Færsluflokkur: Lífstíll
16.11.2007 | 08:35
Huggulegur rigningarmorgun
Það var notaleg rigningin í morgun, féll nánast beint niður, kyrrlát og ljóðræn. Vel við hæfi á þessum degi. Þetta minnti mig samt á útlönd satt best að segja, m.a.s. Cardiff kom upp í hugann þegar ég settist inn í strætó. Alltof sjaldan sem maður getur gengið út í svona huggulega rigningu hér heima.
Svo fór ég að leiða hugann að því að í strætó í Cardiff voru bara einar útgöngudyr í flestum tilvikum. Þetta leiddi til þess að notendur þurftu að taka tillit hver til annars þ.e.a.s. Þeir sem ætluðu inn þurftu að bíða eftir þeim sem ætluðu út. Svo átti maður ávallt leið framhjá bílstjóranum en eins og ég bloggaði um í fyrndinni, þá eru velskir strætóbílstjórar mjög kurteisir upp til hópa. Þar tíðkast að kveðja, "tata" eða bara "thank you". Mér var sumsé hugsað til þessa þegar ég fór úr strætó við Höfðatorg, að aftan, án þess að yrða á bílstjórann og þakka honum fyrir.
Sennilega eru almenningsvagnar hér á landi almennt of stórir. Maður fyllist einmanakennd ef mjög fáir eru í vagninum og allt að því óöryggi. Þetta er því vart hvetjandi umhverfi til að örva notkunina á kerfinu.
En ég segi það enn og aftur, ég er tilbúinn að borga fyrir góða þjónustu almenningsvagna, sem skilar mér fljótt og vel á áfangastað og ég verð ekki úti þó svo ég missi af vagninum og þurfi að bíða eftir næsta.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2007 | 20:13
Loksins farinn að hjóla
Það er reyndar þónokkuð síðan ég hjólaði fyrstu ferðina í vinnuna en hef sumsé ekkert bloggað ansi lengi. Þetta er fín leið í gegnum Seljahverfið, Elliðaárdalinn, yfir Miklubraut, framhjá Glæsibæ, niður Laugardal, gegnum Teigana, yfir Kringlumýrarbraut, inní Túnin og kominn! Þetta eru tæpir 10 km og tekur 25 mín að hjóla.
Nú kemur reyndar í ljós að ég á ansi lélegt hjól því þegar fer að reyna eitthvað á kvikindið þá bilar eitthvað. Þannig er gírskiptihandfangið búið að brotna, sprungið einu sinni og gírarnir orðnir ansi ruglaðir. Þetta stendur þó allt til bóta og ég ætla að hjóla öðru hverju á meðan ekki er snjór og hálka. Nenni ekki að skipta yfir í nagla.
En af þjóðmálunum þá velti ég því fyrir mér á hvaða gríðarlegu þekkingu á jarðhitamálum Íslendingar ætla að byggja í þessari útrás. Mér vitanlega er afar takmörkuð menntun í boði hér á landi á þessu sviði og fáir sérfræðingar sem eru einhvers megnugir á þessu sviði. Þetta er reyndar umhugsunarefni fyrir háskólana alla, hvort ekki ætti að leita til orkufyrirtækjanna um stuðning við kennslu á sviði jarðhitanýtingar til að byggja upp stærri hóp sérfræðinga á þessu sviði hér á landi.
Varðandi umhverfismálin, þá er ég afar ánægður með að margir láti sig þau varða eins og Bitruvirkjun ber vitni um. Það má líta til úrskurðar Skipulagsstofnunar vegna rannsóknaborholu í Grændal í þessu samhengi en Skipulagsstofnun lagðist gegn þeirri framkvæmd, þó umhverfisráðherra leyfði hana með skilyrðum. Bitruvirkjun er í raun ekki svo ólíkt mál, mikil náttúrufegurð, mikil útivist og ferðamennska, líffræðileg fjölbreytni o.s.frv. En pólitík er kannski full fyrirferðamikil í ákvörðunarferlinu, nema lýðræðið komi til bjargar. Við sjáum að sveitarfélög á Suðurnesjum vilja t.d. ekki raflínur í sínu landi. Það er kannski lítill vísir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2007 | 15:31
Góður laugardagur
Dagurinn í dag er svona góður laugardagur. Vaknað snemma með stelpunum, gefa þeim að borða, horfa með þeim á barnatíma og lesa blöðin, sötrandi kaffi (sleppti bjórkvöldi í gær). Fara í ræktina undir hádegi, fá sér "boost" í hádegismat, hnetur og rúsínur, epli o.fl. hlusta svo á tónlist í rólegheitunum. Stilla gítarinn og bassann, spila lítið eitt með Birnu. Það er gott að fletta í henni með lagaval, það er eins og hún læri eitt lag á dag og textarnir buna út úr henni. Þá er ábyrgðarhluti að gefa börnunum ekki tækifæri á að hlusta á tónlist frá hinum ýmsu tímabilum, straumum og stefnum. Svo er matur hjá tengdó á eftir svo það þarf ekki einu sinni að elda.
Nú styttist í að ég verði grasekkill þegar frúin fer í námsorlof til Cardiff. Kvíði því talsvert en eins og ég hef ritað áður þá getur svona fjarvera verið til að styrkja sambandið (sem er bara eitthvert Pollíönnu kjaftæði).
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2007 | 10:45
Gjaldfrjáls strætó
Nú hef ég hingað til ekki verið talinn til sjálfstæðismanna. Í þetta sinn get ég þó tekið undir með þeim. Málið nefnilega snýst ekki um hvort almenningssamgöngur eru "ókeypis", því ekkert er ókeypis. Málið snýst auðvitað að nokkru leyti um upphæð gjaldtöku en einnig um þjónustu og gæði hennar. Ég er mikill strætómaður og legg mitt af mörkum til að nýta þá þjónustu. Ég keypti mér níu mánaða kort og hugsa því lítið um gjaldið nema að því leyti að ég reyni nú að nýta þjónustu strætó við hvert tækifæri. Það sem nú vantar uppá er að strætó geti boðið upp á skilvirkari þjónustu, tíðari ferðir og meiri hraða. Almenningssamgöngur þurfa að vera jafn- og helst skilvirkari en einkabíllinn. Ég þarf að vera jafnfljótur og helst fljótari með strætó í vinnuna en á einkabílnum. Þá er björninn unninn. Upplifi einkabílistinn að strætó fari frammúr á Kringlumýrarbrautinni, þar sem strætó ætti að vera með forgangsrein, þá gæti hann byrjað að forgangsraða upp á nýtt.
Ég legg því til að í stað þess að strætó sé gjaldfrjáls þá verði skattpeningar nýttir í að bæta við forgangsreinum á helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Einnig þarf að fjölga leiðum með tíðari ferðir, hálftíma bið getur orðið til þess að fólk verði úti eða kaupi sér bíl.
Álykta gegn hugmyndum um gjaldfrjálsan strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.10.2007 | 10:00
Help us help the planet
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 18:20
Fyrsta vikan
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2007 | 09:59
Strætó lífsstíll
ÉG keypti mér bláa kortið í gær, níu mánaða meðganga með Strætó. Þetta er djörf ákvörðun því ég hef nánast ekkert gott heyrt um Strætó á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin, nema frá örvæntingarfullum borgarfulltrúum. Fyrsta ferðin var farin í gær, gagnleg að því leyti að ég gat skoðað hverfið Grafarholt, skiptistöðina Mjódd og fann stoppistöðina í Skógarseli þar sem ég get tekið þristinn. Tók síðan þristinn og sexuna í morgun, með slatta af labbi. Fyrst í Skógarsel, sem eru um 400 m, síðan yfir Miklubraut við Gerði, sem eru 200 m og loks Gagnveginn upp á Keldnaholt, sem er ca 1 km. Þetta er nú ágætist morgunlabb. Ferðin tók 35 mín í allt. Gæti verið verra.
Næst tek ég hjólið með í strætó og hjóla heim, sem ætti að taka ca 30 mín.
Fyrir mig fylgir því einhver ró að ferðast með strætó. Andlega álagið sem fylgir því að ferðast í umferðinni lendir allt á bílstjóranum og ég get því mætt nokkuð vel á mig kominn andlega í vinnuna. Auðvitað tekur þetta sinn tíma en ég er tilbúinn að fórna honum fyrir pirringinn sem fylgir akstri einkabílsins. Það er einmitt sá pirringur sem er helsti ókostur þess að búa á höfuðborgarsvæðinu. En þar bý ég einmitt núna.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2007 | 11:27
Fæðu- og umhverfisblogg
Nú hefur bloggið hjá mér verið í dái í nánast allt sumar. Á þessum tíma hafa dunið á mér af póstlistum allskyns fréttir úr fæðu-, umhverfis- og heilbrigðisgeiranum, sem ég hef ekki haft döngun í mér til að koma á framfæri í þessari þröngmiðlun, sem bloggið er.
Hér er t.d. ein grein um fúkkalyf í grænmeti þar sem staðfest er að fúkkalyf sem gefin eru búpeningi berast með búfjáráburði á akra og þaðan í grænmetið sem þar er ræktað. Þetta á t.d. við um kál og kartöflur. Áhrifin á heilsu manna eru að mestu óþekkt en ofnæmisviðbrögð og ónæmi baktería eru meðal þess sem líklegt er að komi á daginn.
Svo er það blessað teflonið, sem er svo gott á pönnunni en vont í skrokkinn. Meira að segja EPA í Bandaríkjunum (Umhverfisstofnun) hefur mælst til þess að hætt verði að nota Perfluorooctanoic sýru (PFOA), sem er í teflonhúð, vegna líklegra krabbameinsvaldandi áhrifa efnisins. Auk þess er það ofnæmisvaldandi.
Svo eru það flutningurinn á matvælum. Ef við viljum horfa til allra þátta í umhverfinu, þá er ekki sjálfgefið að best sé að kaupa lífrænt ræktuð matvæli frekar en hefðbundin. Þetta á ekki síst við t.d. ávexti sem fluttir eru yfir hálfan hnöttinn, kiwi frá Nýja Sjálandi eða mangó frá Equador, með tilheyrandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta snýst um hinar s.k. matarmílur (food miles). Hvet alla sem velta þessu eitthvað fyrir sér að leita uppruna þeirrar vöru sem þeir hyggjast kaupa og velja þá frekar þá sem framleidd er nær okkur í rúmi, og reyndar helst í tíma.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2007 | 17:38
Herskáir Húsvíkingar
Það er ekki að spyrja að sköruleika þeirra Húsgullsmanna enda miklar hamhleypur þar á ferð. Hér tel ég menn þó vera byrjaða að rífast um epli og appelsínur. Stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðsla er ekki það sama og skógrækt, a.m.k. ekki eins og þetta tvennt hefur verið stundað hér á landi. Ábendingar ríkisforstjóranna hjá Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun eiga fyllilega rétt á sér því það ber að taka tillit til ýmissa atriða við skipulag skógræktar, og reyndar uppgræðslu lands. Umhverfisáhrif þessara inngripa eru talsverð, jákvæð og neikvæð. Félagslegir þættir, smekkur, menning og ásýnd lands eru fullgild rök í slíkri umræðu. Það má hins vegar vel rökstyðja það að stöðvun eyðingar skóga, gróðurs og jarðvegs séu hvað áhrifamestu mótvægisaðgerðirnar gegn vaxandi styrk CO2 í andrúmslofti. Einnig má byggja upp verðmæt vistkerfi með uppgræðslu og skógrækt, sem vel passa við markmið samnings um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Það er kannski ekki alveg sama hvernig þau vistkerfi líta út. Endurheimt birkiskóga, votlendis og víðigrunda ættu að vera eitt af höfuðmarkmiðum slíks starfs hér á landi, og e.t.v. fleiri vistkerfa.
Forstjórar Skipulagsstofnunar og Náttúrufræðistofnunar og forsvarsmenn Húsgulls gætu því vel orðið sammála á endanum, ef báðir fjölluðu um epli.
Húsgull gagnrýnir ummæli um landgræðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2007 | 09:41
TOFI og GUFI
Hvað er TOFI? Á Íslensku mætti útleggja það eitthvað á þessa leið: þunnur utan, þykkur innan (ÞUÞI) eða grannur utan, feitur innan (GUFI).
Það er semsagt málið núna að læknar telja að hin ósýnilega fita í líkamanum sem umlykur líffærin geti verið ekki síður hættuleg en sú sem sýnir sig á yfirborðinu eins og lesa má hér. Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir renglu eins og mig. Ef maður heldur sér grönnum fyrst og fremst með mataræðinu en hreyfir sig lítið þá eru miklar líkur á mikilli innri fitu. Því þarf að endurskilgreina hugtakið "feitur". Sá sem er feitur er sennilega feitur en sá sem er grannur getur líka verið feitur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar