19.2.2006 | 16:53
17. Cardiffblogg
Hér ætlar allt um koll að keyra vegna andarinnar sem fannst í Frakklandi. Bændur sótthreinsa stígvélin sem aldrei fyrr og banna hænunum, öndunum og kalkúnunum að fara út. Reynt að tala gegn kjúklingaátshruni sbr. slæma reynslu frá Creutzfeld Jacob tímabilinu. En ljóst að hættan á að veikin berist hingað er veruleg. Hins vegar hafa sérfræðingar bent á að meginhluti farfugla fljúgi norður og austur og því komi tiltölulega lítill fjöldi farfugla hingað. Ég get ekki varist þeirri tilhugsun þegar ég hleyp í kringum vatnið að þarna sé nú ein skítaklessa með H5N1 innanborðs og reyni því að lenda ekki í henni. En það er hægar sagt en gert því stígurinn er ansi hreint óhreinn. Á hverjum morgni skimar maður eftir hóstandi svan eða önd með vasaklút. Allt í gjörgæslu. En fjölmiðlar reyna að vanda sig svo ekki verði úr einhver múgæsing.
Ekki mikið fjallað um Evróvisjón úrslit á Íslandi á BBC en það hlýtur að koma fyrr en varir.
Nú stöndum við í samskiptum við Cardiff hrepp vegna s.k. Council tax, sem er lagður á allar húseignir. Við viljum meina að við séum undanþegin skattinum en embættismenn hreppsins eru á annarri skoðun, a.m.k. ennþá. Sér ekki fyrir endan á því en um talsverðar upphæðir er að ræða, rúm þúsund pund á ári. Nóg er nú samt segi ég. En alltaf gaman að skrifast á við embættismenn, sérstaklega þegar maður hefur sjálfur reynslu af því að fá slík bréf, og svara þeim.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2006 | 12:09
16. blogg
Við búum í rólegu íbúðahverfi hérna í Cardiff. Minnir svolítið á smáíbúðahverfið í Reykjavík, eða Fossvoginn. Húsin eru frá miðri síðustu öld. Þá var hér mikið að gera, kol, kol og aftur kol. En nú er kolasagan að baki og eftir stendur borg sem veit ekki hvert skal stefna. Stjórnsýslan er stór þáttur í atvinnulífi hér, höfuðborg með miklar skyldur, gríðarlega dýrt nýtt þinghús og allsskyns opinbera embættismenn á skrifstofum. Háskólaborg með fjölda stúdenta um allan bæ og tilheyrandi atvinnutækifæri. Menningarborg með fjölda hljómleikasala, menningarhúsa og íþróttaleikvang á stærð við Selfoss, tekur fjórðung af Íslendingum í sæti. Arkitektúrinn er afar ruglingslegur, hluti gamla bæjarins sprengdur í tætlur í heimsstríði II og byggðir ferkantaðir skrifstofukassar í staðinn. Saga sem sést um alla Evrópu. Blokkir varla sjáanlegar, einu háhýsin eru hótel og skrifstofubyggingar. En, ósköp þægileg, sérstaklega íbúarnir.
Ég er með þá kenningu að það sem gæti haft hvað best áhrif á ástand heimsmála í dag er að allir leikskólar og grunnskólar í heiminum séu gerðir að fjölmenningarskólum þar sem börn af sem flestum kynþáttum með sem flest trúarbrögð umgangist hvert annað. Þetta gerir mikla kröfu á skólana og starfsliðið en gerir börnin umburðarlyndari og minnkar fordóma. Skólar verða að sjálfsögðu að taka mikið tillit til hins margbreytilega menningarlega bakgrunns barnanna en jafnframt verða börnin og foreldrar þeirra að læra að taka tillit til mismunandi bakgrunns annarra. Ekki þessir gettóskólar sem víða eru þar sem uppfræðslan er á eina bók, kóran eða biblíu. Ég veit að dætur mínar munu búa að því alla tíð að umgangast börn af öðrum litarhætti og með mismunandi trúarbrögð. Það verður allt svo sjálfsagt.
Þetta með vorið er engar ýkjur, vorlaukarnir og blómin sem líkjast pákslaliljum eða túlipönum eru byrjuð að bæra á sér. Allskonar fuglar verða nú á leið minni og bæjarstarfsmenn út um allt með hrífur, klippur, kerrur og sláttuvélar.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.2.2006 | 14:06
15. Cardiffblogg
Annar hver þáttur á dagskrá sjónvarpsstöðva hér í landi eru raunveruleikaþættir einhverskonar. Sú tegund sem er mest áberandi er þar sem einhver einstaklingur eða einstaklingar fá utanaðkomandi "fræðing" á tilteknu sviði til að taka sig í gegn. Þetta gildir um klæðaburð, uppeldi barna, mataræði og lífsstíl almenn, hundahald, skilnaði og svo mætti lengi telja. Meginlínan er að tekið er fyrir hvernig viðkomandi hagar sér í dag, þ.e.a.s. stöðumat. "Fræðingurinn" greinir síðan vandamálið. Þá er sett af stað einhverskonar meðferð og loks er mældur árangur nokkru síðar. Bara eins og verkefnisstjórnun á að vera. Hvað gerist svo er náttúrulega eins og í ævintýrunum þar sem allir lifðu hamingjusamir til æviloka eftir að búið var að koma þeim á réttan kjöl í lífinu. Oftast felst í þessu einhverskonar niðurlæging fyrir viðkomandi þar sem honum/henni/þeim er sagt til syndanna, hvað hann/hún/þau séu nú vitlaus o.s.frv. Varðandi mataræðið þá er nú gaman að sjá hversu fátt af þessu fólki borðar mat. Skyndibiti, tilbúinn matur, gosdrykkir og fleira gott er látið ráða.
Bretar virðast almennt aldir upp við að borða franskbrauð. Það er mun meira úrval af hvítu brauði í hillunum hér en heilkorna brauði. Undarlegt, hélt að hvítt brauð væri bara hvítt brauð. Enda er mikið rætt um hægðatregðu í raunveruleikaþáttunum sem nefndir voru hér ofar.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2006 | 20:21
14. blogg frá Cardiff
Þið haldið kannski að mér hafi fatast í talningunni. Nei ekki aldeilis. Ég var nefnilega búinn að skrifa 13. pistilinn og hann ekki slæman, um rúgbý. Og hann hvarf með öllu. Þetta var svona testósteron pistill. Karlmannleg nef, margbrotin, sverir kjálkar og framstæð haka. Keltarnir flestir tannlausir að mestu. Meginlandsbúar og Englendingasnobbhænsnin betur til hafðir. En lýsing á leiknum er hér með horfin, sem staðfestir eingöngu óhöpp í tengslum við töluna 13.
En kannski reyni ég aftur síðar.
Fuglaröddunum er sífellt að fjölga í grænum görðum Cardiff og íkornarnir skoppa í trjánum, næstum gegnsæir að lit. Lifandi teiknimyndapersónur úr Disney.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2006 | 14:12
12. blogg frá Cardiff
Já, það koma óneitanlega þau tímabil að maður hefur lítið fram að færa og hugrenningar ekki þess eðlis að þær skuli færa í letur en.....
Strætóbílsjórar eru sennilega afar vanmetin starfsstétt. Ég játa það fyllilega að fátt kemur mér í eins vont skap eða fer eins mikið í taugarnar á mér og mikil umferð, bið á umferðarljósum, að komast ekki nokkuð greiðleiga mína leið o.s.frv. Svo mun vera um fleiri. Með því að nota almenningssamgöngur eins og strætó þá er þetta áreiti fyrir bí en leggst allt á einn mann fyrir hönd allra þeirra sem sitja í strætó. Þetta gildir að sjálfsögðu eingöngu þar sem fleiri en bílstjórinn eru í farartækinu en dæmi um annað munu nokkuð þekkt t.d. í Reykjavík. Strætóbílstjóri tekur því á sig hið margvíslega neikvæða áreiti sem stafar af samskiptum við aðra og hin ýmsu umferðarmannvirki í umferðinni. Þeir eru því allt að því sálgæslumenn, varla sálfræðingar, en sálarvörn fyrir okkur hin sem sitjum eða stöndum í strætó. Hvað þetta hefur að segja? Jú, það er ekki nokkur spurning að af þessu hlíst margvíslegur sparnaður fyrir samfélagið. Þeir sem ferðast með strætó þurfa síður að leita til sálfræðinga, slysum fækkar og álykta má að samskipti verði að meðaltali jákvæðari svona almennt. Auðvitað má gera ráð fyrir því að sálfræðikostnaður strætóbílstjóra sé nokkur en ætti þó ekki að þurfa að vera meiri en hjá almennum bílstjórum. Strætó á t.d. víða meiri rétt í umferðinni en hinn almenni bíll t.d. sérstakar akreinar, forgangur út af stoppistöð og forgangur á ljósum. Ég ætla ekki að byrja að telja upp kosti vegna umhverfisins, það hafa svo margir þulið þá tuggu. Hér í Cardiff nýti ég mér sem sagt strætó og það er talsverður léttir að vera ekki með bíl á sínum snærum, mjög jákvætt fyrir lífsmóralinn.
Annars er ég byrjaður að hlaupa, úti. Sól hækkar á lofti og ég hef lengi ætlað að taka mig á í hreyfiþjálfun. Hér er ágætt að hlaupa, talsvert af stígum, t.d. í kringum vatnið hér fyrir neðan og í Roath Park. Byrja frekar rólega, 2-3 km. Svo færir maður sig upp á skaftið.
Það er athyglisvert að hér er mjög lítið um útivistarbúðir utan þetta með hlaupabúnað, golfsett og slíkt. Lítið um göngubúnað. Ég á eftir að stúdera það nánar til að koma með kenningar. En hér eru allir að hlaupa eða úti að ganga með hundinn.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2006 | 12:47
Jarðamatseðill og skyr.uk
Skemmtilegt að sjá pistil forseta vors á mbl.is um íslenskan landbúnað. Þetta vekur mann óneitanlega til umhugsunar um hversu bundinn landbúnaðurinn er að mörfu leyti í viðjar hugsunarháttar, hugsunarháttar sem hefur lítið breyst síðustu áratugi. Skyr framleitt í Danmörku eða Wales undir merkjum skyr.is eða Norðurmjólkur er ekki fráleit hugmynd. Einnig er þetta með jarðamatseðilinn fyrir lambakjöt á veitingastöðum skemmtileg sýn og gefur tækifæri til framþróunar í gæðum framleiðslu.
Við keyptum einmitt lambakótilettur í Tesco um daginn í tiltölulega hefðbundnum pakkningum, plastbakka með plastfilmu yfir. Utan það að á pakkningunni var miði þar sem getið var um bóndann sem framleiddi kjötið, hvar hún bjó og að hún legði sig nú fram um að lömbin hefðu það gott og fengju nóg að borða. Við erum að tala um fjárhjarðir ekki stærri en á Íslandi, kannski 300-600 ær.
Nú er mikil umræða um hvort bikarúrslitaleikurinn í vor verði á Wembley eða á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff. Greinilega mikil pressa á Lundúnabúum að Wembley verði tilbúinn en þar er allt á eftir áætlun.
Til fróðleiks þá er Þúsaldarleikvangurinn hér u.þ.b. í miðri borg, eins og geimskip frá framandi plánetu hafi sest þarna niður og standi ekki til að færa sig frekar um set. En það er með þetta mannvirki eins og svo mörg önnur að þau hafa fært framkvæmdaglöðum aðilum miklar skuldir og bagga að bera, í þessu tilviki velska rúgbýsambandinu. Þeir eru að velta fyrir sér að selja nafnið fyrir 5 millj. punda þ.e. að einhver stór aðili fái að setja nafnið sitt framan við nafn leikvangsins t.d. TESCO Millennium Stadium.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2006 | 21:03
10. blogg frá Cardiff
Hér um slóðir voru til skamms tíma stundaðar í stórum stíl s.k. refaveiðar, þar sem hópur manna á hestbaki auk sambærilegs fjölda hunda setti sér það sameiginlega markmið að elta ref og drepa. Þessi hefð var stunduð hér í landi allt frá 17. öld og fram á síðasta ár en þá samþykkti breska þingið bann við slíkum athöfnum, einkum á forsendum dýraverndar og þá einkum m.t.t. refsins. Gríðarlegar deilur spruttu í tengslum við þessa lagasetningu og hefur fjarri því gróið um heilt. Bændur hér um slóðir hafa sumir hverjir haft lifibrauð af þessum veiðum, alið bæði upp hunda og hesta. En einnig er því hávært mótmælt að verið sé að amast við lifnaðarháttum fólks með þessum hætti og þá einkum hvað fáfróðir borgarbúar séu yfir höfuð að skipta sér af þessu.
Þessi umræða þykir manni dálítið kúnstug í aðra röndina. Ég skil vel að menn vilji halda í gamlar hefðir því í kringum þessar refaveiðar hefur verið mikið gaman og mannfögnuður mikill. Riðið um óveg á góðum hestum með skemmtilegu fólki. Þetta hljómar óneitanlega kunnuglega. En endarpunkturinn, þ.e. drápið á refnum, er orðið eins og algert aukaatriði. Minnir aðeins á gangnahefð á Íslandi, sem er sennilega að þeirra mati sem tekið hafa þátt í slíku eitthvað það mest mannbætandi og skemmtilega sem hægt er að taka þátt í. Hvert markmið samverunnar er hefur síðan þynnst eilítið út. En útiveran, samvera við hross, hunda og skemmtilegt fólk er óviðjafnanlegt.
Ég hef ekki enn komist að því hvort refaveiðar eru stundaðar hér með öllu skilvirkari hætti en þó grunar mig það.
Nú hafa bændur tekið upp á því að efna til útreiða með svipuðu sniði og refaveiðarnar voru, gera gervislóð fyrir hundana svo þeir fái nú að hlaupa og flengríða síðan um velskar grundir. Að þessu hefur verið gerður góður rómur en mikil áhersla lögð á það að sveigja framhjá refum verði þeir á leið hópsins.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2006 | 15:34
9. blogg frá Cardiff
Bankasagan virðist loks hafa fengið endi, farsælan veit ég ekki enn. Hittum stórkostlegan þjónustufulltrúa í HSBC sem sagði okkur þurfa að sýna fram á að við hefðum búið á Selfossi. Veit ekki hvort það er orðið gert að skilyrði að maður hafi búið á Selfossi en.. Eftir japl jaml og fuður féllst hún á að við gætum e.t.v. stofnað reikning en til þess þyrfti eyðublað til að sækja um. Við álitum það jákvætt og hún hélt af stað að leita að eyðublaðinu. Kom skömmu síðar og tilkynnti okkur að eyðublaðið væri barasta ekki til lengur, bara búið. Ef við hins vegar gætum fyllt út svona eyðublað einhverntíma þá yrði það sent í höfuðstöðvarnar og þar fjallað um dæmið, þ.e. okkur og okkar kredittraust. Sú umfjöllun tæki vafalaust tvær vikur. Ég hélt að svona bull væri bara úr sögunni á vesturlöndum en ekki aldeilis. Þannig að við héldum í Barclays. Mér hefur alltaf fundist Barclays svo flott nafn að ég hef aldrei gert ráð fyrir að fyrirtæki með slíku nafni hefði nokkurn áhuga á að skipta við nobody eins og mig en við létum slag standa þar sem bankinn var í leiðinni.
Hittum þar Adrian Chapman, afskaplega þjónustuglaðan ungan mann. Hann skoðaði passana okkar í þaula, hringdi síðan í opinberan starfsmann einhversstaðar og sýndi honum nánast takmarkalausa þolinmæði á meðan hann lýsti fyrir honum passanum. Jú hann er dökkur, e.k. skjaldarmerki framaná með kalli og nauti. Myndin er nú frekar léleg en jú hann þekkist nú. Svona gekk þetta í þrjú kortér. En loks lagði Adrian á og taldi komna fullvissu fyrir því að við værum þau sem við værum. Svo stimplaði hann tvisvar inn upplýsingar um okkur hjónin, t.d. hvar við hefðum búið áður en við bjuggum á Selfossi. Rétti síðan möppu yfir borðið og bauð okkur velkomin í viðskipti við Barclays. Þvílíkur léttir!
En nú vill Margrét æfa sig að skrifa í tölvunni svo ég verð sennilega að hætta núna.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2006 | 20:21
8. blogg frá Cardiff
Svo maður snúi sér nú að umhverfismálunum hér í Cardiff þá ber fyrst að nefna það nú skal tunnuvæða Cardiffbæ. Grænar og svartar tunnur og svo grænir pokar fyrir garðaúrganginn. Núna eru pokar, svartir fyrir almennt heimilissorp og grænir fyrir endurvinnsluna, settir út á stétt kvöldið fyrir sorphirðu í hverfinu. Við þetta myndast skemmtileg hópstemmning þegar allir íbúar götunnar spássera út fyrir lóðamörk og setja þar niður ruslapoka. Grænu pokarnir eru hirtir aðra hverja viku.
Eitt af því sem er nýtt hér er að íbúar þurfa ekki að flokka það sem fer til endurvinnslu, heldur er öllu hrúgað í sama pokann, flöskum, krukkum, dagblöðum, plastbrúsum og pappakössum. Síðan er sérstök flokkunarstöð sem tekur við öllum herlegheitunum. Athyglisvert! Ekki fjölmörg ílát hvert í sínu horni. Eitt undir dagblöð, eitt undir plastflöskur, eitt undir mjólkurfernur o.s.frv. Flutningur í endurvinnsluna er því leystur fyrir heildina svo maður er laus við að arka eða aka með pokana í "Sorpu" eða "Wasty" og passa að hver þeirra fari í rétt ílát þar.
Hér er markmiðið að ná 40% af sorpi í endurvinnslu innan þriggja ára og 50% árið 2010. Við er að glíma sama vandamál og á Fróni, urðun á sorpi. Þetta er semsagt ekki bundið við Kirkjuferjuhjáleigu og Álfsnes.
En ég hlakka til að fá tunnurnar því það er ekki laust við að ég gruni ferfætlinga um að hnýsast í ruslapokana hjá mér svona endrum og eins.
Þetta með minningargreinarnar heima. Hér er sá siður eða hefð tekin á annað stig. Það er ekki óalgengt að sjá viðtöl í sjónvarpi við nákomna ættingja eða vini fólks sem látist hefur með vofeiflegum hætti t.d. myrt eða af slysförum. Jafnvel n.k. fréttamannafundur þar sem náinn vinur lýsir viðkomandi og hversu góður vinur hann/hún var. Ofast fylgja þessu miklar tilfinningar og mér finnst satt að segja óþægilegt að horfa á þetta, fólk að bera á borð fyrir hvern sem á vill horfa tilfinningar sínar til einhvers nákomins. Maður veltir fyrir sér tilganginum og fyrir hvern. Er það til að heiðra minningu þess látna eða einhver sjálfsmeðaumkun og sókn í athygli og meðaumkun. Skil þetta ekki.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2006 | 10:39
7. blogg frá Caerdydd, Cymru
Innkaup á hvers kyns heimilisvörum í gegnum netið er komin til að vera á þessu heimili. Keypt inn á netinu þegar börnin eru komin í rúmið og horft á Taggart í sjónvarpinu á meðan einhver tínir vörurnar til og ekur með þær heim á hlað og ber þær jafnvel inn fyrir þröskuldinn. Hvað viljið þið það betra? Nú þarf maður í versta falli að fara á grænmetismarkaðinn, til slátrarans og í fiskbúðina til að versla. Þannig að nú er ég hættur að fara út úr húsi. Nei, nei. Í morgun trillaði ég með barnakerru í leikskólann, í strætó og labbaði svo til baka. Ég verð kominn í hörkuform eftir árið.
Talandi um form, Latibær er á BBC, sýndur á morgnana kl. 8:30 þegar öll börnin eru á leið í skólann. Hann er reyndar líka sýndur á Nickleodeon seinnipartinn en þá er hann bara sýnilegur ríka fólkinu sem er með allar áskriftir. Mér finnst persónulega íslensku raddirnar betri. Laddi er betri Nenni og Siggi er líka skemmtilegri. Magnús Sch og Stefán Karl eru með skemmtilega framandi hreim miðað við aðrar persónur. Þættirnir eru í eitthvað annarri röð en heima og við höfum aðeins séð einn af þeim hér. Margrét eldri dóttir okkar kunni hann utanað og gat því þýtt hann jafnóðum yfir á íslensku úr ensku. En gaman að sjá þessi íslensku nöfn renna yfir skjáinn á kreditlistanum. Lifi útrásin!
Nú förum við hjónin í heilsufarstékk á velskri heilsugæslu, þvagsýni og allur pakkinn. Enga lyfjamisnotkun hér takk.
Breytt 31.3.2006 kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar