Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2006 | 10:30
Þjóðhátíð í útlöndum
Ég hef aldrei áður skreytt húsið mitt með fánum og blöðrum á þjóðhátíðardaginn, enda hef ég aldrei áður varið 17. júní í útlöndum. Það er hins vegar staðreynd í dag og það sem meira er að í dag er 25 stiga hiti og sól, sem ég hef reyndar upplifað áður á 17. júní en er alltof sjaldgæft á þessum góða degi á Íslandi. Þjóðerniskenndin er svo sem ekkert að bera mig ofurliði þó við séum ekki mörg hér í Cardiff brotin af íslensku bergi. Fáum reyndar hina Íslendingana í heimsókn á eftir. Það sem er okkur verðmætt er tungan og landið. Þjóðfélagið er ekkert merkilegra en önnur þjóðfélög og maður finnur það hér í Wales að þjóð sem hefur verið undirokuð af nágrannaþjóðinni æði lengi ræktar með sér mikla þjóðerniskennd. Hér er haldið dauðahaldi í tunguna, sem Englendingar gera grín að, þjóðfáninn notaður við hvert tækifæri og mikið um klæðnað sem ber merki Wales, rauða drekann. Íslendingar eru í raun talsvert líkir Walesverjum. Þjóðin er í a.m.k. tveimur hlutum, það er talað annað tungumál hér í Cardiff en víða annarsstaðar í Wales, eins og höfuðborgarsvæðið sker sig úr gagnvart landsbyggðinni á Íslandi. Walesverjar eru stoltir af upprunanum og halda á lofti sögum af sínum þjóðhetjum, eins og Íslendingasögurnar okkar. Hér eru sjálfstæðishetjur á hverju strái, í sögum. En eins og áður segir, þá snýst þetta um land og tungu. Það er það sem við eigum sameiginlegt og það er það sem við eigum að vernda og rækta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2006 | 09:37
Coca Cola, vatnsbirgðir í Indlandi, matseðlar og tími rósanna.
Rakst á grein í Voice of America þar sem fjallað er um ásakanir á hendur Coca Cola fyrir að nota of mikið vatn í verksmiðjum sínum í Suður Indlandi. Brunnar hafa þornað upp og Coke hefur þegar þurft að loka einni verksmiðju eftir málaferli. Segja þetta "anti ameríku áróður" og engar vísindalegar sannanir séu fyrir hendi. En svona eru birtingarmyndir alheimsvæðingarinnar.
Talandi um Coca Cola, þá hefur Matvæla- og Lyfjaráð Bandaríkjanna mælt með því að veitingahús bjóði upp á matseðla með meiri ávöxtum og grænmeti, minnki skammtana og auki upplýsingar um innihald rétta. Þetta er allt á hendur offeiti þeirra Bandaríkjamanna. Þeir borða víst 300 fleiri kaloríur á dag núna en árið 1985 og neyta þriðjungs þeirra að heiman, aðallega í formi hamborgara, franskra og pizzu á skyndibitastöðum. En þetta eru víst bara tilmæli og vegna kostnaðar er ólíklegt að þetta verði tekið háalvarlega til að byrja með. Enda er það víst þannig að við eigum sjálf að vera ábyrg fyrir því hvað við látum ofaní okkur, ekki ríkisstjórnin. Verst að afleiðingarnar leggjast síðan jafnt á okkur fjárhagslega í formi skattpeninga í heilbrigðiskerfið.
Hér í Cardiff er kominn tími rósanna. Í hverjum garði blómstra nú rósir sem þær eigi lífið að leysa og í mörgum litum. Við erum tiltölulega hófsöm og höfum bleikar rósir hér framan við húsið. En því er ekki að neita að fallegar eru þær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2006 | 19:35
Áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda?
Hefur einhver áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda? Ef svo er, þá sýnist mér á öllu að það sé alveg óþarfi, Kínverjar munu sjá heiminum fyrir nægum gróðurhúsalofttegundum næstu árin ef marka má grein í New York Times. Notkun á kolum í Kína er nú meiri en í BNA, Evrópusambandið og Japan til samans. Og í hverri viku eru reist þar kolaorkuver sem myndu fullnægja orkuþörf borga eins og Dallas eða San Diego. Mengunin er gríðarleg, losun á brennisteinsdíoxíði er mikil með tilheyrandi súru regni og losun á koldíoxíði og kolaóhreinindum gerir loftmengun á verstu svæðunum í Kína óbærilega. Losun á koldíoxíði er svipuð í Kína og í Bandaríkjunum nú en gæti tvöfaldast til 2025 ef svo fer fram sem horfir.
En af hverju?
Kínverjar vilja reyna að ná í skottið á öðrum hvað varðar lífsgæði, peninga á milli handanna, raftæki á heimilinu og að eiga fyrir fleiri fæðutegundum en hrísgrjónum. Þetta er því ekkert skrítið, bara slæmt að þessum mikla vexti fylgi svo mikil mengun. Kínverjar nota gamla og lélega hreinsitækni við kolabrennslu, tíma ekki að fjárfesta í dýrri tækni á Vesturlöndum, frekar að keyra hagvöxtinn upp. Kínverjar eiga lítið af orku nema í kolum, vatnsorkuver munu aldrei ná nema um 20% af heildarorkuþörfinni.
Á næstu tveimur áratugum munu fleiri Kínverjar en allir Bandaríkjamenn eru nú, flytja í borgir. Þetta mun hafa í för með sér að þessir 300 millj. Kínverjar munu hafa mun meiri fjármunum úr að spila en í dag og verja þeim í allt mögulegt sem okkur þykir sjálfsagt að hafa. Það kostar meiri orku.
Þannig að, ekki hafa áhyggjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2006 | 15:06
Cardiff Bay í frábæru veðri og sjónvarpið geispaði golunni
Við skruppum niður í Cardiff Bay, öll fjölskyldan, spásseruðum um, fórum í stutta siglingu um fjörðinn eða lónið og fengum okkur svo að borða með ís á eftir. Frábært veður eins og endranær þessa dagana. Cardiff Bay er við mynni ánna Taff og Ely og myndaði áður miklar flæður við sjóinn. Þessu var öllu lokað 1995 með löngum varnargarði og er nú ferskvatnslón. Auk þess hefur verið komið í veg fyrir hin miklu flóð sem ollu gjarnan skemmdum á mannvirkjum en munur flóðs og fjöru var 12 m.
Þegar heim var komið átti að kíkja á leikinn en ekki tókst betur til en að hið aðframkomna sjónvarp gaf sig endanlega. Það gat vissulega gerst á verri tíma en ekki mikið verri. Þarf því að bregða við skjótt og finna annað tæki en ekki verður lagst í mikla fjárfestingu þetta sinnið, aðeins að fleyta þessu yfir næstu 7 mánuði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2006 | 15:37
Fuglaflensa í þauleldi og sparnaður í samgöngum
Villtir fuglar og útiráfandi alifuglar (free range poultry) hafa yfirleitt verið nefndir sem megin áhættuþátturinn varðandi smitleiðir fyrir fuglaflensu. Nú setja sumir fyrirvara við þessa uppstillingu en vilja beina kastljósinu í auknum mæli að verksmiðjueldi eða þauleldi á fuglum í Kína og Suðaustur Asíu, þar sem reglur eru að miklu leyti settar af iðnaðinum sjálfum. Framleiðslunni og úrgangi er síðan dreift um allan heim eftir fjölmörgum leiðum. Fuglar í þauleldi hafa litla mótstöðu gegn sjúkdómum og smitið er fljótt að breiðast út. Því er haldið fram að fuglaflensan sé í raun að berast úr alifuglum og yfir í villta fugla og útiráfandi alifugla. Sjá nánar í Guardian.
Nú telst mér til að ég hafi sparað rétt 6,6 pund í þessari viku í færri strætóferðum plús 4,95 pund í heimsendingu á matvöru. Þetta þýðir 11,55 pund í sparnað, sem er að miklu leyti að þakka fjárfestingu í reiðhjóli Ef svona heldur áfram þá verður það ekki nema 7 vikur að borga sig upp og aðrar 10 að borga aukabúnaðinn þ.e.a.s. um 4 mánuði. Verður það ekki að teljast ásættanlegt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2006 | 10:48
Saga kókoshnetuolíunnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2006 | 13:53
Krikketsagan endalausa og litla lirfan ljóta
Hér berast okkur reglulega fréttir af krikketleikjum. Ég verð að viðurkenna litla löngun mína til að kynna mér þessa mjög svo samveldislegu íþrótt, sem eins og póló og fleiri virðulegar greinar eru nokkuð einokaðar af s.k. samveldisríkjum, gömlum breskum nýlendum. Leikirnir vara í marga daga, a.m.k. 5, og nú hafa t.d. lengi vel verið fréttir af landsleik Sri Lanka og Englendinga, og skiptast liðin á að leiða leikinn. Þetta er ótrúlega lítið áhugavert og leiðinlegt að sjá en hvítir búningar og prjónavesti virðast eiga vel við. Svo ekki sé minnst á te.
Við feðgin grófum upp dvd diskinn með litlu lirfunni ljótu. Skemmtileg teiknimynd og gaman að horfa á hana í útlöndum á þessum tíma. Hin geysigóða hljóðsetning inniheldur m.a. fuglasöng frá landinu í norðri þ.á.m. lóuna, sem ég hef nú ekki heyrt í hér. Mæli semsagt með þessum diski í lengri utanlandsdvalir.
Það er svo léleg sjónvarpsdagskrá hér að við höfum síðastliðin kvöld horft á breska spurningaþætti með gamansömu ívafi. Þeir eiga það til að vera bráðfyndnir, leiddir m.a. af Stephen Fry og Jack Dee, sem fá síðan í lið með sér valda húmorista úr ágætu bresku úrvali af slíku. Þarna er notaður breskur húmor af bestu gerð, útúrsnúningar og orðaleikir og lítil alvara almennt. En hent inní fróðleik, í anda BBC.
Talandi um sjónvarpsefni. Nú eru á dagskrá BBC þættir sem kallast "Springwatch" eða Vorvöktun. Þeir snúast um að fylgst er með vorkomunni, vefmyndavélar á nokkrum fuglahreiðrum og leðurblökum, náttúrufræðingar þvælast um Bretland og flytja fréttir af sæotrum og hákörlum o.s.frv. Þetta gæti RUV tekið sér til fyrirmyndar og verið með þætti af hinni mjög svo langdregnu eða stuttu íslensku vorkomu. Ekki lakara efni en æði margt annað á þeirri ágætu stöð. Gaman að fylgjast með lóunni klekja út, lenda í vorhreti og berjast við varginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2006 | 11:50
Legoland og vetrarfrí
Ég er ekki mikið fyrir skemmtigarða með tilheyrandi peningaplokki, hávaða og troðningi. Auðvitað getur verið gaman að prófa hin og þessi leiktæki en umgjörðin er oft svo yfirþyrmandi. Börnin verða hálf- eða algeggjuð og eru viku að ná sér eftir spennufallið. Við fórum í Legoland, sem er stutt frá Heathrow í Englandi og einnig nálægt Windsor. "Kubbaskemmtigarður" hugsaði ég. Og það var rétt, allsstaðar kubbar. En það var eitthvað öðruvísi, eitthvað meira afslappaðri stemmning en t.d. í Blackpool, þar sem er ærandi hávaði og óþolandi tónlist. Fullt af leiktækjum á gríðarlega stóru, vel grónu svæði, svo vel grónu að maður sá ekki stóran kastala fyrr en komið var að honum. Þannig var sífellt verið að uppgötva nýjungar. Svo borgar maður fyrir aðgang að garðinum en þarf síðan bara að standa í röð án þess að greiða, kaupa sérstaka peninga eða slíkt. Get semsé mælt með þessu ef einhver hefur ekki prófað.
En nú er þessi frívika nánast á enda runnin og spáin frábær, 20 stiga hiti og sól næstu daga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2006 | 12:56
Bókabúðir og rigning í Hay on Wye
Við fórum til Hay on Wye í gær. Ansi hreint skemmtilegur lítill bær við landamærin. Falleg leið að keyra þangað, í gegnum Brecon Beacon þjóðgarðinn. Þar stendur nú yfir bókmenntahátíð mikil sem er árleg, s.k. hayfestival, en bærinn Hay on Wye er einmitt helst þekktur vegna bóka og þess óhemju fjölda bókabúða sem er í bænum. Í albúminu eru nokkrar myndir af bókabúðum, en aðeins örlítið brot af því úrvali sem þarna er. Það var reynar rigning á okkur en bærinn er mjög sjarmerandi, þröngar götur, hlaðnir veggir og gömul hús. Mæli ekki með að þar sé verið mikið á ferðinni með barnavagn, heldur burðarpoka.
Nú er að mestu stytt upp hér í Wales, við tekur vika sem hefst á frídegi, bank holiday, sem ég veit ekki ástæðuna fyrir, kannski uppstigningardagur á mánudegi. Og svo taka við frídagar í grunnskólum landsins s.k. half term week. Þetta er örugglega martröð vinnuveitandans, ef fjöldi foreldra þarf að taka sér frí frá vinnu. Reyndar er boðið upp á dagvistun fyrir krakkana en það er rándýrt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2006 | 20:23
Heilsusamleg netinnkaup
Í dag fengum við okkar fyrstu sendingu frá Riverford, nýupptekið lífrænt ræktað grænmeti og ávexti. Þetta eru sniðugir bændur í Englandi sem hafa komið á heimsendingarþjónustu. Þeir bjóða alltaf það sem er á "season" á hverjum tíma, ýmislegt óvenjulegt, en hafa líka komið sér upp samböndum erlendis til að flytja inn lífrænar vörur "off season". Í dag fengum við kirsuber, spínat, mangó, epli, banana, gulrætur og "butternut squash", sem ég veit ekki alveg hvað er en er skylt kúrbít og graskeri. Hlakka til að skera það í sundur.
Ég gerði óvísindalega samanburðarkönnun á verði hjá þeim bændum og síðan hjá ASDA. Mín niðurstaða var sú að þetta væri á fyllilega sambærilegu verði hingað komið og miklu ferskara, innan við 48 klst gamalt en yfirleitt vikugamalt eða meira í stórmarkaðnum. Skemmtilegt. Svo á maður von á allskyns grænmeti í sumar.
Þetta kemur í snyrtilegum kassa, sem er reynt að nýta a.m.k. 10 sinnum áður en hann fer í endurvinnslu.
Annars erum við að verða pínu þreytt á þessu veðri, ansi mikil rigning og þræsingur. Ekkert miðað við vetrarríkið á Íslandi en það munar nú nokkrum breiddargráðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar