Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda?

coalgraphic.gif

Hefur einhver áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda? Ef svo er, þá sýnist mér á öllu að það sé alveg óþarfi, Kínverjar munu sjá heiminum fyrir nægum gróðurhúsalofttegundum næstu árin ef marka má grein í New York Times. Notkun á kolum í Kína er nú meiri en í BNA, Evrópusambandið og Japan til samans. Og í hverri viku eru reist þar kolaorkuver sem myndu fullnægja orkuþörf borga eins og Dallas eða San Diego. Mengunin er gríðarleg, losun á brennisteinsdíoxíði er mikil með tilheyrandi súru regni og losun á koldíoxíði og kolaóhreinindum gerir loftmengun á verstu svæðunum í Kína óbærilega. Losun á koldíoxíði er svipuð í Kína og í Bandaríkjunum nú en gæti tvöfaldast til 2025 ef svo fer fram sem horfir.

En af hverju?

Kínverjar vilja reyna að ná í skottið á öðrum hvað varðar lífsgæði, peninga á milli handanna, raftæki á heimilinu og að eiga fyrir fleiri fæðutegundum en hrísgrjónum. Þetta er því ekkert skrítið, bara slæmt að þessum mikla vexti fylgi svo mikil mengun. Kínverjar nota gamla og lélega hreinsitækni við kolabrennslu, tíma ekki að fjárfesta í dýrri tækni á Vesturlöndum, frekar að keyra hagvöxtinn upp. Kínverjar eiga lítið af orku nema í kolum, vatnsorkuver munu aldrei ná nema um 20% af heildarorkuþörfinni. 

Á næstu tveimur áratugum munu fleiri Kínverjar en allir Bandaríkjamenn eru nú, flytja í borgir. Þetta mun hafa í för með sér að þessir 300 millj. Kínverjar munu hafa mun meiri fjármunum úr að spila en í dag og verja þeim í allt mögulegt sem okkur þykir sjálfsagt að hafa. Það kostar meiri orku.

Þannig að, ekki hafa áhyggjur. 


Loksins, loksins og húrra fyrir löggunni!

Það var kominn meira en tími til að taka í lurginn á einhverjum af þessum "hafnir yfir lög og reglur" mannskap. Auðvitað er eina ráðið að nota þyrlur til að ná í skottið á þeim. Þetta er náttúrulega stærra mál en það verður að sýna einhverja viðleitni til að fylgja eftir þeim lögum sem sett hafa verið að þessu leyti um umgengni við náttúruna. Og auðvitað var það lögreglan á Selfossi sem stóð sig í stykkinu. 
mbl.is Átta teknir fyrir akstur utan vega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftir hverju er beðið?

Grein í New York Times minnti mig á að hin mikla losun gróðurhúsalofttegunda okkar mannanna er fyrst og fremst pólistískt en síðan hagfræðilegt vandamál. Tæknilega er allt mögulegt. Það vantar hvatann frá stjórnvöldum í heiminum, ekki endilega frá öllum í einu, heldur verður einhver að stíga fyrsta skrefið, búa til hvata til að finna aðrar leiðir við orkuöflun. Það er eins og allir renni saman áfram í hlutlausum, með hvoruga hendi á stýri og alls ekki spennt öryggisbelti. Ég er ekki að segja að loftslagssáttmálinn sé ónýtur en sá pakki fer ansi hægt af stað. Kannski það verði BNA sem ríði á vaðið með hagrænar leiðir í þessari vandasömu klemmu sem við höfum komið okkur í.Hissa

Við höfum fordæmin, baráttu gegn súru regni og losun brennisteins- og köfnunarefnisoxíða (smog). Þar var beitt annars vegar lagalegum takmörkunum og hins vegar hagrænum hvötum. Lausnirnar létu ekki á sér standa, án þess að t.d. breytingar á bílum yrðu óheyrilega dýrar eins og spáð var vegna "smog". En það getur enginn grætt á loftslagsmálunum og á meðan verður engin hreyfing í rétta átt. Auðvitað er öll miðstýring varasöm en nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum.


Ávextir og grænmeti á Íslandi

Eftir stutta umhugsun þá er ég á þeirri skoðun að það er eðlilegasti hlutur í heimi að ávaxta- og grænmetisneysla á Íslandi sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Á Íslandi er lakasta úrval þessara fæðutegunda í þessari heimsálfu. Ég vanmet þó ekki íslenskt sumarræktað grænmeti, sem er á heimsmælikvarða að bragðgæðum og hollustu en að öðru leyti er úrvalið og gæðin lélegt. Sem er ekkert skrítið lengst norður í Atlantshafi. Hvort eigi að setja sér önnur markmið er síðan annað mál og þar sem íslensk stjórnvöld eru nú frekar hlynnt miðstýrðri skynsemi þá væri ekki úr vegi að neyslustýra enn frekar í þessa átt með verðstýringum. Það hins vegar segir ekki alla söguna, því gæðin og úrvalið batna ekki mikið við það. 
mbl.is Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra barna og unglinga með því lægsta sem gerist í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landbúnaðarstyrkjaferð til Swansea

Swansea

Skrapp til Swansea í dag, klukkutíma lestarferð frá Cardiff. Swansea virtist mér ekkert sérstaklega heillandi, gömul iðnaðarborg sem er að reyna að þróast yfir í ferðamannavæna menningarborg en á talsvert í land.

Hitti þar mætan mann að nafni Brian Pawson sem veit allt um styrkjamál í velskum landbúnaði. Hann vinnur hjá Countryside Council of Wales, eða Landsbyggðarráðgjafarstofnun Wales. Hlutverk þessarar stofnunar er mjög margþætt og felur í sér náttúruvernd, upplýsingaöflun um náttúru Wales, ráðgjöf til stjórnvalda, stefnumótun varðandi landnýtingu og landnotkun og landbúnað. Hér er heilmikið batterí í kringum s.n. "Agri-environment" eða landbúnaðar-umhverfis styrkjakerfi þar sem bændur fá stuðning til að vinna að bættu umhverfi í víðum skilningi en fá einnig greitt fyrir að uppfylla s.k. góða búskaparhætti sem kallast "cross-compliance". Að sjálfsögðu er þetta nokkuð flókið kerfi en hefur verið að einhverju leyti við lýði hér í Bretlandi frá því á níunda áratugnum og þróast mikið á þeim tíma. Nú er nefnilega hætt að styrkja beint landbúnaðarframleiðslu en styrkjunum veitt til bænda undir öðrum formerkjum. Til hvers? Jú, Bretland er innan ESB og það er ljóst að þar verða styrkir til landbúnaðar ekki afnumdir í einum hvelli. Einnig er hægt að stuðla að margvíslegri þjónustu fyrir samfélagið eins og t.d. vatnsvernd, aukna líffræðilega fjölbreytni, bætt aðgengi almennings að náttúrunni, viðhald menningarlandslags, viðhald erfðaauðlinda og svo mætti lengi telja. Bændur þurfa að sækja þessa styrki en fá þá ekki fyrirhafnarlaust, sem verður að teljast kostur. Hér í Wales eru rúmlega 20 þús. bændur sem þiggja styrki af opinberu fé og sameiginlegu fé ESB. Meira um þetta síðar.

En hér er annars búið að vera þrumuveður í allt kvöld og ljósagangur mikill í lofti. Gott fyrir gróðurinn. Ósköp hlýtt hérna og notalegt. 


Draugabæir og keppir

Hvert fóru allir?

Skemmtilegur þáttur á BBC í gærkvöldi sem fjallaði um bæi hér og þar á Bretlandi sem eru að breytast í draugabæi. Fjáðir einstaklingar kaupa upp hús í bæjum sem þykja sætir og vistlegir á sumrin og nýta sem sumarhús. Það kveður svo rammt að þessu að þar sem meðallaun eru hvað lægst í Englandi er fasteignaverð hvað hæst. Afleiðing, íbúarnir hafa ekki efni á hefðbundnu húsnæði en lenda í félagslegu kerfi, sem er ekki upp á marga fiska. Hvað svo? Jú, nú fækkar íbúum og bæirnir sem voru svo sætir með skemmtilegu mannlífi eru orðnir draugabæir, þar sem er ekkert mannlíf nema kannski yfir hásumarið. Þá væntanlega lækkar fasteignaverð aftur. Hvað á að gera? Sennilega ekki neitt, nema að skattleggja þetta húsnæði að fullu til að bæta félagslega kerfið. En óvíst að það dugi til, við þekkjum öll skilvirkni hins opinbera, hraði snigilsins. 

Hvað í ósköpunum er það sem fær ungar konur til að sýna á sér magakeppi með því að vera í stuttum bolum og buxum þröngum í mittið? Lengi vel hélt ég að þetta væri einhver misskilningur af minni hálfu en svo er ekki, þetta er svo algengt að um misskilning er ekki að ræða heldur eitthvert tískuslys. Meira að segja ungar stúlkur, tiltölulega nettar ná að mynda keppi með þessum klæðaburði. Í guðanna bænum hættið!


Meiri flensa og 3 H

Álftahjón við Roath Lake

Úpps! Nú er komin flensa í kjúklinga í Norfolk. Þarf að taka hausinn af ca 35 þús. stk.  Þetta er þó sennilega stofn H7N7 en ekki H5N1. Álftahjónin sem eru með hreiður hér niður við vatn kæra sig kollótt og ætla að fjölga í stofni staðbundinna svana. Flestir voru orðnir mjög rólegir yfir þessum fuglaflensumálum hér enda var svanurinn sem fannst dauður í Skotlandi ekki breti, eða svo segja sérfræðingarnir.

Eldri borgarar hafa risið upp á afturfæturna hér í nágrannabyggð í Caerphilly og mótmæla auglýsingaherferð sem sveitarfélagið stendur fyrir um "taboo" eins og kynheilsu fólks yfir 50 ára. "Happy, health and horny" eru slagorðin sem birtast á veggspjöldum um alla borg og á strætó og hefur þetta vakið mikil viðbrögð, einkum orðið "horny", sem þykir varla boðlegt í þessum aldurshópi. 

Annars er mest talað um tvennt í fjölmiðlum hér. Annað eru hneykslismál tengd þremur ráðherrum í ríkisstjórn Verkamannaflokksins,  enda er ríkisstjórnin kölluð "sleazy" en það orð var einmitt notað til að lýsa stjórn Íhaldsflokksins á sínum tíma. Minnir aðeins á umræðu um valdaþreytu á Íslandi. Hitt er ákvörðun enska knattspyrnusambandins um að bjóða hinum brasilíska Scolari stöðu landsliðsþjálfara. Flestir enskir þjálfarar eru frekar óhressir með þetta en aðrir yppa öxlum. Eitt er víst og það er að enskur almenningur vonaðist eftir enskum þjálfara eftir lítið afgerandi Sven G Eriksson. 


Vísindaskrif

Alveg óvænt þá fannst mér afar auðvelt að skrifa drög að stuttum abstract á ensku vegna ráðstefnu í Hollandi næsta haust. Á reyndar eftir að fá athugasemdir frá kollega en engu að síður var þetta gott fyrir sjálfstraustið. Hvort maður kemst á ráðstefnuna kemur síðan í ljós. En þemað er aukið hlutverk bænda í verndun jarðvegs á Íslandi, með áherslu á félagslega og efnahagslega þætti. Þeir vilja nefnilega oft gleymast í umfjöllun um verndun auðlinda. Að sjálfsögðu hangir þetta saman, en það er líka á ábyrgð þeirra sem útdeila fjármagni, n.b. sem almenningur á, að það hvetji ekki til slæmrar meðferðar á náttúruauðlindum. Um það höfum við ótal dæmi og öfgarnar ótrúlegar. Best er að engu fjármagni sé úthlutað af "sérlegum sérfræðingu ríkisins" heldur gangi þetta að mestu af sjálfu sér en heimurinn er nú bara svona flókinn og ef bændur eiga að stunda framleiðslu á matvælum eða öðrum "afurðum" þá þurfa þeir stuðning í einhverju formi. Þessi mynd er skekkt um allan heim, ekki bara á Íslandi.

Það er ansi kuldalegt hérna núna, eiginlega dæmigert gluggaveður. Frost í nótt og kalt loft í dag. Gott að nýta slíkt til skrifta meðan yngri dóttirin sefur. 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband