2.4.2006 | 12:10
Sniglarnir koma
Þeir nota ekki tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi eða "trailer". Nei, þeir taka húsið á bakið og sniglast með það um allar trissur, jafnvel upp á húsþök. Þeir eru óvelkomnir í blómabeð og matjurtagarða vegna óseðjandi matarlystar og af þeim eru til tegundir sem falla undir skilgreininguna "gereyðingarvopn". Skilja eftir sig sviðna jörð. En þeir eru alla vega komnir í garðana hér í Cardiff, sniglarnir, með kuðunga á bakinu. Ekki svona flatneskjulegir eins og sniglarnir á Íslandi, heldur reislulegir á tveimur hæðum. Eftir rigningar eru þeir allsstaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2006 | 19:35
Vorlykt
Ekki í frásögur færandi en geri það samt að ég fór út að hlaupa í morgun. Gleymi alltaf hversu ógeðsleg moldin er hérna, mikill leir og festist svoleiðis á skónum að við höfum komið okkur upp sérstökum leirbursta til að þvo skóna. En allavega, þá valda rigningarnar því að allt veðst upp og því ekki ráðlegt að stunda víðavangshlaup við þessar aðstæður. En vorið er sumsé gengið í garð og því fylgir hitt og þetta. Það bætast stöðugt við fuglaraddir og fuglar á sífelldum þönum að sækja sér efni í hreiður eða syngjandi sveittir í von um að fugl af gagnstæðu kyni sýni áhuga. Hækkandi hitastig losar um hömlur kuldans. Örverur ýmisskonar fara að vinna og búa til rotnunarferli. Því fylgir síðan losun á allskyns lofttegundum sem fylgir lykt. Og þó vorið sé dásamlegur tími þá gengur maður eða hleypur víða í gegnum svona lyktarstrók, rotnunarstrók. Hráefnið er af hinu og þessu tagi, oft úrgangur úr dýrum. En komist maður hjá því að láta lyktarskynið taka yfir þá er sjón sögu ríkari og litirnir sem nú ber fyrir augu gult, bleikt og grænt, þ.e. páskaliljan, kirsuberjatréð og bara svona meira grænt almennt.
Við fórum á kínverskan veitingastað í hádeginu, svona "buffet" þar sem maður getur borðað að vild. Mættum undir kl. 12 og þá var komin röð fyrir framan. Aðeins seinkun á að þeir opnuðu. Þegar inn kom þá datt mér í hug blanda af Shanghai og Múlakaffi. Mjög ódýr innrétting og mötuneytisstæll á staðnum. Diskarnir hæfilega vel þrifnir og maturinn var ansi slakur af kínverskum mat að vera. Við hjón vorum sammála um að þarna færum við sennilega ekki aftur. En maður verður að prófa til að komast að þessu, það er lífsins þraut.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.3.2006 | 09:28
Rigning í logni
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.3.2006 | 09:22
Góður morgunn og reykingar
Á leiðinni í skólann benti Margrét á tré á skólalóðinni og sagði: "Sjáðu blómin." Og það var satt, tréð var alsett bleikum blómum, óskeikull vorboði. Enda dreif ég mig og hljóp 3,5 km í kringum vatnið og Roath Park, Drakk síðan rúman hálfan líter af safa samsettum úr eplum, appelsínu, ananas, gulrót, engifer og gúrku. Stórfínn. Bendi öllum sem eiga safapressu að prófa gúrkusafa með öðru t.d. eplum og gulrótum. Svo er engifer barasta ómissandi. Hvítlaukur er líka góður en bara þegar maður er að fá einhverja pest.
Skotar skelltu á reykingabanni í gær. Skiptar skoðanir um það eins og gengur. N-Írar ætla að setja á bann í apríl 2007 og Englendingar einhverntíma næsta sumar. Wales er ekki búið að tímasetja bann, enda kolarykið varla sest í lungunum á hérlendum. Auðvitað er svona bann að sumu leyti sérkennilegt. Af hverju mega atvinnurekendur ekki leyfa reykingar á sínum vinnustað. Ef maður vill ekki skipta við hann, þá það. Það mætti búa til aðra nálgun. Þeir veitingahúsaeigendur sem banna reykingar fá skattaafslátt frá ríkinu. Þeir lækka kostnað heilbrigðiskerfisins með banninu og afslátturinn gæti því borgað sig. Þannig er búin til gulrót til að banna reykingar en ekki svipa. Skotar telja sig vera tilraunadýr "eina ferðina enn". Meira að segja vörubílstjórar verða að slökkva í þegar þeir aka norður fyrir landamærin frá Englandi. Svolítið langt gengið eða hvað?
En Samveldisleikarnir eru að baki. Mismunandi skoðanir á þeim líka. Einn sagði að þetta væru svona leikar fyrir fólk sem gæti ekki unnið á meiriháttar leikum eins og Ólympíuleikum. Minnir svolítið á Smáþjóðaleikana. Þjóðirnar sem taka þátt hafa, eins og einn grínarinn sagði, orðið fyrir innrás Englendinga og svo nú vilja Englendingar "bara leika", eins og ekkert hafi í skorist. Skemmtilegur húmor hérna í Bretlandi.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2006 | 19:56
Merkisdagur
Dagurinn í dag, 24. mars 2006, markar held ég ákveðin tímamót. Þetta er einkum með tvennum hætti. Annars vegar tel ég að bakslag í íslensku fjármálalífi sé endanlega staðfest í dag með vantraustsyfirlýsingum frá s.k. vinum okkar í vestri. Hins vegar kom vorið til Cardiff í dag. Morguninn var nokkuð hefðbundinn og svalur. Við skruppum í bæinn og komin heim um hádegi. Þegar ég fór síðan út með ruslið upp úr hádeginu þá var allt í einu orðið hlýtt. Orðið "hlýtt" höfum við ekki notað síðan við komum til Cardiff. Fór með stelpurnar á nýopnaðan róluvöll og við fengum þessa fínu vorrigningu á okkur. Ahhh.... Og spáir framhaldi á, reyndar með rigningu.
Þetta eru að mínu mati fréttir dagsins og þegar horft verður um öxl eftir nokkurn tíma þá mun þessi dagur hafa ákveðna sérstöðu meðal bræðra sinna og systra í almanakinu.
Nú er ég að gera upp við mig hvort ég eigi að flytja bloggið yfir á blogg.is og er að skoða möguleikana. Ég er orðinn aðeins leiður á því að missa út nánast fullbúna pistla, erfitt að setja inn myndir og ritillinn leiðinlegur. En ég læt vita, jafnvel þá sem ekki vilja vita.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2006 | 11:03
Sögur af landi
Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá er hér í Wales talað tungum tveim í orðsins fyllstu merkingu. Sjónvarpsrásin S4C hefur ekki fengið mikið áhorf hér á þessum bæ, fyrr en um helgina að ég opnaði fyrir þáttinn Caefn Gwlad, sem ég þykist geta þýtt sem "Sögur af landi" en er n.k. sjónvarpsútgáfa af "Bóndi er bústólpi". Þáttastjórnandinn er roskinn kall, sennilega fyrrverandi bóndi, tekur tal af fólki víðsvegar um landið, einkum bændum. En hvað um það, ég bætti við enskum texta í útsendingunni, og þá var eins og blessuð skepnan skildi allt heila klabbið. Kjörið tækifæri fyrir mig bóndasoninn að horfa á Caefn Gwlad á sunnudagskvöldum til að kynnast velskum landbúnaði. Kýr, kindur, hænur og hestar eru allt góð og gild húsdýr hér ef einhver hefur verið í vafa.
Nú er Fréttablaðið komið til Cardiff. Hér heitir það METRO og er troðið á mann hvar sem farið er, jafnvel í almenningsvögnum hreppsins þar sem það liggur frammi í sérstökum vasa. En innihaldið er frekar þunnt, dægurmál, yfirborðskenndar fréttir og þokkaleg íþróttasíða.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2006 | 14:37
Tap
Það er ekki bara velska landsliðið í rúgbý sem tapar. Ég var líka að tapa stríðinu við Cardiffhrepp um útsvarið. Þrátt fyrir að hafa mikinn hreim og haga mér eins og útlendingur, þá er frelsið mér nú fjötur um fót. Það mega allir allt allsstaðar. Ég má vinna í Bretlandi og þar með á ég ekki rétt á neinum undanþágum, sagði mjög vinalegur indverji við mig í afgreiðslu Cardiffhrepps. Hann var reyndar óvenju vingjarnlegur af opinberum starfsmanni að vera (segi ég) og ég rek það að nokkru leyti til þess að hann er hindúi. Hann var allur hinn blíðasti á manninn og brosti, með rauðan blett á enninu. Og þegar hann sagði þessi neikvæðu orð við mig þá sló hann bitlaus vopnin úr höndum mínum. Maldaði þó aðeins í móinn en hann fór yfir þetta ósköp rólega. Síðan benti hann mér á að fyrst ég mætti vinna hérna, þá ætti ég örugglega líka rétt á einhverjum bótum, t.d. húsaleigubótum. Svona eiga kerfiskallar að vera. Veit ekki hvort ég nenni að sökkva mér ofaní þetta bótakerfi en gæti munað einhverju.
Pósthúsið hérna hjá okkur er talsvert óvenjulegt miðað við þá mynd sem ég hef haft af pósthúsi. Þegar gengið er inn þá eru grænmeti og ávextir á hægri hönd en ruslapokar, þurrkaðir ávextir og gæludýrafóður á vinstri hönd. Innan um þetta eru svo leikföng, ritföng og sælgæti. Harla óvenjulegt. Inns er svo lokaður glerskápur þar sem hírist ein kona, virðist vera að prjóna en gæti verið að biðja. Hún er hið eiginlega pósthús og tekur við póstinum. Keypti m.a.s. klósettpappír þar áðan. Gaman að þessu.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2006 | 13:56
Glitnir banki
Það er óneitanlega missir að nafni Íslandsbanka úr flóru hinna íslensku fjármálafyrirtækja. Ég var farinn að venjast þessu ágætlega og meira að segja búinn að færa þangað mín viðskipti með nokkuð góðum árangri. Það var bjart yfir heimasíðu Íslandsbanka, hvar ég stundaði nánast alla mína umsýslu með peninga og maður varð oft þokkalega bjartsýnn eftur veruna þar. Nú hefur ásýnd síðunnar breyst og einkennist nú af rauðum lit. Áður táknaði sá litur eitthvað neikvætt og oftast mínus þegar fjallað var um tölur. Því er bjartsýnin sem einkenndi heimabanka Íslandsbanka horfin eins og dögg fyrir sólu og í staðinn komnar rauðar tölur og allt virðist stefna í mínus. Auk þess hef ég aldrei borið mikið traust til fyrirtækja eins og Glitnis. Vafalaust fordómar sökum vanþekkingar en ég er alinn upp við að eiga að mestu fyrir því sem ég kaupi, og alveg fyrir neysluvörum eins og húsgögnum og jafnvel bílum. Svona er maður nú forn. En ég ætla ekki að skipta um banka sökum þessa, nema þjónusta bankans breytist í kjölfarið á nafnbreytingunni, til hins verra.
Á þetta kannski að vera Glitnir Group?
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2006 | 13:23
Fyrsta bloggfærsla
Hér með er ég búinn að færa mig yfir á blog.is
Hér er umhverfið allt mun þjálla en hinum megin og fleiri möguleikar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2006 | 17:14
Stjórnarbyggingar
Við Birna skruppum í innkaupaleiðangur í dag. Gott að rifja upp hvað það er leiðinlegt að fara með innkaupakerru í stórmarkað og burðast með poka ýtandi barnakerru á undan sér. Þetta var sumsé vikan sem við keyptum ekki inn á netinu. Það verður ekki endurtekið á næstunni. En við fórum sumsé í Morrisons, sem er ágæt verslun með góða ferskvöru. Á leiðinni förum við framhjá ægilegum skrifstofubyggingum, sem ganga undir heitinu Government buildings. Fyrirbærið minnir á miðja síðustu öld í ráðstjórnarríkjunum, stórir kumbaldar, gráir og ópersónulegir. Innihalda fullt af fólki sem enginn veit hvað gerir en höfuðstöðvar rauða límbandsins (red tape).
Annars er helv. kalt hérna um þessar mundir og mun vera eitthvað framhald þar á. Kannski fjórar gráður í dag og talsverður vindur. Spáir þurru en köldu.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar