Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sumarfríið búið, í bili

Kominn aftur til vinnu eftir ágætt sumarfrí sem að mestu var tekið út í sveitinni, eins og það er oftast kallað á mínu heimili. Tekið á því, girðingarvinna, mála þak, smá heyskapur, smíða pall o.fl. Dálítil veiði en fulllítil til að láta staðar numið. Stefni því á að veiða eitthvað einhversstaðar um Verslunarmannahelgina. Ég fann fyrir því að vera alveg tilbúinn að fara aftur að vinna, sem er jákvætt.

Svo tókum við upp á því að panta ferð til Portúgal í september. Þangað hef ég aldrei komið. Þetta verður svona fjölskylduferð og framlenging á sumrinu.


Gullkorn dagsins í gær

Dóttir mín (og konu minnar) fékk minnismiða frá ömmu og afa í gær, auk forláta blýants. Það fyrsta sem hún gerir þegar heim er komið er að ydda blýantinn, setjast við eldhúsborðið og skrifa á fyrsta miðann: "ég heiti Margrét Júlía ég er sérstök maneskja og mjög fræg Heart Heart Heart Heart Heart Heart ". Frábært.

Fyrsta vikan

Nú er fyrsta vikan hjá nýjum vinnuveitanda að baki. Smá viðbrigði, rík arðsemiskrafa, mikill sveigjanleiki, vel gert við starfsmenn í mat, drykk og heilsurækt. Aðstaðan bærileg, stór geymur með litlum hólfum. Það venst. Maður fylgist bara betur með því sem er í gangi. Svo nýtir maður fundaherbergi til að fá meira næði. ÉG endaði vikuna á körfuboltaæfingu með nokkrum samtarfsmönnum. So far er ég sáttur.

Vista- og búsetuskipti

Jæja, þá er komið að því. Kallinn að skipta um vinnu og fjölskyldan að flytja aftur í bæinn. Ekki bjóst ég nú við því fyrir nokkrum mánuðum síðan. En svona er lífið, uppfullt af beygjum og breytingum sem maður bregst einhvern veginn við. Annars er fínt að vera hérna á Selfossi, rólegt og fjölskylduvænt. Tengslin við bæinn eru hins vegar lítil og hér eru engar rætur. En ég er spenntur að skipta um vinnu, nýr kúltúr og ný viðfangsefni.

Það er allt útlit fyrir að við flytjum í Kópavoginn, tilboði okkar í íbúð í Blásölum var tekið og það ekki síðar en 15. ágúst. Þangað til eru ekki margir dagar. Þá er bara að vona að pláss fáist fyrir Birnu í leikskóla og að Margréti falli vel skólagangan í Salaskóla.

 


Dear Elsa, hættu núna!

Eftir markvissar umræður þriggja eiginmanna jafnmargra hjúkrunarfræðinga þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu að kjarabarátta hjúkrunarfræðinga hefur minna en engan árangur borið. Þetta þýðir jafnframt það að forysta hjúkrunarfræðinga hefur brugðist þeim í því að berjarst fyrir því að fagstéttin húkrunarfæðingar fengi þá viðurkenningu sem henni ber. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart að forystunni mistekst að brjótast út úr hinni hefðbundnu skilgreiningu á starfinu. Kennarar eru annað dæmi. Hjúkrunarfræðingar eru stórkostleg stétt sem heldur samfélaginu saman þegar eitthvað bjátar á hjá okkur hinum "almenna Jóni".  Þær, því langflestar eru þær konur, sinna okkur af fagmennsku, greina það sem okkur bagar, hlusta á vælið í okkur, og segja okkur hvenær rétt sé að koma okkur af stað aftur í vinnu. Enginn hefur sinnt því að meta ávinninginn af starfi þessa fólks en þess í stað einbeitt sér að kostnaðinum. Því segjum við það, þrír eiginmenn jafnmargra hjúkrunarfræðinga, skiptið um forystu í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sóknarfærin eru fyrir hendi, lítið á ykkur sem vel menntaða fagmenn og fyllið stétt ykkar stolti. Við, þessir þrír eiginmenn, hvetjum alla sem staddir eru í svipuðum sporum að setja inn athugasemd, því það er okkar mat að nú sé kominn tími fyrir nærstadda að taka höndum saman og knýja á um nýja forystu í félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga svo kjarabaráttan skili einhverjum árangri. Látið í ykkur heyra. 

og aftur byrjaður að vinna!

Hver hefði trúað  þessu? Ég er aftur byrjaður að vinna, yngri dóttir mín alveg steinhissa í morgun þegar ég var bara farinn í vinnuna. Vinnur pabbi? 

Hér hefur lítið breyst, sama skrifstofan, sami stóllinn, sama skrifborðið, í stórum dráttum sama fólkið. En smá spenna að takast aftur á við líf utan veggja heimilisins. Undarlega orðað en nokkuð rétt. Aftur kominn með gemsa og prívatlífið því að mestu undirlagt en ég er samt nokkuð duglegur við að slökkva á þessu kvikindi.

 


Komin!

Nákvæmlega ári síðar erum við komin heim á klakann. Mála íbúðina og flytja svo inn.

Tvær vikur

Nú eru tvær vikur í brottför, tvær örstuttar vikur. Þá þarf að setja upp skipulegan matseðil þannig að allt klárist úr skápunum. Það virðist vera nokkuð gott jafnvægi í birgðunum núna, helst að mikið sé til af niðursoðnum tómötum og núðlum. Ekki vandamál að koma því í lóg. Þetta ætti því að geta verið nokkuð eðlilegur matseðill. Ekki hakk í sjö daga og kjúklingabringur í sjö eða kartöflur í morgunmat, hádegismat og kvöldmat.

Við seldum garðhús stelpnanna í gær svo sá pakki er að baki. Ótrúlega vel heppnuð sala, nokkrar ókeypis auglýsingar, eitt símtal og selt! Engar aðrar fyrirspurnir. 

Það er kominn fiðringur í mann að koma heim, byrja aftur að keyra bíl, byrja aftur að reka bíl, sofa aftur í rúminu sínu, borða aftur af diskunum sínum. Það er gallinn við að vera svona stutt í útlöndum og leigja með húsgögnum að maður á varla heima, maður er alltaf með eitthvað í láni. Það er ekki lagt í fjárfestingar eða innkaup á húsmunum. En sumsé, það verður gott að koma heim í verðbólgu, myrkur og kulda, smáborgaralega umræðu um allt og ekkert, yfirborðslega fréttamennsku, litla innlenda dagskrárgerð, dýran mat, vín og bjór og síðast en ekki síst, að heyra íslenska ilhýra tungu á nýjan leik. 


Grasekkill!

Nú er konan farin, tók bara leigubíl kl. hálfsjö í morgun og bless. Ekki svo að skilja að hún sé alfarin, nei bara að skreppa heim í brúðkaup, kemur aftur á sunnudagskvöld. Tók með sér slatta af farangri sem annars hefði orðið yfirvigt við alvöru heimför þann 22. des. 

Við stelpurnar verðum því ein heima yfir helgina og finnum okkur eitthvað til dundurs. Svona hæfileg fjarvera maka styrkir bara sambandið. Gott að þurfa að vera einn því þá finnur maður að maður er ekki nema hálfur.


Að klæða af sér veðrið

Regngalli frá 66°N

Það er varla í frásögur færandi að ég og stelpurnar fórum sem oftar á leikvöllinn til að fá frískt loft og bæta matarlystina. Veðrið kalsi og gekk á með rigningarhryðjum, blandað hagléli. Reytingur af fólki á ferli og fá börn. Stelpurnar voru í sínum regngöllum og stígvélum eins og venja er til á Selfossi þegar fólki er att út í slagveður. Slíkur búnaður tíðkast ekki hér í Wales. Regnhlíf er látin duga og fólk virðist líta á það sem sjálfsagðan hlut að gegnblotna þegar rignir á ská. Enda þegar gerði næstu hryðju þá hurfu allir af vettvangi á spretti. Það er þó ekki eins og rigning sé hér óvanaleg frekar en annarsstaðar í Bretlandi. Hér mun vera rigningarvottur u.þ.b. annan hvern dag að meðaltali. 

Mér dettur því í hug hvort nokkrar markaðsrannsóknir hafi verið gerðar á því hvort bretar séu fúsir til að kaupa regnfatnað líkan þeim sem framleiddur er á Íslandi af t.d. 66°N. Það væri fróðlegt að vita. Bretar eru jú íhaldssamari en flest annað fólk. En hér eru allar aðrar aðstæður fyrir hendi, mikil rigning, fullt af fólki o.s.frv.

En það spáir sumsé áfram vætu.  


Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband