Bakfærslur og tjón

Verð að hrósa VISA Ísland fyrir bara ágæta þjónustu. Á kreditkortið mitt voru komnar 7 færslur upp á alls um 27 þús. kr. á 10 daga tímabili, sem ég nb kannaðist ekki við. Ég lét loka kortinu og eftir fjóra daga var búið að bakfæra allar þessar færslur. Það var nú meira en ég bjóst við. Þeir mættu hins vegar bjóða manni uppá að senda tölvupóst vegna yfirlits yfir færslur sem maður kannast ekki við, á heimasíðunni hjá sér. Það er ekki rétta öldin til að ætlast til að maður faxi svona skjöl. 

Annars er þungbúið hér í Cardiff þennan morguninn, þoka en hlýtt. Hins vegar spáir kólnandi og þeir segja veturinn á leiðinni. Kannski ég þurfi að setja á nagla.

Ég lenti í tjóni í morgun. Var nýbúinn að kaupa mér lugt á hjólið og ætlaði að kveikja á henni í þokunni. Það tókst hins vegar ekki betur til en svo að hún datt af og áður en ég náði til hennar þá keyrðu yfir hana um 10 bílar. Þetta var talsvert tjón því um góða lugt var að ræða, sem jafnframt mátti nota sem vasaljós. Þetta mun kosta einhver fjárútlát því ljós á hjóli er sjálfsagður öryggisbúnaður á þessum árstíma. 


Loksins fótbolti

137108-144

Við Valdi skelltum okkur loksins á leik með Cardiff Bluebirds (CCFC). Heimavöllurinn er Ninian Park, gamall og lúinn völlur sem tekur um 20 þús. manns. Við fengum ágæt sæti innan um aðra góðborgara Cardiff. Leikurinn var hin besta skemmtun en Bláfuglarnir misstu annars góðan leik niður í jafntefli gegn frekar slöku liði Derby. 

Bláfuglarnir eru efstir í deildinni og gætu náð sæti í úrvalsdeild að ári ef þeir halda svona áfram. Spurning um úthald. En þá er líka ljóst að þeir þurfa nýjan völl. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir nýjum velli um jólin 2008. Allar forsendur eru fyrir því að CCFC eigi heima í deild þeirra bestu. 


Fyrirbyggjandi þróun?

Þetta er áhugaverð þróun á þessu annars aríska skeri. Mikil umræða er um blandaða skóla hér í Bretlandi um þessar mundir og nú síðast var lagt til að s.k. "faith schools" þar sem eingöngu eru börn  af tilteknum trúarhópum, þurfi að leyfa aðgang annarra trúarhópa. Ástæðan, fyrirbyggjandi aðgerðir til að minnka fordóma á milli trúarhópa. Það voru viðtöl við foreldra og kennara og afar mismunandi viðbrögð. Þeir sem áttu börn í trúarskólunum virtust lítinn áhuga hafa á blöndun. En hvað er betur til þess fallið að ala á fordómum en skólar þar sem kennt er í anda einna tiltekinna trúarbragða.

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé betur til þess fallið til að stuðla að minni fordómum en skólakerfi þar sem börn af mismunandi litarhætti og af mismunandi trú blandast saman og umgangist hvert annað frá degi til dags. Hef skrifað um þetta áður. Þau eru jú ekki fædd með þessa fordóma en fá þá frá sínu nánasta umhverfi, frá t.d. foreldrum. Þetta gerir þó gríðarlegar kröfur á skólakerfið og kennara. Það þarf að virða sjónarmið mismunandi hópa en þó ekki láta það stjórna skólastarfinu, sem er víst nokkuð mjó lína. 

Auðvitað má búast við einhverjum byrjunarörðugleikum þar sem þróunin er svona hröð eins og í Fellaskóla en yngstu börnin eru að öllu jöfnu fordómalaus. 

Til að gera þetta enn betra ætti að nota skólabúninga.  


mbl.is Nærri 40% barna í sumum skólum af erlendum ættum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreditkortasvindl

Nú get ég ekki lengur notað flotta kreditkortið mitt frá Glitni. Einhver snillingur var byrjaður að nota það til að kaupa sér síma og áfyllingu á hann, fara í bíó o.s.frv. Mér fannst þetta ekki góð tilfinning, að vita af fjárhagslegu sjálfstæði mínu í höndum bláókunnugs manns. Sé þó ekki fram á gjaldþrot þar sem um hóflegar og eiginlega heimskulega hóflegar fjárhæðir er að ræða. 

En þetta er áminning, þessi greiðslumáti er ótryggur og þó ég hafi notað þetta kort lítið þá virðist það hafa dugað til að einhversstaðar á leiðinni hafi einhver náð upplýsingum af kortinu. Svo, varúð! 


Bisness as usual?

Íslendingar eru merkileg þjóð. Nýleg ákvörðun um að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni hefði víðast hvar í heiminum vakið harkaleg viðbrögð borgaranna og löndun á langreyði hefði verið vettvangur mótmæla einhvers hóps þeirra sem telja um siðleysu að ræða. Þess í stað blogga Íslendingar um hið efnahagslega, líffræðilega og siðferðislega hneyksli sem þeim finnst hvalveiðarnar vera og láta þar við sitja. Útlendingar eru látnir um hin róttæku mótmæli. Fréttirnar hér ytra gefa í skyn að þjóðin sé klofin í herðar niður í viðhorfum gagnvart hvalveiðum. Hvar kemur það fram? Á blogginu. Viðtöl við ráma og skræka talsmenn hvalveiða og umhverfisverndar gefa þá mynd að ekkert hafi breyst á 20 árum. 

Mín skoðun er sú að það sé í lagi að veiða hvali sé það metið sem arðvænleg atvinnugrein, m.t.t. allra þátta, og séu hvalir drepnir á kvalalausan/lítinn hátt. Hún er hins vegar illa samræmanleg við ferðamannaiðnaðinn eins og hann er, nema hvalskoðunarfyrirtæki einbeiti sér að Asíu, sýni Japönum hvaðan maturinn kemur, gefi þeim síðan hrátt hvalkjöt um borð og aftur þegar þeir koma í land.

Hvað er siðlausara við að veiða hval með sprengiskutli en lax með öngli? Ég bara spyr. Báðar aðferðir bjóða upp á kvalir. Báðar tegundir eru viðkvæmar vistfræðilega. Hvað með rjúpnaveiði? Rjúpur geta sloppið særðar og kvaldar. En hvað erum við að borða svona almennt? Dýr sem líður almennt vel? Nei.

Það er svolítið gaman að lesa umfjöllun um Íslendinga í tengslum við hvalveiðar á ýmsum netmiðlum. Víða eru þær settar í samhengi við sjálfstæði þjóðarinnar og útþenslu landhelgi. Og auðvitað má rekja þessa umdeildu hvalveiðiákvörðun til þjóðerniskenndar að nokkru leyti. Við erum lítil en stolt þjóð sem tekur ákvarðanir byggðar á eigin forsendum. En í öðru leggjumst við síðan í duftið og fylgjum í fótspor þeirra sem eiga peningana og hafa valdið. Skrýtið!


mbl.is Hvalur 9 kominn að landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvalur, hvalur

Stórfrétt!

Athyglisvert að lesa álit lesenda á BBC vefnum. Virðist talsvert mismunandi eftir uppruna höfunar. Margir kanarnir eru hlynntir nýtingu hvala en Evrópubúar síður. Allskyns frasar notaðir t.d.:

"This gets Iceland definitely off my "travel to" list."

 "Just because it does not fit into someone's cultural dietery norms, we can not dictate the ethics of eating whales. This sounds like one of those typical Euro-hypocracy subject."

"And Iceland, nice sagas you once protected for us. Don't stain your reputation now."

Bretar hafa verið ansi harðir gegn hvalveiðum og miklar yfirlýsingar frá stjórnmálamönnum hér í landi á síðustu árum. Afstaða stjórnmálamanna virðist hins vegar mjög lituð af almenningsáliti eða áliti þrýstihópa.

En þetta er kannski tvískipt, annars vegar er það hvort óhætt sé að stunda hvalveiðar m.t.t. stofnstærðar þeirra og hraða endurnýjunar, þ.e. hin vistfræðilega spurning. Hins vegar hvort hvalir séu drepnir með siðfræðilega réttlætanlegum aðferðum. Ég held að síðari punkturinn standi í ansi mörgum.  

Ég er alinn upp við að éta hvalkjöt. Man fyrst eftir að hafa borða súrsað hvalspik þegar ég var 3ja eða 4ra ára og átti heima í blokk í Ljósheimunum. Fannst það ofsalega gott. Át það síðan reglulega fram að hvalveiðibanni og var minn uppáhalds þorramatur. Hrefnukjöt át ég reglulega alla mína grunnskólagöngu í mötuneyti Laugarbakkaskóla. Hrefnukjöt í brúnni sósu með kartöflum og jarðaberjasultu. Svoleiðis var nú maturinn í þá daga.


mbl.is "Íslendingar hafa engan markað fyrir hvalkjöt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sifræði lífrænnar ræktunar undir álagi, jafnvel banvænu

Stonyfield Jógúrt

Þegar neytendur velja lífrænt vottaða vöru þá er á bak við það einhver sýn á heilbrigði, einhver siðfræði um velferð umhverfis, manna og dýra. Ímyndin er fjölskyldubú, karl oft skeggjaður og gengur um á klossum og konan kastar korni í hænurnar, bæði moldug um hendur eftir að reyta illgresi úr beðum. Þau nota ekki tilbúinn áburð á akrana eða túnin, ekki illgresiseyða eða skordýraeitur. Álag á skepnur er lítið og þær fá að ráfa um landið en eru ekki lokaðar inni í þröngu rými, þær fá að fylgja sínu eðli. Vegna þessa eru húsdýr almennt heilsuhraustari í lífrænum landbúnaði en þar sem stundaður er verksmiðjubúskapur. Afurðirnar eru síðan seldar í nágrenninu.

Það fer því kvíðahrollur um margan hugsjónamanninn þegar vinsældir lífrænt vottaðrar vöru faraga_organicricekrispies vaxandi og hinir stóru byrja að hasla sér völl í lífrænni framleiðslu. Hinir stóru í þessu tilviki eru fyrirtæki eins og Wal Mart, General Mills og Kellogg, sem eru engin smáfyrirbæri.

Í BuisnessWeek er tekið dæmi um framleiðandann Stonyfield, sem lengi hefur framleitt lífrænt vottaða vöru. Nú er Stonyfield bóndabærinn horfinn en eftir stendur verksmiðja sem framleiðir lífrænt vottaðar afurðir úr mjólk annarra bænda, aðallega vel þekkta jógúrt, og er nú að mestu í eigu Danone, franska jógúrtrisans. Eftirspurnin er orðin svo mikil að nú stendur til að flytja undanrennuduft yfir hálfan hnöttinn, frá Nýja Sjálandi, til að framleiða jógúrt, lífrænt vottaða. Þetta er klemman sem þessi grein er komin í. Hvernig gengur að samræma hina hugljúfu en krefjandi framleiðsluhætti og arðsemiskröfuna á Wall Street? Mark Morford lýsir ágætlega sjokkinu þegar hann sá fyrst auglýsingu um "organic" Rice Krispies.

Vegna hinnar miklu eftirspurnar er leitað lengra eftir hráefni, til Brasilíu, Kína og Sierra Leone, þar sem illa gengur að hafa eftirlit með framleiðsluháttum. Stóru fyrirtækin setja á fót eigin framleiðslu og reyna að teygja vottunarstaðla til hins ítrasta og helst lengra. Og um leið og þau eru komin með fótinn inn fyrir þröskuldinn þá er strax orðið mun erfiðara að herða reglurnar en meiri þrýstingur á að slaka á kröfunum. Það heitir lobbyismi og er stundaður í Washington DC.

Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar maður skoðar krukkur og fernur uppí hillu og á þær er ritað "organic". 

 


BNA ruslahaugurinn og heilsufar í UK

Skömm feitrar þjóðar

Las athyglisverða grein úr LA Times þar sem kemur fram að nú eru fluttar ýmsar vörur til BNA sem ekki eru lengur leyfðar á svæðum eins og ESB, Japan og jafnvel í Kína, vegna heilsuspillandi eða umhverfisspillandi efna. Tekið dæmi um krossvið sem fluttur er til BNA frá Kína sem inniheldur formaldehýð, langt yfir viðmiðunarmörkum innan ESB, Japan og Kína. Svona er nú neytendaverndin í Bandaríkjunum. Hélt það væri nú nógu slæmt samt.

Það eru ekki góðar heilsufarsfréttir héðan frá UK. Hér mun offeiti vera mest í Evrópu og það sem verra er, hér í Wales mun vera þriðja mesta offeiti í ríkjum heims, á eftir Bandaríkjunum auðvitað og Möltu. Obb, obb, obb. Þetta kemur svosem ekki á óvart en ljótt að sjá. Sáum þátt á BBC um daginn sem fjallaði um heilsufarið í dölunum hér í suðaustur hluta landsins. Flestir á "welfare" og éta skyndibitamat. Atvinnuleysi og heilsuleysi. Jafnvel heimsending á "fish and chips". Alltaf skal það vera "chips". Og blessuð börnin, hvers eiga þau að gjalda. Þetta er sorglegt því hér á maður völ á fjölbreyttum mat og hráefni í mat. Annað en á Íslandi þar sem innflutt ferskvara er orðin nokkurra mánaða þegar hún er loksins dregin upp á skerið. Við Íslendingar erum á einhverju miðjuróli í fitunni innan Evrópu. Það hlýtur að teljast viðunandi en leiðinlegt þó að eiga ekki met í þessu. Við brennum svo miklu í kuldanum, held það sé svarið, því við neytum víst æði mikils kóla og feiti. 

Ef einhver hefur beðið spenntur eftir veðurfréttum héðan þá skal hann uppfræddur um það að ekki kom dropi úr lofti í dag þrátt fyrir eindregna spá. Ég hjólaði á stuttermabol í morgun og uppúr hádegi og ekki var nú kuldanum fyrir að fara. Blessað loftslag hérna. 


Rafmagnslaust

Það stefndi allt í hefðbundið kvöld hér í gær en þá slokknaði á öllum ljósum, nema á skjá fartölvunnar. Rafmagnslaust! Ljósgeislar sáust skjótast um hús nágrannanna, vasaljósin á lofti, sígarettuglóð og kertaljós. Auðvitað kom rafmagnið fljótlega á aftur en þetta var dálítið sjarmerandi, minnti mig á sveitina þegar varð rafmangslaust reglulega og mitt helsta áhugamál var að brenna blýanta í kertaloganum. Var alltaf með sótuga blýanta í pennaveskinu. 

Það er hins vegar gott fyrir okkur nútímamenn á auðugum vesturlöndum að venjast rafmangsleysinu. Orkukreppan alltaf að skella á, bæði vegna takmarkaðrar þekkingar á að nýta orku og einnig vegna hýnandi loftslags. Hlýnun getur líka kallað á mikla orkunotkun, orku til að kæla, a.m.k. í okkar orkuháða heimi.

En við hjónakorn hjúfruðum okkur saman þrátt fyrir rafmagnið og horfðum á Phillip Seymour Hoffman leika Truman Capote í nánast samnefndri mynd, einn af mínum uppáhaldsleikurum.

En varðandi veðrið, sem mér finnst svo gaman að blogga um, þá er sól og allt blautt. Spáir haugarigningu en ómögulegt að vita hvort eða hvenær hún kemur, sífellt verið að aflýsa rigningu hér, eins og áður hefur komið fram. En ég kann þessu vel, óvissa eykur aðlögunarhæfni. Íslendingar þekkja það þjóða best. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband