitt, andstyggilegir runnar sem vaxa eins og andsk. með bogna og hvassa þyrna. Eplatré og plómutré í næstu görðum og svo mætti áfram telja. Þetta er óneitnalega skemmtileg tilbreyting. 

Svona til fróðleiks, þá hefur sala á 4x4 bílum dregist saman hér í Bretlandi, í fyrsta skipti í a.m.k. 10 ár. Umræða um umhverfismál er talin hafa áhrif auk verðs á eldsneyti. Nú er að verða "út" að aka um á s.k. "Chelsea tractor" innan borgarmarka og jafnvel talið að t.d. börn, sem eru oft á tíðum betur meðvituð um umhverfismál en foreldrar þeirra, vilji ekki láta sjá sig í jeppa, skammist sín fyrir það. En fáir markhópar munu áhrifameiri en börn, hvað varðar innkaup foreldranna. 

Aðeins meira um árstímann, þá fengum við kúrbít og kál frá Riverford bænum í vikunni. Einnig voru gulrætur, chili, tómatar og kirsuberjatómatar í kassanum, allt ræktað í UK. Þetta eru frábærar vörur og við hjón vorum sammála um að kirsuberjatómatarnir stæðust þeim frá Akri í Biskupstungum alveg á sporði, og er þá mikið sagt. 


Viðhaldið

Gærdagurinn var slæmur fyrir viðhaldið. Þetta á ekki að misskiljast! Fyrst gaf klósettsetan sig endanlega eftir að búið var að reyna að lappa uppá greyið. Mjög myndrænt að sjá slíkt fyrir sér en það var ekki þannig. Setan var hins vegar alveg laus og hættulegt fyrir ungar konur að reyna að sitja, gat hlaupið út undan sér. Þvottavélin byrjaði að leka, alveg tilefnislaust. Ég fann ekki uppsprettuna og ákvað að fara ekki lengra þar sem vélin er enn í ábyrgð. Kemur vonandi einhver í fyrramálið. Svo er helv. eldhúskraninn aldrei til friðs. Reimin í sláttuvélinni er auk þess farin og allt ryðgað fast á þeim bænum. 

Því hjólaði ég í morgun í Focus, n.k. Húsasmiðja eða Byko, og keypti nýja klósettsetu og krana. Ég sat ekki á setunni þegar ég hjólaði heim en átti í nokkru basli við að koma henni fyrir. Nú er allavega setan komin á, þvottavélin gæti komist í lag í fyrramálið og ef ég get fengið lánaðan stærri skiptilykil hjá nágrannanum þá ætti kraninn að komast á.

En þetta er nú smávægilegt á við að komast í gegnum alþjóðaflugvellina hér í Bretlandi. Gríðarleg tjaldborg var komin upp á Heathrow þar sem fólk sat og beið eftir að komast í flug. Oj. 


Góðgerðarskjöldurinn og hryðjuverk

Þúsaldarleikvangurinn í Cardiff (BBC)

Ég vaknaði upp við það í fyrradag að leikurinn um góðgerðarskjöldinn á að vera í dag, hér í Cardiff. Ósköp er maður eitthvað úti að aka. En þetta er leikur stórliða þetta árið eins og vanalega, Chelsea og Liverpool. Það er búist við einhverjum töfum vegna hertra öryggiskrafna, þannig að biðraðirnar verða sennilega eitthvað lengri en vanalega. 

Annars hafa margir álit á hinum meintu hryðjuverkum í vikunni, sumir telja að um samsæri bresku og BNA ríkisstjórnanna sé að ræða. Verið að auka trúverðugleikann og beina fréttum frá Líbanon og miðausturlöndum. Hvað veit maður. En það er einnig mikil reiði meðal múhameðstrúarmanna hér í Bretlandi, finnst yfir sig gengið. Það er því ekki líklegt að "stríðið gegn hryðjuverkum" sé á enda. 

Við erum á leið í barnaafmæli hjá honum Alexander í dag, 4 ára pjakkurinn sá. Það lítur út fyrir gott veður, bæði fyrir afmæli og fótbolta, dálítill vindur en þurrt og milt veður.  


Flug, ítölsk skólamötuneyti og heilbrigð fæða

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki staddur á Heathrow eða Gatwick í gær. Ægileg ös og öngþveiti. En svona mun þetta verða öðru hverju. Spurning hvort reglum um handfarangur verði alfarið breytt. Það væri helst áfall fyrir þá sem fara styttri ferðir vegna sinnar vinnu, bara með handfarangur og þýðir talsvert lengri bið á flugvelli.

Jamie Oliver sýndi okkur í gær dæmigert ítalskt skólamötuneyti. Talsvert ólíkt því sem hann hefur sýnt frá þeim bresku. Allur matur er þar eldaður á staðnum úr góðu hráefni. Lítið val fyrir börnin og alltaf ávextir. Hann sýndi matseljunum dæmi um hvað breskum börnum er boðið uppá og þær úrskurðuðu það beint í ruslatunnuna. Sýnum við börnunum okkar næga virðingu þegar kemur að því að gefa þeim að borða? Ég bara spyr.

Annars er mikið að frétta úr heimi hinnar heilbrigðu fæðu eða óheilbrigðu. Skordýraeitur, sem notuð eru af bændum um allan heim, eru talin geta komið af stað taugasjúkdómum eins og MS og Parkisons, sjá Daily Mail.  Umbúðir um allskyns mat, eins og súkkulaði og ís, innihalda latex, sem getur orsakað ofnæmi. Engar reglur eru um að þetta sé sýnt á umbúðunum sjálfum, Independent. Tesco, Sainsburys og Asda, bresku stórverslunarrisarnir, hafa tekið þá ákvörðun að banna hertar jurtafitur í sínum framleiðsluvörum. Hertar jurtafitur eru helsta uppspretta s.k. trans-fats, sem eru tengdar við hjartasjúkdóma og offeiti. WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, hefur ráðlagt að neytendur ættu að fjarlægja allar slíkar fitur úr sínum mat.

En annars er allt í þessu fína hér í Wales. Veður er stillt en nær rétt um 20 gráðum á daginn. Heldur kalt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband