Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvalur, hvalur

Stórfrétt!

Athyglisvert að lesa álit lesenda á BBC vefnum. Virðist talsvert mismunandi eftir uppruna höfunar. Margir kanarnir eru hlynntir nýtingu hvala en Evrópubúar síður. Allskyns frasar notaðir t.d.:

"This gets Iceland definitely off my "travel to" list."

 "Just because it does not fit into someone's cultural dietery norms, we can not dictate the ethics of eating whales. This sounds like one of those typical Euro-hypocracy subject."

"And Iceland, nice sagas you once protected for us. Don't stain your reputation now."

Bretar hafa verið ansi harðir gegn hvalveiðum og miklar yfirlýsingar frá stjórnmálamönnum hér í landi á síðustu árum. Afstaða stjórnmálamanna virðist hins vegar mjög lituð af almenningsáliti eða áliti þrýstihópa.

En þetta er kannski tvískipt, annars vegar er það hvort óhætt sé að stunda hvalveiðar m.t.t. stofnstærðar þeirra og hraða endurnýjunar, þ.e. hin vistfræðilega spurning. Hins vegar hvort hvalir séu drepnir með siðfræðilega réttlætanlegum aðferðum. Ég held að síðari punkturinn standi í ansi mörgum.  

Ég er alinn upp við að éta hvalkjöt. Man fyrst eftir að hafa borða súrsað hvalspik þegar ég var 3ja eða 4ra ára og átti heima í blokk í Ljósheimunum. Fannst það ofsalega gott. Át það síðan reglulega fram að hvalveiðibanni og var minn uppáhalds þorramatur. Hrefnukjöt át ég reglulega alla mína grunnskólagöngu í mötuneyti Laugarbakkaskóla. Hrefnukjöt í brúnni sósu með kartöflum og jarðaberjasultu. Svoleiðis var nú maturinn í þá daga.


mbl.is "Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sifræði lífrænnar ræktunar undir álagi, jafnvel banvænu

Stonyfield Jógúrt

Þegar neytendur velja lífrænt vottaða vöru þá er á bak við það einhver sýn á heilbrigði, einhver siðfræði um velferð umhverfis, manna og dýra. Ímyndin er fjölskyldubú, karl oft skeggjaður og gengur um á klossum og konan kastar korni í hænurnar, bæði moldug um hendur eftir að reyta illgresi úr beðum. Þau nota ekki tilbúinn áburð á akrana eða túnin, ekki illgresiseyða eða skordýraeitur. Álag á skepnur er lítið og þær fá að ráfa um landið en eru ekki lokaðar inni í þröngu rými, þær fá að fylgja sínu eðli. Vegna þessa eru húsdýr almennt heilsuhraustari í lífrænum landbúnaði en þar sem stundaður er verksmiðjubúskapur. Afurðirnar eru síðan seldar í nágrenninu.

Það fer því kvíðahrollur um margan hugsjónamanninn þegar vinsældir lífrænt vottaðrar vöru faraga_organicricekrispies vaxandi og hinir stóru byrja að hasla sér völl í lífrænni framleiðslu. Hinir stóru í þessu tilviki eru fyrirtæki eins og Wal Mart, General Mills og Kellogg, sem eru engin smáfyrirbæri.

Í BuisnessWeek er tekið dæmi um framleiðandann Stonyfield, sem lengi hefur framleitt lífrænt vottaða vöru. Nú er Stonyfield bóndabærinn horfinn en eftir stendur verksmiðja sem framleiðir lífrænt vottaðar afurðir úr mjólk annarra bænda, aðallega vel þekkta jógúrt, og er nú að mestu í eigu Danone, franska jógúrtrisans. Eftirspurnin er orðin svo mikil að nú stendur til að flytja undanrennuduft yfir hálfan hnöttinn, frá Nýja Sjálandi, til að framleiða jógúrt, lífrænt vottaða. Þetta er klemman sem þessi grein er komin í. Hvernig gengur að samræma hina hugljúfu en krefjandi framleiðsluhætti og arðsemiskröfuna á Wall Street? Mark Morford lýsir ágætlega sjokkinu þegar hann sá fyrst auglýsingu um "organic" Rice Krispies.

Vegna hinnar miklu eftirspurnar er leitað lengra eftir hráefni, til Brasilíu, Kína og Sierra Leone, þar sem illa gengur að hafa eftirlit með framleiðsluháttum. Stóru fyrirtækin setja á fót eigin framleiðslu og reyna að teygja vottunarstaðla til hins ítrasta og helst lengra. Og um leið og þau eru komin með fótinn inn fyrir þröskuldinn þá er strax orðið mun erfiðara að herða reglurnar en meiri þrýstingur á að slaka á kröfunum. Það heitir lobbyismi og er stundaður í Washington DC.

Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður skoðar krukkur og fernur uppí hillu og á þær er ritað "organic". 

 


BNA ruslahaugurinn og heilsufar í UK

Skömm feitrar þjóðar

Las athyglisverða grein úr LA Times þar sem kemur fram að nú eru fluttar ýmsar vörur til BNA sem ekki eru lengur leyfðar á svæðum eins og ESB, Japan og jafnvel í Kína, vegna heilsuspillandi eða umhverfisspillandi efna. Tekið dæmi um krossvið sem fluttur er til BNA frá Kína sem inniheldur formaldehýð, langt yfir viðmiðunarmörkum innan ESB, Japan og Kína. Svona er nú neytendaverndin í Bandaríkjunum. Hélt það væri nú nógu slæmt samt.

Það eru ekki góðar heilsufarsfréttir héðan frá UK. Hér mun offeiti vera mest í Evrópu og það sem verra er, hér í Wales mun vera þriðja mesta offeiti í ríkjum heims, á eftir Bandaríkjunum auðvitað og Möltu. Obb, obb, obb. Þetta kemur svosem ekki á óvart en ljótt að sjá. Sáum þátt á BBC um daginn sem fjallaði um heilsufarið í dölunum hér í suðaustur hluta landsins. Flestir á "welfare" og éta skyndibitamat. Atvinnuleysi og heilsuleysi. Jafnvel heimsending á "fish and chips". Alltaf skal það vera "chips". Og blessuð börnin, hvers eiga þau að gjalda. Þetta er sorglegt því hér á maður völ á fjölbreyttum mat og hráefni í mat. Annað en á Íslandi þar sem innflutt ferskvara er orðin nokkurra mánaða þegar hún er loksins dregin upp á skerið. Við Íslendingar erum á einhverju miðjuróli í fitunni innan Evrópu. Það hlýtur að teljast viðunandi en leiðinlegt þó að eiga ekki met í þessu. Við brennum svo miklu í kuldanum, held það sé svarið, því við neytum víst æði mikils kóla og feiti. 

Ef einhver hefur beðið spenntur eftir veðurfréttum héðan þá skal hann uppfræddur um það að ekki kom dropi úr lofti í dag þrátt fyrir eindregna spá. Ég hjólaði á stuttermabol í morgun og uppúr hádegi og ekki var nú kuldanum fyrir að fara. Blessað loftslag hérna. 


Bændur og þeirra hlutverk

Það er svolítið gaman að skrifa fyrirlestur um hlutverk íslenskra bænda í jarðvegsvernd núna akkúrat þegar mikil umræða er um hlutverk bænda í íslensku samfélagi. Það er nefnilega svo sniðugt að landbúnaður byggir á því að nota land til að búa til eitthvað nothæft eins og mat, klæði eða afþreyingu, sem síðan er hægt að nota sem gjaldmiðil til að bóndinn geti síðan keypt eitthvað fyrir sjálfan sig og sína. Mér finnst oft að þetta hafi gleymst og að það sem vanti sé í raun að gefa bændum frelsi til að finna nýjar leiðir við að afla tekna af landinu sem þeir eiga. Í dag er það að mestu bundið við kindakjöt og kúamjólk. Hver segir að það séu þær fæðutegundir sem best er að framleiða á íslensku landi? Hér í Wales eru styrkir til landbúnaðar að miklu leyti bundnir við það land sem viðkomandi bóndi á og eða nýtir. Hann skal halda því í góðu ástandi og framleiða gæði sem heimurinn síðan nýtur. Til viðbótar þessu geta bændur tekið þátt í umhverfisverkefnum, sem þýða að þeir eru að bæta umhverfið, í víðum skilningi og fá greiðslur frá samfélaginu til þess. Bændur eru nefnilega margir hverjir ágætis vinnuafl. 

Það er að mínu mati lífs nauðsyn fyrir bændur að brjótas út úr þessu með kýr og kindur, að styrkjakerfið sé bundið við þetta tvennt. Síðan verður að meta hversu mikilvægt fæðuöryggi Íslendinga er. Eða hvort það er réttlætisspurning að íslenskir bændur njóti styrkja á meðan bændur í öðrum löndum geri það líka.

Held það sé tímabært að íslenskir bændur blási til sóknar í stað þess að fara sífellt í vörn þegar umræðan fer í þennan farveg. 


Reykingabann í apríl

Nú eru allar líkur á að bann við reykingum á opinberum stöðum taki gildi hér í Wales 2. apríl á næsta ári (frétt BBC). Þetta er u.þ.b. ári á eftir Skotum og sama dag munu N-Írar sennilega gera slíkt hið sama. Írar voru þó fyrstir til og komu á banni 2004. Rökin: Vernda almenning og starfsmenn fyrir heilsutjóni og hugsanlega að lækka kostnað heilbrigðiskerfisins. Englendingar verða eitthvað seinni til eða næsta sumar. 

Ég hef svosem ekki gert mikið af því að fara á pub hér ytra en þar er yfirleitt mikið um reykingar. Á því eru þó gleðilegar undantekningar þar sem á sumum þeirra eru reykingar kyrfilega aðskildar frá hinum reyklausu. Það er þetta með að mega gera hvað sem er svo lengi sem það kemur sér ekki illa fyrir aðra.


Ekki skola?

ad_5071.gif

Ég hef burstað tennur í á fjórða tug ára. Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á gildi flúors í tannvörslu. Af hverju í ósköpunum hef ég aldrei áður heyrt það frá tannlækninum mínum eða opinberum heilsuverndaraðilum að það eigi ekki að skola eftir tannburstun? Ég er að kenna dætrum mínum að það eigi ekki að skola en á í mesta basli við að venja sjálfan mig af því, hef þó verið að reyna í nokkra mánuði.

Mér finnst þetta lýsa vestrænum heilbrigðiskerfum mjög vel. Nánast öll áhersla er á lækningar og lækna en lítil á hinn daglega heilsuverndarþátt almennings. Þetta gildir líka um mataræði. Málflutningur hefur aðallega verið til þess fallinn að rugla okkur í ríminu svo við vitum ekki í hvorn fótinn á að stíga varðandi val á mat. 

Svo kemur þessi stórkostlega frétt af ráðstefnu í Sydney þar sem "sérfræðingar" telja að það séu skýr tengsl milli markaðssetningar á orkuríkum en næringarsnauðri fæðu þ.e. sætindum, og offitu barna. Maður veit ekki hvort á að gráta eða hlæja. 


Góðgerðarskjöldurinn og hryðjuverk

Þúsaldarleikvangurinn í Cardiff (BBC)

Ég vaknaði upp við það í fyrradag að leikurinn um góðgerðarskjöldinn á að vera í dag, hér í Cardiff. Ósköp er maður eitthvað úti að aka. En þetta er leikur stórliða þetta árið eins og vanalega, Chelsea og Liverpool. Það er búist við einhverjum töfum vegna hertra öryggiskrafna, þannig að biðraðirnar verða sennilega eitthvað lengri en vanalega. 

Annars hafa margir álit á hinum meintu hryðjuverkum í vikunni, sumir telja að um samsæri bresku og BNA ríkisstjórnanna sé að ræða. Verið að auka trúverðugleikann og beina fréttum frá Líbanon og miðausturlöndum. Hvað veit maður. En það er einnig mikil reiði meðal múhameðstrúarmanna hér í Bretlandi, finnst yfir sig gengið. Það er því ekki líklegt að "stríðið gegn hryðjuverkum" sé á enda. 

Við erum á leið í barnaafmæli hjá honum Alexander í dag, 4 ára pjakkurinn sá. Það lítur út fyrir gott veður, bæði fyrir afmæli og fótbolta, dálítill vindur en þurrt og milt veður.  


Barnaafmæli og nýbúar

Fyrir mig er alltaf dálítið átak að fara í barnaafmæli. Barnaafmæli hafa í för með sér ýmis óþægindi sem ég kýs að vera laus við, sé þess kostur. Hávaði, vandræðalegar samræður við foreldra og fleira mætti nefna. En þau hafa líka í för með sér góða hluti. Börnin hittast utan skólans sem og foreldrar og eiga samskipti sem geta leitt til frekari kunningsskapar. Barnaafmæli hér ytra eru ólík því sem ég hef vanist heima á klakanum. Hið dæmigerða afmæli er haldið í sal út í bæ þar sem eru leiktæki og hoppkastalar eins og það heitir. Börnin fá útrás en ekki sjálfgefið að þau hafi nein bein samskipti sín á milli en líklegt að þau rekist hvert á annað líkamlega. Síðan sér "salurinn" um allar veitingar, sem yfirleitt eru í léttari kantinum, og loks er blásið á kerti á forláta köku, hún síðan fjarlægð, skorin niður og hverri sneið pakkað inn í servíettu. Hvert barn fær síðan sneið í servíettu með sér heim ásamt litlum poka með smádóti og sælgæti í. Þá er það búið! Við fullorðna fólkið sem dveljum á staðnum á meðan fylgjumst með dagskránni og reynum að láta ekki mikið á okkur bera svo leikur barnanna verði ekki fyrir óþarfa truflun en jafnframt að vera til staðar þegar árekstrar verða.

Við Margrét fórum sumsé í eitt svona partí í dag. Það voru tvær fjölskyldur, ættaðar frá Íran, sem héldu veisluna. Veislan var dæmigerð fyrir það sem við höfum séð. Það sem mér finnst hins vegar standa uppúr eru þau forréttindi fyrir börn af mörgum kynþáttum og trúarhópum að eiga svona óformleg samskipti sín í milli. Þau eru skólafélagar og leikfélagar. Slíkar aðstæður eru best til þess fallnar að útrýma fordómum. Ég ræddi við fjölskyldufeðurna, sem hafa búið hér í yfir 30 ár. Þeir vilja ekki snúa aftur til Íran, erfiðara fyrir þá nú að aðlagast aðstæðum þar. Fjölskyldurnar tala þó Farsi sín á milli og reyna eftir megni að halda málinu við, telja það afar mikilvægt fyrir sína menningu og barna sinna. En, eins og virðist nánast regla hér þá er þetta afar indælt fólk og þægilegt í samskiptum. 

Aftur að veðrinu, ansi heitt í dag og nánast óbærilegt að vera úti í sólinni, hún er svo sterk. Hiti tæp 30 stig. Eitthvert framhald verður á þessu fram eftir vikunni. 


Gott innlegg

Ég verð að hrósa BSRB fyrir þennan texta um matvælaverð á Íslandi. Það er náttúrulega óheyrilega hátt og svo verður að taka með í reikninginn hver eru gæðin á vörunni sem við neytendur fáum með í pakkanum. Gæði á íslenskum landbúnaðarafurðum eru tiltölulega mikil, a.m.k. miðað við margt sem manni stendur til boða hér erlendis, það er oft fyrst þegar maður hefur búið erlendis sem maður lærir að meta gæði íslenskrar matvælaframleiðslu. Það er hins vegar ekki svo einfalt að við eigum að borða íslenskt bara af því að það er íslenskt. 

Hið íslenska landbúnaðarstyrkjakerfi þarfnast verulegrar endurskoðunar við. Þar er enn stuðst við beinar framleiðslutengingar styrkja en það verður að leita fleiri leiða til að klippa á þessar mjög svo markaðstruflandi greiðslur. En þá þarf að leita leiða til styðja við landbúnaðinn, því það ætti enginn að ætla íslenskum landbúnaði að þrífast við erfiðar aðstæður án styrkja á meðan landbúnaður annarsstaðar í heiminum nýtur gríðarlegra styrkja og væri við hæfi að þeir styrkir fengju meiri umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.  


mbl.is BSRB vill þjóðarsátt um íslenskan landbúnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíð í útlöndum

Þjóðfáninn

Ég hef aldrei áður skreytt húsið mitt með fánum og blöðrum á þjóðhátíðardaginn, enda hef ég aldrei áður varið 17. júní í útlöndum. Það er hins vegar staðreynd í dag og það sem meira er að í dag er 25 stiga hiti og sól, sem ég hef reyndar upplifað áður á 17. júní en er alltof sjaldgæft á þessum góða degi á Íslandi. Þjóðerniskenndin er svo sem ekkert að bera mig ofurliði þó við séum ekki mörg hér í Cardiff brotin af íslensku bergi. Fáum reyndar hina Íslendingana í heimsókn á eftir. Það sem er okkur verðmætt er tungan og landið. Þjóðfélagið er ekkert merkilegra en önnur þjóðfélög og maður finnur það hér í Wales að þjóð sem hefur verið undirokuð af nágrannaþjóðinni æði lengi ræktar með sér mikla þjóðerniskennd. Hér er haldið dauðahaldi í tunguna, sem Englendingar gera grín að, þjóðfáninn notaður við hvert tækifæri og mikið um klæðnað sem ber merki Wales, rauða drekann. Íslendingar eru í raun talsvert líkir Walesverjum. Þjóðin er í a.m.k. tveimur hlutum, það er talað annað tungumál hér í Cardiff en víða annarsstaðar í Wales, eins og höfuðborgarsvæðið sker sig úr gagnvart landsbyggðinni á Íslandi. Walesverjar eru stoltir af upprunanum og halda á lofti sögum af sínum þjóðhetjum, eins og Íslendingasögurnar okkar. Hér eru sjálfstæðishetjur á hverju strái, í sögum. En eins og áður segir, þá snýst þetta um land og tungu. Það er það sem við eigum sameiginlegt og það er það sem við eigum að vernda og rækta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband