Færsluflokkur: Bloggar
25.10.2006 | 09:44
Kreditkortasvindl
Nú get ég ekki lengur notað flotta kreditkortið mitt frá Glitni. Einhver snillingur var byrjaður að nota það til að kaupa sér síma og áfyllingu á hann, fara í bíó o.s.frv. Mér fannst þetta ekki góð tilfinning, að vita af fjárhagslegu sjálfstæði mínu í höndum bláókunnugs manns. Sé þó ekki fram á gjaldþrot þar sem um hóflegar og eiginlega heimskulega hóflegar fjárhæðir er að ræða.
En þetta er áminning, þessi greiðslumáti er ótryggur og þó ég hafi notað þetta kort lítið þá virðist það hafa dugað til að einhversstaðar á leiðinni hafi einhver náð upplýsingum af kortinu. Svo, varúð!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2006 | 12:50
Bisness as usual?
Íslendingar eru merkileg þjóð. Nýleg ákvörðun um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni hefði víðast hvar í heiminum vakið harkaleg viðbrögð borgaranna og löndun á langreyði hefði verið vettvangur mótmæla einhvers hóps þeirra sem telja um siðleysu að ræða. Þess í stað blogga Íslendingar um hið efnahagslega, líffræðilega og siðferðislega hneyksli sem þeim finnst hvalveiðarnar vera og láta þar við sitja. Útlendingar eru látnir um hin róttæku mótmæli. Fréttirnar hér ytra gefa í skyn að þjóðin sé klofin í herðar niður í viðhorfum gagnvart hvalveiðum. Hvar kemur það fram? Á blogginu. Viðtöl við ráma og skræka talsmenn hvalveiða og umhverfisverndar gefa þá mynd að ekkert hafi breyst á 20 árum.
Mín skoðun er sú að það sé í lagi að veiða hvali sé það metið sem arðvænleg atvinnugrein, m.t.t. allra þátta, og séu hvalir drepnir á kvalalausan/lítinn hátt. Hún er hins vegar illa samræmanleg við ferðamannaiðnaðinn eins og hann er, nema hvalskoðunarfyrirtæki einbeiti sér að Asíu, sýni Japönum hvaðan maturinn kemur, gefi þeim síðan hrátt hvalkjöt um borð og aftur þegar þeir koma í land.
Hvað er siðlausara við að veiða hval með sprengiskutli en lax með öngli? Ég bara spyr. Báðar aðferðir bjóða upp á kvalir. Báðar tegundir eru viðkvæmar vistfræðilega. Hvað með rjúpnaveiði? Rjúpur geta sloppið særðar og kvaldar. En hvað erum við að borða svona almennt? Dýr sem líður almennt vel? Nei.
Það er svolítið gaman að lesa umfjöllun um Íslendinga í tengslum við hvalveiðar á ýmsum netmiðlum. Víða eru þær settar í samhengi við sjálfstæði þjóðarinnar og útþenslu landhelgi. Og auðvitað má rekja þessa umdeildu hvalveiðiákvörðun til þjóðerniskenndar að nokkru leyti. Við erum lítil en stolt þjóð sem tekur ákvarðanir byggðar á eigin forsendum. En í öðru leggjumst við síðan í duftið og fylgjum í fótspor þeirra sem eiga peningana og hafa valdið. Skrýtið!
Hvalur 9 kominn að landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.10.2006 | 09:09
Sifræði lífrænnar ræktunar undir álagi, jafnvel banvænu
Þegar neytendur velja lífrænt vottaða vöru þá er á bak við það einhver sýn á heilbrigði, einhver siðfræði um velferð umhverfis, manna og dýra. Ímyndin er fjölskyldubú, karl oft skeggjaður og gengur um á klossum og konan kastar korni í hænurnar, bæði moldug um hendur eftir að reyta illgresi úr beðum. Þau nota ekki tilbúinn áburð á akrana eða túnin, ekki illgresiseyða eða skordýraeitur. Álag á skepnur er lítið og þær fá að ráfa um landið en eru ekki lokaðar inni í þröngu rými, þær fá að fylgja sínu eðli. Vegna þessa eru húsdýr almennt heilsuhraustari í lífrænum landbúnaði en þar sem stundaður er verksmiðjubúskapur. Afurðirnar eru síðan seldar í nágrenninu.
Það fer því kvíðahrollur um margan hugsjónamanninn þegar vinsældir lífrænt vottaðrar vöru fara vaxandi og hinir stóru byrja að hasla sér völl í lífrænni framleiðslu. Hinir stóru í þessu tilviki eru fyrirtæki eins og Wal Mart, General Mills og Kellogg, sem eru engin smáfyrirbæri.
Í BuisnessWeek er tekið dæmi um framleiðandann Stonyfield, sem lengi hefur framleitt lífrænt vottaða vöru. Nú er Stonyfield bóndabærinn horfinn en eftir stendur verksmiðja sem framleiðir lífrænt vottaðar afurðir úr mjólk annarra bænda, aðallega vel þekkta jógúrt, og er nú að mestu í eigu Danone, franska jógúrtrisans. Eftirspurnin er orðin svo mikil að nú stendur til að flytja undanrennuduft yfir hálfan hnöttinn, frá Nýja Sjálandi, til að framleiða jógúrt, lífrænt vottaða. Þetta er klemman sem þessi grein er komin í. Hvernig gengur að samræma hina hugljúfu en krefjandi framleiðsluhætti og arðsemiskröfuna á Wall Street? Mark Morford lýsir ágætlega sjokkinu þegar hann sá fyrst auglýsingu um "organic" Rice Krispies.
Vegna hinnar miklu eftirspurnar er leitað lengra eftir hráefni, til Brasilíu, Kína og Sierra Leone, þar sem illa gengur að hafa eftirlit með framleiðsluháttum. Stóru fyrirtækin setja á fót eigin framleiðslu og reyna að teygja vottunarstaðla til hins ítrasta og helst lengra. Og um leið og þau eru komin með fótinn inn fyrir þröskuldinn þá er strax orðið mun erfiðara að herða reglurnar en meiri þrýstingur á að slaka á kröfunum. Það heitir lobbyismi og er stundaður í Washington DC.
Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður skoðar krukkur og fernur uppí hillu og á þær er ritað "organic".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 19:13
BNA ruslahaugurinn og heilsufar í UK
Las athyglisverða grein úr LA Times þar sem kemur fram að nú eru fluttar ýmsar vörur til BNA sem ekki eru lengur leyfðar á svæðum eins og ESB, Japan og jafnvel í Kína, vegna heilsuspillandi eða umhverfisspillandi efna. Tekið dæmi um krossvið sem fluttur er til BNA frá Kína sem inniheldur formaldehýð, langt yfir viðmiðunarmörkum innan ESB, Japan og Kína. Svona er nú neytendaverndin í Bandaríkjunum. Hélt það væri nú nógu slæmt samt.
Það eru ekki góðar heilsufarsfréttir héðan frá UK. Hér mun offeiti vera mest í Evrópu og það sem verra er, hér í Wales mun vera þriðja mesta offeiti í ríkjum heims, á eftir Bandaríkjunum auðvitað og Möltu. Obb, obb, obb. Þetta kemur svosem ekki á óvart en ljótt að sjá. Sáum þátt á BBC um daginn sem fjallaði um heilsufarið í dölunum hér í suðaustur hluta landsins. Flestir á "welfare" og éta skyndibitamat. Atvinnuleysi og heilsuleysi. Jafnvel heimsending á "fish and chips". Alltaf skal það vera "chips". Og blessuð börnin, hvers eiga þau að gjalda. Þetta er sorglegt því hér á maður völ á fjölbreyttum mat og hráefni í mat. Annað en á Íslandi þar sem innflutt ferskvara er orðin nokkurra mánaða þegar hún er loksins dregin upp á skerið. Við Íslendingar erum á einhverju miðjuróli í fitunni innan Evrópu. Það hlýtur að teljast viðunandi en leiðinlegt þó að eiga ekki met í þessu. Við brennum svo miklu í kuldanum, held það sé svarið, því við neytum víst æði mikils kóla og feiti.
Ef einhver hefur beðið spenntur eftir veðurfréttum héðan þá skal hann uppfræddur um það að ekki kom dropi úr lofti í dag þrátt fyrir eindregna spá. Ég hjólaði á stuttermabol í morgun og uppúr hádegi og ekki var nú kuldanum fyrir að fara. Blessað loftslag hérna.
Bloggar | Breytt 12.10.2006 kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2006 | 09:20
Rafmagnslaust
Það stefndi allt í hefðbundið kvöld hér í gær en þá slokknaði á öllum ljósum, nema á skjá fartölvunnar. Rafmagnslaust! Ljósgeislar sáust skjótast um hús nágrannanna, vasaljósin á lofti, sígarettuglóð og kertaljós. Auðvitað kom rafmagnið fljótlega á aftur en þetta var dálítið sjarmerandi, minnti mig á sveitina þegar varð rafmangslaust reglulega og mitt helsta áhugamál var að brenna blýanta í kertaloganum. Var alltaf með sótuga blýanta í pennaveskinu.
Það er hins vegar gott fyrir okkur nútímamenn á auðugum vesturlöndum að venjast rafmangsleysinu. Orkukreppan alltaf að skella á, bæði vegna takmarkaðrar þekkingar á að nýta orku og einnig vegna hýnandi loftslags. Hlýnun getur líka kallað á mikla orkunotkun, orku til að kæla, a.m.k. í okkar orkuháða heimi.
En við hjónakorn hjúfruðum okkur saman þrátt fyrir rafmagnið og horfðum á Phillip Seymour Hoffman leika Truman Capote í nánast samnefndri mynd, einn af mínum uppáhaldsleikurum.
En varðandi veðrið, sem mér finnst svo gaman að blogga um, þá er sól og allt blautt. Spáir haugarigningu en ómögulegt að vita hvort eða hvenær hún kemur, sífellt verið að aflýsa rigningu hér, eins og áður hefur komið fram. En ég kann þessu vel, óvissa eykur aðlögunarhæfni. Íslendingar þekkja það þjóða best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2006 | 19:28
Heitur dagur með loftárásum
Það var eins og veðurfræðingurinn hélt, hér var hlýtt og hvasst í dag. Hitinn fór í einhverjar 25 gráður en erfitt að hjóla. Við Birna skruppum yfir í Heath Park þar sem er skemmtileg rörrennibraut, hún hverfur í smástund og kemur svo allt í einu í ljós aftur og finnst það mjög fyndið. Reynum að breyta aðeins til endrum og eins. En varðandi loftárásirnar þá hrynja nú akorn úr öllum eikum hér í Cardiff. Ef kemur vindhviða þá heyrir maður smellina allt í kring, standi maður undir eik, sem n.b. er ekkert mjög ólíklegt hér sé maður úti á annað borð. En ég hef ekki frétt af neinum meiðslum.
Annars kom ný tölva í hús í gær, glæsilega silfurlituð frúartölva. Ég held áfram að hökta á Imbunni, ekki nema rúmir þrír mánuðir eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.9.2006 | 11:51
Reykingabann í apríl
Nú eru allar líkur á að bann við reykingum á opinberum stöðum taki gildi hér í Wales 2. apríl á næsta ári (frétt BBC). Þetta er u.þ.b. ári á eftir Skotum og sama dag munu N-Írar sennilega gera slíkt hið sama. Írar voru þó fyrstir til og komu á banni 2004. Rökin: Vernda almenning og starfsmenn fyrir heilsutjóni og hugsanlega að lækka kostnað heilbrigðiskerfisins. Englendingar verða eitthvað seinni til eða næsta sumar.
Ég hef svosem ekki gert mikið af því að fara á pub hér ytra en þar er yfirleitt mikið um reykingar. Á því eru þó gleðilegar undantekningar þar sem á sumum þeirra eru reykingar kyrfilega aðskildar frá hinum reyklausu. Það er þetta með að mega gera hvað sem er svo lengi sem það kemur sér ekki illa fyrir aðra.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2006 | 19:07
Biðtími og haust
Tölvan sem við erum með hér í Cardiff er komin á tíma. Hún er orðin rúmlega fjögurra ára og þolir illa orðið að nema eitt kerfi sé opið í einu, missi maður einbeitinguna og opni annað forrit þá tekur við biðtími. Það vill til að maður er ekki á háu tímakaupi þessa dagana. Nú er enda búið að panta nýja vél hjá Dell Inc. Í því er líka falinn stórgróði, því fartölvur hér eru um helmingi ódýrari en heima, skil reyndar ekki af hverju en svona er þetta nú. Og það er ekki hægt að rekja þennan mun til mismunandi ábyrgðar eða sérlega hagstæðs gengis hér ytra, sú tíð er liðin.
En annars gengur lífið sinn vanagang. Haustið er milt og gott, kaldara á nóttunni en á daginn fer hitinn í 20 stig. Lítið um haustliti á gróðri ennþá, meira að segja rósir enn að blómstra. Ferðalög af okkar hálfu hafa að mestu lagst af og óvíst hversu mikið verður um slíkt fram að heimför. Við erum reyndar á höttunum eftir miðum á heimaleik hjá mínu liði á nýjum Emirates Stadium. Vaknaði allt í einu upp við vondan draum að það er ekki hægt að fara heim án þess að skella sér á leik. Svo á maður líka eftir að fara á heimaleik með Cardiff, aldrei að vita nema þeir sigli upp í Úrvalsdeildina að ári.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2006 | 16:17
Grænir háskólar og "grænar" gallabuxur
Rakst á þessa grein á Seattle Post-Intelligencer um hvernig University of Washington hefur mjakast í átt til meiri sjálfbærni. Í háskólaþorpinu er notuð jarðgerð á matarafgöngum til að útvega mold á blómabeðin, starfsfólk ekur um á "hybrid" bílum, matur í mötuneytum er framleiddur "locally" og boðið upp á lífrænt vottaðan mat, eingöngu er notuð vindorka eða orka frá vatnsorkuvirkjunum og mikið lagt upp úr endurvinnslu á sorpi. Auðvitað á að nýta háskóla meira og það hugvit sem þar er til að þróa sjálfbær samfélög, hugmyndafluginu eru engin takmörk sett og fjölmargir hausar að verki.
Svo er Levi Strauss koma með nýja línu af gallabuxum, "eco"gallabuxur, unnar úr lífrænt vottaðri bómull, lituðum á náttúrulegan hátt og merkimiðinn er jafnvel úr endurunnu efni og soyablek notað til merkinga. Og hvað kostar svo línan? 250 dollara stykkið eða 17 þús kall. Enda er markhópurinn s.k. "upscale shoppers". Stykkið myndi kosta milli 30 og 40 þús. á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2006 | 13:22
Hjálmur eða ekki hjálmur?
Þetta eru alvarleg tíðindi. Mér þykir reyndar á stundum nóg um nálægð við bíla hér í Cardiff, skekkti reyndar einn spegil í gær en á kyrrstæðum bíl.
Annars er fínt að hjóla hérna í vinstri umferðinni, þó lítið sé um velgjörning við hjólreiðamenn.
Ökumenn taka minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 24346
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar