Færsluflokkur: Bloggar
22.5.2006 | 09:24
Lífrænt er inn
Það virðist vera talsverð sveifla í þágu lífrænt vottaðrar (e: organic) landbúnaðarframleiðslu hér í Bretlandi. Samkvæmt fréttum eru stórmarkaðirnir, sem ráða nánast því sem þeir vilja, farnir að auka vöruval af lífrænt vottuðum vörum og vilja jafnframt leitast við að lækka verðið. Lífrænt ræktaðar vörur eru oft 20-50% dýrari. Stórfyrirtækin eru með þessu að reyna að bæta sína ímynd, sem er ekki uppá það besta, bæði m.t.t. fákeppni á markaði og m.t.t. slakra gæða þeirrar vöru sem þeir bjóða. Nýja ímyndin er "verndarar jarðarinnar" Sainsburys eru til dæmis að gera tilraunir með moltuvæna poka utanum lífrænt ræktað grænmeti og ávexti, þ.e. poka sem má setja beint í safnhauginn. Af hverju ekki utanum alla vöru? Forstjóri Wal-Mart, sem er móðurfyrirtæki ASDA hér í Bretlandi, fékk áheyrn hjá Karli prinsi af Wales og leitaði hjá honum ráða um hvernig mætti bæta ímynd fyrirtækisins.
Lífrænt vottaður landbúnaður þykir einnig í tísku og bændur í þeim geira eru að meðaltali sjö árum yngri en í hefðbundnum landbúnaði. Auk þess býr lífræni landbúnaðurinn til mun fleiri störf í landbúnaði, bæði við úrvinnslu og markaðssetningu eða 32% fleiri en hefðbundinn landbúnaður skv. skýrslu bresku jarðvegsverndarsamtakanna.
Við kaupum orðið megnið af okkar ávöxtum og grænmeti lífrænt vottað, kaupum bara aðeins minna. Mér líður mun betur að gefa börnunum mínum mat sem ekki hefur verið úðaður æ ofan í æ með skordýraeitri og illgresiseyði. Auk þess er ég ekki frá því að a.m.k. þetta bragðist bara betur. Svo er hætt að kaupa nema smjör sem viðbit.
Varðandi veður þá er fimm daga spáin bara rigning og kólnandi, ýmist léttar skúrir eða miklar skúrir. Þó er nú þurrt inn á milli. Vonandi styttir upp um helgina en þá ætlum við í ferð í bókabæinn á landamærunum, Hay on Wye (w: Y Gelli). Þar munu vera ótrúlega margar bókabúðir, með nýjar og notaðar bækur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2006 | 19:39
Reikningar, uppsagnir og lundi
Reikningar fyrir veitta þjónustu hér í Wales gera yfirleitt ráð fyrir ýmisskonar greiðslumáta. Það er hægt að greiða þá víðsvegar, t.d. á pósthúsum og í flestum bönkum, þó er það ekki öruggt. Auk þess má skrifa tékka og senda, greiða þá á netinu sé maður með viðeigandi greiðslukort o.fl. Heima á Íslandi er á reikningum getið um gjalddaga og eindaga. Hér fær maður upplýsingar um það að greiða eigi reikninginn þegar í stað. Kannski er það bara best, annars frestast greiðslur eða gleymast.
Uppsagnir í alifuglavinnslu hér í Wales komust í fréttirnar. Ekki beinlínis vegna áhrifa fuglaflensunnar á markaði en einhverjar sögusagnir eru um niðurgreiðslur til erlendrar alifuglaframleiðslu, sem komi niður á framleiðslu hér í landi. Einhverntíma hefðu þetta í sjálfu sér ekki þótt fréttir, fyrirtæki í lélegum rekstri segja gjarnan upp starfsfólki, hagræðing heitir það. En þarna gæti þó verið merki um áhrif fuglaflensufársins.
Í eyjunum hér í Wales er lundi víst nokkuð algengur, t.d. í Skomer Island hér skammt frá Cardiff. Þetta þarf maður endilega að skoða betur, sem þýðir jú sjóferð en það er boðið upp á slíkt nokkuð víða með ströndinni.
Ég bætti við nokkrum myndum á netið, sumar gefa hugmynd um ásýnd miðbæjar Cardiff, aðrar ekki.
Að lokum, ég verða að vera nokkuð ánægður með mína menn. Tryggt sæti í meistaradeildinni á næsta ári, jafnvel með meistaratignina á bakinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2006 | 12:54
Meiri flensa og 3 H
Úpps! Nú er komin flensa í kjúklinga í Norfolk. Þarf að taka hausinn af ca 35 þús. stk. Þetta er þó sennilega stofn H7N7 en ekki H5N1. Álftahjónin sem eru með hreiður hér niður við vatn kæra sig kollótt og ætla að fjölga í stofni staðbundinna svana. Flestir voru orðnir mjög rólegir yfir þessum fuglaflensumálum hér enda var svanurinn sem fannst dauður í Skotlandi ekki breti, eða svo segja sérfræðingarnir.
Eldri borgarar hafa risið upp á afturfæturna hér í nágrannabyggð í Caerphilly og mótmæla auglýsingaherferð sem sveitarfélagið stendur fyrir um "taboo" eins og kynheilsu fólks yfir 50 ára. "Happy, health and horny" eru slagorðin sem birtast á veggspjöldum um alla borg og á strætó og hefur þetta vakið mikil viðbrögð, einkum orðið "horny", sem þykir varla boðlegt í þessum aldurshópi.
Annars er mest talað um tvennt í fjölmiðlum hér. Annað eru hneykslismál tengd þremur ráðherrum í ríkisstjórn Verkamannaflokksins, enda er ríkisstjórnin kölluð "sleazy" en það orð var einmitt notað til að lýsa stjórn Íhaldsflokksins á sínum tíma. Minnir aðeins á umræðu um valdaþreytu á Íslandi. Hitt er ákvörðun enska knattspyrnusambandins um að bjóða hinum brasilíska Scolari stöðu landsliðsþjálfara. Flestir enskir þjálfarar eru frekar óhressir með þetta en aðrir yppa öxlum. Eitt er víst og það er að enskur almenningur vonaðist eftir enskum þjálfara eftir lítið afgerandi Sven G Eriksson.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2006 | 19:09
Knattspyrnumaður ársins til Caerdydd
Gerrard mjög stoltur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.4.2006 | 13:40
Sláttur hafinn
Nú eru garðyrkjumenn hér í Cardiff óðum að taka fram sín tæki og tól, aka um borgina og taka að sér verk fyrir venjulegt fólk sem nennir ekki, getur ekki eða kærir sig ekki um að hirða um garðinn sinn. Grasvöxtur hér er þó enn óvíða til vandræða, mest ca. 20 cm hátt en allur er varinn góður. Lítil hætta á sinueldum eins og er.
Þarf að sýna myndir hér niður við vatn þar sem grasi er haldið í skefjum með miklum ágætum. Þar eru andfuglar, helstu smitberar fuglaflensu, óþreytandi við að bíta gras sem ekkert er. Afleiðingin eru nauðasköllóttar grasflatir með fallegum blómum, draumastaða allra garðeigenda. Ég held að það ætti almennt að fjölga andfuglum í þessum tilgangi, halda slíka fugla og fara með þá á milli garða og grænna svæða til að halda niðri grasvexti. Miðað við fréttir frá Íslandi þá er mikil þörf á slíku. En þeir bíta sennilega ekki hvað sem er frekar en aðrir grasbítar.
Aldrei slíku vant þá er langtímaspáin hér full af sól. Þurrkur upp á hvern dag og heiður himinn. Enda var frost í nótt.
Nú styttist í að minn maður þarf að standa sig svo um munar og reynir þá á uppeldið frá gamalli tíð. Vinkonur konunnar eru að koma í heimsókn í nokkra daga og í kjölfarið koma síðan tengdaforeldrarnir. Það reynir á að sýna hreint heimili og vel haldin börn. Ekki að mæla nema á mann sé yrt og sitja afsíðis á matartímum, helst á kolli út í horni á eldhúsinu og borða afganga úr dalli. Best að koma sér í að þurrka af. Kannski ætti ég líka að slá garðinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.4.2006 | 12:10
Sniglarnir koma
Þeir nota ekki tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi eða "trailer". Nei, þeir taka húsið á bakið og sniglast með það um allar trissur, jafnvel upp á húsþök. Þeir eru óvelkomnir í blómabeð og matjurtagarða vegna óseðjandi matarlystar og af þeim eru til tegundir sem falla undir skilgreininguna "gereyðingarvopn". Skilja eftir sig sviðna jörð. En þeir eru alla vega komnir í garðana hér í Cardiff, sniglarnir, með kuðunga á bakinu. Ekki svona flatneskjulegir eins og sniglarnir á Íslandi, heldur reislulegir á tveimur hæðum. Eftir rigningar eru þeir allsstaðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.3.2006 | 19:35
Vorlykt
Ekki í frásögur færandi en geri það samt að ég fór út að hlaupa í morgun. Gleymi alltaf hversu ógeðsleg moldin er hérna, mikill leir og festist svoleiðis á skónum að við höfum komið okkur upp sérstökum leirbursta til að þvo skóna. En allavega, þá valda rigningarnar því að allt veðst upp og því ekki ráðlegt að stunda víðavangshlaup við þessar aðstæður. En vorið er sumsé gengið í garð og því fylgir hitt og þetta. Það bætast stöðugt við fuglaraddir og fuglar á sífelldum þönum að sækja sér efni í hreiður eða syngjandi sveittir í von um að fugl af gagnstæðu kyni sýni áhuga. Hækkandi hitastig losar um hömlur kuldans. Örverur ýmisskonar fara að vinna og búa til rotnunarferli. Því fylgir síðan losun á allskyns lofttegundum sem fylgir lykt. Og þó vorið sé dásamlegur tími þá gengur maður eða hleypur víða í gegnum svona lyktarstrók, rotnunarstrók. Hráefnið er af hinu og þessu tagi, oft úrgangur úr dýrum. En komist maður hjá því að láta lyktarskynið taka yfir þá er sjón sögu ríkari og litirnir sem nú ber fyrir augu gult, bleikt og grænt, þ.e. páskaliljan, kirsuberjatréð og bara svona meira grænt almennt.
Við fórum á kínverskan veitingastað í hádeginu, svona "buffet" þar sem maður getur borðað að vild. Mættum undir kl. 12 og þá var komin röð fyrir framan. Aðeins seinkun á að þeir opnuðu. Þegar inn kom þá datt mér í hug blanda af Shanghai og Múlakaffi. Mjög ódýr innrétting og mötuneytisstæll á staðnum. Diskarnir hæfilega vel þrifnir og maturinn var ansi slakur af kínverskum mat að vera. Við hjón vorum sammála um að þarna færum við sennilega ekki aftur. En maður verður að prófa til að komast að þessu, það er lífsins þraut.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2006 | 13:23
Fyrsta bloggfærsla
Hér með er ég búinn að færa mig yfir á blog.is
Hér er umhverfið allt mun þjálla en hinum megin og fleiri möguleikar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar