Færsluflokkur: Dægurmál

Strætó lífsstíll

ÉG keypti mér bláa kortið í gær, níu mánaða meðganga með Strætó. Þetta er djörf ákvörðun því ég hef nánast ekkert gott heyrt um Strætó á höfuðborgarsvæðinu síðustu árin, nema frá örvæntingarfullum borgarfulltrúum. Fyrsta ferðin var farin í gær, gagnleg að því leyti að ég gat skoðað hverfið Grafarholt, skiptistöðina Mjódd og fann stoppistöðina í Skógarseli þar sem ég get tekið þristinn. Tók síðan þristinn og sexuna í morgun, með slatta af labbi. Fyrst í Skógarsel, sem eru um 400 m, síðan yfir Miklubraut við Gerði, sem eru 200 m og loks Gagnveginn upp á Keldnaholt, sem er ca 1 km. Þetta er nú ágætist morgunlabb. Ferðin tók 35 mín í allt. Gæti verið verra. 

Næst tek ég hjólið með í strætó og hjóla heim, sem ætti að taka ca 30 mín.

Fyrir mig fylgir því einhver ró að ferðast með strætó. Andlega álagið sem fylgir því að ferðast í umferðinni lendir allt á bílstjóranum og ég get því mætt nokkuð vel á mig kominn andlega í vinnuna. Auðvitað tekur þetta sinn tíma en ég er tilbúinn að fórna honum fyrir pirringinn sem fylgir akstri einkabílsins. Það er einmitt sá pirringur sem er helsti ókostur þess að búa á höfuðborgarsvæðinu. En þar bý ég einmitt núna. 


Fæðu- og umhverfisblogg

Nú hefur bloggið hjá mér verið í dái í nánast allt sumar. Á þessum tíma hafa dunið á mér af póstlistum allskyns fréttir úr fæðu-, umhverfis- og heilbrigðisgeiranum, sem ég hef ekki haft döngun í mér til að koma á framfæri í þessari þröngmiðlun, sem bloggið er.

Hér er t.d. ein grein um fúkkalyf í grænmeti þar sem staðfest er að fúkkalyf sem gefin eru búpeningi berast með búfjáráburði á akra og þaðan í grænmetið sem þar er ræktað. Þetta á t.d. við um kál og kartöflur. Áhrifin á heilsu manna eru að mestu óþekkt en ofnæmisviðbrögð og ónæmi baktería eru meðal þess sem líklegt er að komi á daginn.

Svo er það blessað teflonið, sem er svo gott á pönnunni en vont í skrokkinn. Meira að segja EPA í Bandaríkjunum (Umhverfisstofnun) hefur mælst til þess að hætt verði að nota Perfluorooctanoic sýru (PFOA), sem er í teflonhúð, vegna líklegra krabbameinsvaldandi áhrifa efnisins. Auk þess er það ofnæmisvaldandi.

Svo eru það flutningurinn á matvælum. Ef við viljum horfa til allra þátta í umhverfinu, þá er ekki sjálfgefið að best sé að kaupa lífrænt ræktuð matvæli frekar en hefðbundin. Þetta á ekki síst við t.d. ávexti sem fluttir eru yfir hálfan hnöttinn, kiwi frá Nýja Sjálandi eða mangó frá Equador, með tilheyrandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta snýst um hinar s.k. matarmílur (food miles). Hvet alla sem velta þessu eitthvað fyrir sér að leita uppruna þeirrar vöru sem þeir hyggjast kaupa og velja þá frekar þá sem framleidd er nær okkur í rúmi, og reyndar helst í tíma.


Herskáir Húsvíkingar

Það er ekki að spyrja að sköruleika þeirra Húsgullsmanna enda miklar hamhleypur þar á ferð. Hér tel ég menn þó vera byrjaða að rífast um epli og appelsínur. Stöðvun jarðvegseyðingar og uppgræðsla er ekki það sama og skógrækt, a.m.k. ekki eins og þetta tvennt hefur verið stundað hér á landi. Ábendingar ríkisforstjóranna hjá Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun eiga fyllilega rétt á sér því það ber að taka tillit til ýmissa atriða við skipulag skógræktar, og reyndar uppgræðslu lands. Umhverfisáhrif þessara inngripa eru talsverð, jákvæð og neikvæð. Félagslegir þættir, smekkur, menning og ásýnd lands eru fullgild rök í slíkri umræðu. Það má hins vegar vel rökstyðja það að stöðvun eyðingar skóga, gróðurs og jarðvegs séu hvað áhrifamestu mótvægisaðgerðirnar gegn vaxandi styrk CO2 í andrúmslofti. Einnig má byggja upp verðmæt vistkerfi með uppgræðslu og skógrækt, sem vel passa við markmið samnings um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Það er kannski ekki alveg sama hvernig þau vistkerfi líta út. Endurheimt birkiskóga, votlendis og víðigrunda ættu að vera eitt af höfuðmarkmiðum slíks starfs hér á landi, og e.t.v. fleiri vistkerfa. 

Forstjórar Skipulagsstofnunar og Náttúrufræðistofnunar og forsvarsmenn Húsgulls gætu því vel orðið sammála á endanum, ef báðir fjölluðu um epli.  


mbl.is Húsgull gagnrýnir ummæli um landgræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða þröngsýni í nýjum ráðherra?

Fyrirsögnin er kannski ekki alveg í lagi miðað við tilvitnanir. Það er ekki endilega það sama að byggja upp veg í þriggja metra hæð og malbika hann. Enda er malbikun eða slitlag komin á talsverðan hluta. En hvað er líka að því að sníða góðan veg að landslagi á Kili. Núverandi vegur er ekki þannig og þverar allt landslag, einkum tekið mið af því að fylgja gróðurlausum melum þar efra til að auðvelda vegarlagninguna sjálfa. Umræða um veg á þessu svæði er ansi hreint svart/hvít.
mbl.is Kjalvegur verði ekki malbikaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TOFI og GUFI

Hvað er TOFI? Á Íslensku mætti útleggja það eitthvað á þessa leið: þunnur utan, þykkur innan (ÞUÞI) eða grannur utan, feitur innan (GUFI). 

Það er semsagt málið núna að læknar telja að hin ósýnilega fita í líkamanum sem umlykur líffærin geti verið ekki síður hættuleg en sú sem sýnir sig á yfirborðinu eins og lesa má hér.  Þetta er mjög umhugsunarvert fyrir renglu eins og mig. Ef maður heldur sér grönnum fyrst og fremst með mataræðinu en hreyfir sig lítið þá eru miklar líkur á mikilli innri fitu. Því þarf að endurskilgreina hugtakið "feitur". Sá sem er feitur er sennilega feitur en sá sem er grannur getur líka verið feitur. 


Grænþvottur

Grænþvottur eða "Greenwash" er eitthvað sem á við að minna á um þessar mundir. Um er að ræða fyrirbrigði sem snýst um það þegar fyrirtæki, einstaklingur, hópur eða stofnun kynnir sig og ímynd sína sem umhverfisvæna eða græna en að baki liggur götótt stefna sem heldur ekki vatni sé grannt skoðað. Umræða um grænþvott er ekki ný af nálinni en á síðustu og bestu/verstu tímum er hún mikilvægari en nokkru sinni. Allskyns tónar af grænu eru kynntir til sögu, vinstri grænir, hægri grænir, grænir bílar, græn hús, græn orka o.s.frv. Þessi græni litur getur síðan þvegist af í fyrstu rigningarskúr. 

En hvernig kemst svona lagað upp, að græn stefna sé ekki græn? Kannski veit viðkomandi ekki betur og heldur grænleika sínum fram í góðri trú. Þekking og/eða tækni er kannski ekki komin lengra. Eða um er að ræða einlægan brotavilja, eða hvíta lygi.

Blaðamenn og frjáls félagasamtök eru þeir ásar sem eru helst líklegir til að koma upp um grænþvott. Blaðamenn með rannsóknum og frjáls félagasamtök með sérfræðinga innan sinna vébanda sem sjá í gegnum plottið. Neytendur þurfa síðan að hafa öryggi á oddinum því blekkingar snúa ekki eingöngu að verðlagningu, magntölum og útliti, heldur líka grænni ímyn. Stöðluð vottunarkerfi eru til þess gerð að koma í veg fyrir grænþvott en þau eru ekki til á öllum sviðum. Hér á landi er þörf á öflugu aðhaldi þegar fyrirtæki og reyndar stjórnmálaflokkar, hver af öðrum, kynna sig sem græn.


Breytt stjórnarráð

Það er í sjálfu sér ekki nýtt að fá óstaðfestar fregnir í óáreiðanlegum fréttamiðlum eins og visi.is og Fréttablaðinu. Það vakti hins vegar blendin viðbrögð hjá mínum vinnufélögum og reyndar fleirum að sjá þar svart á hvítu í síðustu viku að okkar málaflokkur yrði vistaður undir umhverfisráðuneytinu en ekki landbúnaðarráðuneytinu. Hjá mér voru viðbrögðin svosem ekki blendin. Ég hef lengi beðið eftir breytingum í þessum málaflokki öllum og þó það væri ekki nema breytinganna vegna þá væri gott að fá nýtt ráðuneyti, ný sjónarmið og nýtt fólk. Það má lengi ræða það hvort landgræðsla eigi heima undir umhverfisráðuneyti. Gróðurverndarstarf, gróðureftirlit, stöðvun landeyðingar, fræðslustarf og endurheimt vistkerfa má auðveldlega rökstyðja að eigi heima undir umhverfisráðuneytinu. Landgræðsla hefur lengi verið mjög landbúnaðarmiðuð, átt áherslur talsvert undir hagsmunaaðilum innan þess geira og lagabreytingar háðar þeim sjónarmiðum. Þess vegna m.a. eru núverandi lög frá 1965. Sjónarmið og aðstæður hafa hins vegar mikið breyst og full ástæða til að stokka upp málaflokkinn. Það eru ekki næg rök að stærstur hluti landsins sé í eigu bænda. Bændur vinna manna mest að uppgræðslu lands. Það er ekki bara af því að þeir eru góðir menn, heldur sjá þeir sér hagsmuni í því sem atvinnurekendur. Það þjónar síðan hinum heildrænu hagsmunum að þeir vinni að þessum málaflokki, landi, þjóð og sjálfum sér til hagsbóta. 

En ég mun ekki harma það ef málaflokkurinn landgræðsla fer undir umhverfisráðuneytið. Hrósa hins vegar ekki fyrr en ég sé það gerast. Fyrrverandi landbúnaðarráðherra skorti þrek og þor til að klára eins lítið mál og sameiningu landgræðslu og skógræktar. Núverandi ríkisstjórn þarf að þora og horfa fram hjá sérhagsmunum ef málið á að ná í gegn. 


Óhræddur formaður

Gaman að þessum viðbrögðum Haraldar. Oft hefði nú heyrst annað hljóð úr þessu horni hér á árum áður af minna tilefni. Hann er alls óhræddur, sókndjarfur og brattur. Það er ólíkt skemmtilegri nálgun.
mbl.is Forystumenn bænda funda fljótlega með nýjum landbúnaðarráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svarar ekki í landbúnaðarráðuneytinu

Það er ekki að sökum að spyrja, það svarar ekki lengur í símann í landbúnaðarráðuneytinu. Sennilega ætti maður að reyna að ná í sjávarútvegsráðuneytið.

 


mbl.is Landbúnaðarkerfið endurskoðað og frelsi aukið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurr á manninn

Hér ytra er svo þurrt að maður svitnar varla. Svitinn skilur aðeins eftir sig saltútfellingar á fötunum en hverfur jafnharðan. Þannig verða eftir hvítir blettir á fötum í stað rakra svitabletta. Þetta hefur það í förm með sér að maður gerir sér ekki eins grein fyrir vatnsþörfinni, vatnið bara gufar upp án þess maður verði var við það. Annars er ekki hægt að kvarta undan veðrinu, sól og hiti. Sennilega 30-35 gráður og sólin beint ofaní hvirfilinn. 

Dagskránni í dag var aflýst svo síðasti dagurinn hér verður frír. Ágætt en ég hefði svo sem alveg þegið að komast fyrr heim. Sakna konunnar minnar svo mikið.

Annars hefur þetta verið talsvert lærdómsríkt. Stundvísi hérlendra ekki upp á marga fiska og þeir eru með eindæmum langorðir. Stjórnkerfið enda talsvert flókið og margir sem þarf að hafa ánægða. Mikið var um hvítflibba hér í gærmorgun þegar ráðstefnan opnaði og mikið um bukt og beygingar.

En verkefni eins og það sem hér var verið að kynna er ekki einfalt í uppbyggingu.  Bæði er erfitt að ná í peninga til slíkra verkefna og krefst það mikillar kunnáttu og eftirfylgni. Er í raun orðið sér fræði. Hins vegar er að byggja upp verkefni sem virkar félagslega, bætir afkomu bændanna, bætir landið og er meðtekið í samfélaginu. Það virðist að mestu hafa tekist hér, sérstaklega er ég hrifinn af því hvernig þeir hafa tekið á félagslega þættinum, fléttað inn í að auka færni fólksins, lestrarkennsla, kennsla í meðferð búfjár, kennsla í að framleiða plöntur o.s.frv. Markmiðið að sjálfsögðu að auka færni og frumkvæði svo tækifærin verði fleiri. Hér er hins vegar gríðarleg fátækt en fólkið vingjarnlegra og glaðlegra en við er að búast við slíkar aðstæður.

Ég get ekki leynt því að maður hálf skammast sín sem Íslendingur fyrir að eiga land í tötrum en þvílíkan auð. Aðeins um það að ræða að setja peningana í farveg, aðeins pólitísk spurning.

Pólitík, hver var að tala um hana. Hvað ætli framsóknarmenn séu tilbúnir að ganga langt til að halda völdum? 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjössablogg

Eingöngu færslur þegar höfundi liggur eitthvað á hjarta og langar til að létta af sér þeirri byrði.

Höfundur

Björn Barkarson
Björn Barkarson
Vel kvæntur þriggja barna faðir í Kópavoginum.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_5793
  • Moska í Marrakech
  • Forvitnar ungar snótir
  • Öllum heilsað með handabandi
  • Fé á beit?

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 24346

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband