Færsluflokkur: Matur og drykkur
10.12.2006 | 14:51
Góður kalkúnn mar!
9.12.2006 | 10:29
Hvaða upplýsingar fá viðskiptavinir?
Þetta er að mínu mati afar áhugavert mál fyrir Íslendinga að takast á við. Við markaðssetjum vörur erlendis, á forsendum hreinleika og heilnæms umhverfis. Engin aukaefni. Og hvað stendur á bakvið þá markaðssetningu? Sennilega stendur það nokkuð styrkum fótum sé það borið saman við framleiðsluhætti víða annarsstaðar í heiminum. Samkeppnin er hins vegar alltaf að aukast, framboð á upprunavottuðum vörum eykst og kröfur viðskiptavina um upplýsingar sömuleiðis. Við tökum öll ákvarðanir um hvað við eigum að kaupa byggðar á upplýsingum og tilfinningum. Það þarf ekki mikið til að maður líti frekar til hægri en vinstri þegar tekin er vara úr búðarhillu. Örlítil vond umfjöllun um aðbúnað starfsfólks, eitt mengunarslys t.d. ecoli sýking, nú eða bara liturinn á umbúðunum, þetta hefur allt áhrif. Nú og auðvitað verðið.
Whole Foods hafa verið leiðandi í markaðssetningu á "umhverfis-, dýra- og mannvænum" vörum í Bandaríkjunum. Auðvitað snobb að nokkru leyti en það hefur virkað hjá þeim. Þessi umræða er hins vegar alltaf að vinda uppá sig. Viðskiptavinir vilja vita meira um upprunann, vistfræðina, meðferðina, aukaefni o.s.frv. Þetta eru því miklar kröfur á íslenska framleiðendur að hafa sitt á hreinu og þá sem markaðssetja vöruna. Það er lagt í mikinn kostnað við markaðssetningu í Bandaríkjunum á mjög litlu magni, og sem verður alltaf mjög lítið magn, í einni verslunarkeðju, sem síðan getur þurrkað út alla markaðssetninguna með einu bréfi, á einum degi. Á ríkið t.d. að styrkja slíka markaðssetningu, eins og það hefur gert? Er almenningur á Íslandi tilbúinn að setja skattpeningana sína í markaðssetningu á kjöti og skyri í Bandaríkjunum?
Lambakjöt er t.d. selt undir merkinu "Natural", sem hefur ákveðna þýðingu innan Whole Food. Það hefur enga þýðingu innan Bandaríkjanna að öðru leyti og þar er enginn óháður aðili sem fylgist með því hvað stendur að baki. Mér er t.d. ekki kunnugt um að nein slík vottun sé í gangi á Íslandi, heldur er því slegið föstu að íslenskir framleiðendur standist kröfurnar að baki "Natural". Þekki þetta ekki með skyrið en það væri fróðlegt að vita hvort það er einnig markaðssett sem "Natural". Það er ekkert vottunarkerfi í íslenskri mjólkurframleiðslu.
Ég ætla ekki að vera neikvæður, bara benda á að markaðssetning, á svona kröfuhörðum markaði eins og innan Whole Foods, þarf að standa styrkum fótum til að minnka líkurnar á því að mikil vinna og kostnaður við markaðssetningu sé ekki þurrkað út með einu bréfi.
Whole Foods Market: Viðskiptavinir taki ákvarðanir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2006 | 09:39
Tvær vikur
Nú eru tvær vikur í brottför, tvær örstuttar vikur. Þá þarf að setja upp skipulegan matseðil þannig að allt klárist úr skápunum. Það virðist vera nokkuð gott jafnvægi í birgðunum núna, helst að mikið sé til af niðursoðnum tómötum og núðlum. Ekki vandamál að koma því í lóg. Þetta ætti því að geta verið nokkuð eðlilegur matseðill. Ekki hakk í sjö daga og kjúklingabringur í sjö eða kartöflur í morgunmat, hádegismat og kvöldmat.
Við seldum garðhús stelpnanna í gær svo sá pakki er að baki. Ótrúlega vel heppnuð sala, nokkrar ókeypis auglýsingar, eitt símtal og selt! Engar aðrar fyrirspurnir.
Það er kominn fiðringur í mann að koma heim, byrja aftur að keyra bíl, byrja aftur að reka bíl, sofa aftur í rúminu sínu, borða aftur af diskunum sínum. Það er gallinn við að vera svona stutt í útlöndum og leigja með húsgögnum að maður á varla heima, maður er alltaf með eitthvað í láni. Það er ekki lagt í fjárfestingar eða innkaup á húsmunum. En sumsé, það verður gott að koma heim í verðbólgu, myrkur og kulda, smáborgaralega umræðu um allt og ekkert, yfirborðslega fréttamennsku, litla innlenda dagskrárgerð, dýran mat, vín og bjór og síðast en ekki síst, að heyra íslenska ilhýra tungu á nýjan leik.
28.11.2006 | 14:41
Skítugasta og hreinasta tylftin - "The Dirty Dozen"
Hér kemur pistillinn sem allir ávaxta- og grænmetisneytendur þurfa að lesa.
Í rannsókn á vegum Environmental Working Group í Bandaríkjunum voru skoðuð eiturefni, skordýraeitur, sveppaeitur og illgresiseitur, í 43.000 sýnum af mismunandi tegundum af grænmeti og ávöxtum. Tegundunum var síðan raðað eftir því hversu mengaðar þær reyndust.
Hér er listinn yfir tólf verstu tegundirnar, byrjað á verstu:
- ferskjur
- epli
- paprika
- sellerý
- nektarínur
- jarðarber
- kirsuber
- perur
- vínber
- spínat
- salat
- kartöflur
Svo er listinn yfir þær tólf hreinustu, byrjað á hreinustu:
- laukur
- lárpera (avocado)
- maís (frosinn)
- ananas
- mangó
- aspas
- grænar baunir (frosnar)
- kíví
- bananar
- hvítkál
- spergilkál
- papaya
Með því að velja matvæli af neðri listanum má minnka snertingu við eiturefni um allt að 90%. Ef hins vegar er valið af efri listanum þá má reikna með að maður komist í snertingu við 15 eiturefni á dag.
Þetta er líka vísbending um hvaða tegundir maður ætti að reyna að kaupa lífrænt vottaðar því það er jú ansi dýrt að kaupa allt grænmeti og ávexti lífrænt vottað. Auk þess er mikið af lífrænu vörunni flutt langt að og hefur því lagt að baki margar matarmílur (food miles) og hefur misst mikið af sínu næringargildi vegna aldurs.
Af hverju að hafa áhyggjur af eiturefnunum? T.d. af því að 60% illgresiseyða, 90% sveppaeiturs og 30% skordýraeiturs er krabbameinsvaldandi. Þau geta haft slæm áhrif á heilsu, taugaeitursáhrif, trufla kirtlastarfsemi og veikja ónæmiskerfið. Svo hafa þau jafnvel slæm áhrif á frjósemi karla og geta hugsanlega valdið fósturláti í konum. En þetta er nú óþarfa smámunasemi.
23.11.2006 | 17:11
Eplið, eftir tvo mánuði á eldhúsborðinu
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2006 | 09:59
Lego og hvað maður á að borða á veturna
Við lékum okkur með legókubba á verkefnisstjórnunarnámskeiðinu í gær. Það opinberaði hina ýmsu veikleika í hópnum, skortur á leiðtogahæfileikum, áætlanagerðin í molum, of lág ávöxtunarkrafa (ég reyndi að halda henni uppi) o.fl. þannig að við misstum af samningnum. Óskiljanlegt? Skiljanlega en málið snerist einfaldlega um að byggja Eiffelturn úr legókubbum eftir ferli verkefnisstjórnunar, leggja fram tilboð í verkið og vinna það á áætluðum tíma. Við klúðruðum því. En þetta var fróðlegt. Erfitt að hugsa á svona litlum skala, legókubbar.
En m.t.t. hugsjónarinnar um að borða mat með fáar matarmílur sð baki (eat locally) þá er ögrun að búa til vetrarmatseðil fyrir norðlægar slóðir. Hvernig geta t.d. Íslendingar nýtt íslenska ferskvöru sem fellur til á sumrin og haustin og geymt fram á vetur til neyslu? Við þekkjum auðvitað súrmat en það á að mestu við kjötvöru ýmisskonar, sviðasultu, hrútspunga og hvalspik. Íslendingar eru orðnir vanir því að fá s.k. ferskvöru allan ársins hring, innfluttir ávextir og grænmeti. Sú vara hefur hins vegar einkum tvo ókosti: Hún hefur undantekningalítið lagt gríðarlega margar matarmílur að baki, t.d. epli frá Chile eða Kína og hún er sjaldnast mjög fersk í þeim skilningi að það hefur liðið talsverður tími, vikur eða mánuðir síðan hún skilin frá rótum, tínd af tré eða akri. Við þetta hefur varan tapað miklu af sínu næringargildi. Að þessu sögðu þá er það verðugt verkefni fyrir íslenska matreiðslumenn og heimilistækna (húsfeður og húsmæður) að þróa og breiða út aðferðir til að sulta, pikkla, frysta og sjóða niður grænmeti og ávexti á sumrin og haustin. Kynna aðferðir til að geyma mat þannig að hann haldi sem mestu af næringargildi sínu. Með þessu erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum í þágu minni losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. í þágu náttúrunnar þ.m.t. okkar sjálfra, við erum að auka þrýsting á stórmarkaðina á Íslandi að bæta ferskleika þeirrar vöru sem er á boðstólnum, við erum að stuðla að aukinni ræktun á grænmeti á Íslandi, ýmist með því að rækta það sjálf eða kaupa það af öðrum (í nágrenninu) og fáum vonandi þokkalega ætan og fjölbreyttan mat yfir vetrartímann. Þetta þýðir reyndar að búrin, sem voru í hverju húsi hér í gamla daga, verða að koma aftur inn á teikningar fyrir íslenskar íbúðir, því þetta snýst jú dálítið um að geyma. Svo má stofna geymslufélög eða samlög, þar sem heimilistæknar taka sig saman og vinna vöruna saman og geyma í sameiginlegu húsnæði. Og svo má lengi telja........
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2006 | 17:35
Stúfur, drulla og illa heppnuð gulrótarkaka
Sunnudags hádegismaturinn tókst vel, nautastúfur (stew) í ofni í 3 klst, heimatilbúið hrásalat, spínat í smjöri og hvítlauk og soðnar kartöflur. Sippað á rauðvíni með. Asskoti gott. Stuðst við nýja bók eftir Jamie Oliver, "Cook with". Svo stóð nú til að baka eina gulrótarköku uppúr bókinni en vantaði appelsínu. Því var hlaupið út í búð, í gegnum skóginn, þennan 30 m. breiða og 400 m. langa, en þar var allt blautt og forarsvað. En viti menn. Af því að nú er haust þá er svo mikið af laufum á jörðinni að maður flýtur á drullunni. Fyrir mig jarðvegsverndarmanninn var þetta stórkostleg upplifun. En skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir appelsínuna þá misheppnaðist kakan. Af hverju, alltof mikið smjör í uppskriftinni. Get því ekki mælt með þessari uppskrift að gulrótarköku en, kremið er snilld. Súraldinmascarponerjómaostkrem. Mjög milt, ferskt og fitandi.
Annars rignir orðið hér alla daga, væri kolófært ef þetta væri snjór.
9.11.2006 | 19:30
Graskersbakan orðin að raunveruleika
Það ætlunarverk mitt að baka graskersböku tókst í dag. Ekkert mál. Bragðið afar jólalegt, kanill og negull. Minnir mig á Las Vegas fyrir sex árum síðan en þá héldum við heittelskuð upp á jólin á Stratosphere hótelinu í Vegas á 10 daga ferðalagi okkar um vesturhluta BNA. Borðuðum m.a.s. jólamatinn uppi í turninum.
En semsagt ef þig lesandi góður langar til að búa til graskersböku þá er ferlið útskýrt nokkuð vel á þessari síðu. Og ekkert mál að nota smjör og venjulega mjólk.
2.11.2006 | 17:03
Lífræn súpa og eplið
Eldaði hreint ágæta súpu í hádeginu. Allífrænt vottað hráefni, laukur, karrí, "butternut squash" og epli. Öllu sullað í pott og velt vel uppúr smjöri, síðan smá hveiti samanvið og þá kjúklingasoð. Soðið í hálftíma, maukað í mixer og svo hitað aftur en ekki soðið + örlítill rjómi. Þetta er hreint ljúffengt og kraftmikið.
Nú er tími squash og pumpkin, allskyns útgáfur á boðstólnum.
Næst er að baka graskersböku "from scratch". Graskerið komið í hús.
Ég á enn eftir að segja frá eplinu sem tengdamamma kom með hingað frá Íslandi fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Eplið mun vera frá Chile og einhverra hluta vegna var það aldrei étið. Nú er það orðið að lauslegri athugun á mögulegum geymslutíma þessa annars holla og góða ávaxtar. Það sér nefnilega afar lítið á þessu tiltekna epli eftir þennan tíma þó svo það hafi verið geymt við stofuhita. En epli er sá ávöxtur sem best hefur tekist að tryggja stöðugt framboð á allar árstíðir, allsstaðar í heiminum með stöðugri þróun í geymsluaðferðum. Epli geta því verið æði gömul þegar þau eru loksins étin. En það munu koma frekari fréttir síðar af þessu merkilega epli frá Suður Ameríku.
En að veðrinu, það er stillt og bjart eins og meginlandsvetur og ekki meira um það að segja. Útlit fyrir það sama næstu daga.
Matur og drykkur | Breytt 3.11.2006 kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2006 | 12:50
Bisness as usual?
Íslendingar eru merkileg þjóð. Nýleg ákvörðun um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni hefði víðast hvar í heiminum vakið harkaleg viðbrögð borgaranna og löndun á langreyði hefði verið vettvangur mótmæla einhvers hóps þeirra sem telja um siðleysu að ræða. Þess í stað blogga Íslendingar um hið efnahagslega, líffræðilega og siðferðislega hneyksli sem þeim finnst hvalveiðarnar vera og láta þar við sitja. Útlendingar eru látnir um hin róttæku mótmæli. Fréttirnar hér ytra gefa í skyn að þjóðin sé klofin í herðar niður í viðhorfum gagnvart hvalveiðum. Hvar kemur það fram? Á blogginu. Viðtöl við ráma og skræka talsmenn hvalveiða og umhverfisverndar gefa þá mynd að ekkert hafi breyst á 20 árum.
Mín skoðun er sú að það sé í lagi að veiða hvali sé það metið sem arðvænleg atvinnugrein, m.t.t. allra þátta, og séu hvalir drepnir á kvalalausan/lítinn hátt. Hún er hins vegar illa samræmanleg við ferðamannaiðnaðinn eins og hann er, nema hvalskoðunarfyrirtæki einbeiti sér að Asíu, sýni Japönum hvaðan maturinn kemur, gefi þeim síðan hrátt hvalkjöt um borð og aftur þegar þeir koma í land.
Hvað er siðlausara við að veiða hval með sprengiskutli en lax með öngli? Ég bara spyr. Báðar aðferðir bjóða upp á kvalir. Báðar tegundir eru viðkvæmar vistfræðilega. Hvað með rjúpnaveiði? Rjúpur geta sloppið særðar og kvaldar. En hvað erum við að borða svona almennt? Dýr sem líður almennt vel? Nei.
Það er svolítið gaman að lesa umfjöllun um Íslendinga í tengslum við hvalveiðar á ýmsum netmiðlum. Víða eru þær settar í samhengi við sjálfstæði þjóðarinnar og útþenslu landhelgi. Og auðvitað má rekja þessa umdeildu hvalveiðiákvörðun til þjóðerniskenndar að nokkru leyti. Við erum lítil en stolt þjóð sem tekur ákvarðanir byggðar á eigin forsendum. En í öðru leggjumst við síðan í duftið og fylgjum í fótspor þeirra sem eiga peningana og hafa valdið. Skrýtið!
Hvalur 9 kominn að landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Bjössablogg
Tenglar
Mínir nánustu
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar