Eplið, eftir tvo mánuði á eldhúsborðinu

Eplið frá Chile
Nú birti ég myndir af eplinu frá Chile, sem kom hingað með viðkomu á Íslandi og hefur staðið á eldhúsborðinu hjá okkur í rétta tvo mánuði. Hér stendur það við hliðina á lífrænt ræktuðu ensku epli, sem kom hingað í gær. Chileeplið er vinstra megin. Munurinn er aðallega litur, svolítill í stærð. Ef grannt er skoðað eru komin dálítil ellimerki á húð Chileeplisins, hrukkur og lítið eitt um álagsmerki.  Annars lítur það ekki mikið verr út en gerist og gengur með epli sem manni stendur til boða að kaupa heima. Þá er bara spurningin hvað ekki sést, hvernig lítur eplið út að innan og hvert er orðið næringargildi þess, t.d. miðað við hitt eplið? Epli og annar jarðargróði missa hratt næringargildi sitt við stofuhita. En þetta er að verða spennandi. Ekki svo að skilja að epli frá Chile séu lakari en önnur. Nei, epli geymast bara svo fjandi lengi að það er erfitt að sjá hversu gömul þau eru.

Lego og hvað maður á að borða á veturna

Við lékum okkur með legókubba á verkefnisstjórnunarnámskeiðinu í gær. Það opinberaði hina ýmsu veikleika í hópnum, skortur á leiðtogahæfileikum, áætlanagerðin í molum, of lág ávöxtunarkrafa (ég reyndi að halda henni uppi) o.fl. þannig að við misstum af samningnum. Óskiljanlegt? Skiljanlega en málið snerist einfaldlega um að byggja Eiffelturn úr legókubbum eftir ferli verkefnisstjórnunar, leggja fram tilboð í verkið og vinna það á áætluðum tíma. Við klúðruðum því. En þetta var fróðlegt. Erfitt að hugsa á svona litlum skala, legókubbar.

En m.t.t. hugsjónarinnar um að borða mat með fáar matarmílur sð baki (eat locally) þá er ögrun að búa til vetrarmatseðil fyrir norðlægar slóðir. Hvernig geta t.d. Íslendingar nýtt íslenska ferskvöru sem fellur til á sumrin og haustin og geymt fram á vetur til neyslu? Við þekkjum auðvitað súrmat en það á að mestu við kjötvöru ýmisskonar, sviðasultu, hrútspunga og hvalspik. Íslendingar eru orðnir vanir því að fá s.k. ferskvöru allan ársins hring, innfluttir ávextir og grænmeti. Sú vara hefur hins vegar einkum tvo ókosti: Hún hefur undantekningalítið lagt gríðarlega margar matarmílur að baki, t.d. epli frá Chile eða Kína og hún er sjaldnast mjög fersk í þeim skilningi að það hefur liðið talsverður tími, vikur eða mánuðir síðan hún skilin frá rótum, tínd af tré eða akri. Við þetta hefur varan tapað miklu af sínu næringargildi. Að þessu sögðu þá er það verðugt verkefni fyrir íslenska matreiðslumenn og heimilistækna (húsfeður og húsmæður) að þróa og breiða út aðferðir til að sulta, pikkla, frysta og sjóða niður grænmeti og ávexti á sumrin og haustin. Kynna aðferðir til að geyma mat þannig að hann haldi sem mestu af næringargildi sínu. Með þessu erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum í þágu minni losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. í þágu náttúrunnar þ.m.t. okkar sjálfra, við erum að auka þrýsting á stórmarkaðina á Íslandi að bæta ferskleika þeirrar vöru sem er á boðstólnum, við erum að stuðla að aukinni ræktun á grænmeti á Íslandi, ýmist með því að rækta það sjálf eða kaupa það af öðrum (í nágrenninu) og fáum vonandi þokkalega ætan og fjölbreyttan mat yfir vetrartímann. Þetta þýðir reyndar að búrin, sem voru í hverju húsi hér í gamla daga, verða að koma aftur inn á teikningar fyrir íslenskar íbúðir, því þetta snýst jú dálítið um að geyma. Svo má stofna geymslufélög eða samlög, þar sem heimilistæknar taka sig saman og vinna vöruna saman og geyma í sameiginlegu húsnæði. Og svo má lengi telja........


Magnusson closes in on Hammers

Fyrirsögnin er af vef BBC eins og margt annað gott. En umræðan á síðunni er fyndin. Sumir eru áhyggjufullir, aðrir kærulausari. Nokkur dæmi:

The one concern I'd have with this deal is the size of Eggerts forehead.

Did Eggert make his fortune in non-stick frying pans?

However with the Icelandic consortium i feel they will start influencing the team and bring in all the icelandic footballers, like we really want that to begin to happen!... I mean its always the case you bring in one nationality of people then you can quite quickly expect the likes of Baldvinsson, Gunnarsson leading the attack for WHU - instead of Tevez , Ashton, Possibly Carlos Alberta!! (Shame Gudjohnsen is at Barca as he's the only real quality player for iceland! - and if you dont agree then look what happened with Stoke City previously!)...

En þetta er afar spennandi en vandmeðfarið. Hammers er mikið grasrótarfélag og með stærri stuðningsmannahóp í London en t.d. Arsenal og Tottenham. Stuðningsmennirnir eru trúir sínu félagi og því verða þeir Eggert og Björgólfur að vanda sig. Vanda sig í nærveru margra sála.


Technical error og forsjárnefndatilhneiging

Ég hef í mörg ár verið þeirrar skoðunar að Spaugstofan eigi að vera hætt. Vissulega hafa þeir dottið niður á góða spretti en heilt yfir hefur verið þreyta í gríninu. Horfði á þáttinn frá síðasta laugardegi og verð að viðurkenna að þeim tókst bara vel upp. Árni Johnsen fékk sinn skammt og forsjárnefndatilhneigingin líka.

Að þessu tvennu: Það er sjálfsagt að menn fái annað tækifæri en að þeir séu lýðræðislega valdir til að setja lög og leikreglur fyrir alþjóð og höndla með almannafé eftir að hafa gerst sekir um að vera óhæfir til þess segir kannski meira um okkur sem þjóð en um viðkomandi einstakling.

Varðandi mannanafnanefnd, þá er hún gjörsamlega óþörf. Það er altént jafnþarft að hafa getnaðarvarnanefnd, sem ákveður hvaða foreldrar eru hæfir til að elska börnin sín nægilega. Eða mataræðisnefnd sem fer á milli heimila og skoðar matinn sem er á borðum og segir til um hvað megi borða og hvað ekki.


Stúfur, drulla og illa heppnuð gulrótarkaka

Sunnudags hádegismaturinn tókst vel, nautastúfur (stew) í ofni í 3 klst, heimatilbúið hrásalat, spínat í smjöri og hvítlauk og soðnar kartöflur. Sippað á rauðvíni með. Asskoti gott. Stuðst við nýja bók eftir Jamie Oliver, "Cook with". Svo stóð nú til að baka eina gulrótarköku uppúr bókinni en vantaði appelsínu. Því var hlaupið út í búð, í gegnum skóginn, þennan 30 m. breiða og 400 m. langa, en þar var allt blautt og forarsvað. En viti menn. Af því að nú er haust þá er svo mikið af laufum á jörðinni að maður flýtur á drullunni. Fyrir mig jarðvegsverndarmanninn var þetta stórkostleg upplifun. En skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir appelsínuna þá misheppnaðist kakan. Af hverju, alltof mikið smjör í uppskriftinni. Get því ekki mælt með þessari uppskrift að gulrótarköku en, kremið er snilld. Súraldinmascarponerjómaostkrem. Mjög milt, ferskt og fitandi. 

Annars rignir orðið hér alla daga, væri kolófært ef þetta væri snjór.  


Hverjir fá landbúnaðarstyrkina?

Það er allrar athygli verð þessi stutta frétt í Fréttablaðinu þar sem greint er frá því að þriðji ríkasti maður Finnlands hirði um 14 milljónir króna af opinberum styrkjum til landbúnaðar í Finnlandi á ári. Það segir einnig frá því að finnsku Bændasamtökin berjist gegn því að upplýsingar um þá sem þiggja landbúnaðarstyrki í Finnlandi verði birtar opinberlega. 

Veit einhver hverjir fá landbúnaðarstyrkina á Íslandi og hversu mikið hver fær? Gæti verið fróðleg lesning. Eru nokkuð bankastjórar og forstjórar þar á meðal? Það er nákvæmlega sama laumuspilið með ráðstöfun þessara peninga á Íslandi og í Finnlandi. Og ekki bara það, heldur er öll stefnumótun um það hvernig þessum miklu fjármunum skuli varið bundin pínulítinn hóp manna sem sitja í lokuðu herbergi og búa til stefnu næstu 5-10 ára. Lýðræði? Almannafé? Laumuspil? Hljómar kunnuglega.

Á heimasíðu velska byggða- og umhverfisráðuneytisins er listi yfir þá sem fá styrki til landbúnaðar í Wales og hversu mikið hver og einn fær. Þetta eru í rauninni stórmerkilegar upplýsingar, ekki síst þegar horft er til þess laumuspils sem er um þessi mál víða annarsstaðar.

Ég er hissa á að enginn blaðamaður nýti sér upplýsingalögin og óski eftir aðgangi að þessum upplýsingum, því þau varða almannahagsmuni, um er að ræða ráðstöfun á almannafé. En kannski einhver hafi gert það. Væri fróðlegt að sjá úrskurð Persónuverndar. 


Óábyggilegt

Það tekur því sennilega ekki að fara heim, landið vegur salt á barmi þess að verða óbyggilegt með öllu og bara tímaspursmál hvenær mannskapurinn flytur á eitthvert annað sker. Það má t.d. benda á að Orkneyjar lentu ofarlega á lista hér í Bretlandi yfir þá staði þar sem best er að búa, einkum m.t.t. menntunar og lágrar glæpatíðni, ef einhver hefur áhuga. Þar er fasteignaverð líka frekar lágt.

Hér í Wales er líka mikið af ódýrum húsum í dölunum, þar sem enginn vill búa lengur. En húsnæðið ku vera ásættanlegt í sumum tilvikum. Íslendingar gætu vafalítið gert námuvinnslu hagkvæma á nýjan leik, nú eða setið þar og höndlað með pappír, Íslendingar vilja víst lítið annað gera nú til dags. Ha! 


mbl.is Mjög hvasst á Norðurlandi og ófært um Breiðdalsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Graskersbakan orðin að raunveruleika

Það ætlunarverk mitt að baka graskersböku tókst í dag. Ekkert mál. Bragðið afar jólalegt, kanill og negull. Minnir mig á Las Vegas fyrir sex árum síðan en þá héldum við heittelskuð upp á jólin á Stratosphere hótelinu í Vegas á 10 daga ferðalagi okkar um vesturhluta BNA. Borðuðum m.a.s. jólamatinn uppi í turninum.

En semsagt ef þig lesandi góður langar til að búa til graskersböku þá er ferlið útskýrt nokkuð vel á þessari síðu. Og ekkert mál að nota smjör og venjulega mjólk. 


Þróunarverkefni á sviði jarðvegsverndar!

Þetta er talsvert merkilegt, segi ég sem hef starfað í þessum geira s.l. 10 ár. Þarna er eitt af sérsviðum Íslendinga og getur táknað útflutning á þekkingu og tækni. Þetta mun án efa líka verða til þess að efla þetta fagsvið innanlands. M.v. stöðu jarðvegsverndarmála í heiminum í dag er ljóst að verkefni á þessu sviði eru komin til að vera. 
mbl.is Íslendingar í þróunarverkefni á sviði jarðvegsbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífræn súpa og eplið

Eldaði hreint ágæta súpu í hádeginu. Allífrænt vottað hráefni, laukur, karrí, "butternut squash" Butternut squashog epli. Öllu sullað í pott og velt vel uppúr smjöri, síðan smá hveiti samanvið og þá kjúklingasoð. Soðið í hálftíma, maukað í mixer og svo hitað aftur en ekki soðið + örlítill rjómi. Þetta er hreint ljúffengt og kraftmikið. 

Nú er tími squash og pumpkin, allskyns útgáfur á boðstólnum.

Næst er að baka graskersböku "from scratch". Graskerið komið í hús.

Ég á enn eftir að segja frá eplinu sem tengdamamma kom með hingað frá Íslandi fyrir einum og hálfum mánuði síðan. Eplið mun vera frá Chile og einhverra hluta vegna var það aldrei étið. Nú er það orðið að lauslegri athugun á mögulegum geymslutíma þessa annars holla og góða ávaxtar. Það sér nefnilega afar lítið á þessu tiltekna epli eftir þennan tíma þó svo það hafi verið geymt við stofuhita. En epli er sá ávöxtur sem best hefur tekist að tryggja stöðugt framboð á allar árstíðir, allsstaðar í heiminum með stöðugri þróun í geymsluaðferðum. Epli geta því verið æði gömul þegar þau eru loksins étin. En það munu koma frekari fréttir síðar af þessu merkilega epli frá Suður Ameríku.

En að veðrinu, það er stillt og bjart eins og meginlandsvetur og ekki meira um það að segja. Útlit fyrir það sama næstu daga. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband