Færsluflokkur: Matur og drykkur

Kranavatnið ku vera gott og 10.000 sinnum ódýrara

Vatn

Kranavatn hér í Wales ku yfirleitt vera gott, einkum nær fjöllunum. Hér suður í dölum hafa komið upp m.a. e-coli tilfelli rakin til kranavatns. Við höfum frá upphafi keypt okkar drykkjarvatn í stórum 5 lítra plastbrúsum, einhvern veginn höfum við það á tilfinningunni að hið oft mikið meðhöndlaða kranavatn sé ekki fullkomlega óhætt og svo þykjumst við finna bragð sem okkur líkar ekki. Kannski er líka um að ræða einhverja útlandahræðslu.

Grein í Independent fjallar um þetta mál og þar er bent á að í Bretlandi kostar líterinn af flöskuvatni í smáum pakkningum u.þ.b. það sama og líter af bensíni, tæpt 1 pund. Til samanburðar þá kosta 10.000 lítrar af kranavatni um 1 pund. Það má blanda ýmsum bragðefnum í kranavatnið fyrir þann mismun, sjóða það og frysta o.s.frv. Við höfum keypt líterinn á ca 20 pens, getum varla fengið það ódýrara. Neyslan af þessu vatni er ca 12 lítrar á viku sem gerir 2,4 pund eða um 10 pund á mánuði. Við gætum sumsé sparað okkur nokkurn pening á því að skipta yfir í kranavatn. 

Umhverfiskostnaður fyrir utan þetta er talsverður, framleiðsla á plastflöskum kostar mikla orku, akstur á vatninu fram og aftur um landið með tilheyrandi mengun og orkukostnaði og loks úrgangurinn sem skapast og er ekkert nema vandamál. Maður verður sennilega að taka sig á en það kostar vafalítið nokkrar umræður hér innanhúss. Sjáum hvað setur.

Nú er blíða hér hjá okkur, 25-30 stiga hiti og sól. Það lítur út fyrir mikið rafmagn í loftinu, núningur heita og kalda loftsins gæti orsakað miklar þrumur og eldingar næstu daga, sem er kannski fyrirboði þess að Englendingar falli úr heimsmeistarakeppninni.


Græna byltingin í stórmörkuðunum og ljótur jarðargróði

Árið í ár er tileinkað baráttu stórmarkaðanna um græna ímynd, það gildir bæði hér í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Sumar yfirlýsingarnar flokkast undir lýðskrum en aðrir hafa látið gjörð fylgja orði. Gamli risinn í nýja búningnum, Marks & Spencer, er álitinn grænasti stórmarkaðurinn í Bretlandi að mati umhverfisverndarsinna, Greenpeace og Friends of the Earth. Þar er meira um s.k. "fair trade" vöru, frá fátækum framleiðendum í þróunarlöndum, fatnaður úr lífrænt vottaðri baðmull og sjóvænn fiskur (ocean friendly), hvað sem það nú þýðir. Maður má því eiga von á auknu úrvali af góðri vöru á lægra verði á næstunni. 

Svo má ekki gleyma snobbbúðinni Waitrose, sem hefur verið ansi framarlega í græna geiranum, samanborið við hina risana. Þeir ætla nú að bjóða upp á ljóta ávexti og grænmeti á afslætti. Krafa okkar neytenda um hið fullkomna útlit matvörunnar er komin í slíkar öfgar að "ljótri" vöru er hent vægðarlaust. Nú ætlar Waitrose sumsé að bjóða afskræmd jarðarber og bognar gulrætur "visually flawed or oddly shaped". Þetta má nota í sultur og mauk hverskonar. 

Við eigum von á sendingu frá Riverford í dag. Þau viðurkenna fúslega að jarðarberin frá þeim séu ekki fullkomin í laginu en þau séu himnesk á bragðið. Sama gildir um gulræturnar. 

Við erum í kælingu hér í Cardiff þessa dagana, eftir heita síðustu viku. Það nær ekki 20 stigum hér, þungbúið og nokkur vindur. Spáin svipuð næstu daga. 


Coca Cola, vatnsbirgðir í Indlandi, matseðlar og tími rósanna.

Tími rósanna

Rakst á grein í Voice of America þar sem fjallað er um ásakanir á hendur Coca Cola fyrir að nota of mikið vatn í verksmiðjum sínum í Suður Indlandi. Brunnar hafa þornað upp og Coke hefur þegar þurft að loka einni verksmiðju eftir málaferli. Segja þetta "anti ameríku áróður" og engar vísindalegar sannanir séu fyrir hendi. En svona eru birtingarmyndir alheimsvæðingarinnar.

Talandi um Coca Cola, þá hefur Matvæla- og Lyfjaráð Bandaríkjanna mælt með því að veitingahús bjóði upp á matseðla með meiri ávöxtum og grænmeti, minnki skammtana og auki upplýsingar um innihald rétta.  Þetta er allt á hendur offeiti þeirra Bandaríkjamanna. Þeir borða víst 300 fleiri kaloríur á dag núna en árið 1985 og neyta þriðjungs þeirra að heiman, aðallega í formi hamborgara, franskra og pizzu á skyndibitastöðum. En þetta eru víst bara tilmæli og vegna kostnaðar er ólíklegt að þetta verði tekið háalvarlega til að byrja með. Enda er það víst þannig að við eigum sjálf að vera ábyrg fyrir því hvað við látum ofaní okkur, ekki ríkisstjórnin. Verst að afleiðingarnar leggjast síðan jafnt á okkur fjárhagslega í formi skattpeninga í heilbrigðiskerfið. 

Hér í Cardiff er kominn tími rósanna. Í hverjum garði blómstra nú rósir sem þær eigi lífið að leysa og í mörgum litum. Við erum tiltölulega hófsöm og höfum bleikar rósir hér framan við húsið. En því er ekki að neita að fallegar eru þær.


Saga kókoshnetuolíunnar

Kókoshnetuolía
Af því að ég er svo hugfanginn af olíu og fitu, þá er ekki úr vegi að segja frá því að nú eru margir sérfræðingar á því að kókoshnetuolía sé ekki aðeins besta olían til að elda úr af mörgum vondum kostum, heldur sé hún jafnvel holl líka. En saga kókoshnetuolíunnar hefur ekki verið neinn dans á rósum. Fyrir síðari heimsstyrjöldina var kókosnhnetuolía notuð talsvert við matargerð en vegna hernáms Japana á Filippseyjum og fleiri eyjum í Suður Kyrrahafi, þá minnkaði framboðið á þessari olíu í hinum vestræna heimi, einkum Bandaríkjunum. Hvað gerðist þá, jú hinn stórkostlegi jurtaolíuiðnaður þróaði ýmsar aðrar tegundir olíu til að nota, sólblómaolíu, soyabaunaolíu, kornolíu o.fl. og fljótlega voru orðnir gríðarlegir hagsmunir í iðnaðinum sjálfum og þó svo ekki væri lengur fyrirstaða fyrir því að flytja inn kókoshnetuolíu þá höfðu tiltölulega fátækir framleiðendur hennar ekki bolmagn til að keppa við hinn sterka jurtaolíuiðnað. Strax í lok 6. áratugarins hafði almenningsálitið, sérstaklega í Bandaríkjunum, snúið baki við mettuðum fitum eins og smjöri og kókoshnetuolíu, enda þá talið meginorsök hjartasjúkdóma. Kókoshnetuolía er hins vegar að koma aftur, sterkari en nokkru sinni, samhliða blessuðu smjörinu.

Er nýmjólk ruslfæði, lífrænt vottaður þorskur og hvernig kemst ég hjá því að borða illgresiseitur?

Get ekki orða bundist þegar ég sá þessa frétt á The Times. Í tengslum við endurbætur á því fóðri sem framreitt er í skólamötuneytum og beint er gegn ýmsu ruslfæði s.s. djúpsteiktum og tilbúnum mat, þá á einnig að banna nýmjólk, þ.e. mjólk sem ekki hefur verið fituskert og er með 3-3,5% fitu. Þessi breyting er samþykkt af hinu breska Manneldisráði en á vafalítið eftir að vekja mjög hörð viðbrögð. 

Annars kaupa bretar nú meira af ferskum ávöxtum og grænmeti en áður og neysla á heilkorna brauðum hefur aukist (Daily Mail).  

Svona fyrir íslenska fiskeldismenn þá er Tesco með lífrænt vottaðan eldisþorsk í fiskborðinu. Þetta er að einhverju leyti hálfsannleikur hjá Tesco því ekki hefur verið gengið alveg frá reglum um vottun á eldisþorski og ekki má nota stýrða lýsingu til að koma í veg fyrir kynþroska hjá fiskinum. 

Í aprílhefti Health and Fitness er vitnað í könnun bresku Jarðvegsverndarsamtakanna (Soil Association) á illgresiseyðum í grænmeti. Þar kom í ljós að 50% sýnanna voru með leifar allt að 5 mismunandi efna og af þeim voru 13% með leifar yfir leyfilegum mörkum.

"The effect of these chemicals on our health hasn't been adequately tested. We don't need pesticides to produce fruit and vegetables and most people don't want them in their food." (Mike Green, Soil Association).

Borðum lífrænt! 

 

 


Skeggjaðir menn og tréklossar undir þrýstingi

Hin lífræna vakning hófst sem hugsjón skeggjaðra manna sem gengu um í tréklossum. Nú er Wal Mart risakeðjan í Bandaríkjunum komin í spilið. Þar snýst þetta ekki um skegg eða klossa, heldur ímynd og peninga. Gott eða vont? Það á eftir að koma í ljós. En hræðslan er einkum við að Wal Mart, sem er ekki þekkt fyrir vönduð meðul, leiti til landa þar sem eftirlit með framleiðsluháttum er ekki eins strangt og víðast hvar á vesturlöndum, t.d. Kína. Hvað gæti gerst þá? Ímynd hins lífrænt vottaða gæti beðið mikinn hnekki og misst allan trúverðugleika. Vottunarmerkin yrðu eins og hvert annað skrum eða auglýsing sem hefði lítið gildi. Aðrir hafa hins vegar bent á að þetta er gott. Þarna fáum við meira úrval af hollari vöru á lægra verði. Fleiri geta keypt hana og þannig eykur þetta hróður framleiðslunnar og bætir e.t.v. heilsufar hins sjúkdómsvædda vestræna heims og jarðarinnar.

Hvað er svona gott við lífrænt vottaða vöru? Í sjálfu sér ekkert sérstakt, nema að það má ekki nota skordýraeitur, illgresiseyða eða tilbúinn áburð við framleiðsluna. Það má heldur ekki nota tilbúin rotvarnarefni, litarefni eða bragðefni í lífrænt vottaðar vörur. Svo, dæmi hver fyrir sig. 

Nú reynir því á hið lífræna kerfi sem aldrei fyrr, stenst það þrýstinginn og verður sterkara en áður eða brotnar það í mola þannig að það þurfi að byggja það aftur frá grunni? 


Lífrænt er inn

Organic-food

Það virðist vera talsverð sveifla í þágu lífrænt vottaðrar (e: organic) landbúnaðarframleiðslu hér í Bretlandi. Samkvæmt fréttum eru stórmarkaðirnir, sem ráða nánast því sem þeir vilja, farnir að auka vöruval af lífrænt vottuðum vörum og vilja jafnframt leitast við að lækka verðið. Lífrænt ræktaðar vörur eru oft 20-50% dýrari. Stórfyrirtækin eru með þessu að reyna að bæta sína ímynd, sem er ekki uppá það besta, bæði m.t.t. fákeppni á markaði og m.t.t. slakra gæða þeirrar vöru sem þeir bjóða. Nýja ímyndin er "verndarar jarðarinnar" Sainsburys eru til dæmis að gera tilraunir með moltuvæna poka utanum lífrænt ræktað grænmeti og ávexti, þ.e. poka sem má setja beint í safnhauginn. Af hverju ekki utanum alla vöru? Forstjóri Wal-Mart, sem er móðurfyrirtæki ASDA hér í Bretlandi, fékk áheyrn hjá Karli prinsi af Wales og leitaði hjá honum ráða um hvernig mætti bæta ímynd fyrirtækisins.

Lífrænt vottaður landbúnaður þykir einnig í tísku og bændur í þeim geira eru að meðaltali sjö árum yngri en í hefðbundnum landbúnaði. Auk þess býr lífræni landbúnaðurinn til mun fleiri störf í landbúnaði, bæði við úrvinnslu og markaðssetningu eða 32% fleiri en hefðbundinn landbúnaður skv. skýrslu bresku jarðvegsverndarsamtakanna.

Við kaupum orðið megnið af okkar ávöxtum og grænmeti lífrænt vottað, kaupum bara aðeins minna. Mér líður mun betur að gefa börnunum mínum mat sem ekki hefur verið úðaður æ ofan í æ með skordýraeitri og illgresiseyði. Auk þess er ég ekki frá því að a.m.k. þetta bragðist bara betur. Svo er hætt að kaupa nema smjör sem viðbit.

Varðandi veður þá er fimm daga spáin bara rigning og kólnandi, ýmist léttar skúrir eða miklar skúrir. Þó er nú þurrt inn á milli. Vonandi styttir upp um helgina en þá ætlum við í ferð í bókabæinn á landamærunum, Hay on Wye (w: Y Gelli). Þar munu vera ótrúlega margar bókabúðir, með nýjar og notaðar bækur. 


 


"Matarmílur" og meira um mat

Oreo kex

Hversu langt ferðast maturinn áður en hann er kominn á diskinn? Þetta er ágætis pæling í hinum mjög svo peningastýrða heimi þar sem yfirleitt er ekki greitt fyrir afnot af auðlind eins og lofthjúpi jarðar. Flutningur matvæla fram og aftur um jarðarkringluna telur æði mikið í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Við þekkjum þetta orðið vel á Íslandi þó í lítilli mynd sé, þar sem fiskur er fluttur fram og aftur um landið, mjólk er ekið suður, pakkað og svo norður o.s.frv. Þetta er náttúrulega smáræði miðað við aðra fæðu sem við leggjum okkur til munns. Matarmílur eru því ein af þeim stærðum sem við neytendur þurfum að hafa í huga ef við ætlum okkur að vera upplýst og ábyrg í okkar innkaupum. Kaup á heimafengnu fóðri ku vera best, svo lengi sem eitthvað fóður er þar að hafa. Svo getur vel verið að okkur standi nokk á sama. 

Enn varðandi "trans fat" fituna sem við hökkum í okkur með frönskum kartöflum, djúpsteiktum kjúkling, allskyns sætabrauði o.fl. Það þyrfti að þrýsta á Íslensk stjórnvöld að fara að dæmi danskra og banna alfarið matvæli sem innihalda tilbúna "trans fat" fitu, því slík fita finnst í örlitlum mæli í sumum mjólkurvörum og kjöti. Bann við notkun þessarar lítt hollu fitu þýðir ekki að við þurfum að hætta að borða óhollan djúpsteiktan eða unninn mat, heldur verður hann bara ekki alveg eins óhollur. M.a.s. er hægt að fá Oreo kex sem inniheldur ekki "trans fat" fitu, en almennt er það frekar eitrað. Hér í Bretlandi fóru fyrstu rannsóknirnar fram á skaðsemi svona fitu í upphafi áttunda áratugarins, fyrst í heiminum. Samt eru mjög rúmar heimildir fyrir notkun á henni í matvælum hér í landi. Þess vegna verða það að teljast góðar fréttir að gera á mikið skurk í skólamötuneytum hér í Bretlandi og banna að mestu djúpsteiktan mat. 

Verð að upplýsa að hér er veður ekki uppá það besta, rok og rigning og útlit fyrir að þar verði framhald á í næstu viku. 


Ávextir og grænmeti á Íslandi

Eftir stutta umhugsun þá er ég á þeirri skoðun að það er eðlilegasti hlutur í heimi að ávaxta- og grænmetisneysla á Íslandi sé með því lægsta sem gerist í Evrópu. Á Íslandi er lakasta úrval þessara fæðutegunda í þessari heimsálfu. Ég vanmet þó ekki íslenskt sumarræktað grænmeti, sem er á heimsmælikvarða að bragðgæðum og hollustu en að öðru leyti er úrvalið og gæðin lélegt. Sem er ekkert skrítið lengst norður í Atlantshafi. Hvort eigi að setja sér önnur markmið er síðan annað mál og þar sem íslensk stjórnvöld eru nú frekar hlynnt miðstýrðri skynsemi þá væri ekki úr vegi að neyslustýra enn frekar í þessa átt með verðstýringum. Það hins vegar segir ekki alla söguna, því gæðin og úrvalið batna ekki mikið við það. 
mbl.is Ávaxta- og grænmetisneysla íslenskra barna og unglinga með því lægsta sem gerist í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust og neytendavernd

Traust hefur alltaf verið grundvöllur þess að samfélög gangi upp. Þátttakendur í samfélaginu þurfa að geta treyst hver öðrum, þeir sem gegna ákveðnum hlutverkum er treyst til að sinna þeim o.s.frv. Í dag er skortur á trausti að éta samfélög innanfrá. Traust á stjórnmálamönnum fer þverrandi, traust á fjölmiðlum er á þunnum ís og traust á hinum ýmsu stofnunum samfélagsins er rýrt. 

Heimsviðskipti með vörur eru orðin staðreynd og við höfum misst sjónar á uppruna hinnar ýmsu vöru sem við kaupum í næstu búð. Það er sjaldnast lengur þannig að við komum við hjá slátrara og kaupum kjöt af lambi sem hann slátraði eftir að hafa keypt það af bónda í nágrenninu. Ávextir og grænmeti ferðast þvers og kruss um heiminn og hending í hvaða heimsálfu það er borðað og ekki gott að segja til um aldur á vörunni þegar hún er komin í áfangastað. Þetta allt hefur margþætt áhrif. Fyrir umhverfið þá getur þetta verið frekar óhagstætt, eykur t.d. losun gróðurhúsalofttegunda vegna mikilla flutninga. Einnig eykur þetta vægi stórfyrirtækja sem framleiða hina ýmsu vöru t.d. ávaxta á kostnað smáframleiðenda. Oftast fylgja því vafasamir framleiðsluhættir, sem hafa það markmið að lækka framleiðslukostnað. 

Vegna þess hversu langur tími getur liðið frá því uppskera á ferskri vöru fer fram uns hennar er neytt, þá kallar það á aðferðir við að auka geymsluþol. Slíkar aðferðir eru vel þekktar og mögulegar. Áhrif þeirra á heilsu manna eru hins vegar ekki eins vel þekkt. Íslendingar njóta slíkra aðferða í ríkum mæli, enda um langan veg að flytja.

Annað tengt uppruna og framleiðsluháttum er að á síðustu öld átti sér stað gríðarleg framleiðsluaukning í heiminum, einkum afleiðing breyttra aðferða við ræktun, og úrvinnsla á vöru jókst gríðarlega. Hinum og þessum aðferðum hefur verið beitt og þar sem ekki hafa komið í ljós hraðverkandi eituráhrif á heilsu manna þá hefur þessum aðferðum verið beitt áfram, í þágu lægri framleiðslukostnaðar. Við vitum ekki til fullnustu hvaða áhrif vinnsla á hinum ýmsu vörum hefur á heilsu manna. Dæmi: hefðbundin vinnsla á jurtaolíum,  sem ég skrifaði um hér um daginn, vinnsla á mjólk og mjólkurafurðum, vinnsla á sykri og svo má lengi telja. Eiturúðun á jarðargróða eins og ávexti og grænmeti. Við erum sumsé að láta ýmislegt ofaní okkur sem okkur er ekki eðlilegt að neyta og við vitum ekki hvaða áhrif hefur. Traust á matvælaframleiðslu er að minnka eftir því sem uppruninn færist fjær okkur. Þess vegna hafa orðið til s.k. upprunamerkingar. Merkingar sem eiga að tryggja að vara sem við kaupum standist tilteknar kröfur. Neytendavernd virðist illa í stakk búin til að takast á við svona stórmál, enda við gríðarlega hagsmuni að etja, stórfyrirtæki um allan heim. Í stað þess snýst neytendaverndin um að skoða merkingar um síðasta söludag og verð. Það er ekki kafað dýpra, enda er þekkingin takmörkuð. 

Með hliðsjón af þessu þá eru einkum tvö atriði sem nútímamaðurinn ætti að hafa í huga við fæðuöflun:

Að neyta lítið unninnar vöru.

Að neyta vöru sem ekki hefur verið flutt langa leið. 

Þetta kallar á meiri vinnslu vörunnar heima í eldhúsi og e.t.v. að sleppa því í einhvern tíma að kaupa hráefni sem er orðið margra mánaða gamalt en til lengri tíma litið eru þessi tvö atriði sennilega þau heilsusamlegustu sem hægt er að hafa á oddinum þegar farið er í kjörbúðina. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband