Laupur í staur

Hrafninn týnir ekki niður krunki sínu og hefur verpt í rafmagnsmastur eitt í Flóanum. Þetta sá ég á leið minni til vinnu í gærmorgun. Það er ekki í fyrsta skipti sem þetta mastur verður fyrir valinu en tókst ekki sem skyldi síðast. Nú skal bætt um betur og settar endurbættar festingar á laupinn svo ekki verði hann lagður upp. 

En ég reyndi að horfa á framboðsfund í gærkvöldi, útsendingu frá Selfossi. Ekki var það nú áhugavert, hver kjaftaði í kapp við annan, Helgi Seljan dæmdi sig úr leik sem slakur stjórnandi umræðna. Slökkti því á þessu froðusnakki sem boðið var uppá. Horfði þess í stað á mynddisk með U2. Hann var nú heldur leiðinlegur líka en þá kom að því að mig langaði á tónleika með sveitinni en þá hef ég aldrei upplifað. Stefni því á að bjóða minni heittelskuðu eiginkonu á tónleika þegar þeir félagar verða næst á ferðinni einhversstaðar í grenndinni.  


Fjölmiðlabann

Það er voða lítið um að blogga þessa dagana. En eitt stendur niður úr öllu, stjórnmál og fjölmiðlaumfjöllun. Í raun ætti að bjarga fólki sem fylgist með fjölmiðlum frá þessu dæmalaus bulli sem er kallað stjórnmál á þessum tíma árs með því að setja a.m.k. alþingismenn og verðandi alþingismenn í fjölmiðlabann. Ef þetta lið hefur áhuga á að tjá sig við þjóðina þá skuli það vinsamlegast horfa í augun á viðmælandanum og ljúga þannig upp í opið geðið á kjósandanum en ekki nota fjölmiðlafjarlægðina. 

Stjórnmál hér á Íslandi, og reyndar víða, eru svo lágkúruleg að það nær ekki nokkurri átt. Og fjölmiðlar spila með, yfirborðskennd fréttamennska, alltaf hægt að sjá fyrir umfjöllunina, hægt að spila á hana.

Sem sagt, gefum alþingismönnum frí strax, áður en þeir afgreiða fleiri loddaralög, og leyfum þeim að berjast fyrir atkvæðunum úti í raunverulegum heimi. 


Skógvarsla

Gott hjá kolleggum hjá Skógræktinni. Alveg ljóst að þetta er rétt að byrja og eins gott að taka á móti strax, jafnvel þó í hlut eigi ekki minni menn en Villi Vill og Gunnar Birgis. Maður þarf að koma sér upp hatti.

mbl.is Skógrækt ríkisins kærir röskun á skóglendi í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bændur siðgæðisverðir þjóðarinnar

Ég tæki nú ofan ef ég hefði hatt á höfði. Hvað sem líður lögmæti eða ekki lögmæti klámefnis þá ber þessi ákvörðun vott um talsverðan siðferðisstyrk bændastéttarinnar. Tel ég miklar líkur á að talsvert verði kveðið um þetta á komandi Búnaðarþingi, á Hótel Sögu.
mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar að baki McDonalds

Nú hefur McDonald's loksins tekist að finna hina réttu blöndu af djúpsteikingarolíu fyrir kartöflurnar, rétt bragð og trans-fats laus. Þetta hefur tekið sinn tíma og þegar þessi heimsþekkti framleiðandi óhollustu sér sinn kost vænstan til að taka sig á þá hlýtur að vera rík ástæða til. M.a. að New York borg hefur ákveðið að banna trans-fitur frá og með júlí á þessu ári. Wendy's hafa þegar náð því markmiði að útiloka trans-fitur og KFC eru á góðri leið með það. Ekki svo að skilja að þá verði um einhverja hollustuvöru að ræða, eingöngu tekið á einu afar miður heilsusamlegu atriði.

En það sem vekur athygli mína er hversu aftarlega Íslendingar sitja í þessari umræðu. KFC með afar hátt hlutfall trans-fitu hér á landi og með ólíkindum að ekki sé gert að skilyrði að, í fyrsta lagi að merkja innihald af trans-fitu og í öðru lagi, að banna trans-fitu í matvælum eins og Danir. Halló, til hvers er þessi Lýðheilsustöð og hvar er heilbrigðisráðuneytið?


Vitrun

Ég varð fyrir vitrun um helgina. Hægrisveiflan á umhverfishreyfingunni er gott innlegg í umræðuna og nú er svo komið að ég vona innilega að Hafnfirðingar hafni stækkun álvers í Straumsvík. Veit ekki nákvæmlega á hvaða tímapunkti vitrunin kom en öll sú umræða um orku sem fer fram í heiminum í dag hlýtur að vekja mann til umhugsunar um það í hvað hún er notuð. Orka er verðmæt, líka óbeisluð. Ég hef semsé góða tilfinningu fyrir álversstoppi, enda austfirðingar, sem beðið höfðu í 30 ár eftir að fá eitthvað upp í hendurnar, hafa nú fengið sitt. Enginn hefur beðið nálægt því svo lengi. 

Blenderinn minn gaf sig í dag. En við eigum enn töfrasprota og matvinnsluvél. Það hlýtur að duga til að viðhalda heilsusamlegu líferni.

Horfði áðan á Kompás. Vatnssprautað kjöt, vatnshúðaður fiskur, velferð kjúklinga. Íslendingar eru svosem ekki heilagri en aðrir þegar kemur að matvælaiðnaði. Bara muna það að þetta snýst um "respect", ekki fyrir þér heldur börnunum þínum.  


Of margar flugmílur á matinn - engin vottun

Nú er í umræðunni í Bretlandi að hætta að votta lífrænar vörur sem fluttar eru langar leiðir til Bretlands í flugi. En er ekki lífrænt bara lífrænt? Auðvitað, en lífið er bara ekki svo einfalt. Ef þú ert umhverfislega meðvitaður einstaklingur þá hlýturðu að leitast við að smækka vistsporið þitt (ecological footstep). Og flug með matvæli orsakar mikla losun á koldíoxíði, eins og annað flug. En þetta er heldur ekki svona einfalt, því oft eru þetta matvæli framleidd af fátækum bændum í Afríku og Suður Ameríku, t.d. baunir frá Kenýa eða bananar frá Equador. Og hver vill ekki styðja við bakið á þeim? Auðvitað spilar þarna inní tæknileg viðskiptahindrun en sífellt meira hugvits er krafist við að finna upp á slíku til að styðja við innlendan iðnað eða landbúnað.

Ég sé fram á að þurfa að setja saman ensk-íslenska umhverfisorðabók: 

ecological footstep - vistspor

food miles - matarmílur

locavores - nærætur 


Kjalvegur í ósnortinni náttúru?

Stundum er ég sammála Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands. En ég er ekki sammála honum hvað varðar það sem hann sagði um Kjalveg í tíufréttunum áðan, 5. febrúar 2007. Þar taldi hann brýnt að varðveita land eins og á Kili í sínu upprunalega ástandi en ekki að skera það í sundur með þriggja metra háum vegi. Veit svo sem ekki um þetta með þriggja metra háan veg, kannski ekki mikil prýði en gæti verið gaman að keyra og gerir þetta land aðgengilegra fyrir þá sem ekki eiga jeppa. Koldíoxíðlosandi jeppa! En óvíða á landinu eru jafn greinilega fingraför mannsins en einmitt á náttúrunni á Kili. Landið er eitt flakandi sár eftir gegndarlausa rányrkju, skógarhögg og viðartekju, búfjárbeit og guðmávitahvað. Óvíða líður mér verr að horfa á land en á Kili, á hinum nafntogaða Biskupstungnaafrétti. Það nefnilega getur snert mann djúpt að sjá náttúruna svona ónáttúrulega, þó þar sé lítið um mannvirki. Þannig að, Árni, hvað snertir skilgreiningu á ósnortinni náttúru þá virðumst við ekki vera sammála. En hvað varðar ýmislegt annað sem snertir náttúruvernd, þá ber kannski ekki svo mikið í milli.

Kjötið eða bílinn!

Þessi umhverfisfrétt er of góð til að sleppa því að blogga:

"The livestock sector emerges as one of the top two or three most significant contributors to the most serious environmental problems, at every scale from local to global." It turns out that raising animals for food is a primary cause of land degradation, air pollution, water shortage, water pollution, loss of biodiversity, and not least of all, global warming.

Þar hafið þið það. Kjötframleiðsla í landbúnaði er einn af megin umhverfisskaðvöldum heimsins. Ótrúlegt? Bull? Hvað með að það hefur meiri áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda að minnka kjötneyslu og neyta nærfæðu en að fá sér mjög umhverfisvænan bíl.

Producing a calorie of meat protein means burning more than ten times as much fossil fuels--and spewing more than ten times as much heat-trapping carbon dioxide--as does a calorie of plant protein. The researchers found that, when it's all added up, the average American does more to reduce global warming emissions by going vegetarian than by switching to a Prius.

Hefur nokkur minnst á þetta áður? Ekki svo að skilja að ég sé grænmetisæta eða tali fyrir slíku. Það er hins vegar ótrúlega lítil umræða um þetta í samhengi við innflutning á landbúnaðarafurðum til Íslands. Þær eru fluttar um langan veg og þetta hlýtur að vega þungt í málflutningi fyrir innlendum landbúnaði, séu umhverfisverndarsinnar samkvæmir sjálfum sér. Eða snýst umhverfisvernd bara um virkjanir?

En þetta er alla vega fróðleikur sem gott er að velta fyrir sér þegar maður stingur gafflinum í nautasteikina frá Argentínu, sem gæti staðið fyrir 10 sinnum fleiri kaloríur af plöntupróteini, og sem hefur orsaka 10 sinnum meiri losun af gróðurhúsalofttegundum.


Að blogga heima

Þegar maður er nú kominn heim þá er bloggið bara ekki eins. Hvötin til að blogga virðist síður vera til staðar og kannski er það nálægðin við þá sem lesa bloggið sem veldur ákveðinni tregðu. Á meðan maður er erlendis þá er lítil hætta á að maður rekist á nema fáa einstaklinga sem lesa bloggið en eftir að heim er komið er maður e.t.v. í samskiptum við þá daglega. Það er bara ekki eins. Framtíð bloggsins míns er því óviss. Þessu til viðbótar hefur tími minn til að blogga minnkað um a.m.k. átta tíma á dag. Svo er bara ekki eins mörgu frá að segja hérna norður frá. Það eru allir að tyggja sama bullið hver upp eftir öðrum, evra ekki evra, króna ekki króna. Ingibjörg og Valgerður. Guðni og Hjálmar. bla, bla, bla. Það er fljótlegt að verða þreyttur á þessu blaðri.

Ég sakna 8 out of 10 cats á Channel 4. Jimmy Carr og Sean Lock eru ótrúlega fyndnir. Best að panta spóluna á Amazon.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband