Þreytulegar byggðir

Kastali

Vorum talsvert á ferðinni um páskana, leigðum bíl og ókum um nágrennið, milli fjalls og fjöru. Þessi suðausturhluti Wales er nokkuð einsleitur, aflíðandi hæðir og dalir. Landbúnaður og námubæir, ferðaþjónusta hér og þar. Kastalar og námuminjar standa uppúr og niðurúr hvað varðar það sem haldið er á lofti hér í ferðaþjónustu. Stoppuðum í Abergavenny og Blaenavon, ólíkir bæir. Abergavenny er á mörkum þjóðgarðsins Brecon Beacon, aðlaðandi bær með markað og mannlíf. Blaenavon er hinn dæmigerði námubær, með námuminjar á heimsminjaskrá og mjög lifandi námusafn. Húsin eru grá og brún, dumbungsleg og þreytt að sjá. Þegar ekið er frá Blaenavon til Cardiff verða margir svipaðir bæir á leiðinni. Það er líka ótrúlegt hvernig þessi gífurlega námuvinnsla hefur breytt landslaginu á þessu svæði. Engir hólar eða lægðir eru náttúrulega formaðir heldur uppgröftur úr námum. Þetta er hið tilbúna landslag, afurð kola- og járnvinnslu á síðustu tveimur öldum. En nú er þessari vinnslu að mestu hætt og því veikar stoðir undir atvinnulífi í þessum bæjum.  

En annars er lífið búið að vera ljómandi, veður ágætt, matur stórgóður og nóg að gera. Nú er sem sagt lífið aftur að komast í sömu skorður og fyrir páska með skólum og leikskólum. Maður sér reyndar fram á að skerið í norðri verði sokkið í verðbólgu og gjaldþrot innan skamms. Fyrir þá sem ekki hafa fylgst með þá hefur pundið hækkað úr 108 krónum í 141 krónur á þremur mánuðum eða um 33 krónur, 30%. Ekki gott.

Maður yljar sér við velgengni sinna manna í Meistaradeildinni. 


Hækkun hita á jörðinni

Golfstraumurinn
Get ekki annað en mælt með imbaheldri síðu BBC varðandi gróðurhúsaáhrifin s.k. hér á jörðu. Mikið um þetta fjallað hér reglulega og sífellt skotið á Verkamannaflokkinn fyrir hræsni í umfjöllun um málið. Þetta er eins og með önnur umhverfismál þar sem enginn einn ber ábyrgð á málinu og enginn ber beinan kostnað vegna áhrifanna. Það halda því allir sínu striki en líta hornauga á náungann, hvort hann sé að gera eitthvað. En svo eru sumir sem ætla ekkert að gera, bara láta gossa. Þetta hlýtur að reddast!

Hafa munninn lokaðan, heilsusamlegt og fasta

Það er vissara að hafa munninn lokaðan sé hlaupið um hér í Cardiff þessa dagana, allskyns flugkvikindi á sveimi sem eiga vísan aðgang uppí hlaupandi mann gæti hann ekki að sér. Þetta er sjálfsagt bara byrjunin. 

Ég hef verið svolítið hugsi síðustu daga varðandi matvælin sem við erum að kaupa. Gerði þá vitleysu að lesa grein í nýju tímariti hér í borg, Kidscome1st, þar sem fjallað er um lífrænt ræktuð matvæli. Mjög öfgalaus grein og læsileg en vakti upp draug sem hefur lengi blundað í mér, hvaða aðferðum er eiginlega verið að beita við að búa til matvælin sem við borðum dags daglega. Það er ekki ofsögum sagt að hver uppskera af grænmeti og ávöxtum fær nokkra skammta af illgresiseyðum og skordýreitri. Börnin okkar eru móttækilegust fyrir þessum óþverra og við látum okkur nægja að skola hráefnið í vatni. Það er margt um þetta ritað og enn fleiri skoðanir en ég er þess fullviss að margt á eftir að koma í ljós varðandi hollustu eða óhollustu þeirra matvæla sem við erum almennt að innbyrða. Þessi hugsun leitar ekki eins á mig þegar ég er heima á klakanum en rumskar í hvert sinn sem ég kem til útlanda. Kynntist þessu vel í Danmörku veturinn 94-95.

Við erum því að velta fyrir okkur að breyta innkaupunum talsvert yfir í lífrænt ræktaðar vörur, a.m.k. til prufu, einkum grænmeti og ávexti. Djúsið mitt verður örugglega mikið betra með þessu eiturslausa hráefni. Ullandi

Fastan er á enda í kvöld og þá verður aftur við hæfi að borða lambakjöt, enda er víst læri á leiðinni. Ekki vita allir hvað fastan er nátengd sauðburði en það þótti heldur heimskulegt að éta sauðfé skömmu áður en ær voru komnar að burði og því var það litið hornauga og síðan bannað, eða gert að trúarlegu atriði. Sauðkindin hefur því enn gríðarleg ítök í líf okkar mannanna.


Villtur, súkkulaði og sætindi

Það kemur sér stundum vel að vita að sólin gefur vísbendingu um áttir. Hljóp talsvert í austur í morgun, í átt til Lundúnaborgar. Beygði svo dálítið til vinstri eða í norður. Lítið um stíga og stundum ekki gangstéttir. Þeir stígar sem ég fann lágu allir upp. Öskrandi Aðrir lágu í hringi. Eftir nokkra stund fannst mér kominn tími til að hafa sólina í bakið og halda í vestur. Þetta hafði það í för með sér að nú lá leiðin niðurávið og brátt kom ég á kunnuglegar slóðir. Vatnið framundan og götur með kunnuglegum nöfnum, jafnvel á ensku. Þetta er ágætis leið til kynnast hverfum borgarinnar, reyna að kortleggja leiðina í huganum áður en haldið er af stað, spila svo eftir eyranu eftir aðstæðum, hlaupa til baka út úr blindgötum, hoppa yfir hundaskítinn, horfa í rétta átt þegar farið er yfir götu og loks að fylgjast með tímanum svo prógrammið fari ekki í einhverja vitleysu. Annars eru gömul fótboltameiðsli farin að gera vart við sig en best að bíða og sjá hvort þau hverfi ekki með hlýnandi veðri.

Hér er mikið framboð af súkkulaðieggjum hverskonar. Mikið ber á Cadburys. Þau eru yfirleitt pökkuð inn í litaðan pappír svo súkkulaðið sést ekki, sem er synd. Eftir síðustu súkkulaðisendingu að heiman þá langar mann ekkert í Cadburys, sem þó var orðið ágætt. Svo gæti verið stutt í næstu sendingu. Glottandi

Það hefur vakið athygli mína hversu sætindum er haldið að börnum á opinberum stöðum hér í landi, s.s. í skólum. Í mötuneytinu í grunnskólanum, sem að flestu leyti virðist nokkuð gott, þá fá þau eftirmat, köku, jelly eða jógúrt. Alltaf sykurkrem á kökunum. Svo, ef tilefni er til, þá fá þau gjarnan einhvern glaðning með heim t.d. köku eða eins og á síðasta kennsludag fyrir páska, súkkulaði. Þetta er ekki yfirþyrmandi en hver er hvatinn? Ég er með þá kenningu um þá áráttu okkar fullorðinna að gefa börnum sætindi, að okkur þykir það gott sjálfum og því verði börnin að njóta þess líka. Þau hins vegar þurfa þetta ekki og sakna þess ekkert á meðan þau ekki þekkja það.


Hestur/maður marathon

Við heimtum móður/eiginkonu í gærkvöldi svo nú er heimilishald komið í þokkalega fastar skorður á nýjan leik. Nema, Margrét er komin í páskafrí og verður næstu tvær vikurnar en Birna heldur sínu striki í leikskólanum. 

Eftir að hlaupin í morgun, af og til í gegnum ilminn af nýslegnu grasi, þá fann ég skemmtilega vefsíðu minnsta bæjar í Bretlandi, sem er staðsettur í mið-Wales. Þetta er 600 manna bær þar sem fara fram allskyns uppákomur og heitir Llanwrtyd Wells, sem ég hef ekki hugmynd um hvernig er borið fram. Ein af uppákomunum er 22 mílu hlaup þar sem keppa menn og hestar, þ.e. menn keppa við hesta í langhlaupi. Í sumar verður 27. hlaupið af þessari tegund og hefst það 10. júní kl. 11 f.h. Árið 2004 vann maður þetta hlaup í fyrsta skipti.

En allavega, fyrir ykkur þindarlausa hlaupara þá er hér á ferðinni ný ögrun við óvenjulegar aðstæður.


Flóð og fjara

Síðustu stundirnar hefur verið mikið útfjar á Everard Way. Fjórar konur gengu hér út um kl. 8 í morgun með úttroðnar ferðatöskur. Þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun er enn hagstætt að taka smá syrpu í verslunum hérna megin hafs. Áfangastaðurinn London, höfuðborg menningar og Englendinga. Svona er þetta á betri heimilum. Fólk kemur í heimsókn og gefur af sér, fær eitthvað í staðinn og allir eru ánægðari á eftir. Við fengum þetta líka frábæra lambalæri með þeim stöllum.

Kjúklingaiðnaðurinn vegur salt á barmi taugaáfalls hér í landi. Allir keppast við að gera sem minnst úr sýkingarhættunni, annars vegar úr villtum fuglum yfir í alifugla og hins vegar úr fuglum yfir í menn. En óttir smýgur inn um allar rifur. Fólk hraðar sér framhjá svönunum og öndunum sem bíða í von um brauð úr poka. Fá kannski brauðmola í hausinn eins og segir í textanum. Bresku bændasamtökin mælast til þess að almenningur sýni alifuglabændum stuðning. Svolítið skrítin umræða í gangi en ekki skrítið þar sem kúariðumál eru enn í fersku minni. Fuglakjöt gæti átt eftir að lækka á næstu vikum. Gott fyrir fátæka námsmenn. Kannski eggin líka. 

Á vef BBC er búið að birta myndir af helstu vágestum í líki fugla. Það er eins og svanur og stokkönd séu nú eftirlýstir óæskilegir borgarar. Varúð! Eins og þessi grey hafi nú gert eitthvað af sér. Það er því flóð af fréttum um fuglaflensu hér, sem gerir í raun ekkert annað en að auka ótta hins almenna borgara. Meira lambakjöt takk.


Flensuóreiða meðal fugla

Óreiða

Það ber helst til tíðinda að fuglaflensa H5N1 hefur greinst í dauðum svan í Skotlandi. Nú beina allir Bretar sjónum að krummaskuði þar norður frá, Cellardyke, sem aldrei hefur fengið slíka athygli. Bareigandi á staðnum bölvaði þessu í sand og ösku og sá fram á hrun í ferðamennsku vegna þessa. Kannski svolítið skammsýnn því í þessu felast talsverð tækifæri við markaðssetningu sé rétt á haldið. Fyrst í stað þyrpast fréttamennirnir á staðinn og svo þegar flensan hefur breiðst út um allar Bretlandseyjar þá hefur Cellardyke sérstöðu sem staðurinn þar sem H5N1 fannst fyrst. Nafn bæjarins mun fá á sig mynd í hugum Breta og jafnvel verður breytt um póstkóða á staðnum, breytt í H5N1.

Hér í Cardiff sér ekki á fuglum ennþá en þó ríkir greinileg óreiða meðal þeirra.  Þeir synda óvenju mikið í hringi og virðast ekki vita hvert skuli stefna. Staðbundnir andfuglar eru berskjaldaðir gegn hinum fjúgandi vágestum úr suðri, en reyndar verður eitthvað lítið um slíka gesti hér í Wales, þeir fljúga flestir austar. En flensan kemur.

 


Vísindaskrif

Alveg óvænt þá fannst mér afar auðvelt að skrifa drög að stuttum abstract á ensku vegna ráðstefnu í Hollandi næsta haust. Á reyndar eftir að fá athugasemdir frá kollega en engu að síður var þetta gott fyrir sjálfstraustið. Hvort maður kemst á ráðstefnuna kemur síðan í ljós. En þemað er aukið hlutverk bænda í verndun jarðvegs á Íslandi, með áherslu á félagslega og efnahagslega þætti. Þeir vilja nefnilega oft gleymast í umfjöllun um verndun auðlinda. Að sjálfsögðu hangir þetta saman, en það er líka á ábyrgð þeirra sem útdeila fjármagni, n.b. sem almenningur á, að það hvetji ekki til slæmrar meðferðar á náttúruauðlindum. Um það höfum við ótal dæmi og öfgarnar ótrúlegar. Best er að engu fjármagni sé úthlutað af "sérlegum sérfræðingu ríkisins" heldur gangi þetta að mestu af sjálfu sér en heimurinn er nú bara svona flókinn og ef bændur eiga að stunda framleiðslu á matvælum eða öðrum "afurðum" þá þurfa þeir stuðning í einhverju formi. Þessi mynd er skekkt um allan heim, ekki bara á Íslandi.

Það er ansi kuldalegt hérna núna, eiginlega dæmigert gluggaveður. Frost í nótt og kalt loft í dag. Gott að nýta slíkt til skrifta meðan yngri dóttirin sefur. 


Þrif og innkaup

c_documents_and_settings_bjorn_my_documents_my_pictures_kodak_pictures_vefur_2006_101_2096_2760.jpg

Jæja, búinn að þrífa. Ótrúlega mikið s.k. skúm í loftunum hérna. Hef ekki enn kynnt mér hvað þetta er en má vafalítið rekja til einhverra lífvera sem hér hafast við. En ef einhver veit svarið þá væri fróðlegt að vita. Tesco kom með vörurnar eins og um var beðið. Tvö skemmtileg dæmi um misheppnuð netinnkaup. Pínulítil flaska með tómatsósu og piparsveinspakkning af þvottaefni. Ekki það sem til stóð að panta en svona eru netinnkaupin. Þýðir ekki að æsa sig yfir því.

En ykkur sem viljið það vita vil ég segja að ég hljóp í rúman hálftíma í morgun, skrefmælirinn var úti að aka og sýndi bara tæpa 2 km en hringurinn var ansi mikið lengri en það. Drakk síðan safa úr afgöngum af ávöxtum og grænmeti, mikið af broccoli, gulrótum og engifer, heví stöff. Ég er að kynna mér nýjar leiðir og reyni að þræða grænu svæðin eins og hægt er. Nota mp3 spilarann hennar Ólafar óspart n.b. ég gaf henni hann. Hlusta aðallega á Red Hot Chili Peppers, Green Day, Primal Scream og U2 á hlaupunum. Það gefur manni aukaorku og maður losnar við umhverfishljóð eins og bílaumferðina.

En nú mega konurnar koma, ég er reiðubúinn á sál og líkama.


Sláttur hafinn

Nú eru garðyrkjumenn hér í Cardiff óðum að taka fram sín tæki og tól, aka um borgina og taka að sér verk fyrir venjulegt fólk sem nennir ekki, getur ekki eða kærir sig ekki um að hirða um garðinn sinn. Grasvöxtur hér er þó enn óvíða til vandræða, mest ca. 20 cm hátt en allur er varinn góður. Lítil hætta á sinueldum eins og er. 

Þarf að sýna myndir hér niður við vatn þar sem grasi er haldið í skefjum með miklum ágætum. Þar eru andfuglar, helstu smitberar fuglaflensu, óþreytandi við að bíta gras sem ekkert er. Afleiðingin eru nauðasköllóttar grasflatir með fallegum blómum, draumastaða allra garðeigenda. Ég held að það ætti almennt að fjölga andfuglum í þessum tilgangi, halda slíka fugla og fara með þá á milli garða og grænna svæða til að halda niðri grasvexti. Miðað við fréttir frá Íslandi þá er mikil þörf á slíku. En þeir bíta sennilega ekki hvað sem er frekar en aðrir grasbítar.  

 Aldrei slíku vant þá er langtímaspáin hér full af sól. Þurrkur upp á hvern dag og heiður himinn. Enda var frost í nótt.

Nú styttist í að minn maður þarf að standa sig svo um munar og reynir þá á uppeldið frá gamalli tíð. Vinkonur konunnar eru að koma í heimsókn í nokkra daga og í kjölfarið koma síðan tengdaforeldrarnir. Það reynir á að sýna hreint heimili og vel haldin börn. Ekki að mæla nema á mann sé yrt og sitja afsíðis á matartímum, helst á kolli út í horni á eldhúsinu og borða afganga úr dalli. Best að koma sér í að þurrka af. Kannski ætti ég líka að slá garðinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband