Færsluflokkur: Lífstíll

Heilsugæsla á Alþingi og smá diet

Ég verð að segja það eins og er að mér finnst undarlegt að þingmenn finni sig knúna til að flytja tillögu til þingsályktunar um að ráðherra hefji undirbúning að setningu reglna um hámarksmagn transfitusýra í matvælum sbr. þetta. Það er löngu ljóst að magn þessara skaðlegu fitusýra í mörgum tegundum matvæla hér á landi, innfluttum sem innlendum, er mjög hátt og þjóð sem glímir við háan kostnað vegna heilbrigðiskerfis á að nota þau tækifæri sem gefast til að taka á svona einföldum atriðum. Af hverju í ósköpunum þarf Alþingi Íslendinga að eyða tíma í svona lagað þegar þetta er bara spurning um einfalda ákvörðun í viðkomandi ráðuneyti. Aðrar þjóðir hafa lagt í alla þá rannsóknavinnu sem þarf að inna af hendi og hana er sennilega hægt að taka nánast óbreytta upp hér á landi. Þetta er mál sem m.a.s. ég hef bloggað um hvað lengst. Gott og vel, það er ágætt að vekja athygli á málinu en hvar er þá t.d. Lýðheilsustöð ef við viljum miðstýrða umræðu?

Svo get ég ekki látið hjá líða að setja inn tengil á þessa mjög svo ógeðfelldu umfjöllun um sætuefnið aspartam, sem ku vera æði algengt í s.k. diet gosdrykkjum og fleiri meinhollum fæðutegundum. Þarna er um að ræða ómannúðlega tilraun á rottum sem fengu mismikið af sætuefni til neyslu. Niðurstöðurnar eru ekki uppörvandi og er ástæða til að velta fyrir sér hvort við mannfólk erum ekki álíka tilraunadýr mjög svo metnaðarfullra fyrirtækja sem markaðssetja "hollustuvörur" af ýmsu tagi.


Of mikið lesefni

Þegar ég tók upp 24 stundir við innganginn í strætó í morgunn grunaði mig að eitthvað slæmt væri í aðsigi. Blaðið var óvenju þungt og efnismikið. Hingað til hefur þetta létta blað passað mér á leiðinni í vinnuna til að lesa allt það sem skiptir máli, hæfilega vandlega. Ég les oftast blöðin aftanfrá vegna einhverrar bæklunar í flettiputtunum, sem er afar ópraktískt því þá á ég eftir allar "main headlines" fréttir þegar ég er nánast kominn í vinnuna. En eins og áður segir þá hefur blaðið oftast passað. Til upprifjunar skal það tekið fram að ég er u.þ.b. hálftíma á leiðinni í vinnuna með strætó. Ég hef þó lagt til breytingar á leiðinni sem gætu sparað mér 8 mín í ferð en er ekki sannfærður um að hlustað verði á mig. En allavega, þegar ég hafði flett u.þ.b. 6 sinnum þá breyttist áferð blaðsins og fljótlega kom í ljós að ég var byrjaður að lesa Bændablaðið. Fyrir þá sem þekkja mig þá er ég forfallinn aðdáandi Bændablaðsins og les það við hvert tækifæri, á biðstofum, opinberum stofnunum og heima í Tungu. Bændablaðið er engin léttavara óg þar reyndist vera ýmislegt sem mig fýsti að lesa en þegar vagninn beygði inn í Borgartún var ég víðs fjarri því að vera kominn í gegnum alla þessa lesningu. Aukablað af þessu tagi inn í 24 stundum er bara of mikið í hefðbundna strætóferð. En ég verð að viðurkenna að Bændablaðið var skemmtilegt tvist á þessari annars tilbreytingarlitlu leið með strætó.

Þursar á flugi

Við hjónin sóttum Þursaflokkstónleika í gærkvöldi. Þeir nutu stuðnings Kapútt við flutninginn. Flutningurinn var ekki tilviljanakenndur og menn með hlutina nokkuð á hreinu nema náttúrulega Egill sem gat ekki orða bundist og þurfti mikið að spjalla. Það var í góðu lagi enda söng hann eins og Þurs, átti örlítið erfitt með kröfuhörðustu tónana. Öll betri lög þeirra Þursa litu dagsins ljós á nýjan leik, í mishefðbundnum búningi. Ýmislegt búið að tvista og snúa, ekki síst með tilbrigðum strengja, blásara og ásláttar. Stundum óljóst hvert stefndi í tilbrigðunum. Eyþór Gunnarsson glímdi við hammondinn og bar sig á köflum að með svipuðum hætti og Karl heitinn, hafði greinilega náð nokkuð góðum tökum á stílnum. Við fengum fjögur viðbótar lög eftir uppklapp, sem endaði á Jón var kræfur karl og hraustur, meistaralega fluttum af Tómasi. 

Sem sagt, bara gaman.

 


Plastpokar

Í hádegishittingi félags umhverfisfræðinga nú í dag barst talið að umbúðum og þeim valkostum sem neytendum er boðið uppá í því sambandi. T.d. þykja umbúðir untanum kjötvöru oft býsna fyrirferðarmiklar og lítt umhverfisvænar. Örlítil hakksletta í u.þ.b. hálfs fermetra plastbakka.

Til fróðleiks er það látið fylgja með hér að skv. frétt í NY Times þá ætlar Whole Foods keðjan að banna plastpoka í sínum búðum. Þetta finnst mér nokkuð flott enda nota ég hvert tækifæri til að fara með margnota Bónuspokana mína í Nettó til að versla. Pappírspokum er ég lítið hrifinn af, einkum í ljósi þess að rigning hér á landi lemur þá svoleiðis í sundur að innihaldið er löngu hrunið í götuna áður en ég kemst í húsaskjól. Svo er ekki laust við að pappírspokar kosta talsverða orku í framleiðslu. Margnota pokar eru tvímælalaust æskilegasta lausnin í þessu máli en Whole Foods ætla auk margnota poka að bjóða upp á endurunna pappírspoka. Erfiðast er að muna eftir að taka margnota poka með og hafa við hendina við þau fjölmörgu tækifæri sem innkaup fara fram.


Tilvitnun síðustu viku

Eftirfarandi er tilvitnun í orð Kevin Conrad, fulltrúa Papúa Nýju Gíneu, sem hann beindi að Paulu J. Dobriansky, fulltrúa Bandaríkjanna á ráðstefnunni í Balí í síðustu viku:

"If you cannot lead, leave it to the rest of us. Get out of the way." 

Þetta var víst í takt við stemmninguna eftir yfirlýsingu Dobriansky um að BNA væru ekki tilbúin að láta skuldbinda sig til aðstoðar við þróunarríki. Sjá m.a. Washington Post.


Hvar er netverslun fyrir matvöru á Íslandi?

Fyrir ári síðan bjó ég og fjölskyldan í Cardiff í Wales, rúmlega 300 þús manna borg. Ég var heimavinnandi og fór minna ferða á hjóli eða í strætó. Þar sem mér leiðist óskaplega að burðast með innkaupapoka í strætó fór ég að kanna möguleikana á að versla matvöru á netinu og fá hana senda heim. Þetta gekk svona líka vel. Þrír stórmarkaðir buðu upp á þessa þjónustu, Sainsbury´s, Tesco og ASDA. Maður gat valið sér afhendingartíma, eins til tveggja tíma bil, einhverntíma dagsins, sem voru misdýr í samræmi við eftirspurn. Heimsending kostaði frá 4 og upp í 6 pund eða 500-800 kr. Oft voru tilboð í gangi þannig að ef maður keypti fyrir 70 pund eða meira, ca 9000 kr, þá var heimsending frí.

Þetta fyrirkomulag reyndist mjög vel, varan var í góðu lagi lang oftast, tímasetningar afhendingar líka og ef ekki þá var heimsending frí.

Í öllu atinu hér á höfuðborgarsvæðinu væri afar kærkomið að hafa aðgang að slíkri þjónustu. Fá t.d. heimsent einu sinni í viku. Ég er svolítið hissa á verslanakeðjunum að taka þetta ekki upp á sína arma af því Íslendingar myndu taka þessu opnum örmum, þjónustusjúk eins og við erum. En þjónustan verður líka að vera í lagi.


Verndarsvæði á stærð við Ísland

Kanadamenn hafa ákveðið að friða stórt svæði innan barrskógabeltisins við norður-heimskautsbaug fyrir auðlindavinnslu til iðnaðar (lausleg þýðing bloggara). Þetta svæði er 25 milljónir ekra eða rúmir 100 þús km2. Það er nánast eins stórt og Ísland og á við 11 Yellowstone þjóðgarða. Þetta hlýtur að teljast nokkuð merkileg ráðstöfun á landi, þó Kanada sé reyndar æði landstórt.

Verndun verður mismunandi eftir svæðum, að hluta þjóðgarður og að hluta verndarsvæði í umsjá heimamanna. Sjá frétt.


Þörf ábending

Það er gott þegar einhver gefur sér  tíma til að reikna. Það er sjálfsagt auðvelt að bera brigður á þessar niðurstöður en það er hins vegar staðreynd og þörf á að vekja athygli á því að þær aðferðir sem notaðar eru við fæðuframleiðslu í heiminum eru orsök mjög stórs hluta af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta á einkum við fæðu sem kemur úr þauleldi eins og kjöt af ýmsum toga. Þess vegna kemur maður að því enn og aftur að neysla á fæðu sem er neðar í fæðukeðjunni s.s. grænmeti og ávöxtum orsakar minni losun. Eftir því sem hlutfall þessarar fæðu eykst á kostnað þessara þauleldiskjöttegunda þá minnkar losun. Hins vegar má ekki setja samasemmerki á milli allra kjöttegunda. Dýrategundir sem ganga úti og éta gras mestan hluta ársins eru sennilega umhverfisvænstar, svo fremi þær valdi ekki ofbeit og þannig losun. Þær nýta sér gróður sem maðurinn getur ekki nýtt sér og oft er um að ræða búskaparhætti sem valda ekki miklu álagi á umhverfið. Búskapur sem byggir á því að ala gripi á kornmeti, sem maðurinn gæti nýtt sér beint, kemur yfirleitt lakar út í þessum samanburði. Eitt hef ég þó lært á minni stuttu ævi og það er að alhæfingar eiga afar sjaldan við. Þær geta hins vegar verið ágætar til að vekja athygli á tilteknum málum.

Annar þáttur tengdur fæðu sem ræður miklu um losun gróðurhúsalofttegunda er flutningur fæðunnar frá brunni að grunni, frá uppruna til neytanda. Það eru ein mjög góð og gild rök fyrir upprunamerkingum fæðu. T.d. er almennt umhverfisvænna fyrir fólk búsett á Íslandi að neyta fæðu sem framleidd er á Íslandi, kannski ekki algilt en á við í flestum tilvikum. Semsagt, nær-ætur (locavores) sameinumst!


mbl.is Ganga skaðlegri en akstur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrr um Bitru

Það er ekki laust við að það sé gaman að þessari umræðu um Bitruvirkjun. Ýmislegt bendir til þess að virkjunin fái kannski ekki jákvæða einkunn frá Skipulagsstofnun, þó svo það sé ekki lokadómur í málinu. Eins og ég hef bloggað áður þá er ýmislegt hliðstætt með Bitru og Grændal, en þar hafnaði Skipulagsstofnun rannsóknaborun á sínum tíma. Þetta gæti því orðið mjög merkilegt mál í viðfangsefninu lýðræði/umhverfi, á hverju sviði við Íslendingar erum að fóta okkur eins og nýfæddir kálfar. Mér sýnist framför í þessu hjá okkur.
mbl.is Óábyrgt að halda áfram með Bitruvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið dimma Ísland

Hjólaði í morgun í suddanum, þéttur úði og þoka, svo ég varð rennandi blautur, gleymdi aukasokkum og inniskóm.

Merkilegt með Íslendinga. Ég mætti fjórum eða fimm hjólreiðamönnum á leiðinni. Allir voru ljóslausir, utan einn sem skartaði nánast batteríslausu ljósi. Í þessu landi myrkursins ætti að vera nánast óhugsandi að vera á ferðinni án ljóss. Annað mætti flokka undir leiða á lífinu eða góðri heilsu.

En þeir sem hjóla dags daglega til og frá vinnu á höfuðborgarsvæðinu eru ekkert annað en hetjur. Það eru sennilega vandfundnar jafn erfiðar og leiðinlegar aðstæður til að hjóla en hér á suðvesturhorni Íslands. Illa samræmdir eða engir hjólastígar. Rigning, mótvindur, brekkur og ljóslausir hjólreiðamenn. En, ég verð að hrósa bílstjórum á svæðinu. Þeir hafa sýnt mér mikla tillitssemi, þvert á það sem ég bjóst við. Kannski er það vegna þess að þeir sjá mig?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband