Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Er eitthvað að tilfinningum?

Þetta viðhorf hefur einkennt Framsóknarflokkinn, það á ekki að láta stjórnast af tilfinningum. Hm, hvað eru þessar tilfinningar? Mér finnst eitthvað, óháð vísindum eða hagrænu gildi, er það þá rangt? Ég er t.d. viss um að hæstvirtur utanríkisráðherra hefur mjög djúpar tilfinningar gagnvart sínum heimahögum, sem öðrum finnst kannski lítið til koma. Henni þykir e.t.v. fallegt að sjá kindur á afrétti, þar sem öðrum finnst að það eigi alls ekki að vera kindur, og sem er e.t.v. alls ekki vísindaleg eða hagræn rök fyrir. 

Sömu rökin voru notuð af framsóknarráðherrum í umræðu um Kárahnjúkavirkjun, of mikil tilfinningasemi, menn láta stjórnast af tilfinningum. Hvenær láta menn ekki stjórnast af tilfinningum? Ég hef oft kallað stefnu framsóknarflokksins, "miðstýrða skynsemi". Því skynsemi er jú aðallega háð því hver metur hvað telst skynsamlegt. Eins og t.d. skynsamleg nýting auðlinda og náttúru. Það sem Framsóknarmenn telja telja skynsamlegt er þá rétt val. Annað er ekki skynsamlegt.

Burtséð frá þessu nöldri í mér þá er ekki nefnt neitt um hagræn rök í þessari frétt en það er kannski í fréttinni á Reuters. 


mbl.is Of mikil tilfinningasemi ríkir gagnvart hvalveiðum segir utanríkisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík uppgötvun

Þetta hefur vegfarendum um þennan veg verið ljóst ansi lengi en það er vonandi að hinn magnaði samgönguráðherra og hans lið taki þetta alvarlegar en hinn gríðarlega fjölda umferðarslysa sem verður á þessum hryllilega vegi. Þau virðast ekki hafa haft mikil áhrif á forgangsröðunina hingað til. 
mbl.is Telur að skilja verði að umferð úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallelúja!

Það er ekki að sjá að gagnrýnendum núverandi styrkjakerfis í landbúnaði á Íslandi hafi verið boðið að taka þátt í þessari ráðstefnu, a.m.k. ekki sem frummælendur. Kerfis sem bindur bændur í klafa tveggja búgreina þannig að erfitt eða ómögulegt er að stunda nýsköpun. Það er fleira landbúnaður en mjólk og lambakjöt. Það er þessi þrönga nálgun styrkjakerfisins sem mér finnst gagnrýniverð og hún gefur bændum ekkert frelsi til að vinna innan rýmri ramma, leita nýrra leiða til að hafa arð af sínu landi. Bein framleiðslutenging styrkja verður einnig að telja gagnrýniverða, sífellt færri fá stærri hluta af styrkjunum. Rekstrarhagkvæmni? Ég get ekki séð að málið snúist alfarið um rekstrarhagkvæmni þegar svo stór hluti tekna er fenginn með styrkjum. Þetta er ekki spurning um hvítt eða svart, landbúnað eða ekki, heldur margþætt markmið, byggð, mannlíf, menningu, umhverfi og þekkingu svo dæmi séu tekin. Ekki að stefna að stærri búum, sem bitnar á velferð dýra, umhverfis og síðan fólks, eins og sést allsstaðar í kringum okkur. 
mbl.is Húsfyllir á fundi um landbúnaðarmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel rekin stofnun

Þessi frétt er aldeilis ótrúleg. Nú þekki ég ekkert til reksturs sjúkrahússins á Akranesi og það er örugglega mjög vel rekið sjúkrahús, a.m.k. hef ég ekkert heyrt um það nema gott. En í fréttinni kemur fram að hallarekstur hafi verið á stofnuninni á síðasta ári og því farið fram á aukafjárveitingu á fjáraukalögum. Einhver myndi segja að það væri ekki vel rekin stofnun sem væri rekin með halla. En síðan er vitnað í Guðjón frjálslynda og Gísla bæjarstjóra þar sem þeir segja að verið sé að refsa stofnun sem er vel rekin. Geta þá ekki allir sagt að stofnun sem rekin er með halla sé vel rekin? Það vantar eitthvað í þessa frétt.
mbl.is Óska eftir viðræðum við fjárlaganefnd vegna SHA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orku/olíufyrirtækin að skipta um lið?

Fréttir utan úr heimi herma að stóru orkufyrirtækin eins og Shell og Exxon séu að kyngja loftslagspakkanum, hætti að styrkja efasemdarhópana og beini fjármagni þess í stað að rannsóknum á mótvægisaðgerðum. "Það þýðir ekki að deila við 98% vísindamanna." segir talsmaður Shell í grein í Washington Post. Þessi skyndilega umpólun hjá fyrirtækjunum á einkum rætur að rekja til tvenns. Þau fyrirtæki sem starfa í Bandaríkjunum kalla eftir samræmdri alríkislöggjöf en löggjöf í dag er orðin mjög mismunandi eftir ríkjum innan BNA, "það er ekki hægt að vinna eftir 50 mismunandi stefnum". Og, úrslit þingkosninganna í Bandaríkjunum gera það mikilvægara fyrir þessi fyrirtæki að kaupa sér grænni ímynd hjá hinum nýja meirihluta demókrata, sem þykjast ætla að beita sér í loftslagsmálunum ólíkt repúblikönum. Það vill ekkert fyrirtæki reka lestina í því að koma fyrir þingnefnd og biðja um sinn hluta af nýbakaðri köku, hver sem uppskriftin verður að henni.

Það eru fleiri að hugsa sér til hreyfings en orkufyrirtækin. Fiðrildi sem annars hafa haldið sig í Suður Evrópu hópast til Finnlands og rekstraraðilar skíðasvæða sækja um land ofar í fjöllunum. Ísbirnir við Hudsonflóa horast og þeim fækkar. Orkufyrirtæki sem reka vatnsorkuvirkjanir sjá fram á ný vandamál, sjór bráðnar fyrr, það rignir meira á veturna, minna rennsli er í ám yfir sumarið og skortur á rafmagni í þurrum heitum sumrum. Líka í Washington Post

Almennt hafa margar plöntu- og dýrategundir auk samfélaga manna hafa orðið fyrir talsverðum áhrifum af breyttu loftslagi, sem þýðir að úrlausnarkostnaðurinn, sem Nicholas Stern og fleiri reiknuðu út, er byrjaður að safnast upp.

Nú er fyrir dómi í Bandaríkjunum mál nokkurra ríkja gegn EPA (Umhverfisstofnun BNA) þar sem þau vilja skilgreina koldíoxíð sem mengunarefni. Þannig fellur það undir s.k. Clean Air Act (Andrúmsloftslögin) og verður alríkismálefni. Það þýðir að setja þarf alríkislög um efnið. Hefði þótt fáránlegt fyrir nokkrum árum þar sem koldíoxíð er vægast sagt algengt í miklu magni og nauðsynlegt lífi á jörðinni. 

 


Technical error og forsjárnefndatilhneiging

Ég hef í mörg ár verið þeirrar skoðunar að Spaugstofan eigi að vera hætt. Vissulega hafa þeir dottið niður á góða spretti en heilt yfir hefur verið þreyta í gríninu. Horfði á þáttinn frá síðasta laugardegi og verð að viðurkenna að þeim tókst bara vel upp. Árni Johnsen fékk sinn skammt og forsjárnefndatilhneigingin líka.

Að þessu tvennu: Það er sjálfsagt að menn fái annað tækifæri en að þeir séu lýðræðislega valdir til að setja lög og leikreglur fyrir alþjóð og höndla með almannafé eftir að hafa gerst sekir um að vera óhæfir til þess segir kannski meira um okkur sem þjóð en um viðkomandi einstakling.

Varðandi mannanafnanefnd, þá er hún gjörsamlega óþörf. Það er altént jafnþarft að hafa getnaðarvarnanefnd, sem ákveður hvaða foreldrar eru hæfir til að elska börnin sín nægilega. Eða mataræðisnefnd sem fer á milli heimila og skoðar matinn sem er á borðum og segir til um hvað megi borða og hvað ekki.


Hverjir fá landbúnaðarstyrkina?

Það er allrar athygli verð þessi stutta frétt í Fréttablaðinu þar sem greint er frá því að þriðji ríkasti maður Finnlands hirði um 14 milljónir króna af opinberum styrkjum til landbúnaðar í Finnlandi á ári. Það segir einnig frá því að finnsku Bændasamtökin berjist gegn því að upplýsingar um þá sem þiggja landbúnaðarstyrki í Finnlandi verði birtar opinberlega. 

Veit einhver hverjir fá landbúnaðarstyrkina á Íslandi og hversu mikið hver fær? Gæti verið fróðleg lesning. Eru nokkuð bankastjórar og forstjórar þar á meðal? Það er nákvæmlega sama laumuspilið með ráðstöfun þessara peninga á Íslandi og í Finnlandi. Og ekki bara það, heldur er öll stefnumótun um það hvernig þessum miklu fjármunum skuli varið bundin pínulítinn hóp manna sem sitja í lokuðu herbergi og búa til stefnu næstu 5-10 ára. Lýðræði? Almannafé? Laumuspil? Hljómar kunnuglega.

Á heimasíðu velska byggða- og umhverfisráðuneytisins er listi yfir þá sem fá styrki til landbúnaðar í Wales og hversu mikið hver og einn fær. Þetta eru í rauninni stórmerkilegar upplýsingar, ekki síst þegar horft er til þess laumuspils sem er um þessi mál víða annarsstaðar.

Ég er hissa á að enginn blaðamaður nýti sér upplýsingalögin og óski eftir aðgangi að þessum upplýsingum, því þau varða almannahagsmuni, um er að ræða ráðstöfun á almannafé. En kannski einhver hafi gert það. Væri fróðlegt að sjá úrskurð Persónuverndar. 


Þróunarverkefni á sviði jarðvegsverndar!

Þetta er talsvert merkilegt, segi ég sem hef starfað í þessum geira s.l. 10 ár. Þarna er eitt af sérsviðum Íslendinga og getur táknað útflutning á þekkingu og tækni. Þetta mun án efa líka verða til þess að efla þetta fagsvið innanlands. M.v. stöðu jarðvegsverndarmála í heiminum í dag er ljóst að verkefni á þessu sviði eru komin til að vera. 
mbl.is Íslendingar í þróunarverkefni á sviði jarðvegsbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirbyggjandi þróun?

Þetta er áhugaverð þróun á þessu annars aríska skeri. Mikil umræða er um blandaða skóla hér í Bretlandi um þessar mundir og nú síðast var lagt til að s.k. "faith schools" þar sem eingöngu eru börn  af tilteknum trúarhópum, þurfi að leyfa aðgang annarra trúarhópa. Ástæðan, fyrirbyggjandi aðgerðir til að minnka fordóma á milli trúarhópa. Það voru viðtöl við foreldra og kennara og afar mismunandi viðbrögð. Þeir sem áttu börn í trúarskólunum virtust lítinn áhuga hafa á blöndun. En hvað er betur til þess fallið að ala á fordómum en skólar þar sem kennt er í anda einna tiltekinna trúarbragða.

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé betur til þess fallið til að stuðla að minni fordómum en skólakerfi þar sem börn af mismunandi litarhætti og af mismunandi trú blandast saman og umgangist hvert annað frá degi til dags. Hef skrifað um þetta áður. Þau eru jú ekki fædd með þessa fordóma en fá þá frá sínu nánasta umhverfi, frá t.d. foreldrum. Þetta gerir þó gríðarlegar kröfur á skólakerfið og kennara. Það þarf að virða sjónarmið mismunandi hópa en þó ekki láta það stjórna skólastarfinu, sem er víst nokkuð mjó lína. 

Auðvitað má búast við einhverjum byrjunarörðugleikum þar sem þróunin er svona hröð eins og í Fellaskóla en yngstu börnin eru að öllu jöfnu fordómalaus. 

Til að gera þetta enn betra ætti að nota skólabúninga.  


mbl.is Nærri 40% barna í sumum skólum af erlendum ættum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bisness as usual?

Íslendingar eru merkileg þjóð. Nýleg ákvörðun um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni hefði víðast hvar í heiminum vakið harkaleg viðbrögð borgaranna og löndun á langreyði hefði verið vettvangur mótmæla einhvers hóps þeirra sem telja um siðleysu að ræða. Þess í stað blogga Íslendingar um hið efnahagslega, líffræðilega og siðferðislega hneyksli sem þeim finnst hvalveiðarnar vera og láta þar við sitja. Útlendingar eru látnir um hin róttæku mótmæli. Fréttirnar hér ytra gefa í skyn að þjóðin sé klofin í herðar niður í viðhorfum gagnvart hvalveiðum. Hvar kemur það fram? Á blogginu. Viðtöl við ráma og skræka talsmenn hvalveiða og umhverfisverndar gefa þá mynd að ekkert hafi breyst á 20 árum. 

Mín skoðun er sú að það sé í lagi að veiða hvali sé það metið sem arðvænleg atvinnugrein, m.t.t. allra þátta, og séu hvalir drepnir á kvalalausan/lítinn hátt. Hún er hins vegar illa samræmanleg við ferðamannaiðnaðinn eins og hann er, nema hvalskoðunarfyrirtæki einbeiti sér að Asíu, sýni Japönum hvaðan maturinn kemur, gefi þeim síðan hrátt hvalkjöt um borð og aftur þegar þeir koma í land.

Hvað er siðlausara við að veiða hval með sprengiskutli en lax með öngli? Ég bara spyr. Báðar aðferðir bjóða upp á kvalir. Báðar tegundir eru viðkvæmar vistfræðilega. Hvað með rjúpnaveiði? Rjúpur geta sloppið særðar og kvaldar. En hvað erum við að borða svona almennt? Dýr sem líður almennt vel? Nei.

Það er svolítið gaman að lesa umfjöllun um Íslendinga í tengslum við hvalveiðar á ýmsum netmiðlum. Víða eru þær settar í samhengi við sjálfstæði þjóðarinnar og útþenslu landhelgi. Og auðvitað má rekja þessa umdeildu hvalveiðiákvörðun til þjóðerniskenndar að nokkru leyti. Við erum lítil en stolt þjóð sem tekur ákvarðanir byggðar á eigin forsendum. En í öðru leggjumst við síðan í duftið og fylgjum í fótspor þeirra sem eiga peningana og hafa valdið. Skrýtið!


mbl.is Hvalur 9 kominn að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband