Færsluflokkur: Bloggar

Er allt í lagi með þig?

Ég held ég hafi ekki skrifað um það áður hérna á blogginu en þetta er ein algengasta kveðjan sem maður fær hér í Wales, "er allt í lagi með þig" (Are you allright)? Þetta var svolítið skrítið fyrst, eins og maður liti ekki vel út eða virtist vera eitthvað óhress. Best að líta í spegil. En svo endurtók þetta sig, aftur og aftur og nú hef ég vanið mig á að segja þetta sjálfur, jafnvel þótt fólk sé hraustlegt og vel til haft. Þetta er ágætis tilbreyting á kveðjunni "hvernig hefurðu það" (how are you)? sem er gölluð kveðja að því leyti að sá sem spyr vill yfirleitt ekki fá svar við spurningunni, a.m.k. ekki ítarlegt. Hin kveðjan er betri að því leyti að henni er hægt að svara með jái eða neii. Frekari útskýringar eru óþarfar. 

Svo er mikið notað "hæja" (hiya) sem óformleg kveðja, ekki síst hjá yngra fólki, svipað og "hæ". Í staðinn fyrir bless heyrist svo "cheers" eða "tata". Bæ, bæ er lítið notað. 

Svona er nú heimurinn fjölbreyttur og skemmtilegur. 


Þvílík uppgötvun

Þetta hefur vegfarendum um þennan veg verið ljóst ansi lengi en það er vonandi að hinn magnaði samgönguráðherra og hans lið taki þetta alvarlegar en hinn gríðarlega fjölda umferðarslysa sem verður á þessum hryllilega vegi. Þau virðast ekki hafa haft mikil áhrif á forgangsröðunina hingað til. 
mbl.is Telur að skilja verði að umferð úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grasekkill!

Nú er konan farin, tók bara leigubíl kl. hálfsjö í morgun og bless. Ekki svo að skilja að hún sé alfarin, nei bara að skreppa heim í brúðkaup, kemur aftur á sunnudagskvöld. Tók með sér slatta af farangri sem annars hefði orðið yfirvigt við alvöru heimför þann 22. des. 

Við stelpurnar verðum því ein heima yfir helgina og finnum okkur eitthvað til dundurs. Svona hæfileg fjarvera maka styrkir bara sambandið. Gott að þurfa að vera einn því þá finnur maður að maður er ekki nema hálfur.


Lego og hvað maður á að borða á veturna

Við lékum okkur með legókubba á verkefnisstjórnunarnámskeiðinu í gær. Það opinberaði hina ýmsu veikleika í hópnum, skortur á leiðtogahæfileikum, áætlanagerðin í molum, of lág ávöxtunarkrafa (ég reyndi að halda henni uppi) o.fl. þannig að við misstum af samningnum. Óskiljanlegt? Skiljanlega en málið snerist einfaldlega um að byggja Eiffelturn úr legókubbum eftir ferli verkefnisstjórnunar, leggja fram tilboð í verkið og vinna það á áætluðum tíma. Við klúðruðum því. En þetta var fróðlegt. Erfitt að hugsa á svona litlum skala, legókubbar.

En m.t.t. hugsjónarinnar um að borða mat með fáar matarmílur sð baki (eat locally) þá er ögrun að búa til vetrarmatseðil fyrir norðlægar slóðir. Hvernig geta t.d. Íslendingar nýtt íslenska ferskvöru sem fellur til á sumrin og haustin og geymt fram á vetur til neyslu? Við þekkjum auðvitað súrmat en það á að mestu við kjötvöru ýmisskonar, sviðasultu, hrútspunga og hvalspik. Íslendingar eru orðnir vanir því að fá s.k. ferskvöru allan ársins hring, innfluttir ávextir og grænmeti. Sú vara hefur hins vegar einkum tvo ókosti: Hún hefur undantekningalítið lagt gríðarlega margar matarmílur að baki, t.d. epli frá Chile eða Kína og hún er sjaldnast mjög fersk í þeim skilningi að það hefur liðið talsverður tími, vikur eða mánuðir síðan hún skilin frá rótum, tínd af tré eða akri. Við þetta hefur varan tapað miklu af sínu næringargildi. Að þessu sögðu þá er það verðugt verkefni fyrir íslenska matreiðslumenn og heimilistækna (húsfeður og húsmæður) að þróa og breiða út aðferðir til að sulta, pikkla, frysta og sjóða niður grænmeti og ávexti á sumrin og haustin. Kynna aðferðir til að geyma mat þannig að hann haldi sem mestu af næringargildi sínu. Með þessu erum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum í þágu minni losunar gróðurhúsalofttegunda, þ.e. í þágu náttúrunnar þ.m.t. okkar sjálfra, við erum að auka þrýsting á stórmarkaðina á Íslandi að bæta ferskleika þeirrar vöru sem er á boðstólnum, við erum að stuðla að aukinni ræktun á grænmeti á Íslandi, ýmist með því að rækta það sjálf eða kaupa það af öðrum (í nágrenninu) og fáum vonandi þokkalega ætan og fjölbreyttan mat yfir vetrartímann. Þetta þýðir reyndar að búrin, sem voru í hverju húsi hér í gamla daga, verða að koma aftur inn á teikningar fyrir íslenskar íbúðir, því þetta snýst jú dálítið um að geyma. Svo má stofna geymslufélög eða samlög, þar sem heimilistæknar taka sig saman og vinna vöruna saman og geyma í sameiginlegu húsnæði. Og svo má lengi telja........


Stúfur, drulla og illa heppnuð gulrótarkaka

Sunnudags hádegismaturinn tókst vel, nautastúfur (stew) í ofni í 3 klst, heimatilbúið hrásalat, spínat í smjöri og hvítlauk og soðnar kartöflur. Sippað á rauðvíni með. Asskoti gott. Stuðst við nýja bók eftir Jamie Oliver, "Cook with". Svo stóð nú til að baka eina gulrótarköku uppúr bókinni en vantaði appelsínu. Því var hlaupið út í búð, í gegnum skóginn, þennan 30 m. breiða og 400 m. langa, en þar var allt blautt og forarsvað. En viti menn. Af því að nú er haust þá er svo mikið af laufum á jörðinni að maður flýtur á drullunni. Fyrir mig jarðvegsverndarmanninn var þetta stórkostleg upplifun. En skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir appelsínuna þá misheppnaðist kakan. Af hverju, alltof mikið smjör í uppskriftinni. Get því ekki mælt með þessari uppskrift að gulrótarköku en, kremið er snilld. Súraldinmascarponerjómaostkrem. Mjög milt, ferskt og fitandi. 

Annars rignir orðið hér alla daga, væri kolófært ef þetta væri snjór.  


Hverjir fá landbúnaðarstyrkina?

Það er allrar athygli verð þessi stutta frétt í Fréttablaðinu þar sem greint er frá því að þriðji ríkasti maður Finnlands hirði um 14 milljónir króna af opinberum styrkjum til landbúnaðar í Finnlandi á ári. Það segir einnig frá því að finnsku Bændasamtökin berjist gegn því að upplýsingar um þá sem þiggja landbúnaðarstyrki í Finnlandi verði birtar opinberlega. 

Veit einhver hverjir fá landbúnaðarstyrkina á Íslandi og hversu mikið hver fær? Gæti verið fróðleg lesning. Eru nokkuð bankastjórar og forstjórar þar á meðal? Það er nákvæmlega sama laumuspilið með ráðstöfun þessara peninga á Íslandi og í Finnlandi. Og ekki bara það, heldur er öll stefnumótun um það hvernig þessum miklu fjármunum skuli varið bundin pínulítinn hóp manna sem sitja í lokuðu herbergi og búa til stefnu næstu 5-10 ára. Lýðræði? Almannafé? Laumuspil? Hljómar kunnuglega.

Á heimasíðu velska byggða- og umhverfisráðuneytisins er listi yfir þá sem fá styrki til landbúnaðar í Wales og hversu mikið hver og einn fær. Þetta eru í rauninni stórmerkilegar upplýsingar, ekki síst þegar horft er til þess laumuspils sem er um þessi mál víða annarsstaðar.

Ég er hissa á að enginn blaðamaður nýti sér upplýsingalögin og óski eftir aðgangi að þessum upplýsingum, því þau varða almannahagsmuni, um er að ræða ráðstöfun á almannafé. En kannski einhver hafi gert það. Væri fróðlegt að sjá úrskurð Persónuverndar. 


Óábyggilegt

Það tekur því sennilega ekki að fara heim, landið vegur salt á barmi þess að verða óbyggilegt með öllu og bara tímaspursmál hvenær mannskapurinn flytur á eitthvert annað sker. Það má t.d. benda á að Orkneyjar lentu ofarlega á lista hér í Bretlandi yfir þá staði þar sem best er að búa, einkum m.t.t. menntunar og lágrar glæpatíðni, ef einhver hefur áhuga. Þar er fasteignaverð líka frekar lágt.

Hér í Wales er líka mikið af ódýrum húsum í dölunum, þar sem enginn vill búa lengur. En húsnæðið ku vera ásættanlegt í sumum tilvikum. Íslendingar gætu vafalítið gert námuvinnslu hagkvæma á nýjan leik, nú eða setið þar og höndlað með pappír, Íslendingar vilja víst lítið annað gera nú til dags. Ha! 


mbl.is Mjög hvasst á Norðurlandi og ófært um Breiðdalsheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Graskersbakan orðin að raunveruleika

Það ætlunarverk mitt að baka graskersböku tókst í dag. Ekkert mál. Bragðið afar jólalegt, kanill og negull. Minnir mig á Las Vegas fyrir sex árum síðan en þá héldum við heittelskuð upp á jólin á Stratosphere hótelinu í Vegas á 10 daga ferðalagi okkar um vesturhluta BNA. Borðuðum m.a.s. jólamatinn uppi í turninum.

En semsagt ef þig lesandi góður langar til að búa til graskersböku þá er ferlið útskýrt nokkuð vel á þessari síðu. Og ekkert mál að nota smjör og venjulega mjólk. 


Bakfærslur og tjón

Verð að hrósa VISA Ísland fyrir bara ágæta þjónustu. Á kreditkortið mitt voru komnar 7 færslur upp á alls um 27 þús. kr. á 10 daga tímabili, sem ég nb kannaðist ekki við. Ég lét loka kortinu og eftir fjóra daga var búið að bakfæra allar þessar færslur. Það var nú meira en ég bjóst við. Þeir mættu hins vegar bjóða manni uppá að senda tölvupóst vegna yfirlits yfir færslur sem maður kannast ekki við, á heimasíðunni hjá sér. Það er ekki rétta öldin til að ætlast til að maður faxi svona skjöl. 

Annars er þungbúið hér í Cardiff þennan morguninn, þoka en hlýtt. Hins vegar spáir kólnandi og þeir segja veturinn á leiðinni. Kannski ég þurfi að setja á nagla.

Ég lenti í tjóni í morgun. Var nýbúinn að kaupa mér lugt á hjólið og ætlaði að kveikja á henni í þokunni. Það tókst hins vegar ekki betur til en svo að hún datt af og áður en ég náði til hennar þá keyrðu yfir hana um 10 bílar. Þetta var talsvert tjón því um góða lugt var að ræða, sem jafnframt mátti nota sem vasaljós. Þetta mun kosta einhver fjárútlát því ljós á hjóli er sjálfsagður öryggisbúnaður á þessum árstíma. 


Fyrirbyggjandi þróun?

Þetta er áhugaverð þróun á þessu annars aríska skeri. Mikil umræða er um blandaða skóla hér í Bretlandi um þessar mundir og nú síðast var lagt til að s.k. "faith schools" þar sem eingöngu eru börn  af tilteknum trúarhópum, þurfi að leyfa aðgang annarra trúarhópa. Ástæðan, fyrirbyggjandi aðgerðir til að minnka fordóma á milli trúarhópa. Það voru viðtöl við foreldra og kennara og afar mismunandi viðbrögð. Þeir sem áttu börn í trúarskólunum virtust lítinn áhuga hafa á blöndun. En hvað er betur til þess fallið að ala á fordómum en skólar þar sem kennt er í anda einna tiltekinna trúarbragða.

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé betur til þess fallið til að stuðla að minni fordómum en skólakerfi þar sem börn af mismunandi litarhætti og af mismunandi trú blandast saman og umgangist hvert annað frá degi til dags. Hef skrifað um þetta áður. Þau eru jú ekki fædd með þessa fordóma en fá þá frá sínu nánasta umhverfi, frá t.d. foreldrum. Þetta gerir þó gríðarlegar kröfur á skólakerfið og kennara. Það þarf að virða sjónarmið mismunandi hópa en þó ekki láta það stjórna skólastarfinu, sem er víst nokkuð mjó lína. 

Auðvitað má búast við einhverjum byrjunarörðugleikum þar sem þróunin er svona hröð eins og í Fellaskóla en yngstu börnin eru að öllu jöfnu fordómalaus. 

Til að gera þetta enn betra ætti að nota skólabúninga.  


mbl.is Nærri 40% barna í sumum skólum af erlendum ættum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 24251

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband