Færsluflokkur: Matur og drykkur

Hvalur, hvalur

Stórfrétt!

Athyglisvert að lesa álit lesenda á BBC vefnum. Virðist talsvert mismunandi eftir uppruna höfunar. Margir kanarnir eru hlynntir nýtingu hvala en Evrópubúar síður. Allskyns frasar notaðir t.d.:

"This gets Iceland definitely off my "travel to" list."

 "Just because it does not fit into someone's cultural dietery norms, we can not dictate the ethics of eating whales. This sounds like one of those typical Euro-hypocracy subject."

"And Iceland, nice sagas you once protected for us. Don't stain your reputation now."

Bretar hafa verið ansi harðir gegn hvalveiðum og miklar yfirlýsingar frá stjórnmálamönnum hér í landi á síðustu árum. Afstaða stjórnmálamanna virðist hins vegar mjög lituð af almenningsáliti eða áliti þrýstihópa.

En þetta er kannski tvískipt, annars vegar er það hvort óhætt sé að stunda hvalveiðar m.t.t. stofnstærðar þeirra og hraða endurnýjunar, þ.e. hin vistfræðilega spurning. Hins vegar hvort hvalir séu drepnir með siðfræðilega réttlætanlegum aðferðum. Ég held að síðari punkturinn standi í ansi mörgum.  

Ég er alinn upp við að éta hvalkjöt. Man fyrst eftir að hafa borða súrsað hvalspik þegar ég var 3ja eða 4ra ára og átti heima í blokk í Ljósheimunum. Fannst það ofsalega gott. Át það síðan reglulega fram að hvalveiðibanni og var minn uppáhalds þorramatur. Hrefnukjöt át ég reglulega alla mína grunnskólagöngu í mötuneyti Laugarbakkaskóla. Hrefnukjöt í brúnni sósu með kartöflum og jarðaberjasultu. Svoleiðis var nú maturinn í þá daga.


mbl.is "Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sifræði lífrænnar ræktunar undir álagi, jafnvel banvænu

Stonyfield Jógúrt

Þegar neytendur velja lífrænt vottaða vöru þá er á bak við það einhver sýn á heilbrigði, einhver siðfræði um velferð umhverfis, manna og dýra. Ímyndin er fjölskyldubú, karl oft skeggjaður og gengur um á klossum og konan kastar korni í hænurnar, bæði moldug um hendur eftir að reyta illgresi úr beðum. Þau nota ekki tilbúinn áburð á akrana eða túnin, ekki illgresiseyða eða skordýraeitur. Álag á skepnur er lítið og þær fá að ráfa um landið en eru ekki lokaðar inni í þröngu rými, þær fá að fylgja sínu eðli. Vegna þessa eru húsdýr almennt heilsuhraustari í lífrænum landbúnaði en þar sem stundaður er verksmiðjubúskapur. Afurðirnar eru síðan seldar í nágrenninu.

Það fer því kvíðahrollur um margan hugsjónamanninn þegar vinsældir lífrænt vottaðrar vöru faraga_organicricekrispies vaxandi og hinir stóru byrja að hasla sér völl í lífrænni framleiðslu. Hinir stóru í þessu tilviki eru fyrirtæki eins og Wal Mart, General Mills og Kellogg, sem eru engin smáfyrirbæri.

Í BuisnessWeek er tekið dæmi um framleiðandann Stonyfield, sem lengi hefur framleitt lífrænt vottaða vöru. Nú er Stonyfield bóndabærinn horfinn en eftir stendur verksmiðja sem framleiðir lífrænt vottaðar afurðir úr mjólk annarra bænda, aðallega vel þekkta jógúrt, og er nú að mestu í eigu Danone, franska jógúrtrisans. Eftirspurnin er orðin svo mikil að nú stendur til að flytja undanrennuduft yfir hálfan hnöttinn, frá Nýja Sjálandi, til að framleiða jógúrt, lífrænt vottaða. Þetta er klemman sem þessi grein er komin í. Hvernig gengur að samræma hina hugljúfu en krefjandi framleiðsluhætti og arðsemiskröfuna á Wall Street? Mark Morford lýsir ágætlega sjokkinu þegar hann sá fyrst auglýsingu um "organic" Rice Krispies.

Vegna hinnar miklu eftirspurnar er leitað lengra eftir hráefni, til Brasilíu, Kína og Sierra Leone, þar sem illa gengur að hafa eftirlit með framleiðsluháttum. Stóru fyrirtækin setja á fót eigin framleiðslu og reyna að teygja vottunarstaðla til hins ítrasta og helst lengra. Og um leið og þau eru komin með fótinn inn fyrir þröskuldinn þá er strax orðið mun erfiðara að herða reglurnar en meiri þrýstingur á að slaka á kröfunum. Það heitir lobbyismi og er stundaður í Washington DC.

Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður skoðar krukkur og fernur uppí hillu og á þær er ritað "organic". 

 


BNA ruslahaugurinn og heilsufar í UK

Skömm feitrar þjóðar

Las athyglisverða grein úr LA Times þar sem kemur fram að nú eru fluttar ýmsar vörur til BNA sem ekki eru lengur leyfðar á svæðum eins og ESB, Japan og jafnvel í Kína, vegna heilsuspillandi eða umhverfisspillandi efna. Tekið dæmi um krossvið sem fluttur er til BNA frá Kína sem inniheldur formaldehýð, langt yfir viðmiðunarmörkum innan ESB, Japan og Kína. Svona er nú neytendaverndin í Bandaríkjunum. Hélt það væri nú nógu slæmt samt.

Það eru ekki góðar heilsufarsfréttir héðan frá UK. Hér mun offeiti vera mest í Evrópu og það sem verra er, hér í Wales mun vera þriðja mesta offeiti í ríkjum heims, á eftir Bandaríkjunum auðvitað og Möltu. Obb, obb, obb. Þetta kemur svosem ekki á óvart en ljótt að sjá. Sáum þátt á BBC um daginn sem fjallaði um heilsufarið í dölunum hér í suðaustur hluta landsins. Flestir á "welfare" og éta skyndibitamat. Atvinnuleysi og heilsuleysi. Jafnvel heimsending á "fish and chips". Alltaf skal það vera "chips". Og blessuð börnin, hvers eiga þau að gjalda. Þetta er sorglegt því hér á maður völ á fjölbreyttum mat og hráefni í mat. Annað en á Íslandi þar sem innflutt ferskvara er orðin nokkurra mánaða þegar hún er loksins dregin upp á skerið. Við Íslendingar erum á einhverju miðjuróli í fitunni innan Evrópu. Það hlýtur að teljast viðunandi en leiðinlegt þó að eiga ekki met í þessu. Við brennum svo miklu í kuldanum, held það sé svarið, því við neytum víst æði mikils kóla og feiti. 

Ef einhver hefur beðið spenntur eftir veðurfréttum héðan þá skal hann uppfræddur um það að ekki kom dropi úr lofti í dag þrátt fyrir eindregna spá. Ég hjólaði á stuttermabol í morgun og uppúr hádegi og ekki var nú kuldanum fyrir að fara. Blessað loftslag hérna. 


Ekki skola?

ad_5071.gif

Ég hef burstað tennur í á fjórða tug ára. Fyrir löngu hefur verið sýnt fram á gildi flúors í tannvörslu. Af hverju í ósköpunum hef ég aldrei áður heyrt það frá tannlækninum mínum eða opinberum heilsuverndaraðilum að það eigi ekki að skola eftir tannburstun? Ég er að kenna dætrum mínum að það eigi ekki að skola en á í mesta basli við að venja sjálfan mig af því, hef þó verið að reyna í nokkra mánuði.

Mér finnst þetta lýsa vestrænum heilbrigðiskerfum mjög vel. Nánast öll áhersla er á lækningar og lækna en lítil á hinn daglega heilsuverndarþátt almennings. Þetta gildir líka um mataræði. Málflutningur hefur aðallega verið til þess fallinn að rugla okkur í ríminu svo við vitum ekki í hvorn fótinn á að stíga varðandi val á mat. 

Svo kemur þessi stórkostlega frétt af ráðstefnu í Sydney þar sem "sérfræðingar" telja að það séu skýr tengsl milli markaðssetningar á orkuríkum en næringarsnauðri fæðu þ.e. sætindum, og offitu barna. Maður veit ekki hvort á að gráta eða hlæja. 


Nærætur og matarmílur

cover-2.jpg

Nú er ég kominn í nýyrðasmíð, held ég. Man ekki eftir að hafa séð orðið "nærætur" áður, eða "matarmílur" ef því er að skipta, nema á þessari bloggsíðu. 

Næræta er þýðing á ameríska hugtakinu, "locavore", sem er einhver sem leitast við að neyta fæðu sem er í hans nánasta umhverfi en forðast að neyta fæðu sem flutt hefur verið um langan veg, fæðu sem ferðast hefur margar matarmílur (e: food miles). ??????

Jú, nú er nefnilega kominn í tísku í Ameríku s.k. 100 mílu kúr sem byggist á því að neyta eingöngu fæðu sem ekki hefur ferðast lengra en 100 mílur áður en hún er komin á diskinn. Af hverju? Flutningur á iðnvæddum landbúnaðarafurðum og matvælum um BNA þver og endilöng er ábyrg fyrir 20-25% losunar gróðurhúsalofttegunda í BNA, hvorki meira né minna. Rökin fyrir þessari viðleitni eru því þokkaleg. 

Eins og sjá má á þessum dagbókarfærslum Elisa Ludwig, blaðamanns í Philadelpia, þá er þessi kúr þó ekki alveg einfaldur fyrir hinn venjulega mann og fólk enda misheppið með staðsetningu. Flestir þurfa að gerbylta mataræðinu og matseldinni. Hætta að neyta kaffis og tes, súkkulaðis, olíu o.s.frv.

Það er svolítið gaman að þessari hugmyndafræði og hún kannski fyrst og fremst til þess fallin að vekja athygli á þessari staðreynd, hversu miklir flutningar eru á matvælum fram og aftur um heiminn. Snertir okkur Íslendinga svo um munar, ekki bara varðandi flutninga til og frá landinu, heldur einnig innanlands. Forsvarsmenn íslensks landbúnaðar ættu að taka svona hugmynd fegins hendi. 


Haustar?

Áreiðanleg mæling hér á bæ sýnir að birtutíminn hér í Wales styttist. Mælingin byggist á því að sest er upp í rúmið hennar Margrétar laust fyrir kl. 8 pm og lesinn Benedikt búálfur. Á þriðjudagskvöld þurfti að kveikja ljós og það hefur gerst ítrekað síðan. Er það í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. Sama gerðist í morgun en þá sá undirritaður ástæðu til að kveikja ljós laust eftir kl. 7 am og er það einnig í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. 

En rósirnar eru enn að blómstra og nú eru komin allskyns ber og ávextir á tré og runna hér syðra. Það er algengt að sjá "blackberries" vítt og breitt, andstyggilegir runnar sem vaxa eins og andsk. með bogna og hvassa þyrna. Eplatré og plómutré í næstu görðum og svo mætti áfram telja. Þetta er óneitnalega skemmtileg tilbreyting. 

Svona til fróðleiks, þá hefur sala á 4x4 bílum dregist saman hér í Bretlandi, í fyrsta skipti í a.m.k. 10 ár. Umræða um umhverfismál er talin hafa áhrif auk verðs á eldsneyti. Nú er að verða "út" að aka um á s.k. "Chelsea tractor" innan borgarmarka og jafnvel talið að t.d. börn, sem eru oft á tíðum betur meðvituð um umhverfismál en foreldrar þeirra, vilji ekki láta sjá sig í jeppa, skammist sín fyrir það. En fáir markhópar munu áhrifameiri en börn, hvað varðar innkaup foreldranna. 

Aðeins meira um árstímann, þá fengum við kúrbít og kál frá Riverford bænum í vikunni. Einnig voru gulrætur, chili, tómatar og kirsuberjatómatar í kassanum, allt ræktað í UK. Þetta eru frábærar vörur og við hjón vorum sammála um að kirsuberjatómatarnir stæðust þeim frá Akri í Biskupstungum alveg á sporði, og er þá mikið sagt. 


Flug, ítölsk skólamötuneyti og heilbrigð fæða

Ég er þakklátur fyrir að vera ekki staddur á Heathrow eða Gatwick í gær. Ægileg ös og öngþveiti. En svona mun þetta verða öðru hverju. Spurning hvort reglum um handfarangur verði alfarið breytt. Það væri helst áfall fyrir þá sem fara styttri ferðir vegna sinnar vinnu, bara með handfarangur og þýðir talsvert lengri bið á flugvelli.

Jamie Oliver sýndi okkur í gær dæmigert ítalskt skólamötuneyti. Talsvert ólíkt því sem hann hefur sýnt frá þeim bresku. Allur matur er þar eldaður á staðnum úr góðu hráefni. Lítið val fyrir börnin og alltaf ávextir. Hann sýndi matseljunum dæmi um hvað breskum börnum er boðið uppá og þær úrskurðuðu það beint í ruslatunnuna. Sýnum við börnunum okkar næga virðingu þegar kemur að því að gefa þeim að borða? Ég bara spyr.

Annars er mikið að frétta úr heimi hinnar heilbrigðu fæðu eða óheilbrigðu. Skordýraeitur, sem notuð eru af bændum um allan heim, eru talin geta komið af stað taugasjúkdómum eins og MS og Parkisons, sjá Daily Mail.  Umbúðir um allskyns mat, eins og súkkulaði og ís, innihalda latex, sem getur orsakað ofnæmi. Engar reglur eru um að þetta sé sýnt á umbúðunum sjálfum, Independent. Tesco, Sainsburys og Asda, bresku stórverslunarrisarnir, hafa tekið þá ákvörðun að banna hertar jurtafitur í sínum framleiðsluvörum. Hertar jurtafitur eru helsta uppspretta s.k. trans-fats, sem eru tengdar við hjartasjúkdóma og offeiti. WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, hefur ráðlagt að neytendur ættu að fjarlægja allar slíkar fitur úr sínum mat.

En annars er allt í þessu fína hér í Wales. Veður er stillt en nær rétt um 20 gráðum á daginn. Heldur kalt.


Hin fullkomna netverslun

Delivery van

Í dag fór fram hér á Everard Way það sem ég myndi kalla hina fullkomnu netverslun, reyndar að því tilskildu að menn geri ráð fyrir að alltaf verði einhver mistök. Sem sagt, fullkomið, sé gert ráð fyrir að mistök verði. 

Við áttum von á heimsendingu frá Sainsburys, en þangað höfum við fært viðskiptin í auknum mæli. Sé verslað yfir 70 pund þá er heimsending frí. Það sparar 5 pund. Við verslum orðið aðra hverja viku á netinu og því er þetta okkur hagstætt. Annars er óvíst að hin vikulega verslun væri meiri en 70 pund. En allavega, Sainsburys býður upp á afhendingu á klukkutíma tímabilum, t.d. milli kl. 11 og 12. Samkeppnisaðilarnir eru með tveggja klst. tímabil. Í morgun seinkaði bílnum eitthvað svo þeir náðu ekki hingað fyrir kl. 12 og reyndar seinkaði þeim svo að þeir misstu af mér, var farinn út þegar þeir komu. Ég hringdi í þá eftir að ég kom heim og bíllinn birtist hér 15 mín. síðar með allar vörurnar og, rúsínan í pylsuendanum, við fengum afsláttarmiða af næstu netinnkaupum uppá 10 pund. Geri aðrir betur. Tesco og Asda hafa ekki sýnt viðleitni í þessa átt. Það er því ljóst hvert við beinum viðskiptum okkar á næstu vikum. Svo er Sainsburys heldur "grænni" aðili en hinir.


Kjúklingur er góður en erum við góð við kjúkling?

Kjúklingar

Það er talsvert rætt um velferð dýra hér í Bretlandi, umræða sem maður verður ekki mikið var við á Íslandi. T.d. fjallar Daily Mail um þjáningar kjúklinga sem alast upp á verksmiðjubúum. Vaxtarhraði þeirra er tvöfaldur á við það sem hann var fyrir 30 árum síðan, tvö kíló á 38 dögum. Afleiðingarnar, vansköpun fóta á rúmum fjórðungi hinna 800 milljón kjúklinga sem lenda á borðum hér í Bretlandi ár hvert. Fleiri atriði eins og mikill þéttleiki á fuglunum, yfir 20 þús. stk. saman í húsi, stöðugt ljós og sýklalyf í fóðri, eru ekki til að auka á trúverðugleika þessa iðnaðar. Því það er varla hægt að kalla kjúklingaeldi landbúnað.

OK. Hvað gerir maður þá? Kaupa ekki kjúkling? Framboð á kjúklingi er mikið en það er ekki mikið framboð af kjúklingi sem hefur haft það gott á sinni stuttu ævi. Það er t.d. ekki til "Free Range" kjúklingur eða Hamingjusamur kjúklingur í búðum hér í Cardiff en reyndar lífrænt vottaður. Spurningin er hins vegar sú, af hverju er þetta svona, hver leyfir framleiðslu á matvælum við þessar aðstæður? Neytendur geta valið með buddunni en þeir þurfa líka að geta treyst þeim viðmiðunum um framleiðsluhætti sem leyfðir eru, eða.....? 

 


Fjárhundar og Bowls

Bowls

Ponty stóð fyrir sínu, fallegur garður, reyndar lítið um smakkmat, smá tívolí, róló, fjárhundasýning, hannyrðir, steinbrú og þröngar götur. Brautarpallurinn er líka afar langur. Það var lítið sem minnti á Tom Jones en dagurinn var engu að síður ánægjulegur, hæfilega langt ferðalag og endað á því að grilla breskar kótilettur hérna heima en þær gefa hinum íslensku ekkert eftir, þó ég segi sjálfur frá. Meira kjöt á beinunum þar. 

Svo náði ég nokkrum myndum af eldri/heldri borgurum spila Bowls í Ponty. N.k. útibossía, afsakið stafsetn. Allir klæddir í hvítt, eins og í krikket. Völlurinn rennisléttur en gras og hæfilega stór til að hann megi ganga enda á milli á stuttum tíma. Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég að þessa íþrótt megi vel innleiða á Íslandi, hana má spila innan húss og utan. Það mætti setja velli við helstu öldrunarstofnanir landsins, fyrirtaks hreyfing. Slíkt myndi kosta svipað átak og s.k. "sparkvellir" en þjónaði öðrum aldurshópi. 

Veður, stillt og rakt, um 20 stiga hiti og stefnir í 26. Ætti að haldast þurr í dag.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 24251

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband