Færsluflokkur: Bloggar

Hjólreiðar, göngur og réttir

Alveg ljóst að hjólreiðar jafnast ekki á við göngur og réttir. Var að sannreyna það í morgun, hjólaði yfir að á og niður með henni spölkorn. Fátt um fénað annað en ættbókarfærðir hundar. Vel gróið með ánni en ekki kind að sjá. Þá er betra að vera ríðandi með pela í vasanum, hóa og hrópa í góðra manna hópi. Eini gallinn við göngur eins og ég þekki þær er gangan og sumar kindur, annars eru þær fullkomnar. Nú verð ég að fara í göngur að ári, er búinn að missa úr tvö ár í röð. 


Grænaland Pembrokeshire

Strönd í Tenby

Af þeim stöðum í heiminum sem ég hef skoðað, en þeir eru svo sem ekki margir, þá kemst Pembrokeshire í Wales næst því að geta kallast Grænaland. Pembrokeshire er suðvesturhorn Wales, eins ólíkt suðvesturhorni Íslands og hugsast getur. Það er dreifbýlt, smábæir vítt og breitt. Stórkostleg strönd með klettum og gullnum sandi á víxl. Fallegir laufskógar og gjöfult landbúnaðarland. Svæðið hefur lengi verið vinsæl sumarparadís ríka fólksins í Bretlandi og bera bæir eins og Tenby og Saundersfoot þess merki. Gömul þrep í klettunum niður á strönd og fornfáleg skýli efst á klettunum þar sem hefðarfólkið hefur setið og sötrað teið sitt. Þarna er lundinn í hávegum hafður en ekki veiddur. Ég verð að viðurkenna að ég var heillaður af þessu svæði sem byggir á ferðaþjónustu og landbúnaði, fallegir smábæir og kastalar. Saga fortíðar á hverju strái. 

Ég læt mér nægja tengil inn á síðu BBC


Gangnatími

Þegar við feðginin hjóluðum í leikskólann í morgun þá fékk ég á tilfinninguna að það væri kominn tími til að fara í göngur. Himininn heiðskýr og kalt loft lék um okkur á leiðinni. Rakinn hafði þést á bílrúðunum og grasinu. Óneitanlega kaldara en verið hefur. Sennilega er þetta líka rétt hjá mér og fyrstu réttir á Íslandi væntanlega um þessar mundir. Ég hef ekki kynnt mér hvernig réttað er úr "communal" beitilöndum hér í Wales. En bændur hér eiga í það minnsta nóg af hundum og hestum. 

En nú stefnum við á ferðalag vestur í Pembrokeshire á morgun og gistum eina nótt. Ku vera fallegt þar. 


Tími kóngulónna

Kónguló stór
Það er mikið af kóngulóm hér á Everard Way um þessar mundir, af öllum stærðum og gerðum. Þær eru heimsins mestu verkfræðingar og hafa sýnt það og sannað. Ein var hér í garðinum í morgun, hafði spunnið vef, lárétt um 4 metra haf. Þrír stoðþræðir, einn beint niður, einn í tré og einn í limgerðið. Hún er sennilega úr ættkvíslinni Aranidae. Ég viðurkenni fáfræði mína á því hvernig í ósköpunum þær fara að þessu og væri vel þeginn fróðleikur um það. En í albúminu eru nokkrar myndir. Önnur var framan við útidyrnar, nokkrir fersentimetrar að stærð og hindraði ferð.

Haustar?

Áreiðanleg mæling hér á bæ sýnir að birtutíminn hér í Wales styttist. Mælingin byggist á því að sest er upp í rúmið hennar Margrétar laust fyrir kl. 8 pm og lesinn Benedikt búálfur. Á þriðjudagskvöld þurfti að kveikja ljós og það hefur gerst ítrekað síðan. Er það í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. Sama gerðist í morgun en þá sá undirritaður ástæðu til að kveikja ljós laust eftir kl. 7 am og er það einnig í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. 

En rósirnar eru enn að blómstra og nú eru komin allskyns ber og ávextir á tré og runna hér syðra. Það er algengt að sjá "blackberries" vítt og breitt, andstyggilegir runnar sem vaxa eins og andsk. með bogna og hvassa þyrna. Eplatré og plómutré í næstu görðum og svo mætti áfram telja. Þetta er óneitnalega skemmtileg tilbreyting. 

Svona til fróðleiks, þá hefur sala á 4x4 bílum dregist saman hér í Bretlandi, í fyrsta skipti í a.m.k. 10 ár. Umræða um umhverfismál er talin hafa áhrif auk verðs á eldsneyti. Nú er að verða "út" að aka um á s.k. "Chelsea tractor" innan borgarmarka og jafnvel talið að t.d. börn, sem eru oft á tíðum betur meðvituð um umhverfismál en foreldrar þeirra, vilji ekki láta sjá sig í jeppa, skammist sín fyrir það. En fáir markhópar munu áhrifameiri en börn, hvað varðar innkaup foreldranna. 

Aðeins meira um árstímann, þá fengum við kúrbít og kál frá Riverford bænum í vikunni. Einnig voru gulrætur, chili, tómatar og kirsuberjatómatar í kassanum, allt ræktað í UK. Þetta eru frábærar vörur og við hjón vorum sammála um að kirsuberjatómatarnir stæðust þeim frá Akri í Biskupstungum alveg á sporði, og er þá mikið sagt. 


Viðhaldið

Gærdagurinn var slæmur fyrir viðhaldið. Þetta á ekki að misskiljast! Fyrst gaf klósettsetan sig endanlega eftir að búið var að reyna að lappa uppá greyið. Mjög myndrænt að sjá slíkt fyrir sér en það var ekki þannig. Setan var hins vegar alveg laus og hættulegt fyrir ungar konur að reyna að sitja, gat hlaupið út undan sér. Þvottavélin byrjaði að leka, alveg tilefnislaust. Ég fann ekki uppsprettuna og ákvað að fara ekki lengra þar sem vélin er enn í ábyrgð. Kemur vonandi einhver í fyrramálið. Svo er helv. eldhúskraninn aldrei til friðs. Reimin í sláttuvélinni er auk þess farin og allt ryðgað fast á þeim bænum. 

Því hjólaði ég í morgun í Focus, n.k. Húsasmiðja eða Byko, og keypti nýja klósettsetu og krana. Ég sat ekki á setunni þegar ég hjólaði heim en átti í nokkru basli við að koma henni fyrir. Nú er allavega setan komin á, þvottavélin gæti komist í lag í fyrramálið og ef ég get fengið lánaðan stærri skiptilykil hjá nágrannanum þá ætti kraninn að komast á.

En þetta er nú smávægilegt á við að komast í gegnum alþjóðaflugvellina hér í Bretlandi. Gríðarleg tjaldborg var komin upp á Heathrow þar sem fólk sat og beið eftir að komast í flug. Oj. 


Sumarfrí og sumarfrí

Nú er 10 daga sumarfrí á enda hjá fjölskyldunni á Everard Way. Við tekur hversdagur og 5 vikna sumarfrí hjá Margréti. Birna fer í leikskólann sem áður. Við Margrét munum sumsé bralla ýmislegt saman á næstunni.

Barnaafmæli og nýbúar

Fyrir mig er alltaf dálítið átak að fara í barnaafmæli. Barnaafmæli hafa í för með sér ýmis óþægindi sem ég kýs að vera laus við, sé þess kostur. Hávaði, vandræðalegar samræður við foreldra og fleira mætti nefna. En þau hafa líka í för með sér góða hluti. Börnin hittast utan skólans sem og foreldrar og eiga samskipti sem geta leitt til frekari kunningsskapar. Barnaafmæli hér ytra eru ólík því sem ég hef vanist heima á klakanum. Hið dæmigerða afmæli er haldið í sal út í bæ þar sem eru leiktæki og hoppkastalar eins og það heitir. Börnin fá útrás en ekki sjálfgefið að þau hafi nein bein samskipti sín á milli en líklegt að þau rekist hvert á annað líkamlega. Síðan sér "salurinn" um allar veitingar, sem yfirleitt eru í léttari kantinum, og loks er blásið á kerti á forláta köku, hún síðan fjarlægð, skorin niður og hverri sneið pakkað inn í servíettu. Hvert barn fær síðan sneið í servíettu með sér heim ásamt litlum poka með smádóti og sælgæti í. Þá er það búið! Við fullorðna fólkið sem dveljum á staðnum á meðan fylgjumst með dagskránni og reynum að láta ekki mikið á okkur bera svo leikur barnanna verði ekki fyrir óþarfa truflun en jafnframt að vera til staðar þegar árekstrar verða.

Við Margrét fórum sumsé í eitt svona partí í dag. Það voru tvær fjölskyldur, ættaðar frá Íran, sem héldu veisluna. Veislan var dæmigerð fyrir það sem við höfum séð. Það sem mér finnst hins vegar standa uppúr eru þau forréttindi fyrir börn af mörgum kynþáttum og trúarhópum að eiga svona óformleg samskipti sín í milli. Þau eru skólafélagar og leikfélagar. Slíkar aðstæður eru best til þess fallnar að útrýma fordómum. Ég ræddi við fjölskyldufeðurna, sem hafa búið hér í yfir 30 ár. Þeir vilja ekki snúa aftur til Íran, erfiðara fyrir þá nú að aðlagast aðstæðum þar. Fjölskyldurnar tala þó Farsi sín á milli og reyna eftir megni að halda málinu við, telja það afar mikilvægt fyrir sína menningu og barna sinna. En, eins og virðist nánast regla hér þá er þetta afar indælt fólk og þægilegt í samskiptum. 

Aftur að veðrinu, ansi heitt í dag og nánast óbærilegt að vera úti í sólinni, hún er svo sterk. Hiti tæp 30 stig. Eitthvert framhald verður á þessu fram eftir vikunni. 


Gott innlegg

Ég verð að hrósa BSRB fyrir þennan texta um matvælaverð á Íslandi. Það er náttúrulega óheyrilega hátt og svo verður að taka með í reikninginn hver eru gæðin á vörunni sem við neytendur fáum með í pakkanum. Gæði á íslenskum landbúnaðarafurðum eru tiltölulega mikil, a.m.k. miðað við margt sem manni stendur til boða hér erlendis, það er oft fyrst þegar maður hefur búið erlendis sem maður lærir að meta gæði íslenskrar matvælaframleiðslu. Það er hins vegar ekki svo einfalt að við eigum að borða íslenskt bara af því að það er íslenskt. 

Hið íslenska landbúnaðarstyrkjakerfi þarfnast verulegrar endurskoðunar við. Þar er enn stuðst við beinar framleiðslutengingar styrkja en það verður að leita fleiri leiða til að klippa á þessar mjög svo markaðstruflandi greiðslur. En þá þarf að leita leiða til styðja við landbúnaðinn, því það ætti enginn að ætla íslenskum landbúnaði að þrífast við erfiðar aðstæður án styrkja á meðan landbúnaður annarsstaðar í heiminum nýtur gríðarlegra styrkja og væri við hæfi að þeir styrkir fengju meiri umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.  


mbl.is BSRB vill þjóðarsátt um íslenskan landbúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græna byltingin í stórmörkuðunum og ljótur jarðargróði

Árið í ár er tileinkað baráttu stórmarkaðanna um græna ímynd, það gildir bæði hér í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sumar yfirlýsingarnar flokkast undir lýðskrum en aðrir hafa látið gjörð fylgja orði. Gamli risinn í nýja búningnum, Marks & Spencer, er álitinn grænasti stórmarkaðurinn í Bretlandi að mati umhverfisverndarsinna, Greenpeace og Friends of the Earth. Þar er meira um s.k. "fair trade" vöru, frá fátækum framleiðendum í þróunarlöndum, fatnaður úr lífrænt vottaðri baðmull og sjóvænn fiskur (ocean friendly), hvað sem það nú þýðir. Maður má því eiga von á auknu úrvali af góðri vöru á lægra verði á næstunni. 

Svo má ekki gleyma snobbbúðinni Waitrose, sem hefur verið ansi framarlega í græna geiranum, samanborið við hina risana. Þeir ætla nú að bjóða upp á ljóta ávexti og grænmeti á afslætti. Krafa okkar neytenda um hið fullkomna útlit matvörunnar er komin í slíkar öfgar að "ljótri" vöru er hent vægðarlaust. Nú ætlar Waitrose sumsé að bjóða afskræmd jarðarber og bognar gulrætur "visually flawed or oddly shaped". Þetta má nota í sultur og mauk hverskonar. 

Við eigum von á sendingu frá Riverford í dag. Þau viðurkenna fúslega að jarðarberin frá þeim séu ekki fullkomin í laginu en þau séu himnesk á bragðið. Sama gildir um gulræturnar. 

Við erum í kælingu hér í Cardiff þessa dagana, eftir heita síðustu viku. Það nær ekki 20 stigum hér, þungbúið og nokkur vindur. Spáin svipuð næstu daga. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband