13.3.2006 | 12:07
Gengi
Halló, þarna heima. Hvað er eiginlega á seyði? Komið á allsherja samsæri gegn íslenskum fyrirtækjum, tortryggilegar skýrslur, vantraustsyfirlýsingar frá dönum og metviðskiptahalli eina ferðina enn. Og gengið hrynur. Gott fyrir sjávarútveginn og hátæknina en bölvanlegt fyrir fjölskylduna sem býr í þessu húsi. Krónurnar skreppa saman um 5% á dag. En svona er litla Ísland, feykist undan vindi, hvernig sem hann blæs og eitthvað sem heitir stöðugleiki er ekki til. Slíkt kallar á viðvarandi aðlögun en hún held ég að sé mörgum íslendingum í blóð borin. Breytingar kalla á breytingar og maður er hluti af því.
Ég sé að það hafa ekki allir nágrannar mínir skilið tunnukerfið, nú þegar öskukarlar arka um Everard way, líta í tunnurnar og hrista hausinn. Fer endurvinnslan í grænan poka og svo tunnu? Eða fara allir plastpokar í svarta tunnu? Við með allt á hreinu og tunnan ekki nema tæplega hálf, geri aðrir betur.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2006 | 14:10
26. blogg frá Cardiff
Við fótaferðatíma í morgun, sem er um sjöleytið að hætti Birnu Kristínar, var hér allt í snjó og er það enn. Þó heldur byrjað að slakna. Handklæðið sem ég gleymdi út á snúru í gær er undir snjólagi allþykku. Lakara ástand norðar og svo sem ekkert að þessu, rekjan góð fyrir gróðurinn.
Ég leit þess vegna bara á Formúluna í morgun á milli þess sem dæturnar tóku af mér völdin og slökktu á skjánum. Keppnin lofar góðu í ár og gott að eiga þetta sjónvarpsefni í handraðanum aðra hverja helgi ef lítil stemmning er fyrir öðrum tækifærum lífsins.
Svo var landsleikur í rúgbý hér í gær. Ég kíkti á hann á skjánum. Því miður náðu veilsverjar einungis jafntefli við Ítali, en þeir eru ekki mjög hátt skrifaðir í rúgbý. Hafa þó sjálfstraustið í lagi og komust áfram á því. Ég er alltaf að furða mig á því hversu lítið er um blóðsúthellingar í þessum forneskjulega en heillandi leik. Það myndast hver leikmannahrúgan af annarri, boltanum er verpt út úr henni á einhvern ótrúlegan hátt og leikurinn heldur áfram. Minnir á sögur úr Valhöll til forna, þar sem kappar börðust og létu flestir lífið en gengu alheilir skömmu síðar. Kannski á þessi leikur nokkrar rætur í ásatrú. A.m.k. hef ég sjaldan litið eins marga karlmannlega karla á jafnlitlu svæði á sama tíma. Og þá meina ég karlmannlega því þetta eru engar metrosexual verur eins og í fótboltanum, heldur eru allir útlimir gríðarsverir, kjálkarnir skaga út í loftið og nefin hafa mikið vægi þó flest séu þau brotin. Hvaðan þessir menn koma er mér hulið en það er sjálfsagt það sama og má segja um körfuboltaleikmenn eins og vestan hafs, sem eru margir hverjir ofurmannlegir. Lag rúgbýboltans gefur leiknum líka nýja vídd, n.k. kaos leiksins. Hann er mjór til endanna og þegar hann skoppar á vellinum er ómögulegt að segja hvert hann fer næst. Þetta opnar upp ýmsa möguleika og gefur leiknum aukna spennu.
Undanfarnar vikur hef ég kannað bjórlendurnar hér í Bretlandi, smakkað hverja tegundina á fætur annarri af hinum góða Ale sem hér er að finna. Þar eru margar tegundir tilnefndar, Black Sheep, Old Speckled Hen, Fursty Ferret og í gær smakkaði ég Golden Glory. Í honum var einhver slatti af ferskjum og heldur mikið fyrir minn smekk. Hann þarf að vera vel kaldur og sennilega er betra að drekka hann á sumrin. Nú eru lagerarnir sem maður er vandur að drekka lítið annað en bragðlaust glundur. Þeir eru enda talsvert ódýrari. En þetta er skemmtileg menning, sem gaman er að kynna sér.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2006 | 11:19
Rigning, gubbupest og tunnur
Já, nú er komið rigningartímabilið hér í Cardiff. Eftir óvenu þurran vetur á að bæta úr, eða öllu heldur að fara í gamla farið, og rigna. Regnhlífarnar teknar fram og gengið með stíl ömmu músar um götur bæjarins. Ég hef afar litla reynslu af regnhlífum og ber mig því örugglega ekki rétt að, held sjálfsagt eitthvað vitlaust á hlífinni því ég verð bara þreyttur á að bera þetta litla tjald. Pakka henni því niður og verð blautur. En rigningin kemur að mestu beint niður. Það hefur hlýnað talsvert með þessu og því bara notalegt að fara út og skokka svolítið eftir að börnin eru komin í skólana. Þ.e.a.s. þau sem ekki eru með gubbupest. Fátt leiðinlegra en að börnin fái gubbupest, máttfarin og mega ekki borða þó þau vilji. En standa sig eins og hetjur.
Í fyrradag var hér tunnuvætt. Ein svört tunna fyrir almennt sorp, ein græn tunna fyrir garðúrgang og pappa og rúlla af grænum pokum fyrir gler, pappír, plastílát, ál o.s.frv. Þetta er nokkur framför eins og hér hefur komið fram áður og nú fara grænu pokarnir í nýja flokkunarstöð þar sem glerið, pappírinn, plastið og álið er flokkað og síðan selt sem hráefni í glerílát, eggjabakka, flíspeysur og álpappír. Þá er bara að leysa málin með það sem eftir er, þ.e. almennt eldhússorp, bleiur o.fl. Sum sveitarfélög eru komin með brennsluofna fyrir þetta og lýsa göturnar með afrakstrinum. Aðgerðir sveitarfélaga hér eru ekki samræmdar og því ætla flest sveitarfélögin að byggja brennsluofna til að framleiða rafmagn svo örugglega ekkert af þeim verði með hagkvæma vinnslu. Þessi saga hljómar kunnuglega. En varðandi tunnurnar þá fær maður áminningu ef ekki er flokkað rétt og loks 75punda sekt ef maður er óforbetranlegur sóði. Ég er orðinn þeirrar skoðunar varðandi umhverfismál að þau komast ekki í samt lag fyrr en greiða þarf fyrir þá þjónustu sem maður fær af hálfu umhverfisins. Greiða fyrir magnið af sorpinu sem maður lætur frá sér, greiða fyrir orkuna sem maður notar og greiða fyrir vatnið sem maður notar, svo eitthvað sé nefnt. Annað er handahófskennt. Sósíalismi virkar ekki í umhverfismálum nema að mjög takmörkuðu leyti. Kapítalismi er líka gallaður því ef allt er einkavætt þá er eins víst að búið sé að eyðileggja mikið af auðlindum áður en næg þekking er orðin til svo þær séu nýttar á sjálfbæran hátt. Sumar auðlindir eru nefnilega ekki endurnýjanlegar.
Svo mörg voru þau orð.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2006 | 20:30
24. blogg úr Latabæ
Hér á heimili eru fjölmargar tilvísanir í hinar ágætu bók- og myndmenntir sem fjalla um líf og starf fólksins í Latabæ. Þrjár vídeóspólur, tónlistardiskur, kjólar og hárkollur svo eitthvað sé nefnt. Þættirnir hafa gegnt mikilvægu hlutverki við tungumálaaðlögun dætranna á heimilinu og ganga þar undir heitinu Lazytown. Nema hvað, þetta er sjálfsagt ekki frábrugðið því sem er á mörgum öðrum heimilium. En nýjasta tilvísunin varð á vegi mínum er ég las vikurit Cardiff en þar kom fram að í Cardiff er latasta fólkið í borgum Evrópu. Hér hjóla 0,5% fólks í vinnuna og ein af hverjum hundrað ferðum í vinnu er farin fótgangandi. Þetta sló mig en þegar ég hugsa um það þá sést ekki margt manna hér hjólandi enda ekki góð aðstaða til slíks innan bæjarmarkanna. Börnin eru að stórum hluta sótt á bíl í skólann þó þau séu flest úr hverfinu o.s.frv. Veðrinu er ekki um að kenna því Cardiff mun vera ein "þurrasta" borg Bretlandseyja. Aðeins 164 rigningardagar á ári. Um þessar mundir búum við því í Lazytown. Kannski höfum við hér hlutverki að gegna, bíllaust fólkið, sem nýtir sér almenningssamgöngur til hins ítrasta og gengur það sem á vantar. Hér vantar fyrirmyndir eins og Sollu og Íþróttaálfinn. Ég get verið Íþróttaálfurinn og Ólöf verið Solla. Hér í landi yrði ég því Sportacus og Ólöf yrði Stephanie. Kannski er þetta allt fyrirfram ákveðið. Djúsið, hlaupin, göngumælirinn og allt þetta er engin tilviljun. Við erum hér með hlutverk.
En í kvöld reyndum við einn af fylgihlutum heimilisins. Það er s.k. Slow Cooker eða Crock-Pot. Fylgdi með íbúðinni og er notaður við að elda mat eftirlitslaust. Hráefninu er dengt í pottinn, hann stilltur á High eða Low og svo opnar maður lokið eftir 8 tíma og maturinn er til. Ótrúlegt en satt því við reyndum þetta í dag og það virkaði svona líka vel. Úr þessu öllu varð fínasta nautagúllas.
Hvað verður nú um Framsóknarflokkinn, þegar Árni er farinn? Verður Björn Ingi þá nýi erfðaprinsinn?
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2006 | 10:25
Páskaliljan
Hér kemur fróðleikur dagsins.
Páskaliljan, sem á ensku útleggst Daffodil, er þjóðarblóm Wales. Hún er líka n.k. vorboði og sýnir sig gjarnan á þessum tíma, í kringum 1. mars, og er ákaft flaggað á degi Heilags Davíðs, St. Davids Day. Hún tengist altso ekki páskum hér á nokkurn hátt, sem er mér nokkur nýlunda enda alinn upp við þessa nafngift.
En í morgun komumst við að því að hér er starfandi mjólkurpóstur. Hlaupandi með mjólkurflöskur í nokkur hús hér í götunni. Í fljótu bragði mjög umhverfisvænt en hann ekur um á stórum pallbíl og stekkur með tvo til þrjá lítra í hvert hús, sem er nú frekar lítið. En þurfum að skoða þetta nánar.
Það vekur athygli mína að þrátt fyrir mikla bílaumferð í Cardiff og mikið frostlognsveður um þessar mundir að ekki er áberandi svifryk yfir borginni. Í Reykjavík er þetta að verða viðvarandi vandamál ef ekki kemur gott rok annan hvern dag. Getur þetta tengst nagladekkjunum?
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2006 | 19:26
Einkavæðing
Ég hef aðeins verið að slást við Símann á Íslandi um reikninga. Eru að rukka okkur fyrir internettengingu sem fylgdi ADSL tengingunni heima. Við sögðum henni upp en þá hangir internettenging inni með tilheyrandi kostnaði, netfang og svæði á netinu o.s.frv. Hvers vegna ætti ég að halda internettengingunni lengur? OK það er möguleiki en, ég er ekki spurður að því þegar ég segi upp ADSL-inu. En sem sagt ég er orðinn svolítið pirraður og sendi þeim póst en ekki svar. Þetta er dæmisaga.
Ég hef verið í viðskiptum við nokkra aðila hér í Wales og yfirleitt er það þannig að þeir svara samstundis öllum tölvupóstum. Þetta gildir um flest fyrirtækin, nema Cardiffhrepp, sem er kominn með rautt ljós varðandi sjórnsýslulög, hefur ekki svarað mér eftir tvær vikur, ekki einu sinni að þeir hafi fengið póstinn. Þetta er ágætis áminning fyrir mig opinberan starfsmanninn, að þeir sem leita svara vilja gjarnan fá þau sem fyrst en ekki kveljast í áhyggjum um lengri tíma. En Síminn sumsé er ekki að standa sig vel. Af hverju? Lítil samkeppni á markaði.
En ég er samt frekar hneigður undir félagshyggju.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2006 | 20:56
21. blogg
Nú fyrst maður er byrjaður.... Drottningin kom í dag. Hún var hissa að sjá mig ekki við opnunina á nýja þinghúsi Wales, sem stendur hér niður í Cardiff Bay, nálægt höfninni. Glæsilegur arkitektúr, minnir á risastóran svepp. Merkilegt hvað hún er oftast alvarleg á svipinn, t.d. miðað við Þórhildi danadrottningu sem er alltaf voða hress. Beta er alvarleg og hreyfir helst bara augun til að svipurinn haldist, ekki hreyfð ein hrukka. Annars hélt hún þokkalega ræðu við opnunina. Minnti stjórnmálamenn á að þeir eiga umboð sitt undir kjósendum. Mjög þarft því þessi bygging er afar umdeild, kostaði ekki nema 57 milljónir punda eða um 6 milljarða ÍKR. Karl var líka þarna staddur með Camillu. Hún var með svo stóran hatt að hún sá ekki nema hálfa sjón og hausinn hallaði talsvert á stjórnborða. En til hamingju Walesbúar með nýja þinghúsið. Vonandi verður það ekki of dýrt í viðhaldi.
Eitthvað var það nú fleira sem mér lá á hjarta en man ekki lengur. Það kemur fyrir okkur öll. Fékk nefnilega heimsendingu frá Tesco áðan og þá komu í ljós nokkrir ókostir þess að versla á netinu. Keypti óvart fjóra 1 kg poka af gulum eplum í staðinn fyrir 4 gul epli. Sama með blaðlaukinn, keypti einn stóran poka af blaðlauk í staðinn fyrir 1 blaðlauk. Þá er bara að baka eplaköku, djúsa epli og elda lauksúpu. Gæðin á þessu heimsenda dóti eru barasta fín og ekki yfir neinu þar að kvarta.
Stefnir í meiri snjó á morgun, bara gaman í smátíma.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2006 | 10:06
20. Cardiffblogg
Nú er kominn snjór í Wales, smáföl en fallega hvítt yfir að líta. Enn meiri snjór er í Skotlandi og meira væntanlegt. Þetta er frekar heimilislegt þó að vorið eigi nú að vera að bæra á sér. Reyndar vorum við Birna ekkert sérstaklega hamingjusöm með þetta í morgun því strætó varð ansi hreint seinn á svæðið og okkur orðið kalt að bíða. En það var tekið hlýlega á móti okkur í Ninian Road Nursery og Birna gat hlýjað sér hjá fóstrunum.
Annars er maður rétt að ná sér eftir bikarúrslitaleikinn mikla um helgina, að sjá ManU bursta Wigan á þúsaldarleikvanginum. Þetta var mjög verðskuldað. Þessi úrslit voru ekki það sem ég óskaði mér en það var mjög gaman að fara á völlinn og upplifa þessa stemmningu, fyrir leik, á leiknum og eftir leik. Gríðarlega var mikið sungið. Textarnir báru þess merki að ekki voru þar stórskáld á ferð en frekar samið beint frá hjartanu og eftir hugarástandi hvers tíma. Sumir textar voru ekki ritskoðaðir og lýsti innihaldið oft ákveðnum vonbrigðum eða andúð á aðstæðum eða fyrirbærum. Einnig voru textar sem innihéldu nöfn leikmanna og lítið annað, n.k. lofsöngvar til þessara hetja fótboltavallarins. Áberandi að stuðningsmenn Wigan voru að stórum hluta fjölskyldufólk, mikið um krakka með foreldrum sínum. Dæmigerður áhangandi ManU var karlmaður á þrítugsaldri, barn- og konulaus. Veit ekki hvað það táknar. En gaman var það. Þá er bara að undirbúa sig fyrir leikinn í vor. Ég get mælt með fyrirbærinu ef einhver hefur áhuga og er tilbúinn að vera leiðsögumaður. Þyrfti ekki að kosta mikið, kannski einn miða og e.t.v. tvo þrjá bjóra.
En það er ekki laust við að það sé tómahljóð í húsinu eftir að Sigurður og Kiddi fóru. Gaman að fá fjölskyldumeðlimi í heimsókn og kærkomið fyrir litlu stúlkurnar okkar að fá smá tilbreytingu.
Þið sem eigið ketti. Nú er rík ástæða til að venja köttinn sinn af því að veiða fugla, kötturinn gæti einfaldlega fengið H5N1. Þetta eru auðvitað kærkomin tíðindi fyrir þá sem eiga ekki ketti en hafa fóstrað þá í garðinum sínum um árabil með tilheyrandi kattahlandslykt og áreiti á fugla. Allir kettir í stofufangelsi. En svo gæti þessi flensuskítur náttúrulega lagst á hunda líka. Hvað verður um öll hamingjusömu hænsnin sem verpa bestu eggjum í heimi ef þau verða lokuð inni? Þau munu hætta að verpa og stofn hamingjusamra hæna hrynur. Eftir standa búrhænsnin, sterkur stofn sem ekki þarf að hreyfa sig eða anda að sér fersku lofti. Þið getið ímyndað ykkur hvernig kattastofninn á eftir að þróast.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.2.2006 | 10:29
19. blogg
Og ekki nóg með það heldur kemur bikarúrslitaleikurinn í vor hingað líka. Aldeilis gaman að vera svona í miðpunkti fótboltaumræðunnar, fyrir mig altso. Ég veit að mörgum er nákvæmlega sama. En Cardiffbúar eru sumir mjög stoltir af leikvanginum.
Cardiffhreppur gefur út hreppstíðindi einu sinni í mánuði þar sem eru birt ýmis tíðindi úr hreppsmálunum. Einnig aulýsingar um störf á vegum hreppsins, sem eru nokkur um þessar mundir. Kannski maður ætti að fara í garðyrkjuna eða á bókasafnið. Svo er sífellt verið að minna borgarana á hvað þeir eru miklir umhverfissóðar og hvað þeir eiga að gera til að minnka áhrif sín á umhverfið. Þar er efst á lista að minnka kaup á unnum matvælum og skyndibitamat. Það segir sína sögu. Einnig eru samgöngur, sorp og orka framarlega í forgangsröðun um góðar umgengnisreglur. Þetta hreppsblað ber þess merki að hreppsnefndin leggur sig fram um lýðræðisleg vinnubrögð, a.m.k. í orði. Skoðanakannanir, fundir o.s.frv. En blaðið er að sjálfsögðu á tveimur tungumálum, ensku ef maður snýr því rétt og velsku ef maður les það á hvolfi.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.2.2006 | 22:53
18. blogg frá Caerdydd, Cymru
Nú stefnir í mikið haverí hér í Cardiff um helgina. Á sunnudaginn er úrslitaleikur í ensku deildarbikarkeppninni á þúsaldarleikvanginum "okkar". ManU og Wigan eigast þar við og verður vafalítið margt um manninn. Fyrir nokkru síðan voru settar upp tilkynningar í strætó, ekki verður ekið um miðbæinn á sunnudaginn 26. febrúar en tekinn krókur. Miðbærinn mun því væntanlega lokast að mestu fyrir bílaumferð þar sem leikvangurinn er eins og stórt kýli utaní miðbænum. En þetta gerist nú bara endrum og eins. Í sumar verða þrennir tónleikar á leikvanginum, Take That, Eagles og Rolling Stones. Hefði mátt vera eitthvað safaríkara en svona er lífið, snýst allt meira og minna um tímasetningar.
Nú er ég farinn að djúsa. Ekki kojufyllerí heldur er hér um að ræða nýtt eldhúsáhald sem breytir ávöxtum og grænmeti í safa, sem maður síðan drekkur í rólegheitum. Nýjasta pöntun í Tesco er enda mikið af ávöxtum og grænmeti. Ég finn vítamínin hríslast um skrokkinn en finn líka blóðsykurinn hækka upp úr öllu valdi. Betra að drekka hægt. Svo á að reyna sig við grænmeti, gúrku, engifer, gulrófur og broccoli. Jafnvel hvítlauk. Þetta er víst svakalega hreinsandi. Málið er að búa til gott "base", úr gulrótum og eplum eða ananas og síðan bæta einhverju óætu í. Kannski endist þetta eitthvað, kannski hætti ég eftir þrjú skipti og nenni ekki að vaska þetta upp lengur. Svo verður maður að fá sitt tréni.
En í gær hljóp ég hringinn í kringum vatnið + Roath Park. Veit ekki hvað þetta er langt en gott að hafa það skjalfest hvenær þetta átti sér fyrst stað. Annars er Margrét í vetrarfríi þessa viku svo ekki verður mikið um líkamsrækt. Meira um spil eins og Lúdó og Olsen Olsen. Ætli einhver börn kunni þessi spil lengur? Er hægt að spila Lúdó á netinu? Eða Olsen Olsen? Svo er hún sjúk í að spila Fant, Veiðimann og Svarta Pétur. Er líka orðin húkkd á Yatzi. Ég er byrjaður að kenna henni manntafl, gamli skákgúrúinn. Henni finnst skemmtilegast að raða upp mönnunum og að máta mig. Ekkert sérstaklega gaman að tefla, þannig að ég sé um það.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar