Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Graskersbakan orðin að raunveruleika

Það ætlunarverk mitt að baka graskersböku tókst í dag. Ekkert mál. Bragðið afar jólalegt, kanill og negull. Minnir mig á Las Vegas fyrir sex árum síðan en þá héldum við heittelskuð upp á jólin á Stratosphere hótelinu í Vegas á 10 daga ferðalagi okkar um vesturhluta BNA. Borðuðum m.a.s. jólamatinn uppi í turninum.

En semsagt ef þig lesandi góður langar til að búa til graskersböku þá er ferlið útskýrt nokkuð vel á þessari síðu. Og ekkert mál að nota smjör og venjulega mjólk. 


Bakfærslur og tjón

Verð að hrósa VISA Ísland fyrir bara ágæta þjónustu. Á kreditkortið mitt voru komnar 7 færslur upp á alls um 27 þús. kr. á 10 daga tímabili, sem ég nb kannaðist ekki við. Ég lét loka kortinu og eftir fjóra daga var búið að bakfæra allar þessar færslur. Það var nú meira en ég bjóst við. Þeir mættu hins vegar bjóða manni uppá að senda tölvupóst vegna yfirlits yfir færslur sem maður kannast ekki við, á heimasíðunni hjá sér. Það er ekki rétta öldin til að ætlast til að maður faxi svona skjöl. 

Annars er þungbúið hér í Cardiff þennan morguninn, þoka en hlýtt. Hins vegar spáir kólnandi og þeir segja veturinn á leiðinni. Kannski ég þurfi að setja á nagla.

Ég lenti í tjóni í morgun. Var nýbúinn að kaupa mér lugt á hjólið og ætlaði að kveikja á henni í þokunni. Það tókst hins vegar ekki betur til en svo að hún datt af og áður en ég náði til hennar þá keyrðu yfir hana um 10 bílar. Þetta var talsvert tjón því um góða lugt var að ræða, sem jafnframt mátti nota sem vasaljós. Þetta mun kosta einhver fjárútlát því ljós á hjóli er sjálfsagður öryggisbúnaður á þessum árstíma. 


Rafmagnslaust

Það stefndi allt í hefðbundið kvöld hér í gær en þá slokknaði á öllum ljósum, nema á skjá fartölvunnar. Rafmagnslaust! Ljósgeislar sáust skjótast um hús nágrannanna, vasaljósin á lofti, sígarettuglóð og kertaljós. Auðvitað kom rafmagnið fljótlega á aftur en þetta var dálítið sjarmerandi, minnti mig á sveitina þegar varð rafmangslaust reglulega og mitt helsta áhugamál var að brenna blýanta í kertaloganum. Var alltaf með sótuga blýanta í pennaveskinu. 

Það er hins vegar gott fyrir okkur nútímamenn á auðugum vesturlöndum að venjast rafmangsleysinu. Orkukreppan alltaf að skella á, bæði vegna takmarkaðrar þekkingar á að nýta orku og einnig vegna hýnandi loftslags. Hlýnun getur líka kallað á mikla orkunotkun, orku til að kæla, a.m.k. í okkar orkuháða heimi.

En við hjónakorn hjúfruðum okkur saman þrátt fyrir rafmagnið og horfðum á Phillip Seymour Hoffman leika Truman Capote í nánast samnefndri mynd, einn af mínum uppáhaldsleikurum.

En varðandi veðrið, sem mér finnst svo gaman að blogga um, þá er sól og allt blautt. Spáir haugarigningu en ómögulegt að vita hvort eða hvenær hún kemur, sífellt verið að aflýsa rigningu hér, eins og áður hefur komið fram. En ég kann þessu vel, óvissa eykur aðlögunarhæfni. Íslendingar þekkja það þjóða best. 


Ahhh....

Hollensk sveit

Alltaf best að vera í faðmi fjölskyldunnar. Það finnur maður best eftir fjarveru, annars er eitthvað ekki í lagi. Holland var flatt að vanda, þó ég hafi þarna séð óreglulegasta hluta þess, í suðaustur horninu, einskonar botnlangi niður á milli Belgíu og Þýskalands. Ráðstefnan var skemmtileg og fróðleg. Hið ágætasta fólk. Wageningen er skemmtilegur smábær, 30-40 þús manns og allt meira og minna í kringum háskólann. Í Hollandi fæst góður bjór og góður matur. Verst að þarna getur allt verið á floti fyrirvaralaust, ekki í bjór, heldur í vatni, ýmist frá hafi eða eftir rigningar. 

Fyrirlesturinn minn gekk bara vel, studdist nánast ekkert við handritið en kom flestu frá mér skammlaust. Var reyndar spurður að því við kvöldverðinn á eftir hvaða hvíti flekkur þetta hefði verið á kortinu sem ég sýndi. Ég skildi spurninguna ekki strax en brátt kom í ljós að þarna var um að ræða stærsta jökul Evrópu, sem ekki allir áheyrendur áttuðu sig á. 

En hér í Cardiff er komið haust, rigningar og kólnað talsvert. Haustlitir eru komnir á sumar trjátegundir og ég er kominn í langerma peysu. Semsagt óhrekjanleg merki haustsins. 


Holland

Ég flýg til Hollands í fyrramálið, tek síðan lest til Wageningen og verð þar á ráðstefnu um bændur og jarðvegsvernd fram á þriðjudag. Skelli fram einu erindi sjálfur, er orðinn hálf ryðgaður í þessu en ágætt að fá tækifæri til að dusta rykið af fræðunum. Það verður skrítið að vera án kvennanna minna svona lengi en vonandi verður þetta góð stefna og skemmtilegt fólk svo tíminn verði fljótur að líða. Annars hef ég aldrei komið til Hollands, ekki einu sinni millilent svo þetta er jómfrúrferð hjá mér. Svo er gaman að prófa alþjóðaflugvöllinn, sem er hér skammt vestan við Cardiff. 

Wish me luck! 


Hjálmur eða ekki hjálmur?

Þetta eru alvarleg tíðindi. Mér þykir reyndar á stundum nóg um nálægð við bíla hér í Cardiff, skekkti reyndar einn spegil í gær en á kyrrstæðum bíl.

Annars er fínt að hjóla hérna í vinstri umferðinni, þó lítið sé um velgjörning við hjólreiðamenn.


mbl.is Ökumenn taka minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólreiðar, göngur og réttir

Alveg ljóst að hjólreiðar jafnast ekki á við göngur og réttir. Var að sannreyna það í morgun, hjólaði yfir að á og niður með henni spölkorn. Fátt um fénað annað en ættbókarfærðir hundar. Vel gróið með ánni en ekki kind að sjá. Þá er betra að vera ríðandi með pela í vasanum, hóa og hrópa í góðra manna hópi. Eini gallinn við göngur eins og ég þekki þær er gangan og sumar kindur, annars eru þær fullkomnar. Nú verð ég að fara í göngur að ári, er búinn að missa úr tvö ár í röð. 


Haustar?

Áreiðanleg mæling hér á bæ sýnir að birtutíminn hér í Wales styttist. Mælingin byggist á því að sest er upp í rúmið hennar Margrétar laust fyrir kl. 8 pm og lesinn Benedikt búálfur. Á þriðjudagskvöld þurfti að kveikja ljós og það hefur gerst ítrekað síðan. Er það í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. Sama gerðist í morgun en þá sá undirritaður ástæðu til að kveikja ljós laust eftir kl. 7 am og er það einnig í fyrsta skipti síðan einhverntíma í vor. 

En rósirnar eru enn að blómstra og nú eru komin allskyns ber og ávextir á tré og runna hér syðra. Það er algengt að sjá "blackberries" vítt og breitt, andstyggilegir runnar sem vaxa eins og andsk. með bogna og hvassa þyrna. Eplatré og plómutré í næstu görðum og svo mætti áfram telja. Þetta er óneitnalega skemmtileg tilbreyting. 

Svona til fróðleiks, þá hefur sala á 4x4 bílum dregist saman hér í Bretlandi, í fyrsta skipti í a.m.k. 10 ár. Umræða um umhverfismál er talin hafa áhrif auk verðs á eldsneyti. Nú er að verða "út" að aka um á s.k. "Chelsea tractor" innan borgarmarka og jafnvel talið að t.d. börn, sem eru oft á tíðum betur meðvituð um umhverfismál en foreldrar þeirra, vilji ekki láta sjá sig í jeppa, skammist sín fyrir það. En fáir markhópar munu áhrifameiri en börn, hvað varðar innkaup foreldranna. 

Aðeins meira um árstímann, þá fengum við kúrbít og kál frá Riverford bænum í vikunni. Einnig voru gulrætur, chili, tómatar og kirsuberjatómatar í kassanum, allt ræktað í UK. Þetta eru frábærar vörur og við hjón vorum sammála um að kirsuberjatómatarnir stæðust þeim frá Akri í Biskupstungum alveg á sporði, og er þá mikið sagt. 


Hin fullkomna netverslun

Delivery van

Í dag fór fram hér á Everard Way það sem ég myndi kalla hina fullkomnu netverslun, reyndar að því tilskildu að menn geri ráð fyrir að alltaf verði einhver mistök. Sem sagt, fullkomið, sé gert ráð fyrir að mistök verði. 

Við áttum von á heimsendingu frá Sainsburys, en þangað höfum við fært viðskiptin í auknum mæli. Sé verslað yfir 70 pund þá er heimsending frí. Það sparar 5 pund. Við verslum orðið aðra hverja viku á netinu og því er þetta okkur hagstætt. Annars er óvíst að hin vikulega verslun væri meiri en 70 pund. En allavega, Sainsburys býður upp á afhendingu á klukkutíma tímabilum, t.d. milli kl. 11 og 12. Samkeppnisaðilarnir eru með tveggja klst. tímabil. Í morgun seinkaði bílnum eitthvað svo þeir náðu ekki hingað fyrir kl. 12 og reyndar seinkaði þeim svo að þeir misstu af mér, var farinn út þegar þeir komu. Ég hringdi í þá eftir að ég kom heim og bíllinn birtist hér 15 mín. síðar með allar vörurnar og, rúsínan í pylsuendanum, við fengum afsláttarmiða af næstu netinnkaupum uppá 10 pund. Geri aðrir betur. Tesco og Asda hafa ekki sýnt viðleitni í þessa átt. Það er því ljóst hvert við beinum viðskiptum okkar á næstu vikum. Svo er Sainsburys heldur "grænni" aðili en hinir.


Fjárhundar og Bowls

Bowls

Ponty stóð fyrir sínu, fallegur garður, reyndar lítið um smakkmat, smá tívolí, róló, fjárhundasýning, hannyrðir, steinbrú og þröngar götur. Brautarpallurinn er líka afar langur. Það var lítið sem minnti á Tom Jones en dagurinn var engu að síður ánægjulegur, hæfilega langt ferðalag og endað á því að grilla breskar kótilettur hérna heima en þær gefa hinum íslensku ekkert eftir, þó ég segi sjálfur frá. Meira kjöt á beinunum þar. 

Svo náði ég nokkrum myndum af eldri/heldri borgurum spila Bowls í Ponty. N.k. útibossía, afsakið stafsetn. Allir klæddir í hvítt, eins og í krikket. Völlurinn rennisléttur en gras og hæfilega stór til að hann megi ganga enda á milli á stuttum tíma. Eins og ég hef skrifað um áður þá tel ég að þessa íþrótt megi vel innleiða á Íslandi, hana má spila innan húss og utan. Það mætti setja velli við helstu öldrunarstofnanir landsins, fyrirtaks hreyfing. Slíkt myndi kosta svipað átak og s.k. "sparkvellir" en þjónaði öðrum aldurshópi. 

Veður, stillt og rakt, um 20 stiga hiti og stefnir í 26. Ætti að haldast þurr í dag.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband